133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hæstv. forseta að rétt kann að vera að taka almennt upp samskiptareglur ráðuneyta og þingnefnda. Þetta mál er hins vegar sértækt og ber að skoða sem slíkt. Við bíðum enn svara frá þeim hæstv. ráðherrum sem bera ábyrgð á þessu máli.

Hæstv. forseti. Þegar við skildum við þetta mál í desembermánuði varð samkomulag um að hefja þingið degi fyrr en til hafði staðið, þ.e. í dag, 15. janúar, í stað þess að þing kæmi saman 16. janúar. Um annað var ekki samið. Við heyrðum hins vegar þann boðskap ríkisstjórnarinnar að hún hefði ásetning um að ljúka þessu máli sem fyrst. Við hlustuðum á þann ásetning, þann boðskap. Við sömdum ekki um neitt annað enda viljum við ekki að þetta frumvarp verði að landslögum.

Nú hafa þrír hlutir gerst sem eru ástæða fyrir stjórnarmeirihlutann til að endurskoða hug sinn til þessa máls. Í fyrsta lagi hefur komið fram að á árinu 2006 fóru fram bréfaskriftir milli Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar, bréfaskriftir sem Alþingi og sú nefnd sem fjallar um þetta tiltekna mál voru leynd. Hún fékk ekki þessi mikilvægu gögn inn á sitt borð. Það er grafalvarlegur hlutur.

Í bréfi 9. janúar frá ríkisstjórninni til ESA er vísað í bréf sem henni barst 24. nóvember og það er talað um að enn sé unnið að breytingum á lögunum. Gleymum því ekki að í desembermánuði, áður en þessi svör voru send, vildi ríkisstjórnin að málið yrði afgreitt héðan frá Alþingi sem landslög. (Forseti hringir.) Þetta er grafalvarlegur hlutur. Ef ég fæ orðið aftur mun ég koma að öðrum þáttum sem gætu orðið til þess að mínu mati að stjórnarmeirihlutinn endurskoðaði afstöðu sína til þessa máls.