133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:47]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er vissulega grafalvarlegt mál þegar menntamálanefnd fær ekki að vita um slík bréfaskipti fyrr en á síðustu metrunum í þessari löngu málsmeðferð. Það er alveg ljóst af bréfunum að bréfaskiptin hafa átt sér stað um langan tíma. Ég verð að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að svarið við bréfi sem við þingflokksformenn sendum fyrir helgi til hæstv. forseta olli mér miklum vonbrigðum og vekur upp ákveðnar spurningar því að í þingsköpum segir, með leyfi forseta, í 8. gr.:

„Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Forseti tekur við öllum erindum til Alþingis og annast um afgreiðslu þeirra mála er frá þinginu eiga að fara.“

Ég fæ ekki betur séð af þessari grein en að forseti hefði a.m.k. átt að sýna viðleitni til að sannfæra meiri hluta menntamálanefndar um það að frumvarpið um Ríkisútvarpið væri alls ekki tilbúið til að verða afgreitt út úr menntamálanefnd til 3. umr. Það hefði átt að gefa öllum þingmönnum sem sitja í menntamálanefnd meiri tíma til að kynna sér efni þessara bréfa. Við eyddum aðeins einum fundi í það þar sem fulltrúar frá ráðuneytunum komu og töluðu við okkur sem sitjum í nefndinni og þá vorum við ekki búin að kynna okkur efni bréfanna. Það var allt og sumt sem okkur var boðið upp á. Síðan var þetta frumvarp afgreitt út úr menntamálanefnd.

Mér finnst svona vinnubrögð ekki boðleg, herra forseti. Mér finnst þau alls ekki benda til þess að málsmeðferðin í frumvarpinu sé jafnvönduð og formaður menntamálanefndar lét í skína áðan. Málið hefur greinilega ekki verið nógu vel undirbúið. Frumvarpið er greinilega ekki orðið nógu þroskað til að geta orðið að lögum. Ég hygg að með því að gera þetta frumvarp að lögum séum við að gera alvarleg mistök.