133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[13:51]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni að afar óheppilegt var að þau gögn sem um ræðir skyldu ekki berast nefndinni jafnóðum. Við sem vinnum að málinu teljum okkur hafa öll gögn og það er okkar að leggja mat á hvort þau skipta máli eða ekki. (Gripið fram í: Spurðu ráðherra.) Ég ætla rétt að vona að ráðuneytin fari yfir verklag sitt og greiði úr þessu og ég fagna því orðum forseta þar að lútandi.

Hins vegar styð ég málsmeðferð hv. menntamálanefndar. Farið var yfir efnisatriði samskiptanna við ESA. Sú yfirferð var góð og ákveðið að taka málið út í kjölfarið og ræða það í dag samkvæmt samkomulagi sem gert var fyrir jól. Þessi uppákoma er óheppileg og óþörf og því miður til þess fallin að gera málið tortryggilegt sem er alger óþarfi.

Ég vil nota tækifærið og mótmæla orðum hv. stjórnarandstöðu um forkastanleg og ómálefnaleg vinnubrögð í hv. menntamálanefnd. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hefur lagt sig fram um að verða við öllum óskum nefndarmanna og séð til þess að öll vinna var afar vönduð í jólahléinu.