133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:00]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það var full ástæða fyrir hæstv. menntamálaráðherra að fara sérstaklega fögrum orðum um hv. þingmann Sigurð Kára Kristjánsson og störf hans sem formanns menntamálanefndar. Ástæðan var sú að ég hef ekki áður orðið vitni að annarri eins meðferð af hálfu hæstv. ráðherra á formanni í nefnd.

Það er algjörlega með ólíkindum að hæstv. ráðherra og starfsmenn hennar hafi leynt þessum gögnum fyrir formanni nefndarinnar. Ég er klár á því að hv. þingmaður sagði satt og rétt frá á fundum nefndarinnar þegar hann hafði farið og leitað til menntamálaráðuneytisins og spurt hvort einhverja frekari vitneskju væri að fá í ráðuneytinu um þennan þátt málsins og kom til baka með þau svör að svo væri ekki. Þetta var þegar nefndin var að leita eftir upplýsingum til þess að upplýsa þennan þátt málsins.

Það er því alveg ljóst að það voru að minnsta kosti einhverjir starfsmenn hæstv. ráðherra, ef það hefur ekki verið með leyfi hæstv. ráðherra, sem voru að fela gögn, ekki bara fyrir menntamálanefndinni allri, heldur fyrir formanni nefndarinnar. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að formaður nefndarinnar átti það ekki skilið því hann hefur lagt sig fram um að sinna þessu máli af kostgæfni.

Það var hins vegar nú á seinni stigum þegar hæstv. ráðherra hefur væntanlega farið að beita þrýstingi og þurft að fela einhverja hluti sem hv. þingmaður brást skyldu sinni sem formaður nefndarinnar. Fram að þeim tíma hafði hv. þingmaður lagt sig verulega fram.

Það er algjörlega með ólíkindum, virðulegi forseti, að það skuli ekki vera hægt að fá aðstoð frá virðulegum forseta þegar þannig er komið fram við þingnefnd eins og í þessu máli. Hér hefur framkvæmdarvaldið því miður enn einu sinni sýnt klærnar gagnvart löggjafarvaldinu.