133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:23]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég hefði kannski talið ástæðu til að beina orðum mínum sérstaklega til formanns menntamálanefndar, að hann ræddi hér um fundarstjórn forseta. Mér heyrðist hann ekki minnast á neitt sem varðaði fundarstjórn forseta í ræðu sinni. Látum vera.

Ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta. Ég hef tækifæri til þess á eftir, í þeirri umræðu sem væntanlega hefst hér þrátt fyrir áskoranir um frestun að taka á þeim efnisatriðum sem komu fram í umræðunni áðan. Þar komust vissulega ekki nógu margir að. En hvernig stendur á því að hæstv. menntamálaráðherra kom ekki, eftir þennan feril og þessa háttsemi og gerði ekki það sem ég hélt að hún mundi gera, að biðjast afsökunar? Hún ruddi úr sér hér hinu og þessu um þá þingmenn sem talað höfðu.

Ég ætla líka að benda á að hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, fann það eitt að formsmálum í þessu efni að einhverjir hefðu ekki talað nógu mikið um fundarstjórn forseta í umræðum um fundarstjórn forseta.

En það sem ég ætla að ræða um fundarstjórn forseta er atriði sem ekki hefur komið fram í umræðunni og varðar sannarlega meðferð málsins, þessa umræðu og fundarstjórn forseta. Á þeim fundi sem haldinn var með fulltrúum ráðuneytanna, þegar við höfðum haft takmarkaðan tíma til að kynna okkur gögnin, fengið þau í hólfin okkar kl. 17.30 kvöldið áður fyrirvaralaust en ég átti ekki kost á að sækja þau og sótti ekki fyrr en morguninn eftir um tíuleytið vegna ákveðinna ástæðna, upplýstu fulltrúar ráðuneytanna ekki aðeins að málið væri á lokastigi hjá ESA. En það höfðu þeir gert fyrir ári og við grunlaus um að meira væri á ferðinni. Einnig var okkur sagt að innan skamms væri von á eins konar lokabréfi frá Eftirlitsstofnun EFTA um þetta mál, svokölluðu 17.2- bréfi sem allir hér í salnum skilja, það er tæknimál okkar sem erum í samskiptum við ESA um slík bréf. Þeir sögðu von á þessu bréfi. Hvað er gert, jú fulltrúar ESA fara yfir þær athugasemdir, þær leiðbeiningar og þær skoðanir sem þeir hafa á málinu. Fulltrúar ráðuneytanna sögðu við okkur á þessum fundi að þeir vonuðust til þess að þar með yrði allt gott á ný.

Nú eru mín ráð að það verði beðið eftir þessu lokabréfi (Forseti hringir.) og þessari umræðu, þótt hún hefjist, verði ekki hætt fyrr en þetta lokabréf kemur. Ég bið forseta að íhuga þetta mjög vandlega.