133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:32]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, gerði áðan athugasemd við málflutning minn sem hún taldi ómálefnalegan og ekki falla undir liðinn sem við ræðum nú, þ.e. um fundarstjórn forseta. Ég vek athygli á að ég var að færa fram þrjár röksemdir fyrir því að þinghaldinu verði breytt, að hæstv. forseti þingsins breyti áformum um þinghaldið í þessari viku og taki þetta mál út af dagskrá.

Ég vakti athygli á því að í gögnunum sem ríkisstjórnin leyndi Alþingi er að finna upplýsingar og umræðu um grundvallaratriði. Þar er m.a. vikið að endurskoðun á Ríkisútvarpinu, hvaða aðilar skuli hafa hana með höndum. Það er spurt um þetta efni af hálfu ESA. Það er vikið að því hvernig skilgreina eigi þjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, annars vegar með tilliti til nefskattsins og hins vegar með tilliti til hugsanlegrar framþróunar á verkefnasviði Ríkisútvarpsins og hvaða ferli verði þá ráðandi þegar hlutverkið verði endurskilgreint. Þetta snertir að sjálfsögðu grundvallaratriði og rekstrarform Ríkisútvarpsins og við lesum um það í blöðum í dag að lögfræðingar eru með efasemdir um nákvæmlega þennan þátt. Þeir segja að það kunni að reynast erfitt að afmarka skilmerkilega þjónustuhlutverk í Ríkisútvarpinu eftir að það verður gert að hlutafélagi, með öðrum orðum fyrirtæki í einkaréttarlegum búningi. Þetta eru grundvallaratriði. Að sjálfsögðu þurfti menntamálanefnd að fá aðgang að þessari umræðu og þeim upplýsingum og þeim spurningum sem eru að berast um þessi efni. Það er grafalvarlegt að þessum upplýsingum skuli hafa verið haldið leyndum, ekki síst í desember þegar ríkisstjórnin vildi afgreiða málið. Mér finnst það áhyggjuefni þegar hv. formaður menntamálanefndar sér það eitt athugavert við þetta að við skyldum ekki fá gögnin nægilega snemma. Þau áttu að vera fyrir sjónum manna allan tímann, allt árið í fyrra meðan þessi samskipti fóru fram. Að sjálfsögðu átti svo að vera.

Hæstv. forseti. Ég vék að öðrum þáttum. Ég fullyrði að ríkisstjórnin og útvarpsstjóri eru að afvegaleiða starfsmenn Ríkisútvarpsins og ég krefst þess að fá svör (Forseti hringir.) frá hæstv. menntamálaráðherra um nákvæmlega þetta efni.