133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:54]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Sá sem nú talaði sneri rassinum í þingheim og gekk út, að vonum. Ég ætlaði ekki að taka frekari …

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna svona almennt og yfirleitt.)

Já, ég er reiðubúinn til þess, forseti, að gæta orða minna almennt og yfirleitt.

Ég ætlaði ekki að hafa frekari orð um fundarstjórn forseta að þessu sinni. Hins vegar urðu orð hæstv. menntamálaráðherra til þess að hjá því verður ekki komist að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta í sama dúr og hæstv. menntamálaráðherra og hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Arnbjörg Sveinsdóttir, og fara aðeins yfir sögu þessara gagna.

Menn minnast þess að í fyrra gerðist mjög svipað. Þá voru það að vísu við þingmenn sem komumst á snoðir um að þessi bréf hefðu verið skrifuð og knúðum fram með nokkru harðfylgi, sem þá þurfti á að halda, með aðstoð tilvitnunar í upplýsingalög, með nokkrum þrótti, fram þau bréf sem þá var um að ræða. Þau komu málinu svo sannarlega við. Upp úr þeim kom m.a. heill þjónustusamningur sem var kynntur með pompi og prakt hér í haust í Efstaleiti.

Þegar í fyrra, eftir jól í fyrra, var haldið áfram að fjalla um það frumvarp sem þá var til umræðu, m.a. á grundvelli þeirra gagna sem þá komu fram. Þegar gögnunum var skilað var líka sagt, og sögðu fulltrúar ráðuneytanna, starfsmenn menntamálaráðherra og fjármálaráðherra, að samskiptin við ESA væru nú á lokastigi. Þannig að það þyrfti ekki að bíða eftir fleiri gögnum frá ESA. Það væri helst þetta lokabréf sem nú heitir 17.2-bréfið sem þá var á leiðinni og hefur því miður ekki borist yfir hafið. Bíður sennilega eftir næsta Bakkaskipi.

Núna hafa níu bréf komið, þar af fjögur á þessu vori þegar verið var að fjalla um frumvarpið sem átti að samþykkja í lokin. Eftir að það frumvarp kom fram sem við erum núna með hafa komið þrjú bréf sem um það fjalla. Í því eru merkileg ný efnisatriði. Ég viðurkenni fúslega að mörg hin fyrri bréfa fjölluðu um mál sem við höfum þegar rætt. Það sem skiptir mestu máli er að nú er fullyrt aftur að von sé á 17.2-bréfinu. Því lokabréfi sem á að blessa og signa allt málið.

Af hverju bíðum við ekki eftir því? Ég tel að forseti þurfi að íhuga það til þess að við þingmenn þurfum ekki að íhuga að hafa umræðuna svo langa að það nái þessu 17.2-bréfi frá Eftirlitsstofnun EFTA til íslenskra stjórnvalda.