133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

gögn um samskipti menntamálaráðuneytis og ESA.

[14:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Í þeirri umræðu sem nú fer fram um málsmeðferð og annað slíkt, hvernig þingmenn eru leyndir gögnum og fá ekki gögn, en þess eru ótal dæmi aftur í tímann sem ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér í að ræða um, þá kemur ýmislegt upp í hugann og skil ég ekki hvers vegna hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra kemur upp í huga minn í þeim efnum og líka þegar menn tala um að ráðherrar ættu jafnvel að biðjast afsökunar á slæmum vinnubrögðum þá kemur fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra líka upp í hugann.

En það sem vekur athygli í þeirri umræðu sem nú hefur farið fram er að aðeins einn framsóknarmaður hefur talið sig þurfa að koma og ræða þessi mál. Það er hv. þm. Dagný Jónsdóttir, varaformaður nefndarinnar, úr öðrum stjórnarflokknum, (Forseti hringir.) sem gerði það á svo eftirminnilegan hátt …

(Forseti (SP): Er hv. þingmaður að ræða um fundarstjórn forseta?)

Já, ég mun koma að því.

(Forseti (SP): Forseti mun hlýða á mál hans.)

Ég þakka fyrir það.

Þess vegna hefur ekki komið fram nema þessi gagnrýni frá varaformanni menntamálanefndar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, framsóknarkonu, um þetta mál. Framsóknarmenn yfirleitt láta ekki sjá sig nema umræddur hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, sem (Gripið fram í.) merkilegt nokk, virðulegi forseti, skrifar upp á framhaldsnefndarálit menntamálanefndar í þessu máli (Gripið fram í: Eigum við ekki að ræða það á eftir?) 12. janúar. Þar sjáum við líka að annar hv. stjórnarþingmaður, Gunnar Örlygsson, er dreginn fram. Þannig að í raun og veru þurfti að draga þarna inn tvo nýja menn til að rífa málið út úr nefnd.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hlýtur að koma og skýra það út hvers vegna liggur svo mikið á, miðað við það sem við höfum verið að tala um, virðulegi forseti, líka með tilliti til þess að Framsóknarflokkurinn hefur margályktað um það á þingum sínum að það skuli ekki breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Hvað hefur breyst, virðulegi forseti, hjá hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni sem skrifar hér upp á framhaldsnefndarálitið? (Gripið fram í: Er ekki málið á dagskrá?) Hvað hefur breyst þar? Hv. þingmaður á að gera okkur grein fyrir því. Auðvitað á hv. þingmaður eins og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins að gera okkur grein fyrir því hér í þinginu, hvers vegna þeir láta Sjálfstæðisflokkinn draga sig út í þetta fúafen sem þeir eru komnir í núna nokkrum vikum fyrir kosningar þar sem sum kjördæmi mælast jafnvel fyrir neðan pilsnerfylgi, svo tekið sé það dæmi.

Virðulegi forseti. Ég ætla að ítreka það sem ég sagði. Það hafa komið fram upplýsingar á síðustu dögum úr leyniskjölunum sem gera það að verkum að full ástæða væri til að fara betur í gegnum þetta og ef til vill að bíða eftir því bréfi sem á eftir að koma. En hæstv. menntamálaráðherra sagði okkur frá áðan að eitt bréf í viðbót væri væntanlegt (Forseti hringir.) frá ESA.