133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:09]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Til þess að svara spurningunni vil ég segja að ég tel að réttindi starfsmanna séu ekki skert með frumvarpinu og ég tel að í því sé þeim ríkisstarfsmönnum sem starfa á Ríkisútvarpinu tryggð þau sömu réttindi og ríkisstarfsmönnum hjá öðrum stofnunum sem breytt hefur verið í hlutafélag hafa verið tryggð. Starfsmenn Ríkisútvarpsins fá því hin sömu réttindi og aðrir ríkisstarfsmenn.

En úr því að hv. þingmaður nefndi þann ágreining sem upp hefur komið og reyndar verið leiddur í jörð upp á síðkastið, þ.e. út af málefnum Flugstoða, þá er ekki óeðlilegt að sú spurning komi fram en ég vil þó taka fram að Gunnar Björnsson, sem er starfsmannastjóri starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, fór yfir það með okkur í nefndinni að réttarstaða þeirra starfsmanna er önnur hvað varðar lífeyrisréttindi heldur en starfsmanna Ríkisútvarpsins vegna þess að þeir áttu ekki aðild að heildarsamtökum launþega sem breytti afstöðu þeirra gagnvart þeim réttindum sem Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og samþykktir hans kveða á um.