133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:12]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er það alkunna að mjög háværar raddir hafa verið um það innan Sjálfstæðisflokksins um árabil að það beri að einkavæða Ríkisútvarpið. Nokkrir af öflugustu þingmönnum flokksins hafa flutt um það þingmál og meðal þeirra er, held ég, örugglega hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson. Engin ástæða er til að ætla að þessir ágætu frjálshyggjumenn yst af hægri kanti Sjálfstæðisflokksins hafi í neinu hvikað frá þeirri skoðun sinni. Því vildi ég spyrja hv. nefndarformann hvort hann telji að hlutafélagið greiði leið að einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Verður auðveldara að einkavæða Ríkisútvarpið eftir að því hefur verið breytt í hlutafélag, gangi þessi lög eftir? En hv. þingmaður er aðili að báðum þessum þingmálum, um söluna annars vegar og þessa skrýtnu ríkisvæðingu hins vegar.