133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:15]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er vandræðamál hjá Sjálfstæðisflokknum. Þeir vilja annars vegar selja og hins vegar halda sömu þingmenn því fram að ekki eigi að selja.

Hv. þingmaður segir að hægt verði að selja hvort sem fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag eða ekki, hvort sem Ríkisútvarpið er sjálfseignarstofnun, stofnun eins og hún er í dag eða opinbert hlutafélag. Þá blasir næsta spurning við: Telur hv. formaður menntamálanefndar eðlilegt að næsta skref í umbreytingum á Ríkisútvarpinu sé að það verði einkavætt og selt? Telur hv. nefndarformaðurinn að Ríkisútvarpinu eigi að koma úr eigu almennings á hinn almenna markað, að það eigi að selja það og einkavæða eða ekki? Hv. þingmaður hefur ásamt félögum sínum flutt slíkt þingmál á þessu kjörtímabili og berst fyrir þessu máli núna.