133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:23]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki svarað fyrir það sem stjórnendur Matíss ohf. hafa sagt við starfsmenn sína. Þeir verða að standa reikningsskil orða sinna sjálfir, enda ummæli þeirra ekki frá mér komin. Ég er ekki í neinni stöðu til að ræða þau.

Hér kristallast greinilega munurinn á hugmyndafræðinni sem hv. þm. Ögmundur Jónasson aðhyllist og ég hins vegar. Það er greinilegt að hv. þm. Ögmundur Jónasson sættir sig ekki við að ný samningalota taki við þegar núverandi kjarasamningar renna út heldur telur hann sig vera í þeirri stöðu gagnvart fólkinu í landinu að semja fyrir fram með lagasetningu um kjör þess á Alþingi. Ég segi nei. Við tökum ekki þátt í slíku ofbeldi, að fara að setja í lög og taka ákvarðanir fyrir hönd launþega, framtíðarstarfsmanna Ríkisútvarpsins, (Forseti hringir.) um hvað er samið um fyrir þá. Þeir eiga að fá að ráða því sjálfir. Ég á ekkert að hafa um það að segja og þaðan af síður hv. þm. Ögmundur Jónasson.