133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Forsvarsmenn Matíss ohf. verða sjálfir að standa skil sinna orða, segir hv. þingmaður. Þetta er mergurinn málsins. Þegar stofnun hefur verið tekin undan forræði stjórnvalda, undan stjórnsýslulögum, er það ekki á valdi okkar að ræða um hana í þessum sal. Við getum ekki krafist eins eða neins af þessum aðilum sem við þó getum gagnvart forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins og þeim sem fara með vald yfir þeirri stofnun, stjórnvöldum hverju sinni, vegna þess að þar er opinber stofnun. Hún heyrir undir Alþingi beint. Það er mergurinn málsins og á að gilda um starfsemi sem er fjármögnuð með almannafé, skattfé almennings. Það er fullkomlega óeðlilegt að taka slíka starfsemi undan forræði Alþingis.

Að við viljum hafa vit fyrir fólkinu, sagði hv. þingmaður. Málið er að við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort félagslegur réttur verði yfirleitt virtur og á hvaða forsendum það verði gert. Þegar ég spyr hvort stjórnvöld muni beita sér fyrir því að (Forseti hringir.) nýráðnir starfsmenn fái aðgang að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er heimilt lögum og reglum samkvæmt, (Forseti hringir.) þá fáum við engin svör við því.