133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:12]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að reynt sé að afla upplýsinga um framvindu þinghaldsins. Ég vildi láta virðulegan forseta vita af því, þar sem ég er næstur á mælendaskrá, að ég væri lítið viðkvæmur fyrir því þótt virðulegur forseti tæki t.d. ákvörðun um að ég fengi ekki að hefja ræðu mína fyrr en hálfellefu í fyrramálið. Það mundi ekki hafa nein áhrif á þann ræðuflutning, hvorki lengja ræðu mína né stytta. Það muni jafnvel frekar stytta ræðuna, ef leitað yrði eftir því af virðulegum forseta að ræðan yrði styttri ef hún hæfist með morgni.

Það væri hins vegar ekki verra, ef virðulegur forseti hefur ekki hug á að láta ræðu mína hefjast með morgni, að upplýsingar lægju fyrir um hversu lengi ætlunin er að halda áfram eða hvaða merkingu orðalagið „að halda áfram um sinn“ hefur hjá virðulegum forseta. Ég gæti a.m.k. reynt að stilla ræðu mína út frá slíkum upplýsingum. Ég tel að það mundi nú frekar liðka fyrir þinghaldinu en hitt ef þessar upplýsingar lægju fyrir.

Það er afar óeðlilegt, eins og fram hefur komið, að þingflokksformenn hafa engar hugmyndir um hvernig fram skuli halda. Það hafa ekki verið haldnir fundir með þingflokksformönnum frá því í morgun þegar um það var rætt að halda áfram fram á kvöld. Þingfundur átti síðan, ef ég hef skilið hv. þingflokksformenn rétt, að hefjast klukkan hálfellefu í fyrramálið og jafnvel fleiri daga þannig.

Það er nauðsynlegt að virðulegur forseti upplýsi þingheim eða kalli þingflokksformenn saman á fund og fari yfir þessi mál þannig að þingmenn viti hvernig þinghaldið verður næstu daga, hvort nefndarfundir eru ekki á dagskrá eða öllum nefndarfundum þurfi að ljúka fyrir kl. 10.30 alla morgna þessa viku.

Þetta eru lágmarksupplýsingar, virðulegi forseti, sem þingmenn þurfa að hafa svo þeir hafi að minnsta kosti einhver tök á að skipuleggja vinnu sína þessa viku þótt þingmenn séu ýmsu vanir í þeim efnum og manna sveigjanlegastir í að skipuleggja sig, að því er manni sýnist, út frá geðþótta virðulegs forseta. En slíka stjórnarhætti er ekki hægt að líða til lengdar. Ég hélt að forsætisnefndin og virðulegur forseti hefðu áttað sig á því fyrir jólin þegar samkomulag varð um þinghaldið hvað allt verður liprara og að hlutirnir ganga betur fyrir sig ef sú leið er farin fremur en að allt velti á ákvörðun eins virðulegs (Forseti hringir.) forseta.