133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það að mér finnst tími kominn til þess fyrir forseta að skýra aðeins betur áform sín um fundarhaldið því að þau eru svolítið óljós. Það er t.d. ekki mikið nákvæmnishugtak í þeim efnum að tala um að fundur standi „enn um sinn“.

Verður mér þá hugsað til eins ágæts fyrrverandi útvarpsstjóra sem einu sinni kom fyrir þingnefnd. Það stóð á einhverri greinargerð eða skýrslu sem var væntanleg frá útvarpinu um tiltekið mál og þingmenn spurðu hvenær þessara gagna væri að vænta. Þá sagði sá ágæti maður: Ja, þau munu koma í fyllingu tímans. Og þótti svolítið óljóst líka hvað það fæli nákvæmlega í sér í tímalengd. Það er svipaður stíll sem forseti tekur hér og þessi ágæti maður hafði stundum.

Úr því að talið berst að útvarpsstjórum er náttúrlega stórmerkilegt inngrip núverandi útvarpsstjóra Páls Magnússonar, útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, sem mér dettur í hug að ætti kannski frekar að kalla útvarpsstjóra ríkisstjórnarinnar en Ríkisútvarpsins, í þetta mál. Það er kannski tilefni til að ræða svolítið út frá efni þessa frumvarps og aðstæðum í þessu máli hvernig þessi ágæti maður er farinn að beita sér, leggst í grímulausan og harðan áróður og lobbíisma fyrir þessu pólitíska máli og er þó, að maður hélt, útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins okkar allra.

Í hvaða aðstöðu setur þessi maður undirmenn sína, t.d. á fréttadeild þegar þeir eiga að fjalla um þessa harðpólitísku atburði og bera fréttir af því sem hér er að gerast? Eða auðvitað alla almenna starfsmenn útvarpsins sem eru að hugsa um stöðu sína í þessum efnum.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér var nokkuð brugðið …

(Forseti (BÁ): Forseta þykir hv. þingmaður kominn nokkuð frá umræðu um fundarstjórn forseta.)

Ég er mjög undrandi á þessum ummælum forseta því að ég ætlaði nákvæmlega að útskýra hvernig þetta allt saman tengdist.

Ég er að rökstyðja það, virðulegur forseti, að það er svo margt nýtt að gerast í þessu máli og aðstæður að breytast. Málið versnar svo hratt að það er kannski ástæða til að flýta sér ekki um of.

Ég held að þótt okkur hafi verið gert það ljóst að hér kynnu að verða langir fundir, svona yfir daginn þessa vikuna, hefur ekki verið talað um næturfundi í þessum efnum, ég tala nú ekki um ef fundir byrja fyrr en hefð er fyrir, eins og fundur gerði í dag. Ef á að fara að ryðja hér út hefðbundnum dagskrárliðum eins og fyrirspurnum á miðvikudögum verður forseti auðvitað að átta sig á því að við munum heimta einhver svör um það hvernig þessu verði öllu saman háttað.

Þess vegna held ég að forseti ætti núna að fara að láta þessu lokið í kvöld og (Forseti hringir.) sofa vel í nótt og mæta svo í góðu skapi til starfa í fyrramálið (Forseti hringir.) og ræða þá við okkur.