133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Eins og ég sagði áðan var samkomulag um að koma degi fyrr til þingstarfa en áætlað var í starfsáætlun sem forseti þingsins gaf út í upphafi. Forseti og ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi kaus að nýta þann dag til umræðna um Ríkisútvarpið. Við höfum staðið við það samkomulag og höfum verið að tala um Ríkisútvarpið eða þetta vitlausa frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um það í allan dag. Fyrst í umræðum um störf þingsins, síðan í umræðum sem óhjákvæmilega voru um fundarstjórn forseta en vörðuðu auðvitað Ríkisútvarpið á sinn hátt. Síðan talaði framsögumaður minni hluta menntamálanefndar þegar framsögumaður meiri hlutans hafði lokið sér af. Það tók kannski ekki eins langan tíma eins og menn vonuðu, en hann talaði í nokkra stund, og síðan talaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í nefndinni. Það var eðlilegt að hún gerði grein fyrir afstöðu sinni og ræða hennar var góð. Þannig stendur málið að við höfum gert þetta. Ég hygg því að menn geti ekki gagnrýnt það eða haft uppi þann orðróm eða áróður að hér hafi verið eitthvert málþóf eða einhver della á ferðinni því að þetta voru efnismiklar ræður og drepið á mjög mörgum mikilsverðum atriðum, þar á meðal ýmsu sem telst algjörlega nýtt í umræðunni og menn bjuggust ekki við að yrði en varð samt. Við höfum efnt okkar hlut af þessum samningi og teljum að hér sé komið nóg. Það sé vissulega búið að halda þennan kvöldfund sem heitið var að halda og við óskum eftir því að þessum fundi verði nú lokið og sjálfsagt að forseti verði við því til þess að þurfa ekki að lengja þennan fund með því að við höldum áfram að biðja um þetta.

Á hinn bóginn sakna ég þess að forseti skuli ekki hafa svarað fyrirspurn minni og fleiri þingmanna áðan um hvort til standi að hafa hér eins konar neyðarástand alla vikuna og sleppa þingnefndarfundum eða setja mikilvæga nefndarfundi, sem ég var að heyra núna óvænt, í hádegishlé, og hafa ekki fyrirspurnatíma þó að fyrir liggi fyrirspurnir sem ráðherrar hafa ekki svarað í mánuð frá því að þinginu lauk, fyrirspurnir sem lagðar voru fram löngu áður. Síðan eru auðvitað mjög mörg brýn mál í samfélaginu sem þarf að ræða.