133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kem upp sem þingflokksformaður Frjálslynda flokksins vegna þess að ég er mjög hugsi og hef miklar áhyggjur af því hvernig svip þinghaldið er að fá strax á fyrsta degi eftir að við hefjum störf eftir jólaleyfi. Ég er mjög undrandi á þeirri miklu hörku og ósveigjanleika sem virðist vera að færast í málin. Ég vil til að mynda benda á að ég frétti af því fyrst í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins að ekki stæði til að fara eftir hefðbundinni dagskrá þingsins fyrr en búið væri að afgreiða þetta mál úr þinginu, þ.e. frumvarpið um Ríkisútvarpið. Að fastir liðir eins og t.d. fyrirspurnir sem eiga að vera á miðvikudaginn, sem er mjög mikilvægur liður í dagskrá þingsins einmitt fyrir þingmenn til að veita ráðherrum aðhald með fyrirspurnum um landsins gagn og nauðsynjar, verði ekki teknar fyrir. Síðan hefjum við þingfundi alla daga klukkan hálfellefu sem er líka þvert á þá hefð sem hér hefur skapast varðandi það hvenær þingfundir hefjast hvern dag.

Ég fór yfir það fyrr í dag þegar við ræddum fundarstjórn forseta og störf þingsins hversu undarlega mér þætti að verki staðið varðandi allt þetta mál, bæði hvernig það er afgreitt úr menntamálanefnd og eins að allt í einu komi fram upplýsingar sem benda til þess að málsmeðferðin hafi, þrátt fyrir mikla vinnu og yfirlegu til að mynda í menntamálanefnd og umræðum í þinginu, á vissan hátt verið ófullkomin og að það hefði átt að leyfa því að vera lengur í nefndinni til þess að bæði nefndarmenn og aðrir gætu farið betur ofan í þá nýju fleti sem hafa verið að koma upp að undanförnu. Mér finnst líka undarlegt fyrir svipinn á þinginu að það skuli hafa hafist með þeim látum sem það hefur gert í dag.

Ég vil benda virðulegum forseta á að það eru ótal önnur mikilvæg frumvörp sem við hefðum getað tekið fyrir í byrjun þings eftir jólahlé. Ég er með yfirlit yfir stöðu þingmála og sé að hér eru fjöldamörg áhugaverð og merkileg stjórnarfrumvörp og þingmannafrumvörp sem bíða eftir því að komast í umræðu. Ég bendi einnig á það að störf nefnda þingsins virðast vera meira og minna í uppnámi. Á morgun á loksins að kynna stefnumótun um málefni útlendinga sem við höfum beðið eftir í þinginu frá því 1. nóvember á síðasta ári. Það á að gera á morgun með einhverjum bægslagangi á hálftíma í hádegishléi þingsins. (Forseti hringir.) Þetta er ekki fagur svipur á þingstörfunum, verð ég að segja.