133. löggjafarþing — 51. fundur,  15. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Þegar maður hefur ræðu á þessum tíma og ekki liggur fyrir annað en það loforð virðulegs forseta um að þingmenn verði ekki með öllu rændir nætursvefni er erfitt að átta sig á hvenær maður á að miða við að ræðunni ljúki. En ég nýt þess að þetta er fyrri ræða mín í þessari umferð og ef eitthvað stendur eftir þegar virðulegur forseti telur eðlilegt að þingmenn fái að njóta nætursvefnsins þá get ég og er eðlilegt kannski að láta virðulegan forseta vita af því strax í upphafi að ég get verið býsna sveigjanlegur í þeim efnum og mundi ekki taka það óstinnt upp þó virðulegur forseti telji að þingmenn þurfi að fara að njóta nætursvefnsins án þess að ég hafi lokið ræðu minni. Vegna þess að þetta er fyrri ræða mín í þessari umferð, þá tel ég að ég geti komið til móts við virðulegan forseta og lokið ræðu minni með til þess að gera skömmum fyrirvara. Ég vildi að virðulegur forseti vissi að sá sveigjanleiki er til staðar og yrði alls ekki tekið neitt óstinnt upp þó virðulegur forseti teldi ástæðu til að spyrja mig að slíku, einhvern tímann þegar nálgast þann tíma að virðulegur forseti telji eðlilegt að þingmenn fái að njóta nætursvefns.

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur um margt verið ólík fyrri umræðum um frumvarpið þrátt fyrir að umræðurnar, eins og fram hefur komið, hafi ekki verið fáar. Sjö umræður, ef ég man rétt. Fimm sinnum hefur málið verið tekið úr menntamálanefnd. Alltaf koma samt upp nýir fletir.

Dæmi um það er að í hvert skipti sem málið hefur verið tekið úr menntamálanefnd hefur meiri hlutinn talið ástæðu til að koma með einhverjar breytingartillögur á frumvarpinu af þeirri einföldu ástæðu að meiri hlutinn hefur séð að ýmislegt mátti betur fara en upphaflega var ætlað. Eðlilegt er að þakka það og ég held að hægt sé að fullyrða að líklega hafi hver einasta breyting verið í rétta átt og verið að einhverju leyti til bóta þótt enn sé margt ógert og þar standi ýmislegt utan sem eðlilegt hefði verið að taka inn vegna þess, eins og margoft hefur komið fram í umræðunni, að við erum ekki að fjalla um venjulega stofnun. Við erum að fjalla um Ríkisútvarpið sem hefur í augum þjóðarinnar alveg sérstakan sess. Þess vegna er svo mikilvægt að um slíka stofnun ríki ákveðin sátt í samfélaginu.

Í rauninni á það að vera skylda stjórnvalda hverju sinni að tryggja að um slíka stofnun ríki eins mikil sátt og kostur er. En því miður verður að segjast að núverandi stjórnvöld hafa ekki náð að halda þannig utan um málið að sú sátt hafi verið tryggð. Nú liggur ljóst fyrir að ef frumvarp það sem liggur fyrir verður samþykkt munu lögin taka gildi þann 1. apríl næstkomandi. Kosningar eru hins vegar 12. maí, örfáum vikum síðar.

Það er algjörlega með ólíkindum að ríkisstjórnarmeirihlutinn skuli ekki að minnsta kosti hafa tekið því sáttaboði sem nokkrum sinnum hefur verið nefnt, þ.e. að færa gildistökuna örlítið aftur fyrir kosningar til að tryggja að hægt væri fyrir nýja ríkisstjórn að hafa örlítið svigrúm til að kippa því í liðinn sem sú stjórn teldi nauðsynlegt.

Þess í stað er eins og það var orðað, ef ég man rétt, af einhverjum ágætum þingmanni í dag, að fyrir einhverja pólitíska þráhyggju væri málið keyrt áfram og reynt að fá gildistökuna 1. apríl og skapa þá örstuttan tíma fyrir stofnunina til að gera eitthvað. Ég veit ekki hvað stjórnendur stofnunarinnar teldu í raun þorandi við þær aðstæður að setja það ferli sem menn töldu æskilegt að setja í gang. Því það liggur alveg ljóst fyrir að stjórnarandstaðan, sameinuð, hefur talið slíka galla á þessu máli að ef ríkisstjórnin fellur í kosningunum, þá er væntanlega kominn nýr meiri hluti að málinu sem hlýtur auðvitað að skoða það gaumgæfilega hvernig eigi að kippa hlutum í liðinn. Það gæti orðið eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar í júnímánuði væntanlega, að gera á þessum lögum einhverjar breytingar. Það er því ekki fýsilegt fyrir stjórnendur stofnunarinnar að fara af stað með einhverja þætti við slíkar aðstæður.

Ég sagði áðan, herra forseti, að ýmsir nýir fletir hefðu vissulega komið óvænt upp í málinu. Umræðan í dag hefur borið þess merki að margt nýtt hefur komið fram.

Þinghaldið í morgun byrjaði á því að vakin var athygli á samskiptum menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis við ESA, þ.e. hin nýju bréf sem þar hefðu farið á milli á síðasta ári. Bréf og samskipti sem ekkert hefur verið minnst á í vinnu menntamálanefndar, eiginlega með ólíkindum að þannig skuli fram fara. Það er eðlilegt að virðulegur forseti telji ástæðu til að fara að einhverju leyti yfir samskipti ráðuneyta og þingnefnda því að upplýsingagjöf eða upplýsingaleynd með þessum hætti er auðvitað forkastanleg.

Eðlilegt er að taka undir og vekja enn frekari athygli á því sem fram hefur komið frá formanni og varaformanni menntamálanefndar, þeim orðum sem formaðurinn hefur notað að þetta sé ótækt og óásættanlegt. Varaformaður nefndarinnar hefur sagt úr ræðustóli að þetta sé afar óheppilegt og ástæðulaust.

Ég held að þessi orð segi í raun það sem segja þarf um þetta þó svo að þetta sýni okkur enn einu sinni að framkvæmdarvaldið er farið að haga sér býsna frjálslega og hefði meiri hluti nefndarinnar átt að sýna þann dug að fresta því að taka málið úr nefnd af þeim ástæðum. Þá hefði framkvæmdarvaldið kannski áttað sig á því að það geti ekki stýrt öllu hér og stjórnað. En þannig er nú því miður komið fyrir þeim meiri hluta sem situr á þinginu, að framkvæmdarvaldið virðist geta hagað sér eins og því dettur í hug og komast áfram með hvað eina.

Þessir þættir og þau orð sem ég vitnaði í um formann og varaformann menntamálanefndar hefðu átt að duga til þess að meiri hluti nefndarinnar hefði sagt: Hingað og ekki lengra. Nú eru það við sem tökum hér yfir og gefum okkur þann tíma sem eðlilegur getur talist til að fara yfir þessi samskipti og þaulkönnum hvað í þeim þarf hugsanlega meiri yfirlegu. En því miður gaf meiri hluti nefndarinnar eftir þrátt fyrir að formaður og varaformaður nefndarinnar hafi talið ástæðu til að gefa þó frá sér þessi skilaboð sem ég minntist á áðan. Þau skilaboð eru mjög skýr og segja afskaplega vel hvernig staðan er. Auðvitað er það þannig að einstaka þingmenn í meiri hlutanum geta ekki látið bjóða sér hvað sem er en fara þó ekki lengra en þetta og maður hlýtur því að draga þá ályktun að viðkomandi þingmenn telji ekki ráðlegt að fara lengra en að tala þetta skýrt, en aðhafast ekkert.

Það er einn meginvandinn við þann meiri hluta sem hér er. Ég þekki þetta nokkuð vel úr ýmsum dæmum úr fjárlaganefnd þar sem meirihlutamönnum hefur oft og tíðum blöskrað háttalag framkvæmdarvaldsins og hafa á stundum látið það heyrast á nefndarfundum og jafnvel í þingsal en þar hefur verið látið staðar numið. Það hefur yfirleitt aldrei verið gripið til þeirra ráða sem nauðsynleg eru.

Það skjól sem þingmenn eiga að hafa og sú vörn sem þingmenn eiga að hafa í virðulegum forseta hefur því miður ekki reynst eins og ætti að vera því að í þeim tilfellum sem við t.d. í fjárlaganefnd höfum reynt að leita til forseta um ákveðna þætti, það er nokkuð í gegnum tíðina, og svo aftur gagnvart þessu máli þegar það var nú álitið svo alvarlegt í samskiptum að þingflokksformenn rituðu sérstakt bréf til forseta til að leita ásjár að þá, eins og því miður oft áður, tekur forseti í raun afstöðu með framkvæmdarvaldinu með því að aðhafast ekkert.

Ekki var einu sinni látið svo lítið að fara yfir málin, ræða t.d. við formann nefndarinnar og fulltrúa þingflokksformanna eða einhverja til að fara yfir í hverju þetta væri fólgið, hvað gerðist í raun og hvort hægt væri að ná sátt um eitthvert ferli.

Slíkt var ekki gert og ekkert aðhafst. Meiri hluti nefndarinnar tekur málið út í andstöðu við minni hlutann eins og því miður hefur gerst áður í þessu ferli. Síðan upplifum við þennan þingdag eins og hann hefur þróast þar sem þinghaldinu er stýrt af forseta, raunverulega með tilskipunum, þ.e. ekki í neinu samráði við nokkurn mann. Þingflokksformenn gera ítrekaðar tilraunir til að fá einhverjar upplýsingar um hvernig þessu skuli fram haldið en engar upplýsingar fást aðrar en þær að forseti hefur nú gefið það út lipurmannlega að þingmenn verði ekki rændir öllum nætursvefni.

Þannig horfir þetta og er vissulega ekki til að liðka fyrir málum. Ég verð þó að koma því á framfæri að ég tel að formaður menntamálanefndar hafi staðið sig býsna vel í störfum nefndarinnar, og sérstaklega í þinghléinu, þar sem haldnir hafa verið margir fundir og formaður tekið lipurlega við öllum óskum okkar í minni hlutanum um gestakomur og umræðuefni þó svo það hafi ekki allt náðst fram af ýmsum ástæðum. En ég tel að formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafi staðið sig mjög vel þar til kom að þeim þætti sem ég gerði að umræðuefni áðan, þ.e. þegar hv. þingmaður taldi ekki lengra gengið og nýtti sér ekki það að snupra örlítið framkvæmdarvaldið vegna þess háttalags sem er með ólíkindum, að formaður nefndarinnar fær ekki að vita um þau samskipti sem átt hafa sér stað við ESA um ársskeið, þrátt fyrir að við hefðum ítrekað í nefndinni einmitt verið að ræða sérstaklega þá þætti.

Ef þessi bréfaskipti hefðu verið lögð fram í nefndinni hefði það verið upplýsandi og örugglega skýrt ákveðna þætti betur sem nefndir hafa verið í umræðunni í dag. Nefni ég þar t.d. ákveðna þætti í þjónustusamningnum, þætti sem við því miður höfum ekkert rætt í nefndinni og verður varla úr þessu. Þess vegna lengir það nokkuð umræðuna í þingsal því nauðsynlegt er að fara betur yfir það. Ég mun gera það seinna í ræðu minni ef ekki verður þá búið að fresta fundi. Ég er ekki kominn að því og mun ég þá gera það í seinni ræðu minni.

Ég veit ekki hvort ég þarf svo sem að fara mikið nánar yfir þessa þætti. En hins vegar er alveg ljóst að það hefði verið miklu eðlilegra að hæstv. menntamálaráðherra hefði komið hér og beðist afsökunar á þessu háttalagi og talið það hafa verið mistök og þar af leiðandi gefið skýringu á því hvernig þetta gat gerst. Hæstv. ráðherra sagði að þetta hefði ekki vísvitandi verið gert. Ekki vísvitandi. Það er vísun í það að hæstv. ráðherra hafi hugsanlega ekki vitað sjálf af. Á maður nú býsna erfitt með að trúa að hæstv. ráðherra hafi ekkert af þessu vitað. En hæstv. ráðherra gaf það vissulega í skyn þegar orðalagið, að þetta hafi ekki verið gert vísvitandi, er notað. Það vísar til þess að vitneskja hafi ekki verið um það að þessu hafi verið haldið frá nefndinni. Hugsanlega hefur hæstv. ráðherra talið að embættismenn sínir sem komu æðioft á fund nefndarinnar hafi upplýst þetta á fundum hennar, en svo var ekki. Þess vegna hefði verið eðlilegt að hæstv. ráðherra hefði beðist afsökunar á þessu háttalagi.

Nauðsynlegt er að það komi fram að ég tel að formaður nefndarinnar hafi heldur ekki af þessu vitað. Eins og ég hef áður sagt í ræðum var sérkennilegt að hv. þingmaður fór nokkrum sinnum með það frá nefndinni að spyrja sérstaklega um þessa þætti málsins til ráðuneytisins en aldrei var frá þessu sagt.

Herra forseti. Ég held ég láti lokið umræðu um þennan þátt málsins sem er þó þess eðlis að kannski er eðlilegt að síðar verði frekar um það rætt. Sérstaklega í tengslum við þá athugun sem ég held að flestir séu orðnir sammála um eftir þetta, að eðlilegt sé að fara yfir samskipti ráðuneyta og þingnefnda þannig að þetta sé í ákveðnu ferli og það liggi alveg fyrir t.d. að það sé skylda ráðuneyta að láta vita um öll hugsanleg gögn sem geta komið að gagni við vinnslu mála. En það sé ekki þannig að þingnefndir þurfi sjálfar að átta sig á því hvað hugsanlega er verið að gera í ráðuneytum.

Það er vissulega fagnaðarefni að þó skuli vera það mikið líf í fjölmiðlum okkar, eins og í þessu tilfelli, að fjölmiðill einn sem komst einmitt að þessum samskiptum upplýsti um þau. Það varð til þess að beðið var um gögnin og þau fengust eftir að á þá var gengið, svipað og gert var fyrir ári síðan eða svo.

Virðulegi forseti. Ekki eru margir með það alveg á hreinu um hvað þetta mál fjallar. Það sést víða í umfjöllun um málið. Ekki alls fyrir löngu tók ég eftir því að varaformaður útvarpsráðs var einn þeirra. Fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði var einn þeirra sem virtust ekki alveg átta sig á málinu. Það getur auðvitað skýrt að hluta til afstöðu Framsóknarflokksins í málinu og þróun þeirrar afstöðu sem er sérstakt umræðuefni og eðlilegt að reyna að gera því einhver skil síðar í ræðunni.

En þessi ágæti varaformaður útvarpsráðs gerði athugasemdir eða vakti sérstaka athygli á greinarskrifum samþingmanna minna í Samfylkingunni þar sem annar þeirra hefði haldið því fram að með frumvarpinu væri í raun verið að ríkisvæða hlutina meira en eðlilegt gæti talist, en hinn hefði haldið því fram í skrifum út frá öðru sjónarhorni, að hér væri verið að stíga skref til einkavæðingar og sölu Ríkisútvarpsins.

Varaformaður útvarpsráðs hafði ekki áttað sig á því að í raun og veru er frumvarpið nákvæmlega um þetta. Verið er á óljósan hátt — það er eitt af því sem deilt er um og eitt af því sem einmitt er fjallað um í samskiptum við ESA, að Ríkisútvarpið verður styrkt áfram eins og það hefur verið gert. En almannaútvarpsþátturinn er það óljós að með því að styrkja þetta óljósa hlutverk eins og gert er, þá er verið að fara inn á grátt svæði sem mun augljóslega kalla á það að samkeppnisaðilarnir, þ.e. einkareknu stöðvarnar, munu kæra. Þeir munu gera við þetta athugasemdir og þetta mun fara fyrir dómstóla, jafnt hér á landi sem erlendis.

Þetta sem þá fyrst um skeið mun raunverulega geta passað við að verið sé að ríkisreka þætti sem eru í samkeppni, mun að öllum líkindum, og það er það sem við höldum margir fram, að sé megintilgangur þeirra afla í Sjálfstæðisflokknum sem keyrt hafa málið áfram, að veikja Ríkisútvarpið, gera slíkan óróa í kringum það að enginn friður verði. Eftir ákveðinn tíma, þegar það er búið að malla þannig verði Ríkisútvarpið orðið það veikt, kærur orðnar það margar sem geta kostað það að jafnvel verði dæmt í einhverjum tilfellum, eins og dæmi eru um, að Ríkisútvarpið þurfi hugsanlega að skila einhverju af ríkisstyrknum, þá muni það hreinlega ekki standa það af sér.

Þetta er, að því við margir teljum, framtíðarsýn þeirra afla í Sjálfstæðisflokknum sem alltaf hafa viljað selja Ríkisútvarpið og koma því burtu úr raunveruleikanum. Þetta er hættan. En fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði virtist ekki átta sig á þessu. Það er væntanlega skýringin á afstöðu Framsóknarflokksins í málinu, að skilninginn skortir á hættunum sem fylgja frumvarpinu.

Það er sérkennilegt vegna þess að búið er að benda á margoft hvað mikil hætta sé þarna á ferðum. Þó verður að segjast, eins og kom fram ágætlega í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar, að svo flókið og margþætt er þetta mál að í hvert einasta skipti sem við höfum fjallað um það í menntamálanefnd hafa komið upp nýir fletir og það hefur ýmislegt verið upplýst sem hafði áður ekki fram komið.

Segja má um þennan þátt sem er býsna flókinn, að í þeirri umfjöllun sem við höfðum í nefndinni milli 2. og 3. umr. skýrðist mjög margt í þessum tengslum við Evrópurétt um hver vandinn er gagnvart samkeppninni, hver vandinn er í skilgreiningum um til hvaða þátta ríkisstyrkur má ná. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins kemur fram að þeir telja að til að taka af allan vafa þurfi almannaútvarpið að vera algjörlega sér og bara tengt ríkisstyrknum og vera þá ekki að keppa neitt um auglýsingar, kostun og þess háttar hluti. Það væri leiðin til að skýra þetta mál og taka af allan vafa. En meðan það er ekki gert er sá vafi til staðar. Hann kallar væntanlega á, það er eiginlega allt of hógvært orðalag, kallar örugglega á málaferli og mikla óvissu hjá stofnuninni.

Herra forseti. Ég held að eðlilegt sé á þessum tímapunkti að fara aðeins meira inn á þetta mál og halda þeirri venju minni sem nú er að skapast í umræðum um Ríkisútvarpið að lesa einn leiðara úr Fréttablaðinu eftir Þorstein Pálsson, ritstjóra og fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, vegna þess að ég hef tekið eftir því að sá ágæti ritstjóri hefur eins og við vitum mikla þekkingu og víðfeðma reynslu. Hann þekkir innviði Sjálfstæðisflokksins býsna vel, þekkir störf þingnefnda og störfin í ráðuneytunum og getur því oft og tíðum áttað sig betur á málum en margur annar. Hann hefur oft verið með nokkuð skýr skrif um þetta mál og það gerðist síðast í gær að þessi ritstjóri ritaði einmitt nokkuð merkan leiðara sem fjallar um þann þátt sem ég nefndi áðan. Leiðarinn ber nafnið Hvers vegna?

Það er mjög eðlilegt að spyrja þeirrar spurningar og má segja að hún eigi við miklu fleiri þætti í þessu máli, því að það er margt illskiljanlegt í málinu nema hin pólitíska þráhyggja sé hugsanlega skýringin, þ.e. að þetta frumvarp hafi náðst í gegnum þingflokka beggja stjórnarflokkanna með óvönduðum vinnubrögðum. Það þarf ekki að leggja fram aðrar sannanir með því en allar þær breytingartillögur sem meiri hlutinn hefur gert við frumvarpið. Þegar þessi leið var samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna var augljóslega ekki búið að fullvinna málið og málið hefur ekki verið fyllilega upplýst fyrir þingmönnunum þegar þeir samþykktu hana. Það eru t.d. alls konar þættir í málinu sem við höfum orðið vör við í menntamálanefnd sem menn annaðhvort þora ekki eða vilja ekki af einhverjum ástæðum taka upp af þeirri einföldu ástæðu að um það er samkomulag milli stjórnarflokkanna. Þetta á sérstaklega við um rekstrarformið sem greinilega hefur verið örlítið átakamál í einhvern tíma en Framsóknarflokkurinn hefur verið tuskaður til og Sjálfstæðisflokkurinn hefur greinilega engan áhuga á því að fara aftur í gegnum þá umræðu við Framsóknarflokkinn. Þetta á einnig við um nefskattinn, þ.e. þá tekjuöflunarleið sem blasir við og fjöldi gagna og gesta í nefndinni hefur bent á að er alveg fáránleg leið. Það er fjöldi annarra leiða sem kemur til greina en um þær hefur ekki fengist nein umfjöllun í nefndinni af þeirri einföldu ástæðu og hreinskilnu skýringu að um þetta sé samstaða í stjórnarflokkunum og verði ekki rætt frekar. Þetta hafi orðið niðurstaðan þrátt fyrir að hún sé meingölluð. Að vísu eru ákvæðin þannig að það er svigrúm til að taka þetta upp og breyta því. Þessu er vísað langt inn í framtíðina, stjórnarflokkarnir hafa væntanlega valið þá leið vegna þess að þeir hafa ekki treyst sér til að ljúka málinu á annan hátt en að fara þessa vandræðalegu og ólánlegu leið.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég hefði lesið leiðara eftir ritstjóra Fréttablaðsins, Þorstein Pálsson, fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins, sérstakan þekkingarmann um innviði Sjálfstæðisflokksins og ýmsa aðra þætti, og þar kemur ágætlega fram margt af því sem ég hef rætt hér. Ég vil lesa hér þennan leiðara frá í gær sem heitir Hvers vegna? Ýmsir hafa reyndar vitnað í hann í dag en ég held að það sé rétt að hann sé skráður hér í heild sinni. Ég mun hugsanlega staldra við á stöku stað í leiðaranum og gera athugasemdir eða vekja sérstaka athygli á orðalagi. Með leyfi forseta, hef ég þá lesturinn:

„Einhverra hluta vegna hafa stjórnarflokkarnir sammælst um að rjúfa þá sæmilegu sátt sem verið hefur um Ríkisútvarpið. Ríkisstjórnin hefur misboðið þeim sem vilja standa vörð um menningarlegt útvarp á vegum ríkisins. Um leið hefur hún gefið hinum langt nef sem vilja tryggja jafnræði á almennum markaði útvarpsstarfsemi.

Stefna ríkisstjórnarflokkanna í útvarpsmálum á hvergi formælendur. Hún verður ekki skýrð með neinum skynsamlegum rökum. Þeir duldu hagsmunir sem búa að baki áformum þeirra hljóta að vera æðiríkir fyrst þeir eru reiðubúnir til þess að veikja annars allgóða málefnastöðu í aðdraganda kosninga fyrir slíkan málstað.“

Herra forseti. Hér er býsna margt sagt í hnitmiðuðum texta. Það er hárrétt sem hér kemur fram, mönnum sem vilja standa vörð um menningarlegt útvarp á vegum ríkisins er algjörlega misboðið. Ekki síður er athyglisvert sem segir hér að þeim sé gefið langt nef sem vilja tryggja jafnræði á almennum markaði útvarpsstarfsemi. Það er nefnilega svo magnað að í þessu frumvarpi tekst í raun og veru að keyra gegn þessum hópum báðum. Ég er hins vegar alveg sannfærður um að það eru til margar leiðir sem ná utan um báða þessa hópa og tryggja eins og ég hef stundum sagt eins mikla sátt um þessa mikilvægu stofnun og fjölmiðlana almennt og nauðsynlegt er. Af einhverjum undarlegum ástæðum verður þessi stefna, eins og leiðarahöfundur segir, ekki skýrð með neinum skynsamlegum rökum. Það er kannski meginvandinn við málið og hina málefnalegu umræðu um málið að stjórnarliðar koma ekki hreint fram í því. Það er aldrei upplýst hver megintilgangurinn er. Hann hlýtur að vera einhver annar en maður sér á yfirborðinu. Ég hef minnst á ákveðna hluti í þeim efnum, þ.e. að þau öfl sem í raun og veru ráði för í málinu hafi annan tilgang en fram kemur. Við óttumst það, mörg, að sá tilgangur sé einmitt sá að veikja stofnunina enn frekar, tryggja að ófriður verði sem allra mestur um starfsemina þannig að þeir nái fram þeim tilgangi sínum að koma Ríkisútvarpinu burt. Þá munum við ekki hafa almannaútvarp með þeim hætti sem ég er sannfærður um að meiri hluti þjóðarinnar vill. Ég er klár á því að þessi öfl skynja það og sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hafa verið með frumvarp um að selja Ríkisútvarpið hafa sagt að með því að samþykkja þetta frumvarp sé stigið skref í þá átt að selja það. Þeir segja að þeir styðji það af því að þeir vita að það er ekki meiri hluti á þingi til að ganga lengra en þetta. Það er alveg augljóst mál hvert þeir vilja fara og ég óttast að þeir hafi að einhverju leyti ráðið för og það sé skýringin á þessu. Þess vegna er eðlilegt að leiðarahöfundur segi að þessi stefna ríkisstjórnarflokkanna verið ekki skýrð með neinum skynsamlegum rökum.

Með leyfi forseta held ég áfram lestrinum:

„Hitt er þó verra að því er haldið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að engin óvissa ríki um stöðu Ríkisútvarpsins ohf. gagnvart samkeppnisreglum og skuldbindingum landsins í EES-samningnum. Þetta er rangt. Annaðhvort er það sagt vísvitandi eða fyrir þá sök að ráðherrarnir hafa ekki fengið heiðarlega lögfræðiráðgjöf í málinu.“

Þetta er ansi sterkt til orða tekið en hárrétt lýsing. Að halda slíku fram er algjörlega rangt og í störfum menntamálanefndar hefur það komið fram mjög víða, og meira að segja frá Samkeppniseftirlitinu, að þetta er bara rangt. Þetta er algjörlega rangt. Það er gífurleg óvissa í þessu og það blasir við, einmitt vegna þessarar óvissu, að þá munu málaferli fara í gang og það mun verða ófriður af þeirri ástæðu um starfsemi Ríkisútvarpsins.

Með leyfi forseta held ég enn áfram:

„Athygli hefur vakið að stjórnvöld hafa haldið leyndum fyrir Alþingi mjög mikilvægum skjölum um samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA vegna samkeppnismálanna. Augljóst má vera að þeir sem bera stjórnskipulega ábyrgð á samkeppnismálum hafa talið að birting þeirra mundi veikja röksemdafærsluna.“

Það er auðvitað rétt hjá leiðarahöfundi að það er ekki hægt að draga neina aðra ályktun en þessa. Í umræðunni í dag, eftir að þessi leiðari var skrifaður, komu engar skýringar, hvorki frá fulltrúum í meiri hluta menntamálanefndar né hæstv. menntamálaráðherra. Engar skýringar, eingöngu reynt að þvæla málið og fullyrða að verið væri að gera úlfalda úr mýflugu þar sem gögnin hefðu verið afhent. Það var augljóst mál að ef ekki hefði verið upplýst að þessi samskipti hefðu átt sér stað hefðu þau aldrei verið upplýst eða a.m.k. ekki fyrr en löngu síðar og eftir að málinu hefði verið lokið. Það gerir málið ekkert minna eða ábyrgð ráðherrans minni að gögnin hafi þó verið afhent. Það hefur engin skýring komið á því enn af hverju ekki var frá því sagt að þau væru til staðar. Þess vegna er ekki hægt að draga neina aðra ályktun en þá að hefðu þau verið inni í myndinni hefði það veikt röksemdafærsluna.

Áfram held ég, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir að afgreiða á málið án tillits til þeirra efasemda sem þessi skjöl geyma. Fyrir liggur að innan skamms tíma mun Eftirlitsstofnun EFTA úrskurða í kærumáli sem hún hefur til meðferðar. Það getur haft veruleg áhrif á stöðu Ríkisútvarpsins. Rétt málsmeðferð hefði því verið að móta nýja löggjöf um Ríkisútvarpið þegar Evrópuskuldbindingarnar hafa verið skýrðar að þessu leyti af réttum aðilum.“

Herra forseti. Þessi ábending er að sjálfsögðu hárrétt. Það hefði verið eðlilegt að hinkra við með þetta mál gagnvart þessum þætti. Það hefði nefnilega, eins og við í minni hluta menntamálanefndar höfum gert tilraunir til að ná sáttum um, mátt taka á ýmsum þáttum í starfsemi Ríkisútvarpsins sem full þörf er á að taka á en hinkra með þessa þætti þar til mál skýrðust, þannig að við sköpuðum ekki þessa óvissu og þennan óróa að ástæðulausu þegar hægt er að koma í veg fyrir það. En hin pólitíska þráhyggja virðist því miður vera búin að ná slíkum tökum á einhverjum sem kemur að þessu ferli að meiri hluti þingheims virðist ætla að keyra þessa leið en taka ekki um leið afleiðingum gerða sinna. Við vitum að örstutt er í kosningar og afar ólíklegt að núverandi stjórnarmeirihluti haldi áfram þannig að aðrir taka þá afleiðingum þessara gerða. Það verður þó að segjast að það hefur tekist með þrautseigju minni hlutans að koma a.m.k. í veg fyrir að gildistakan verður þá ekki fyrr en í fyrsta lagi 1. febrúar ef ekki verða breytingar á hér á næstu dögum. Það verður auðvitað gerð lokatilraun til að reyna að skapa þær aðstæður að þessi óvissa komi ekki upp, enda öll rök sem hníga til þess, úr því sem komið er, að þetta mál bíði fram yfir kosningar, a.m.k. gildistakan.

Áfram held ég lestrinum, með leyfi forseta:

„Af áliti sem samtök auglýsenda hafa lagt fram vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar má draga þá ályktun að Ríkisútvarpið noti stöðu sína til þess að halda niðri auglýsingaverði með skatttekjum. Það samrýmist hvorki samkeppnislögum né skuldbindingum gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.“

Það er eðlilegt, herra forseti, að staldra örlítið við varðandi þennan þátt vegna þess að í umfjöllun menntamálanefndar hefur það komið mjög skýrt fram að samkvæmt Evrópuréttinum verður þetta aldrei leyft. Ef samkeppnisaðilar geta sýnt fram á það, eins og leiðarahöfundur bendir hér á að samtök auglýsenda hafi bent á, að auglýsingaverði sé haldið niðri og ríkisstyrkurinn þar af leiðandi notaður til þess mun það að sjálfsögðu þýða það, miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið, að Ríkisútvarpið gæti orðið dæmt til þess að skila hluta af ríkisstyrknum til baka, og þá óvíst hversu langt aftur í tímann það gæti orðið. Hér er verið að keyra mjög á gráu svæði og skapa slíka óvissu að það er algjörlega óviðunandi fyrir stofnunina. Þetta er býsna flókið og vandmeðfarið en það er rétt og augljóst, eins og leiðarahöfundur bendir á, að þegar Samtök auglýsenda koma fram og telja afar nauðsynlegt að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsingamarkaði vegna þess að þeir óttast að ella muni auglýsingaverð hækka og það verði þar af leiðandi dýrara að koma þeim upplýsingum áfram er a.m.k. hægt að segja að gefið sé í skyn að Ríkisútvarpið haldi niðri auglýsingaverði og noti um leið ríkisstyrkinn eða skatttekjur til að gera slíkt og halda áfram starfseminni. Þetta er algjörlega á skjön við samkeppnislögin og eins og ég hef áður sagt hefur Samkeppnisstofnun bent á að þetta sé með þeim hætti í frumvarpinu að það standist ekki samkeppnislög.

Áfram skal halda, með leyfi forseta:

„Samkeppniseftirlitið hefur lagt fram álit þar sem skýrt kemur fram að auglýsingasala fyrirhugaðs hlutafélags samhliða ríkisstyrk samræmist ekki samkeppnislögum. Engin ákvæði frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. víkja samkeppnislögum til hliðar með berum orðum eins og til að mynda er raunin varðandi sérlög um ákveðna þætti búvöruframleiðslunnar. Því er ekki unnt að staðhæfa að álit Samkeppniseftirlitsins hafi ekkert gildi. Yfirlýsingar þar um byggjast ekki á lögfræðilegum rökum.“

Virðulegur forseti. Ég held að ég hafi gleymt því áðan þegar ég gerði grein fyrir því hver ritaði þennan leiðara og bakgrunni hans, sem eðlilegt er að komi fram, að hann býr, auk alls þess sem ég nefndi áðan, yfir mikilli lögfræðiþekkingu, enda lögfræðingur og fyrrverandi dómsmálaráðherra. Leiðarahöfundur hefur þekkingu á því sem hann fjallar um og fer þar saman víðtæk þekking, bæði lögfræðileg, stjórnmálafræðileg og úr stjórnsýslunni sjálfri. En áfram skal haldið, með leyfi forseta:

„Skýr aðgreining á almennum útvarpsrekstri og sérstakri útvarpsþjónustu sem er forsenda ríkisumsvifa á þessu sviði kemur ekki fram í frumvarpinu eða þjónustusamningi við Ríkisútvarpið. Kröfum samkeppnislaga og skuldbindinga gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu hefur því ekki verið svarað með fullnægjandi hætti.“

Þetta er hárrétt og í samræmi við það sem við höfum haldið fram í umræðunum, að þannig er þetta mál keyrt áfram án þess að frá þeim hlutum sé gengið. Í raun er farið á skjön við ýmsa þætti í málinu. Í þessum kafla er minnst á þjónustusamninginn sem virðist hafa orðið til vegna ábendinga frá okkur í stjórnarandstöðunni og fyrirspurna um hann og eins í bréfaskiptum við ESA. Þannig virðist hann hafa orðið til. Eftir að hann varð til hefur þurft að útskýra hvað í honum felst og augljóst að við hann þarf að bæta, setja reglugerð eða a.m.k. bjarga ákveðnum þáttum fyrir horn gagnvart þjónustusamningnum. Hann er ekki nægilega skýr en er hins vegar augljóslega mjög þarfur og hefur að nokkru leyti styrkt stöðuna. Hann þarf þó að vera skýrari og tryggja ákveðna þætti betur. Það verður þrautin þyngri þegar að því kemur að meta hvað af ríkisstyrknum fer nákvæmlega til að sinna almannaútvarpi og hvar skilin verða við samkeppnisþættina. Þetta er sem sagt óskýrt.

Niðurlag leiðarans er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Það eru þessi atriði sem setja starfsumhverfi Ríkisútvarpsins í uppnám nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Þau verða því að öllum líkindum endanlega til lykta leidd fyrir dómstólum en ekki á Alþingi. Hvers vegna?“

Herra forseti. Þetta er lykilspurning. Hvernig stendur á því að meiri hluti Alþingis telur heppilegra að starfsumhverfi Ríkisútvarpsins sé sett í uppnám og að dómstólarnir þurfi að ákvarða hvernig við viljum hafa þessa hluti? Þetta er slík uppgjöf af hálfu ríkisstjórnarmeirihlutans að það er með ólíkindum. Ég vitna enn til orða hv. þm. Marðar Árnasonar varðandi það að líklega er engin hugsanleg skýring á keyrslunni á þessu máli og þeim undarlegu vinnubrögðum sem átt hafa sér stað önnur en pólitísk þráhyggja. Önnur skýring er vandfundin miðað við málsmeðferðina, ég tala ekki um að gera enn einu sinni tilraun eftir áramótin til að keyra frumvarpið fram, láta lögin taka gildi 1. apríl þegar kosningar fara fram 12. maí.

Virðulegur forseti. Það er ýmislegt í þessu máli sem eðlilegt væri að hyggja sérstaklega að. Mig langar til að minnast aðeins á réttindi starfsmanna. Töluverð umræða hefur átt sér stað um þau og ekki að ófyrirsynju. Við höfum orðið vör við það sem gerst hefur í sambærilegum ferlum. Flugumferðarstjóramálið var töluvert í fréttum og Matíssmálið hefur líka verið töluvert í fréttum. Hér er um að ræða í öllum tilfellum hliðstætt ferli við það sem þar á sér stað. Það virðist ætíð skapa ákveðinn vanda. Það kom t.d. fram hjá fulltrúa fjármálaráðuneytisins, sem kom sérstaklega á fund nefndarinnar til að fjalla um þessi mál, að það er voðalega lítið samræmi í hvaða leiðir eru farnar þegar rekstrarforminu er breytt. Þessi starfsmaður taldi eðlilegt, sem ég held að sé rétt niðurstaða, að semja rammalöggjöf til að reyna að festa þetta ferli og tryggja að ekki séu stöðugt sköpuð illindi og leiðindi meðal starfsmanna þegar slíkar breytingar verða, þ.e. það á væntanlega eftir að gerast í framtíðinni. Þá væri til bóta að setja málin í ákveðinn farveg.

Það er afar slæmt þegar því er haldið fram, sem því miður hefur gerst nokkrum sinnum hjá stjórnarliðum og jafnvel hæstv. ráðherrum, að réttindi starfsmannanna séu að fullu tryggð og verði að fullu sambærileg við það sem er í dag. Margoft hefur verið sýnt fram á, ég þarf ekki að eyða miklum tíma í það, að það er einfaldlega rangt. Það gengur ekki að menn skuli sífellt tala eins og þeir trúi þessu sjálfir. Það er miklu hreinlegra að segja að þeir vilji gera slíkar breytingar vegna þess að þeir telji einhvern hluta af réttindum starfsmanna óþarfan eða að þeim þurfi að breyta. Eðlilegast væri að gera það í viðræðum við stéttarfélögin og semja um breytingarnar. Það er athyglisvert að fyrir nokkrum árum var það ferli komið í gang. Fjármálaráðuneytið var í viðræðum við samtök opinberra starfsmanna og málin talin í eðlilegu ferli og allgóðar líkur á að ná mætti niðurstöðu þegar þáverandi fjármálaráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra, lagði fram frumvarp sem var algjörlega á skjön við þær viðræður sem áttu sér stað. Þar af leiðandi drógu stéttarfélögin sig út úr viðræðunum og málið er strand. Þar átti að leysa þessi mál og þá hefðu breytingar sem þessar verið mun einfaldari. Þá hefði verið samið um tiltekið ferli og í slíku ferli væri samin rammalöggjöf á borð við þá sem rætt var um á fundi menntamálanefndar. Þar með væri ekki skapað vandamál eins og hér á sér stað, líkt og hefur endurtekið sig þegar ráðist hefur verið í breytingar sem þessar.

Réttindi starfsmannanna eru ekki tryggð. Því er frekar hvimleitt þegar nokkrir hv. þingmenn koma fram í fjölmiðlum og gefa í skyn að sérstaklega sé unnið í þessum málum. Þannig hefur það því miður ekki verið þrátt fyrir að við í minni hlutanum höfum vakið sérstaka athygli á þessum þætti og bent á að ýmislegt væri hægt að gera til að lagfæra málið. Fulltrúar þessara stéttarfélaga hafa komið ítrekað á fundi nefndarinnar, bent á þetta og rakið málið býsna vel. Samt hafa engar breytingar verið gerðar. Það stefnir í óvissu þegar kjarasamningar þessa starfsfólks renna út. Það er síðan öruggt með ákveðna þætti, að þar munu réttindi starfsfólksins minnka.

Herra forseti. Við í minni hlutanum höfum ætíð lagt mikla áherslu á og lagt okkur fram um, á öllum stigum máls, sérstaklega á síðasta þingi þegar tókst að fá málið inn í nefndina eftir 2. umr. þegar við lögðum fram ítarlegt sáttatilboð sem gekk út á að leita leiða til að ná sem allra mestri sátt um Ríkisútvarpið. Það væri hægt að tína til fleiri stofnanir sem jafnnauðsynlegt er að sátt ríki um en við erum að ræða um Ríkisútvarpið.

Eitt af því sem alltaf hefur staðið í veginum er rekstrarformið. Ég vék að því áðan að mörg okkar telja að ástæðan fyrir því sé sú að aldrei hefur verið hægt að ræða um það. Meiri hlutinn hefur hreinlega alltaf sagt að það sé ekki til umræðu, að það sé niðurstaða stjórnarflokkanna að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.

Við teljum að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt, að ná fram stefnu ákveðins hluta Sjálfstæðisflokksins um að selja Ríkisútvarpið. Við fengum staðfestingu á því ekki alls fyrir löngu frá einum af vonarprinsum Framsóknarflokksins, þ.e. borgarfulltrúa þeirra Birni Inga Hrafnssyni, sem hefur farið nokkuð mikinn í Framsóknarflokknum á þeim árum sem hann hefur starfað þar. Hann hefur ýmsar upplýsingar sem við sem utan þess flokks stöndum höfum ekki, um ýmislegt sem tengist þessu máli. Þessi ágæti framsóknarmaður spurði: Hvers vegna að breyta í hlutafélag ef ekki á að selja?

Þetta er lykilspurning. Engin rök hafa verið færð fyrir því að hlutafélagavæða nema þau að það gagnist við að selja stofnunina. Þannig hefur þetta yfirleitt verið. Ég held að allir séu sammála um að ef það á að selja ríkisstofnun er skynsamlegast að breyta fyrst í hlutafélag áður en af sölunni verður. Það er bara hluti af söluferlinu. Þess vegna skortir á almennileg rök fyrir því af hverju breyta þurfi rekstrarforminu af því að í hinu orðinu er alltaf sagt að ekki standi til að selja. Af hálfu Framsóknarflokksins var gengið svo langt að setja inn merka setningu, sem fulltrúi Framsóknarflokksins í menntamálanefnd hefur alloft rifjað upp í ræðustól og talið sönnun þess að ekki ætti að selja, setningu sem bætt var inn í 1. gr. og hefur ekki fylgt með áður þegar slík skref hafa verið stigin. Við höfum margoft fengið það upplýst hjá gestum í menntamálanefnd að sú setning skipti akkúrat engu máli og það sé jafnauðvelt og einfalt ef vilji er til að selja að selja stofnunina, hvort sem þessi setning er til staðar eða ekki. Það er sama athöfnin á þingi, þ.e. að í báðum tilfellum þarf að breyta lögum.

Ég held að borgarfulltrúinn Björn Ingi Hrafnsson hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann spurði þessarar lykilspurningar: Hvers vegna að breyta í hlutafélag ef ekki á að selja? Jafnframt upplýsti hann að hann væri algjörlega andvígur slíku og taldi reyndar að meiri hluti framsóknarmanna væri því andvígur. Nokkrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins hafa mótmælt þeirri túlkun. Ég get voðalega litlu við það bætt. Þetta er bara orð gegn orði milli fólks sem þekkir þann vettvang miklu betur. Ég verð þó að benda á að það getur verið erfitt fyrir það ágæta fólk að draga slíkar ályktanir enda virðast slíkar breytingar á því hverjir eru framsóknarmenn frá degi til dags. Það er ábyggilega erfitt að átta sig á því hver er meiri hlutinn fyrir hverju. Það hlýtur að hafa áhrif á meiri hlutann hverju sinni hve stór hópurinn er.

Ég hef áður minnst á hversu óljóst það er í öllum skilgreiningum í þessu frumvarpi hvað telst almannaútvarp. Skilgreiningarnar eru afar opnar og loðnar. Það er ástæðan fyrir því, eins og ég hef komið nokkrum sinnum inn á, að Samkeppniseftirlitið og samkeppnisaðilar benda á að því megi halda fram með góðum rökum að ríkisstyrkur sé notaður í samkeppnisrekstur. Það er nokkuð sem við vitum að gengur ekki og mun valda ófriði um Ríkisútvarpið. Við höfum því lagt áherslu á að reyna að hnýta alla þá enda saman til að reyna að tryggja sem mestan frið um Ríkisútvarpið. Við teljum ekki á það bætandi að hafa stöðu þess svo óskýra sem gert er ráð fyrir hér. Það mun kalla á kærur. Í margumræddum leiðara Þorsteins Pálssonar kemur fram að fyrst stjórnvöld treysta sér ekki til að hafa skilgreiningar almennilegar og ljúka þessu máli með viðunandi hætti þá segir meiri hlutinn í raun: Við getum ekki staðið í þessu og verðum að láta dómstólana um málið. Það er varla hægt að hafa það miklu aumara, að ríkisstjórnarmeirihluti gefist svo upp fyrir máli að hann sendi málið til dómstóla til úrskurðar til að ákvarða hvernig hlutirnir eiga að vera.

Málið er sérstaklega alvarlegt þegar stofnun eins og Ríkisútvarpið á í hlut. Það verður aldrei nógu oft sagt hve mikilvægt er fyrir slíka stofnun að hafa frið um reksturinn. Það hefur ekki alltaf verið nægur friður um reksturinn og má segja að þau öfl í Sjálfstæðisflokknum sem keyra þetta mál áfram hafi í raun beitt áhrifum sínum — við skulum bara orða það beint út — til að veikja þessa stofnun, bæði með því að fara ekki í nauðsynlegar lagfæringar á rekstrinum og með því að tryggja ekki stofnuninni nægjanlegt fjármagn til að halda áfram rekstri hennar. Þetta hefði átt að vera búið að gera fyrir löngu. Það hefði mátt liðka verulega til, fara yfir alla þessa þætti og skoða þá gaumgæfilega. Það hefur ekki verið gert.

Það er alvarlegt þegar í ljós kemur að mikil óvissa er fram undan, ekki bara gagnvart þeim þáttum sem ég hef nefnt heldur líka í rekstri Ríkisútvarpsins. Þjónustusamningurinn sem gerður hefur verið gerir ráð fyrir ákveðnum þáttum sem eru skref í rétta átt. En samningurinn þarf að vera mun skýrari en hann er. Rekstraróvissan er m.a. sú sem við sjáum þegar við skoðum áætlanir sem gerðar hafa verið fram í tímann. Gert er ráð fyrir um 6% hagræði á ári hjá stofnuninni. En þrátt fyrir að gengið hafi verið á alla þá sem koma nálægt þeim áætlunum til að finna út hvernig eigi að ná hagræðingunni fram fást engin svör. Þegar við skoðum þessa pappíra, veltum fyrir okkur svörunum eða skorti á svörum, og lesum í framhaldinu bréf sem við höfum fengið, m.a. frá útvarpsstjóra, um að búið sé að hagræða eins og hægt er innan útvarpsins og hið eina sem eftir er sé að draga úr þjónustu hlýtur maður að velta fyrir sér hvaða þjónustu eigi að skera niður. Við því fást heldur ekki svör.

Það blasir við að fjárhagsáætlunin hefur verið gerð þannig að þar þurfti að sýna hagræðingu, einhverja fyrir fram gefna tölu sem fæst að lokum með talnaleikjum af þessu tagi. Það virðast engin rök fyrir áætluninni. Við vitum ekki enn hvernig stofnunin gerði þessa áætlun, hvort hún hafi verið fyrirskipuð eða hvað bjó að baki. Hins vegar fóru talnaglöggir menn, m.a. frá Ríkisendurskoðun, yfir það hvort allt væri rétt reiknað. Það er engin ástæða til að gera athugasemdir við slíkt en ég spyr hins vegar: Hvaða hagræðingu á að ná fram? Bent hefur verið á að hugsanlega muni einhverjir starfsmenn hætta, þ.e. að fækka megi starfsmönnum vegna þess að hugsanlega muni ekki allir þiggja starf hjá hinu nýja félagi. Það kallar á biðlaunagreiðslur. En eftir einhvern tíma getur orðið einhver sparnaður af því ef ekki er ráðið fólk í staðinn. Með því að gefa í skyn að það sé helsta sparnaðarleiðin hlýtur að mega gera ráð fyrir að þjónustan muni láta á sjá, ef margt fólk hættir störfum og ekki ráðnir nýir í staðinn. Ekki trúi ég því að útvarpsstjóri sé að gefa í skyn að við Ríkisútvarpið starfi einhverjir sem allt í lagi sé að hætti og engir bætist við. Við hljótum að spyrja hvar eigi að spara án þess að draga úr þjónustu og tryggja að Ríkisútvarpið gegni áfram skyldum sínum.

Herra forseti. Ég sé að klukkan nálgast miðnætti. Ég velti því fyrir mér hvort nú sé að renna upp sú stund að haldi ég mikið lengur áfram telji virðulegur forseti að háttvirtir þingmenn verði að einhverju leyti rændir nætursvefni. Það er spurning, herra forseti, hvort ekki sé eðlilegt að ljúka fundi hérna megin við miðnættið. Ég get á þessari stundu lokið þessari ræðu minni. Ég á ýmsa þætti eftir sem ég mundi koma að í seinni ræðu minni. En í trausti þess að við náum að ljúka fundi fyrir miðnætti lýk ég ræðu minni og bið virðulegan forseta að skrá mig á mælendaskrá aftur þannig að ég geti haldið seinni ræðu mína, miðað við áætlanir þingforseta, síðar í þessari viku.