133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú eru uppi miklar deilur um framtíð Ríkisútvarpsins, útvarps allra landsmanna. Annars vegar er ríkisstjórnin og sá meiri hluti sem hún styðst við hér á Alþingi og hins vegar er stjórnarandstaðan. Margir aðilar utan þingsins hafa látið sig málið varða og er það vel. Einn þeirra er útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins, Páll Magnússon. Hann hefur fullan rétt til þess að blanda sér í þessar umræður. Bæði hefur hann málfrelsi sem einstaklingur og hlýtur auk þess að blanda sér í umræðu um þá stofnun sem honum hefur verið treyst til að vera í forsvari fyrir.

En til hans eru gerðar kröfur, í fyrsta lagi að fara satt og rétt með og í öðru lagi að hann dragi ekki flokkspólitískan taum í umræðunni. Ég minni á að þetta er maður sem samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar á að fá alræðisvald yfir allri dagskrárgerð og öllu mannahaldi í Ríkisútvarpinu, jafnt á fréttastofum stofnunarinnar sem annars staðar í stofnuninni.

Í Morgunblaðinu í gær gerir útvarpsstjóri því skóna að starfsmenn Ríkisútvarpsins séu hlynntir frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er rangt. Stéttarsamtök starfsmanna eru frumvarpinu algerlega ósammála og vilja að því sé vísað frá. Í öðru lagi gerir hann því skóna að meiri hluti þjóðarinnar sé fylgjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hér vísar hann í Gallup-könnun frá því í haust sem hann lét sjálfur gera og er vægast sagt afar misvísandi svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Nú er útvarpsstjóri ekki hér til að verja hendur sínar en mér finnst nauðsynlegt að fram komi hjá hæstv. menntamálaráðherra hvort hún sé sammála málflutningi útvarpsstjóra. Um hitt spyr ég ekki hvort hún sé sammála framgöngu hans í þessu máli því það hefur sýnt sig að hún og hann eru eitt þegar um áróður fyrir þessu máli er að ræða. Þau hafa komið saman fram í fréttaþáttum Ríkisútvarpsins til að tala máli ríkisstjórnarinnar. Það er misnotkun og það er óeðlilegt.