133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:35]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að hæstv. menntamálaráðherra komi hér og svari fyrir framgöngu útvarpsstjóra í þessu máli. Útvarpsstjóri heyrir undir ráðherrann og þau hafa unnið saman á margvíslegan hátt í þessum efnum að undanförnu og það er orðið mikið umhugsunarefni með hvaða hætti útvarpsstjóri beitir sér grímulaust í þessu máli sem er mjög pólitískt, sem er mikið átakamál og sem er mikið í fréttum. Þar á meðal þarf Ríkisútvarpið væntanlega að sinna skyldum sínum og miðla hlutlægum fréttum af átökunum um þetta mál.

Er ekki útvarpsstjóri útvarpsstjóri útvarps allra landsmanna? Upplifir hann sig ekki lengur með þær skyldur að reyna að sameina landsmenn á bak við þessa stofnun? Er hann ekki líka útvarpsstjóri okkar í stjórnarandstöðunni? Hvernig eigum við að líta á það þegar útvarpsstjóri keyrir inn í mikið pólitískt átakamál af þessu tagi með þeim hætti sem hann gerir og fer hamförum í áróðri fyrir þessu umdeilda stjórnarfrumvarpi? Í hvaða stöðu setur það fréttamenn Ríkisútvarpsins þegar yfirmaður þeirra gengur fram með þessum hætti? Er þetta viðeigandi? Er þetta í samræmi við hlutverk Ríkisútvarpsins? Ég segi nei. En er þetta kannski forsmekkurinn að því sem koma skal, frú forseti? Það er spurningin. Á að búa hérna til harðpólitískan útvarpsstjóra í þágu ríkjandi valdhafa á hverjum tíma? Ég held að þessi góði maður, sem og ráðherrann, þurfi að hugsa sinn gang um það í hvað stefnir í þessum efnum og hvaða áhrif þetta hefur auðvitað á stöðu starfsmanna almennt. Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að svara fyrir það hér hvort þetta geti gengið svona. (Forseti hringir.)