133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mikið vandaverk að fara fyrir opinberri stofnun og það er eðlilegt að þjóðin geri ákveðnar kröfur til þess fólks sem það gerir. Það er í þjónustu okkar, þetta fólk. Okkur finnst það vera ráðið hjá okkur og við gerum ákveðnar kröfur t.d. til þjóðleikhússtjóra, til landsbókavarðar, þjóðminjavarðar og við gerum kröfur til útvarpsstjóra. Þetta virðist eitthvað hafa þvælst fyrir Páli Magnússyni og það virðist líka eitthvað þvælast fyrir hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur. Það er afar miður. En sem nefndarmaður í menntamálanefnd verð ég að gefa þá yfirlýsingu hér að fulltrúar starfsmanna Ríkisútvarpsins hafa komið á nokkuð marga fundi hjá nefndinni og það er rangt sem hér er sagt í grein Páls Magnússonar í Morgunblaðinu í gær um afstöðu Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins sem eru mjög óskilgreind samtök starfsmanna sem hafa komið fyrir nefndina — fulltrúar þessara samtaka hafa lýst miklum efasemdum. Það á við um Jóhönnu Margréti Einarsdóttur sem er formaður þessara samtaka núna og það á við um Jórunni Sigurðardóttur sem kom með henni á okkar fund fyrir skemmstu.

Miklar efasemdir eru í öllum ummælum starfsmanna um það ætlunarverk sem hér er í höndum menntamálaráðherra og mjög alvarlegar ávirðingar hafa komið frá launþegasamtökum þeirra sem starfsmennirnir eiga aðild að. Hér er því bara rangt farið með. Það er verið að villa um fyrir fólki og það er alvarlegt að útvarpsstjóri skuli fara þá leið sem hann gerir í þessari grein. Það rýrir trúverðugleika hans og veikir stöðu hans til muna sem satt að segja hefur auðvitað ekki verið sterk til þessa í þeim átökum sem hafa átt sér stað um það ætlunarverk ríkisstjórnarinnar að einkavæða Ríkisútvarpið.