133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:43]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það fer að verða skemmtilegt hvernig raðað er á mælendaskrá en gott að það myndast einhverjar skýrar reglur um þau mál hér á þinginu. Ástæðan fyrir því að ég kem upp hér er einmitt þessi grein útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins. Það vekur athygli manns að Páll Magnússon lítur greinilega ekki á sig lengur sem útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins, heldur Ríkisútvarpsins ohf. Það sem meira er, ég held að það megi lesa úr öllum ummælum Páls Magnússonar að hann er ekki bara útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins ohf., heldur fyrst og fremst ríkisútvarpsstjóri ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað dálítið skrýtin staða, og alveg ný í málinu.

Það væri hægt að hafa langt mál, frú forseti, um grein Páls Magnússonar sem birtist í Morgunblaðinu í gær og ber yfirskriftina „Hagsmunavakt Fréttablaðsins“ og hefst með þessum orðum: „Fréttablaðið lemst enn um á hæl og hnakka í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína þegar það fjallar um fyrirhugaðar breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins.“ Þetta er skemmtileg fullyrðing og kannski merkileg, sérstaklega í ljósi þess að útvarpsstjórinn okkar allra berst einmitt á hæl og hnakka fyrir ríkisstjórnarflokkana, og fyrst og fremst reyndar Sjálfstæðisflokkinn þegar hann er í hagsmunagæslu fyrir þann flokk. Það ber að athuga, frú forseti, og finnst mér það mjög ámælisvert svo að ekki sé meira sagt.