133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:50]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Páll Magnússon útvarpsstjóri hefur málfrelsi eins og allir aðrir Íslendingar. Það er alveg klárt að öllu frelsi fylgir líka ábyrgð. Það er skylda Páls Magnússonar útvarpsstjóra að verja stofnun sína á málefnalegan hátt. Hann verður hins vegar að beita þeirri dómgreind sem honum er gefin af almættinu til að vega og meta með hvaða hætti hann kýs að beita þessu frelsi. Ég tel t.d. að hann megi ekki beita því með þeim hætti að það geti dregið í efa trúverðugleika þeirrar stofnunar sem hann veitir forstöðu. Það er stofnun sem töluvert öðru máli gegnir um en ýmsar aðrar þær stofnanir sem hæstv. menntamálaráðherra hefur vísað hér til. Ríkisútvarpið á að segja hlutlægar fréttir af gangi máli, m.a. segja fréttir af RÚV-málinu.

Þegar við áttum í harðri deilu um fjölmiðlafrumvarpið á sínum tíma komu ýmsir talsmenn Sjálfstæðisflokksins og sögðu að ómögulegt væri að tala um sjálfstæða fréttamenn vegna þess að yfirmenn á fjölmiðlum drægju taum eigenda sinna og smituðu síðan gagnvart starfsmönnunum, slægju tóninn. (Gripið fram í: Og því hafnaði …) Þegar útvarpsstjóri blandar sér með ómálefnalegum hætti, persónulegum árásum á andstæðinga frumvarpsins án þess að tefla fram málefnalegum rökum, slær hann tóninn gagnvart starfsmönnum sínum og þá er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort frásögn RÚV af RÚV sé alltaf hlutlæg. (Gripið fram í.) Er þetta t.d. ástæðan fyrir því (Menntmrh.: Þetta eru ósmekklegar ásakanir á starfsmenn Ríkisútvarpsins.) (Gripið fram í.) að RÚV sagði engar fréttir af því þegar stjórnarandstaðan mótmælti gerræði hv. snillingsformanns menntamálanefndar? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Er það vegna þess að útvarpsstjóra brast að meta málið rétt (Forseti hringir.) og sló tóninn með þeim hætti að við njótum ekki hlutlægni í fréttum RÚV af RÚV? (Gripið fram í.)