133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

ummæli útvarpsstjóra.

[10:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er enginn að gagnrýna það að forstöðumenn ríkisstofnana blandi sér í almenna umræðu um þær stofnanir sem þeim er treyst að vera í forsvari fyrir. Ég tók það fram í máli mínu í upphafi. Þeir eiga hins vegar að fara satt og rétt með. Ég staðhæfi að útvarpsstjóri, Páll Magnússon, hafi (Gripið fram í.) orðið uppvís að ósannsögli. Það hefur verið sagt að hann segi eitt á einum stað og annað annars staðar. Ég sagði í umræðu í gær að hann hefði sagt eitt við starfsmenn um réttindi þeirra og annað við þingnefnd um sama efni.

Hér er til umræðu blaðagrein sem hann birti í Morgunblaðinu í gær þar sem hann aftur verður uppvís að því að fara rangt með. Það er þetta sem verið er að gagnrýna. Í fyrsta lagi gerir hann því skóna að starfsmenn séu fylgjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er alrangt, þetta er ósatt.

Í annan stað staðhæfir hann á grundvelli Gallup-könnunar frá í sumar að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar sé fylgjandi frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þetta er Gallup-könnun sem gerð var að frumkvæði hans í haust. Ekki var spurt (Gripið fram í.) í þeirri könnun hvort fólk vildi að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Ekki var spurt um það. Það var gefið í skyn að þessi breyting hefði þegar átt sér stað. Þess var hvergi getið í fréttum Ríkisútvarpsins í septembermánuði þegar um þetta var fjallað að 28% gáfu ekki upp neina afstöðu. Þegar málið er skoðað í heild sinni var undir helmingur þeirra sem spurðir voru á þessu máli sem er þó langsótt að túlka á þann veg sem gert hefur verið. Það er þetta sem hefur verið til umfjöllunar, að forstöðumenn ríkisstofnana fari satt og rétt með. Um það snýst málið.