133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið og samkeppnislög.

[11:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að ræða fundarstjórn forseta. Ég ætla að spyrja hæstv. forseta hvað fyrirhugað sé um fundarhaldið í dag, m.a. vegna þess að í gær var fundað stíft og byrjað fyrr en venjulega er gert á mánudögum og fundað fram undir miðnætti, ef ég þekki það rétt. Ég var ekki í salnum nákvæmlega þegar fundi lauk en það má segja að orðið hafi síðkvölds- eða næturfundur í gær. Mér finnst að við þingmenn eigum heimtingu á að fá að vita hvernig forseti hyggst haga fundarhaldinu í dag og hvort ekki megi treysta því að ekki verði kvöldfundur, ekki verði brotin sú hefð sem yfirleitt er reynt að fylgja, að það séu ekki kvöld- og næturfundir tvo daga í röð heldur líði gjarnan sólarhringur á milli þangað til aftur er gripið til slíkra úrræða ef menn telja þeirra þörf. En ég sé ekki í þessu tilviki að það þurfi að standa í stórkostlega afbrigðilegu þinghaldi bara út af því að ríkisstjórnin á orðið svo bágt í þessu máli og vilji koma því út úr heiminum. Ég held að hún verði að þola að málið sé rætt og menn nýti sér þinglegan rétt sinn til þess að takast á við þetta mál.

Síðan vil ég segja um umræðuna, frú forseti, og hvernig henni fram vindur, m.a. vegna orðaskipta hér áður, að ég held að það greiddi fyrir umræðunni að formaður menntamálanefndar og hæstv. ráðherrar svöruðu spurningum sem fram hafa komið, svöruðu fyrir nýja fleti sem sífellt koma upp í þessu máli. Ég vil frekar nálgast málið þannig að það sé skylda þeirra að gera það og við þingmenn eigum heimtingu á að ábyrgðarmenn málsins, formaður nefndar, sem hefur stýrt vinnunni í menntamálanefnd, og hæstv. ráðherra komi inn í umræðuna eftir atvikum og svari fyrir um slíka hluti. Þannig á þetta að virka. Þannig eiga umræðurnar að vera, að ábyrgðarmenn mála séu ekki bara við umræðuna og taki niður hjá sér spurningar sem koma fram heldur bregðist þeir við og svari eftir atvikum á réttum stöðum.

Ég held líka að hæstv. ráðherra þurfi að gera betur en henni tókst áðan í að svara fyrir framgöngu útvarpsstjóra, svo lengi sem hann á að heita yfirmaður þjóðarútvarpsins og útvarpsstjóri okkar allra. Það væri fróðlegt að hæstv. ráðherra upplýsti um hvernig starfsemi Ríkisútvarpsins hefur verið á undanförnum mánuðum borið saman við gildandi lög. Er það rétt sem menn fá í enn meira mæli á tilfinninguna, að útvarpsstjóri sé farinn að hegða sér eins og þetta sé þegar orðið hans einkahlutafélag?

Hvernig er með útvarpsráð? Einhvern tímann hefði útvarpsráð komið saman og velt fyrir sér hvort útvarpsstjóri væri á réttu róli með því að blanda sér í pólitísk deilumál eins og hann hefur nú orðið ber að. Hvernig er með fundarhöld útvarpsráðs? (Forseti hringir.) Getur hæstv. menntamálaráðherra upplýst okkur um hversu virkt það hefur verið að undanförnu?