133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið og samkeppnislög.

[11:07]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil benda á, af því að við erum að ræða fundarstjórn, að í ræðustól koma hv. þingmenn, sumir trekk í trekk, til að spyrja menn hér spurninga og reyndar, það sem verra er, að gera þeim upp skoðanir. Því var hér haldið fram áðan af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann átti að ræða um fundarstjórn forseta, að ég hefði í ræðu í gær haldið því fram að ég væri þeirrar skoðunar að þetta frumvarp stæðist ekki samkeppnisreglur, hvorki íslenskar né evrópskar.

Hv. þingmaður spurði mig (Gripið fram í.) og ég svaraði spurningu hans þrisvar. Í síðara skiptið svaraði ég hv. þingmanni, með leyfi forseta:

„Frú forseti. Hafi ég ekki svarað spurningunni — sem ég svaraði reyndar neitandi áðan — segi ég, frú forseti: Við í stjórnarmeirihlutanum teljum okkur vera á þurru landi hvað varðar þetta frumvarp með hliðsjón af reglum íslensks samkeppnisréttar annars vegar og hins vegar hvað varðar evrópskan samkeppnisrétt.“

Af hverju í ósköpunum getur hv. þm. Össur Skarphéðinsson aldrei haft rétt eftir mönnum? Hann gerir mönnum endalaust upp skoðanir (ÖS: Ég spurði spurningar.) og gerir það þegar hann á að vera að ræða fundarstjórn forseta. Ég ætla að biðja hv. þingmann, og vonast til þess að hæstv. forseti geri það sama, að ræða um fundarstjórn forseta þegar hann óskar eftir að taka til máls undir þeim lið í stað þess að gera mönnum upp skoðanir og hafa rangt eftir þeim. Það hefur hv. þingmaður gert.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á að það væri eðlilegt að hæstv. menntamálaráðherra og ég sem formaður nefndarinnar mundum svara spurningum sem varpað hefur verið fram. Mér finnst eðlilegt að það verði gert en hvorki hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon né hv. þm. Össur Skarphéðinsson ráða því hvenær ég fer á mælendaskrá eða hvað ég segi. Það er ekki þeirra að ákveða það hvernig aðrir sitja og standa (ÖS: Þú verður að standa við orð þín.) en þegar ég horfi yfir salinn þá sé ég hvergi glytta í varaformann Samfylkingarinnar. Ég bíð spenntur eftir því að varaformaður Samfylkingarinnar, sem hefur lýst því yfir að hann sé hlynntur því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, komi hingað og viðri sín sjónarmið. Auðvitað gerir hann það ekki vegna þess að þetta mál er slíkt vandræðamál fyrir Samfylkinguna að maður hefur sjaldan séð annað eins hér í umræðum á þinginu. Það er varaformaður Samfylkingarinnar, sem hlýtur að fara fyrir einhverjum hópi innan þess flokks, hann er nú varla eintrjáningur í þeim flokki, þá væri hann ekki varaformaður. Ég bíð þess hann komi hingað. Hann verður að koma hingað til að viðra sjónarmið sín til þessa máls. Ég hlakka til að fá stuðning þess hv. þingmanns við það frumvarp sem hér er til umræðu (Gripið fram í: Af hverju …) og bíð eftir því að hann geri það. (Gripið fram í.) Ég hef margoft gert það, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Ég hef gert það í tugum þingræðna. En ég bíð eftir og lýsi eftir Ágústi Ólafi Ágústssyni hingað í ræðustól Alþingis. Ég hlakka til að hlusta á hann og mun að þeirri ræðu lokinni halda aðra ræðu mína af þremur.