133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[11:43]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið fróðlegar og skemmtilegar umræður í morgun og hafa varpað ljósi á ýmsa þætti þess máls sem við ræðum nú og er held ég að verða eitt versta stjórnarfrumvarp sem hefur komið fyrir Alþingi í háa herrans tíð þar sem útreið hæstv. menntamálaráðherra er að verða með algerum ólíkindum. Það er búið að afgreiða málið fimm sinnum út úr menntamálanefnd Alþingis, í öll skiptin að því er skilja má stjórnarmeirihlutann, í síðasta sinn. Í hvert einasta skipti hefur málið tekið stakkaskiptum, rekstrarformin hafa breyst og hæstv. menntamálaráðherra og forusta stjórnarflokkanna í menntamálanefnd hafa hrakist stanslaust undan í málinu frá því að það kom fyrst inn í sali Alþingis í upphafi þessa kjörtímabils og nú stefnir í mikið óefni.

Það urðu miklar umræður um málið í þinginu í gær og ég mun fara yfir það næstu mínúturnar og klukkutímana af hverju þetta mál er jafnafleitt og raun ber vitni. Þar kemur margt til og það hefur, ef eitthvað er, versnað núna í meðförum þingsins, sérstaklega eftir að gert var ljóst í mjög hörðum umræðum í gær að hæstv. menntamálaráðherra hefði leynt þingið mjög mikilsverðum gögnum, gögnum sem varða rekstrarform Ríkisútvarpsins og tilvist þess til framtíðar. Það eru gögn sem snúa beint að því hvort ríkinu sé heimilt samkvæmt Evrópureglum að reka ríkisfjölmiðil sem opinbert hlutafélag sem nýtur allra þeirra fyrirgreiðslna og ívilnana sem opinbert fyrirtæki gerir með opinberu fjármagni upp á 2 milljarða á ári í samkeppni við einkarekna ljósvakamiðla á sama tíma. Gangi það eftir og félli málið þannig gagnvart Ríkisútvarpinu að þetta væri óeðlileg samkeppnisstaða sem ekki væri hægt að una gæti Ríkisútvarpið þurft að standa í háum skaðabótagreiðslum sem mundu að sjálfsögðu ógna tilvist útvarpsins. Nefnd hafa verið dæmi frá TV2 í Danmörku þar sem samkeppnisstofnun þar komst að þeirri niðurstöðu að niðurgreiðsla hins opinbera á rekstrarhluta þess bryti í bága við lög og reglur og þar væri um að ræða óeðlilega niðurgreiðslu á auglýsingum með opinberu fé.

Það var mjög alvarlegt þegar það var upplýst hér í gær að hæstv. menntamálaráðherra hefði bókstaflega leynt tilvist þessara gagna, leynt sinn eigin formann menntamálanefndar tilvist þessara gagna þannig að þingið gæti ekki fjallað um þessi mikilsverðu gögn sem varða tilvist og rekstrargrundvöll útvarpsins til allrar framtíðar. Hæstv. menntamálaráðherra sat hér í gær undir þeim alvarlegu ásökunum að hafa leynt Alþingi Íslendinga þessum gögnum, gerði í raun og veru engar tilraunir til að bera það af sér sem orð er á gerandi og sat eftir með það að málið er að því leyti í uppnámi, þó svo að ríkisstjórnarflokkarnir kysu að keyra það í gegn og gera það að lögum með gildistöku 1. apríl sem er rétt tæpum sex vikum fyrir alþingiskosningar. Að sjálfsögðu er það algjört grundvallaratriði, ætli meiri hlutinn í þinginu að gera málið að lögum á næstu vikum, að gildistökuákvæðinu verði frestað fram yfir kosningar til að nýrri ríkisstjórn í vor geti gefist ráðrúm til að breyta lögunum aftur áður en þau taka gildi þannig að það verði ekki of mikið rót á rekstri Ríkisútvarpsins. Þetta er þáttur af því sáttaboði sem fór fram af hálfu stjórnarandstöðunnar fyrir skömmu.

Eitt af því sem ég ætlaði að fjalla sérstaklega um í dag og hef fjallað um oft og ítarlega í umræðum um Ríkisútvarpið, í öllum fjórum umræðunum sem hafa farið fram um það nú þegar, er staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Í fyrsta lagi held ég að staða Ríkisútvarpsins sem opinbers hlutafélags á auglýsingamarkaði án nokkurrar takmörkunar á kostun og auglýsingasölu sé mjög óeðlileg og ósanngjörn gagnvart einkareknu ljósvakamiðlunum. Ísland er að sjálfsögðu afskaplega lítill markaður fyrir fjölmiðla og það er algjört grundvallaratriði að stjórnvöld gæti hófs og sanngirni gagnvart annarri fjölmiðlun í landinu en þeirri opinberu sem stjórnvöld standa sjálf að.

Það er í fyrsta lagi umdeilanlegt hvort ríkið sem slíkt eigi að vera að vasast í fjölmiðlarekstri með neinum hætti. Það er t.d. ekki gefið út ríkisrekið dagblað á Íslandi eða ríkisrekin tímarit og það hljóta að vera ástæður fyrir því. Jú, slík útgáfa er miklu betur komin í höndum einkaaðila. Með sama hætti er það algjört grundvallaratriði að við, Alþingi Íslendinga, sköpum aðstæður og umhverfi fyrir einkarekna fjölmiðlun í landinu, að einkarekin ljósvakamiðlun fái þrifist á þeim litla markaði sem 300 þúsund manna þjóð býður upp á og er auk þess í samkeppni við heiminn allan í gegnum gervihnattastöðvarnar, við internetið þar sem ofurfjölmiðlun á öllum sviðum flæðir nú yfir fólk. Það mun verða sífellt örðugra í framtíðinni að halda úti arðvænlegum ljósvakarekstri þar sem samkeppnin við aðra miðlun, sérstaklega við netið og erlenda miðlun í gegnum gervihnetti, er svo mikil sem raun ber vitni. Þess vegna er mjög óeðlilegt að ríkið skapi nú þá aðstöðu fyrir Ríkisútvarpið sem á áfram að vera ríkisútvarp. Ég er sannfærður um að við sem þjóð og ríki eigum að halda úti öflugu almannaútvarpi, ég held að það séu ástæður og rök fyrir því, sem er ekki sjálfgefið eins og ég sagði áðan, að hið opinbera haldi úti öflugri fjölmiðlun í útvarpi og sjónvarpi þar sem skilgreint er sérstaklega hvernig efni hún miðlar, fréttatengdu, menningartengdu efni sem er ekki boðið upp á annars staðar. Það eru menningarleg og samfélagsleg rök fyrir því að ríkið haldi úti öflugu almannaútvarpi og þess vegna eigum við að nota þetta tækifæri, þegar verið er að setja ný lög um Ríkisútvarpið, til að endurskilgreina inntak hins nýja almannaútvarps til framtíðar um leið og við finnum því það rekstrarform sem er heppilegast fyrir almannaþjónustu, rekstur sem er byggður á þjónustu við fólkið eins og margar aðrar frægar sjálfseignarstofnanir í íslensku samfélagi. Þeim er ekki haldið úti með það að markmiði að græða fé heldur til að þjónusta fólkið. Hlutafélagaformið hefur gefist afskaplega vel í samkeppnisrekstri hvers konar sem haldið er úti á ýmsum sviðum en það er algjörlega fráleitt rekstrarform utan um almannaþjónustu. Þar eru sjálfseignarstofnunarformið og ýmis önnur rekstrarform miklu betri. Utan um hvers konar „public service“, almannaþjónustu, er hlutafélagaformið fráleitt. Það er bara ein ástæða fyrir því. Ef opinberri stofnun er breytt í hlutafélag og um það eru mýmörg dæmi, þ.e. ef það á að selja hana og einkavæða, þá er það sjálfsögð millilending, sjálfsagt skref í þá átt að selja stofnunina að gera hana fyrst að hlutafélagi og taka svo einhverjum missirum seinna skrefið til fulls og selja hana. Ég er sannfærður um að það er markmið Sjálfstæðisflokksins í ríkisútvarpsmálinu.

Sjálfstæðisflokknum er ekki umhugað um almannaútvarpið. Hann vill, að ég held, ef marka má þingmál frá mörgum af þeirra öflugustu og herskáustu þingmönnum, selja Ríkisútvarpið og þessi málarekstur hér er liður í því, jafneinkennilega og þetta kemur út fyrir fjölmiðlamarkaðinn allan, skekkir alla myndina. Fyrst á að reyna að styrkja ákveðna þætti rekstursins á kostnað einkarekinnar fjölmiðlunar sem gæti síðan haft mjög alvarlegar afleiðingar félli samkeppnisdómur yfir rekstri stofnunarinnar á þá leið að þar væri óeðlilega að hlutum staðið og samkeppnisforskot Ríkisútvarpsins væri óeðlilegt. Samkeppnisráðið komst að þeirri niðurstöðu að það yrði að taka Ríkisútvarpið út af auglýsingamarkaði eða stofna sérstaka rás utan um almannaþjónustuhlutverkið og aðra þar sem seldar væru auglýsingar á.

Við höfum talað fyrir því að huga verði að því af því að fjármögnun Ríkisútvarpsins er blönduð, annars vegar með ríkisframlagi og hins vegar með sérstökum tekjum, auglýsingatekjum, að það hlutfall lækki frá því sem nú er og verði ekki hærra en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins. Þetta lagði Samfylkingin til í fréttatilkynningu þann 7. desember þar sem hún kynnti afdráttarlaust stefnu sína í málefnum Ríkisútvarpsins og sagði að við vildum sjálfstætt og öflugt almannaútvarp. Hugmyndir okkar miða að því að skerpa sérstöðu Ríkisútvarpsins á íslenskum fjölmiðlamarkaði jafnframt því að skapa öðrum fjölmiðlum eðlilegt svigrúm til að dafna í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Samfylkingin telur að frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. nái ekki þessum markmiðum en viðhaldi pólitískri íhlutun sem vegi að sjálfstæði stofnunarinnar. Frumvarpið veldur mikilli óvissu um framtíð Ríkisútvarpsins og líklegt er að samþykkt þessi fylgdu auknar deilur og málaferli heima og erlendis. Þau málaferli gætu ógnað tilvist Ríkisútvarpsins til allrar framtíðar. Þess vegna var það svo alvarlegt að hæstv. menntamálaráðherra skyldi leyna gögnunum sem lúta að samskiptum íslenskra stjórnvalda og ESA af því að þau snúa að því grundvallaratriði til hvers málaferlin gætu leitt.

Hugmyndir Samfylkingarinnar miða að því að skapa sátt á milli andstæðra sjónarmiða og fá starfsfrið um Ríkisútvarpið til allrar framtíðar. Því leggjum við til að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun með eigin stjórn sem Alþingi kýs. Að auki eigi starfsmenn Ríkisútvarpsins fulltrúa í stjórninni þannig að tryggt sé að ekki myndist ríkisstjórnarmeirihluti í henni. Eins og frumvarpið er lagt upp nú og liggur fyrir Alþingi kemur hæstv. menntamálaráðherra sér upp pólitísku kverkataki á stjórn Ríkisútvarpsins með því að kjósa stjórnina á hverju einasta ári og meiri hlutinn í henni verði alltaf ríkisstjórnarmeirihluti. Þetta er mjög alvarlegt mál þar sem það skiptir öllu máli fyrir öflugt almannaútvarp til framtíðar að það fái sjálfstæði og vinnufrið frá pólitískri íhlutun ríkisstjórnarmeirihluta hverju sinni.

Fréttastjóramálið dæmalausa fyrir nokkrum missirum síðan var skólabókardæmi um það hvað pólitísk íhlutun getur leikið opinberan fjölmiðil hrikalega. Ríkisútvarpið og fréttastofan lifðu það vissulega af og biðu engan skaða af. Það var af því að innstæða fréttastofunnar var óhemju mikil og er óhemju mikil hjá þjóðinni og skakkaföllin voru ekki svo alvarleg að henni tækist ekki að rétta úr kútnum aftur. Þar var gerð atlaga af Framsóknarflokknum til að koma sér upp sínum fréttastjóra og ná þannig einbeittari og auknum pólitískum ítökum inni á fréttastofunni og í fjölmiðlinum. Þetta pólitíska tak þarf að losa um. Samfylkingin leggur mikla áherslu á að hin nýja sjálfseignarstofnun sem við viljum stofna utan um Ríkisútvarpið sé með sína eigin stjórn, útvarpsráð verði lagt niður og að auki eigi starfsmenn fjölmiðilsins sinn fulltrúa í stjórninni, það sé tryggt að aldrei myndist ríkisstjórnarmeirihluti í stjórninni þannig að meiri hlutinn í þinginu hverju sinni deili þar ekki og drottni og stjórni fjölmiðlinum eftir einhverjum geðþótta stjórnenda hverju sinni.

Við viljum að almenningur eigi að auki aðkomu að stefnumótun Ríkisútvarpsins fyrir tilstilli sérstaks hlustendaþings sem komi saman einu sinni á ári. Útvarpsráð verði lagt niður og pólitísk afskipti af innri málefnum útvarpsins afnumin. Við viljum afnema pólitísk afskipti af innri málefnum en frumvarp menntamálaráðherra, sem við ræðum hér, stóreykur pólitísk afskipti af innri málefnum útvarpsins. Það er hörmuleg öfugþróun og grátlegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli leggja þetta fram í sínu frumvarpi. Við viljum, eins og ég nefndi áðan, að fjármögnun útvarpsins verði blönduð, annars vegar með ríkisframlagi og sérstökum öðrum tekjum en hins vegar með auglýsingatekjum sem þó lækki frá því sem nú er og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum Ríkisútvarpsins.

Við í Samfylkingunni leggjum áherslu á að Ríkisútvarpið er almannaútvarp og út frá því á að ganga. Við viljum að Ríkisútvarpið beiti sér í auknum mæli að því í framtíðinni að miðla efni í samræmi við það í stað þess að standa í blóðugri samkeppni við einkareknu fjölmiðlana um að miðla vinsælu amerísku sjónvarpsefni hverju sinni. Dagskrárstefnan ætti fremur að miðast við vandaðan fréttaflutning, menningarmiðlun, fræðslu og lýðræðislega umræðu.

Hlutverk almannaútvarps er m.a. að halda úti öflugri miðlun upplýsinga af dægurmálum, öflugri fréttaþjónustu og halda uppi, styrkja og styðja við bakið á lýðræðislegri umræðu. Það gerir Ríkisútvarpið með mjög myndarlegum hætti og margvíslegum. Kastljósið í Ríkissjónvarpinu er gott dæmi um það, frábær sjónvarpsþáttur þar sem haldið er úti mjög öflugri, vandaðri en samt gagnrýninni samfélagslegri umræðu á hverju einasta kvöldi, nema laugardagskvöld.

Sex daga vikunnar er Kastljósið í loftinu og er meginþáttur í lýðræðislegri miðlun útvarpsins. Þátturinn er á besta sjónvarpstíma, klukkan tuttugu mínútur í átta á hverju einasta kvöldi á eftir fréttum. Áhorfið er gífurlega mikið og áhrif slíkra þátta á íslenskt þjóðlíf eru gífurleg. Við horfðum t.d. í gær á hv. formann Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, valta yfir hæstv. fjármálaráðherra í umræðum um evru og gengismál. Þar kom fjármálaráðherra eins og af fjöllum. Þetta var mjög skemmtilegt sjónvarpsefni en í leiðinni mikilvægt fyrir lýðræðislega umræðu um stjórnmál í landinu. Þetta getur Ríkisútvarpið gert skínandi vel.

Nefna mætti marga aðra þætti en Kastljós, það mætti nefna marga fyrirtaks þætti af Rás eitt, úr útvarpinu, sem gegna svipuðu hlutverki. Það mætti t.d. nefna Spegilinn frá í gær. Þar var útvarpað með ítarlegum hætti umræðum af þinginu frá því fyrr um daginn, um Ríkisútvarpið. Fyrst kom frétt í útvarpinu, stutt frásögn en svo var ítarleg 7–9 mínútna fréttaskýring þar fjallað var betur um málið. Þar er frábær fréttaskýringarþáttur í Ríkisútvarpinu strax á eftir fréttum. Margir aðrir þættir eru á dagskrá og fjalla um hin ýmsu mál. Áður fyrr voru t.d. þættir sem fjölluðu sérstaklega um sjávarútveginn o.s.frv.

Við viljum halda úti slíkri miðlun upplýsinga í almannaútvarpi inn í framtíðina. Við getum ekki gert slíkar kröfur til einkareknu miðlanna með sama hætti þótt einkareknu ljósvakamiðlarnir, t.d. Stöð 2 og margar útvarpsstöðvar hafi í rauninni að mörgu leyti verið í fararbroddi fyrir miðlun efnis sem flokkast undir öflugt efni í almannaþágu, skemmtilegt efni um dægurmál, fréttir og stjórnmál. Við þekkjum fræga þætti eins og Silfur Egils sem hefur alltaf verið á einkareknum stöðvum, byrjaði á grasrótarstöðinni Skjá einum fyrir nokkrum árum og varð feikilega vinsæll þáttur sem var svo fluttur yfir á Stöð 2 og hefur dafnað þar prýðilega, þjóðmálaþáttur sem skiptir máli og hefur mikil áhrif á þjóðmálaumræðuna.

Pólitíkin sem Stöð 2 heldur úti einu sinni í viku. Ísland í dag er alla daga, skemmtilegur þáttur sem fjallar um alls konar þjóðfélagsleg málefni. Þetta gera íslenskar sjónvarpsstöðvar mjög vel. Það er þessi miðlun upplýsinga á kjörtíma, í kringum klukkan 20 á kvöldin, 18–20 á kvöldin og fram eftir kvöldi sem mikilvægt er að halda úti. Það skiptir mjög miklu máli fyrir stjórnmálaumræðuna og þjóðfélagsumræðuna í landinu og eflir hið raunverulega lýðræði í landinu og aðgengi almennings að upplýsingum um hvað eina. Menn hlusta á stjórnmálamenn, forustumenn stofnana og fyrirtækja og venjulegir menn og konur ræða ýmis málefni sem skipta okkur öll miklu, hvort sem það eru virkjana- og stóriðjumál eða peninga- og gengismál eða önnur samfélagsleg málefni sem ber hátt nú um stundir í aðdraganda kosninganna.

Aðdragandi kosninganna í vor snýst líka um sjálfstætt og öflugt almannaútvarp. Núna er fyrsta vikan af átta dýrmætum vikum fram að þinghléi 15. mars, þegar lokaspretturinn verður tekinn fram að kosningum. Fyrsta vikan fer í að ræða málefni Ríkisútvarpsins af því að hæstv. menntamálaráðherra hefur farið afleitlega með þetta mál. Hæstv. menntamálaráðherra hefur staðið einstaklega illa að þessu máli um Ríkisútvarpið og hefur hrakist úr þinginu á hverju einasta vori allt kjörtímabilið með málið í ruslakörfunni. Hún kemur alltaf aftur með það að nýju.

Afstaða Framsóknarflokksins í málinu er náttúrlega rannsóknarefni, þ.e. hvernig hún hefur breyst í málinu. Ég ætla að fjalla um það sérstaklega á eftir, út frá flokksþingssamþykktum Framsóknarflokksins á síðustu átta árum. Það var Framsóknarflokkurinn sem kom í veg fyrir það fyrr á kjörtímabilinu að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag og Framsóknarflokkurinn kemur í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn einkavæði og selji Ríkisútvarpið. Ég held að ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði hreinan meiri hluta eða skipti völdum með flokki sem væri lengra til hægri en framsókn þá væri búið að ganga á milli bols og höfuðs á Ríkisútvarpinu. Þá hefði þingmál hv. þm. Péturs Blöndals, Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birgis Ármannssonar gengið eftir. Þeir vildu búta Ríkisútvarpið niður og selja á pólitískri brunaútsölu í upphafi kjörtímabils. Það var ekki stoppað af innan Sjálfstæðisflokksins enda hefur hægri armurinn tekið flokkinn yfir eftir formannsskiptin þar í hittiðfyrra.

Ég er sannfærður um að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að selja Ríkisútvarpið og einkavæða ef hann hefði pólitískan styrk til þess. Framsóknarflokkurinn kom í veg fyrir það og það er gott mál. Það var mjög afdráttarlaus stefna Framsóknarflokksins fram eftir kjörtímabili og á fyrri kjörtímabilum í 90 ára sögu flokksins að breyta Ríkisútvarpinu ekki í hlutafélag. Þeir vildu breyta því í sjálfseignarstofnun eins og Samfylkingin leggur til. En út af einhverri undarlegri eftirlátssemi hefur flokkurinn vikið frá því án þess að hafa fyrir því landsfundarsamþykkt, sem er mjög sérkennilegt. Ég vík að því hér á eftir.

Við höfum rætt töluvert um mikilvægi þess að takmarka umfang Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Ég held að allt of langt væri gengið, ef við þurfum ekki að gera það út af samkeppnisreglum, að taka útvarpið út af auglýsingamarkaði. Ég tel sjálfsagt mál að almannaútvarpi gefist svigrúm til að afla sér tekna á auglýsingamarkaði með sanngjörnum og eðlilegum hætti í viðkvæmu samspili við einkareknu ljósvakamiðlana. Það er of langt gengið að taka Ríkisútvarpið út af markaðnum, það mundi veikja stofnunina og hún yrði að hætta að sinna mörgum mikilvægum þáttum. En það verður að gæta sanngirni og samræmis í því þannig að einkarekin ljósvakamiðlun fái þrifist og dafnað á íslenskum markaði. Og það er sérkennilegt að um leið og Sjálfstæðisflokkurinn undirbýr sölu og einkavæðingu Ríkisútvarpsins skuli hann fyrst ríkisvæða ljósvakamiðlun landsins og stórskaða einkarekna ljósvakamiðlun með þessu furðulega og afleita pólitíska háttalagi. Það er mikilvægt að hér starfi einkareknir fjölmiðlar sem miðla okkur og framleiða íslenskt efni, miðla fyrsta flokks íslensku leiknu efni eins og við þekkjum af Stöð 2, af þáttum eins og Stelpunum sem eru sýndir á Stöð 2 um helgar og marga aðra íslenska leikna þætti auk þess fjölbreytta dægurmálaefnis sem Stöð 2 og 365 dreifa um sjónvarps- og útvarpsstöðvar sínar.

Við verðum að gæta að þeim fjölmiðlum sem njóta engra ívilnana af hálfu ríkisvaldsins. Meðgjöf Ríkisútvarpsins er tveir milljarðar á ári, tvö þúsund milljónir af almannafé. Það er sátt um það í þinginu að við eigum að halda úti almannaútvarpi, að skattborgarar séu þvingaðir til að leggja tvö þúsund milljónir á ári í fjölmiðlarekstur, núna í formi afnotagjalda sem skylt er að greiða. Hér er lögð til versta hugsanlega fjáröflunarleiðin, þ.e. nefskattur. Hann á eftir að verða óvinsæll og umdeildur og grafa undan Ríkisútvarpinu að mínu mati. Alþingi er að ákveða að þvinga fólkið í landinu til að borga tvö þúsund milljónir í þennan fjölmiðlarekstur. Við segjum: Ókei, það eru ástæður fyrir því, menningarleg rök, öryggisrökin, fréttarökin og lýðræðisrökin. Ég er á því að þessi rök haldi og við eigum að halda úti skýrt afmörkuðu almannaútvarpi en ekki t.d. ríkisreknu dagblaði, sem mætti alveg færa rök fyrir eins og ríkisrekstri ljósvaka.

En sá ríkisrekstur sem sölumennirnir í Sjálfstæðisflokknum berjast fyrir núna má ekki verða til þess að stórskaða eða draga úr þeim einkarekstri á ljósvakamiðlum sem nú er. Nú er ríkissjónvarpið í bullandi samkeppni við Skjá einn og Stöð 2 innan lands og að sjálfsögðu fjölda sjónvarpsstöðva um allan heim, internetið og alla þá yfirgengilega miklu fjölmiðlun sem á sér stað í dag. Þess vegna þurfum við að gæta að hinu viðkvæma samræmi á milli ríkisrekstrar á ljósvakamarkaði og einkareksturs á ljósvakamarkaði.

Ein hugmynd, einföld leið til að takmarka umfang Ríkisútvarpsins á ljósvakamarkaði af því að þetta þurfa að vera skýrar og gagnsæjar reglur, verði þær settar og það þarf að setja þær, ein hugmynd barst okkur í Samfylkingunni í gær frá borgara utan úr bæ sem var að fylgjast með umræðunum í þinginu af því að þetta mál snertir alla og þjóðin hefur mikinn áhuga á málefnum Ríkisútvarpsins. Það er eitt af þeim málum sem á að kjósa um í vor og þess vegna er fáránlegt að keyra svo róttækt og mikilvægt mál í gegnum þingið örskömmu fyrir kosningar, sérstaklega ef gildistakan á að vera fyrir kosningar.

Þessi tillaga er svona: Af hverju ekki að skoða þann möguleika sem gengur t.d. í Þýskalandi, þar sem útvarpslagaumhverfið byggir á breska kerfinu, BBC-fyrirkomulaginu, sem ég held að sé fyrirmynd allra fjölmiðla í heiminum. En BBC er, held ég, langbesti fjölmiðill í allri veröldinni. Því er einatt haldið fram af þeim sem hafa yfirsýn yfir sjónvarpsheiminn að Bretum hafi tekist sérstaklega vel að byggja upp almannafjölmiðil sem framleiðir mikið af bæði leiknu efni og öðru frábæru sjónvarpsefni sem er selt út um allan heim. Til að viðhalda sáttinni eru lág afnotagjöld þar og ríkir mikil sátt um BBC. Það var ekki tekist á um BBC á þeim 18 löngu árum sem íhaldið ríkti í Bretlandi frá 1979 til 1997 og einkavæddi þar allt milli himins og jarðar. Þá kom aldrei til tals að hrófla við ríkisútvarpinu eða stíga skref í átt að einkavæðingu þess. Það ætlar íslenska íhaldið að gera núna rétt fyrir kosningar, þar sem íhaldið á Íslandi, hægrisinnaða íhaldið sem nú ræður Sjálfstæðisflokknum, stígur fyrstu skrefin í átt að því að einkavæða Ríkisútvarpið. Það er einstaklega sérkennilegt.

En áfram með þessa tillögu. Þar er vitnað til þýska útvarpslagaumhverfisins sem byggir á BBC-kerfinu. Þar mega ARD, sem er þýska ríkissjónvarpið og dótturstöðvar, og ZDF ekki hafa tekjur af kostun. Það er fyrsta takmörkunin. Þær mega ekki hafa tekjur af kostun og aðeins auglýsa á tímanum 18–20 alla virka daga og einnig á laugardögum en ekki á sunnudögum. Á Íslandi mætti hugsa sér að þetta gilti alla daga vikunnar og þá gætu einkastöðvarnar setið einar að tímanum eftir kl. 20:00 á kvöldin og um það gilti þá engin takmörkun. Ríkisútvarpið hefði þá möguleika á að auglýsa fram að hinum svokallaða kjörtíma, „prime time“. Hér eru fordæmi sem hægt er að vinna eftir, segir sá sem sendi okkur í Samfylkingunni erindið. Það er að hans mati einfaldasta leiðin til að leysa málið. Þar með hef ég kynnt þessa tillögu, sem er einföld og ætti að koma vandlega til skoðunar. Þetta þarf að vera mjög einföld leið, að Ríkisútvarpið megi t.d. ekki hafa tekjur af kostun og einungis auglýsa á skilgreindum tíma. Þannig mundum við að mínu mati ná ákveðnu jafnvægi. Þetta þarf ekki að kosta Ríkisútvarpið svo mikið í tekjum en því yrði að mæta með öðrum tekjum. Það væri langbest að Ríkisútvarpið færi á fjárlög í stað þess að taka upp þennan hörmulega nefskatt.

Ég ætla að ljúka hér stuttu yfirliti yfir stefnu Samfylkingarinnar í málinu. Við segjum í fimmta lagi að Ríkisútvarpið verði sem almannaútvarp að vera sjálfstætt, óháð stjórnmála- og viðskiptahagsmunum. Starfsmenn þess eiga að búa við ritstjórnarlegt sjálfstæði sem m.a. tryggir faglega umfjöllun um menn og málefni á vettvangi stjórnmála og atvinnulífs. Skýr aðgreining verði mörkuð í dagskrá Ríkisútvarpsins milli dagskrárgerðar og auglýsinga, og settar verði reglur um kostun sem taki mið af því.

Samfylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum um Ríkisútvarpið ohf. í frumvarpi menntamálaráðherra og helstu gallarnir eru — en þeir eru nefnilega fjölmargir og þetta var áður en sá pólitíski atburður varð fólki ljós í gær og á síðustu dögum að hæstv. menntamálaráðherra hefði vísvitandi að því er virtist, bar það a.m.k. ekki af sér, leynt Alþingi mjög mikilvægum gögnum sem snerta sjálfan grundvöll og tilvist Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.) Það er vítavert, það er nefnilega pólitískt vítavert að gera það og það hlýtur að hafa eftirmála. Við sáum það á þeim neyðarlega flótta sem brast á hæstv. menntamálaráðherra í þinginu í gær, þá örvæntingu sem greip hæstv. ráðherra, að það er mjög undarlegt ef það mál hefur ekki einhverja eftirmála, enda grafalvarlegt að leyna Alþingi slíkum megingögnum og leyna tilvist gagnanna. Veit sjálfsagt upp á sig skömmina, hæstv. ráðherrann, enda hefur lítið sést til hennar í dag nema rétt við upphaf þingfundar.

Við í Samfylkingunni leggjumst sem sagt alfarið gegn hugmyndunum um Ríkisútvarpið ohf. og segjum í fyrsta lagi: Hlutafélagaformið greiðir leið að einkavæðingu Ríkisútvarpsins, í heild eða að hluta. Samfylkingin er alfarið á móti einkavæðingu Ríkisútvarpsins og hlutafélagsformið hentar þar að auki, frú forseti, ákaflega illa — eins og ég gat um í upphafi máls míns — starfsemi almannaútvarps. Hlutafélagaformið er einfaldlega óheppilegt form utan um hvers konar almannarekstur. Þess vegna hefur sjálfseignarstofnunarformið verið notað töluvert mikið í íslensku samfélagi utan um hvers konar starfsemi sem er innt af hendi í þágu fólksins en ekki til að græða fé. Þar mætti nefna menntastofnanir, þar mætti nefna stofnanir eins og Náttúrulækningafélagið í Hveragerði, sem er frábær heilbrigðisstofnun, rekin af hugsjónastarfsemi til að bjóða upp á ákveðna þjónustu, breyta og bæta lífsstíl Íslendinga. Sjálfseignarstofnunarformið hefur gefist mjög vel utan um hana. Það mætti nefna þó nokkuð margar aðrar slíkar.

Ég er algjörlega sannfærður um — sérstaklega eftir að hafa farið í gegnum málið fimm sinnum hérna í þinginu og á tugum funda í menntamálanefnd, sem ég tek fram að voru mjög gagnlegir og yfirferðin í menntamálanefnd hefur að mörgu leyti verið alveg prýðileg. Þó að brotlending hafi verið þar í lokin núna rétt eftir áramótin hef ég sannfærst um að sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið er upplagt og einboðið utan um þá almannaþjónustu sem Samfylkingin vill að Ríkisútvarpið inni af hendi. Við viljum ekki byrja á því að ríkisvæða íslenska ljósvakamiðlun, drepa niður frumkvæði og kraftinn í einkareknu miðlunum til þess síðan að selja Ríkisútvarpið og hafa þannig einhver pólitísk yfirráð yfir því hverjir kaupa og reka það. Gera einhverjar pólitískar tilraunir til að reka það eins og einhvers konar flokksfjölmiðil Sjálfstæðisflokksins, sem er náttúrlega ömurlegt fyrirbrigði í íslenskri pólitík, þessi drottnunarárátta Sjálfstæðisflokksins yfir fjölmiðlunum. Fjölmiðlalögin fyrir þremur árum voru tilraun þáverandi forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins til að ganga á milli bols og höfuðs á óþægum einkareknum fjölmiðlum, en forseti Íslands og stjórnarandstaðan komu í veg fyrir að þau yrðu sett, forsetinn með því að vísa málinu til þjóðarinnar og Sjálfstæðisflokkurinn panikkeraði. Sjálfstæðisflokkurinn er óhemjuhræddur við beint lýðræði. Þess vegna voru lögin numin úr gildi og komu aldrei fyrir þjóðina sem hefði, að ég tel, kolfellt lögin, en það er allt annað mál. Þar hefði fólkið talað beint yfir einhverri umdeildustu lagasetningu síðari tíma, sem fjölmiðlalögin voru þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að ganga á milli bols og höfuðs á einkareknum fjölmiðlum sem þeir töldu sér ekki þóknanlegir. Svo ömurleg er nú saga Sjálfstæðisflokksins í íslenskum fjölmiðlamálum í okkar eigin samtíma að með ólíkindum er að það skuli eiga sér stað í nútímalegu lýðræðisþjóðfélagi.

Við teljum að hlutafélagaformið sé sett á til að greiða leið Sjálfstæðisflokksins að því að selja Ríkisútvarpið seinna meir og við höfnum því algjörlega, tökum það ekki í mál að það komi til greina sem rekstrarform utan um almannaþjónustu eins og hér er lagt upp með.

Þá segjum við, frú forseti, óljóst vera um hlutverk nýja fyrirtækisins. Skilgreiningar á hlutverki RÚV ohf. eru óljósar og gefa því undir fótinn að hlutafélaginu sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar, m.a. á markaði auglýsinga og kostunar.

Það var það sem ég talaði um áðan, frú forseti. Í leynigögnum menntamálaráðherra er verið að fjalla um samspil ríkisstyrksins og stöðu fjölmiðilsins, Ríkisútvarpsins, á samkeppnismarkaði og hvort sú staða brjóti í bága við samkeppnislög og reglur og Ríkisútvarpinu verði gert að greiða háar skaðabætur seinna meir, jafnvel frá gildistöku laganna sem verði til þess að veikja stórum starfsemi þess, eins og gert var í Danmörku með TV2, það var selt. Hér er hæstv. menntamálaráðherra á miklum villigötum, frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra mun með þessu þrátefli sínu, með þessari pólitísku þráhyggju sem felst í því að ferðin er án fyrirheits. Engin sérstök rök hafa komið fram fyrir því að Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag en ná má öllum markmiðunum fram án þess, sem sagt hinum stjórnunarlegu markmiðum að breyta innri strúktúr og stjórnskipulagi Ríkisútvarpsins, alveg sama þó að rekstrarformið sé allt annað. Þetta er bara þráhyggja og þrátefli hæstv. menntamálaráðherrans hefur og mun, að ég held, hafa mjög slæmar afleiðingar í för með sér fyrir Ríkisútvarpið seinna meir þegar þessi hæstv. ráðherra verður farin frá völdum, því það eru ekki nema 120 dagar þangað til þjóðinni gefst tækifæri til að kjósa Sjálfstæðisflokkinn burt úr Stjórnarráðinu og losa þjóðina við Sjálfstæðisflokkinn eftir 16 ár út úr Stjórnarráðinu þannig að hér megi ganga eftir eðlilegir stjórnarhættir og sett verði jákvæð, skynsamleg og uppbyggileg löggjöf t.d. um Ríkisútvarpið, og við séum laus við þessi óeðlilegu og annarlegu sjónarmið sem reka Sjálfstæðisflokkinn út í lagasetningu af hinu og þessu taginu sem við höfum séð svo oft hérna á liðnum árum, fjölmiðlalögin, lög um Ríkisútvarpið og svona mætti áfram telja þar sem annarleg sjónarmið ráða för en ekki þau að efla almannaþjónustu og gera gott viðkomandi stofnun. Við teljum að skilgreiningar á hlutverki RÚV séu óljósar og gefi því undir fótinn að hlutafélaginu sé með aðstoð ríkisstyrks ætlað að keppa á samkeppnismarkaði við aðrar útvarpsstöðvar, m.a. á markaði auglýsinga og kostunar.

Því leggjum við til, eins og ég gat um áðan, að til að byrja með lækki auglýsingatekjur útvarpsins og verði ekki hærri en 15–20% af heildartekjum. Þetta er fyrsta skrefið sem við leggjum til sem er mjög skynsamleg og varfærnisleg nálgun að starfsemi útvarpsins. Engin ástæða er til að ganga hart fram og það þarf að gæta hófs og sanngirni gagnvart Ríkisútvarpinu líka eins og markmiðið er að gæta hófs og sanngirni gagnvart einkarekinni ljósvakamiðlun í landinu, sem er svo mikilvægt að halda úti og treysta. Við eigum að treysta og standa við bakið á einkarekinni ljósvakamiðlun um leið og við eflum og skilgreinum þetta upp á nýtt, almannaútvarpið inn í nýja öld og til framtíðar. Það er þetta sem við eigum að vera að gera í þinginu, frú forseti, að sjálfsögðu.

Í þriðja lagi: Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti í nýju útvarpsráði ráði útvarpsstjóra og reki að vild. Fyrirtækið er því áfram — sem er algjörlega afleitt, frú forseti, og er fyrsti liður í tillögu Samfylkingarinnar þar sem við leggjum til að sjálfseignarstofnunin verði frelsuð undan oki pólitískra afskipta, en hinir stjórnlyndu sjálfstæðismenn ætla að treysta kverkatakið á Ríkisútvarpinu. Það er náttúrlega alveg með ólíkindum að þurfa að búa svo um hnúta að pólitískt kverkatak Sjálfstæðisflokksins á Ríkisútvarpinu verði treyst enn frekar og hægt sé að herða að þegar það henti, að Sjálfstæðisflokkurinn geti hert kverkatakið þegar hentar og þarf á að halda, alveg með ólíkindum hvernig þetta er lagt upp hérna. Gert er gert ráð fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti í nýju útvarpsráði ráði útvarpsstjóra og reki að vild. Fyrirtækið er áfram undirselt flokkspólitískum afskiptum og inngripum ef valdhöfum þykir þurfa. Kverkatakið er áfram og hægt er að herða að ólinni þegar herða þarf að.

Í fjórða lagi, frú forseti: Nefskattur er óheppileg leið til tekjuöflunar og að mínu mati versta hugsanlega leiðin til tekjuöflunar, mun ala á ófriði og ósætti um útvarpið og er alls ekki líklegur til að efla samstöðu um það.

Í fimmta lagi, frú forseti, eins og við fjölluðum töluvert um í nefndinni og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur rætt töluvert mikið um eru réttindi starfsmanna ekki tryggð með þeim hætti sem vera ætti í almannaútvarpi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á. Þetta var mjög ítarleg og vel unnin samantekt hjá hv. þingmönnum Merði Árnasyni og fleirum um stefnu Samfylkingar í málefnum Ríkisútvarpsins í hnotskurn, hér er þetta bara í hnotskurn og ástæðurnar fyrir því í fimm stuttum liðum af hverju við leggjumst svo eindregið gegn þessu afleita frumvarpi menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. Ég kynnti sérstaklega áðan af því tilefni óformlegt erindi sem okkur barst í gær, samfylkingarmönnum, um eina leið til að afmarka og skorða af auglýsingatekjur útvarpsins þar sem Ríkisútvarpið fengi ekki að hafa tekjur af kostun og aðeins að auglýsa á tilteknum tímum. Þetta er þýskt fyrirkomulag sem byggt er á breska módelinu sem er það besta sem völ er á enda hefur það getið af sér, að ég held að flestir séu sammála um, besta fjölmiðil í heiminum þ.e. breska ríkisútvarpið, BBC.

Það eru margir aðrir fletir á þessu máli. Einn er afstaða Framsóknarflokksins, hin síbreytilega, í málinu, hin síbreytilega afstaða Framsóknarflokksins og að ég held að segja megi sorgleg útreið hans í málinu. Framsóknarflokkurinn er í grunninn félagshyggjuflokkur, frjálslyndur félagshyggjuflokkur í grunninn sem væri betur kominn í jafnaðarmannastjórn en í þessari hægri stjórn sem er að ganga af honum dauðum og stjórnarsamstarfið er að ganga af flokknum dauðum einmitt og meðal annars út af máli eins og Ríkisútvarpinu þar sem Framsóknarflokkurinn hefur feykst til eins og lauf í vindi eftir því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn blæs, hvernig drottnarinn hagar sér í það og það skiptið og kúskar Framsóknarflokkinn til eins og hvern annan vesaling.

Hvernig var með innrásina í Írak og stuðninginn við hana? Hvernig var með fjölmiðlalögin og hvernig er með Ríkisútvarpið? Flokksþing Framsóknarflokksins hafa afdráttarlaust kveðið upp úr um það að stefna flokksins er sú að Ríkisútvarpið skuli vera áfram í almannaeigu og að Ríkisútvarpið skuli vera sjálfseignarstofnun. En hver er staðan núna eftir tólf ára undirgefni, eftir tólf ára vist í skítverkunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Hún er sú að Framsóknarflokkurinn skrifar upp á það að Ríkisútvarpið skuli vera hlutafélag þó að engin landsfundarsamþykkt eða flokkssamþykkt sé fyrir því. Stefna flokksins er alveg kristaltær og skýr, flokkurinn leggst eindregið gegn því að Ríkisútvarpið sé selt og að Ríkisútvarpið sé gert að hlutafélagi.

Framsóknarflokkurinn hefur alveg skýra og einbeitta stefnu í málinu. Hann fylgir henni hins vegar ekki eftir hér í þinginu. Núna í fimmta sinn sem við ræðum málið hefur Framsóknarflokkurinn uppi fimmtu skoðunina á málinu. Í fyrstu lotunum tóku menn eins og hv. þm. Hjálmar Árnason þátt í umræðunum af miklum móð, börðust af miklu kappi og sögðu: Sjáið þið bara til. Við stoppuðum það af að Sjálfstæðisflokkurinn fengi því framgengt að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Það voru einhver sameignarfélög og hitt og þetta sem Framsóknarflokkurinn taldi sér mjög til tekna að hafa knúið fram. Til hvers? spurðu hv. þingmenn Hjálmar Árnason og fleiri úr röðum framsóknarmanna menntamálanefndarfólkið. Til hvers? Til að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði selt, til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn selji Ríkisútvarpið. Núna sjást þeir ekki í umræðunum nema svona rétt til að gera grein fyrir einhverjum jaðarmálum í þessu stóra máli.

Ég ætla að gera íslensku þjóðinni þann greiða að fara aðeins yfir það hver stefna Framsóknarflokksins sé út frá landsfundarsamþykktum og hvernig þetta hefur þróast á síðustu missirum af því að það er, að ég held, einn af lyklunum að þeirri gátu sem er uppi fyrir framsóknarmönnum af hverju fylgið er hrunið af flokknum. Það er bara ein ástæða fyrir því og hún er undirgefni við Sjálfstæðisflokkinn. Undirgefni við Sjálfstæðisflokkinn birtist í nokkrum málum sérstaklega, í stuðningnum við innrásina í Írak, í stuðningnum við fjölmiðlalögin og í stuðningnum við það að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Þetta eru þrjú af þeim stóru málum sem ramma inn undirgefni Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn og ramma inn ástæðuna fyrir því af hverju flokkurinn er rúinn trausti þjóðar og af hverju fylgið er hrunið og farið eitthvert annað. Það eru þessi þrjú stóru mál sem hafa sérstaklega leikið flokkinn grátt á þessum missirum. Ég trega það, virðulegi forseti, eins og ég hef sagt áður, af því að Framsóknarflokkurinn er í grunninn frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem er langbest kominn í langvarandi samstarfi við jafnaðarmannaflokk eins og Samfylkinguna í staðinn fyrir að hunskast í þessari hörmulegu vist fyrir og með Sjálfstæðisflokknum.

En við verðum að halda til haga því sem gerst hefur. Árið 1996 ritaði sérstök nefnd sjálfstæðismanna skýrslu um endurskoðun á útvarpslögunum. Í þeirri nefnd sátu Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Tómas Ingi Olrich, Ásdís Halla Bragadóttir, allt þekkt nöfn úr framvarðasveit hægri vængsins í Sjálfstæðisflokknum. Sú skýrsla gefur mynd af þeim stakki sem sjálfstæðismenn vildu fyrir tíu árum og vilja, að ég held, enn þá sníða RÚV í framtíðinni og finna rammann sem nú liggur fyrir í því frumvarpi sem við ræðum í dag.

Í kjölfarið vildi Sjálfstæðisflokkurinn ná samkomulagi við Framsóknarflokkinn um ný lög um Ríkisútvarpið og byggja þau á þeirri skýrslu. Skipuð var tveggja manna nefnd sem átti að ná saman um að endurskoða lögin um Ríkisútvarpið með einum fulltrúa frá hvorum stjórnarflokkanna. Þetta var strax í upphafi fyrsta kjörtímabilsins árið 1996, 1997 og 1998, þetta er á fyrstu árum Halldórs og Davíðs, og þeir fulltrúar urðu að lokum Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson frá Sjálfstæðisflokki og Gissur Pétursson frá Framsóknarflokki.

En frá nefndinni kom aldrei endurskoðað frumvarp til útvarpslaga. En með mjög afgerandi stuðningsyfirlýsingum frá flokksþingum Framsóknarflokksins, eins og ég gat um hérna áðan, velkist maður ekki í neinum vafa um raunverulegan hug flokksins. Þá fengu hugmyndir Sjálfstæðisflokksins engan framgang hjá Framsóknarflokknum af þeirri einföldu ástæðu að samþykktir flokksþinga og landsfunda Framsóknarflokksins leyfðu það ekki. Stjórnarsamstarfið rúmaði það ekki að Sjálfstæðisflokkurinn fengi stefnu sinni framgengt í þessu máli af því að flokksþing Framsóknar voru hemillinn.

Ég held að það hafi glatt á þeim tíma marga félagslega sinnaða Íslendinga að Framsóknarflokkurinn var þó einhvers konar neyðarhemill á villtustu drauma Sjálfstæðisflokksins yfir í hina klassísku nýfrjálshyggju sem þá hafði verið rekin úti um víða veröld og flokkinn þyrsti í að framkvæma hér á Íslandi eftir nokkuð mikla fjarveru á mælikvarða Sjálfstæðisflokksins frá völdum. Þetta var annað kjörtímabilið eftir Davíð. En staðan er núna sú að flokkssamþykktunum hefur verið vikið til hliðar og flokksmenn Framsóknarflokksins eru ekki spurðir lengur, því miður. Þess vegna er fróðlegt að líta á samþykktir flokksþinganna síðustu missirin sem sýna að áætlunin er að ganga fram hjá þeim samþykktum. Það hlýtur að vera mjög alvarlegt mál fyrir kjósendur og félagsmenn í Framsóknarflokknum að þingflokkurinn ætli að gera það, bara til að hanga á völdunum í 120 daga í viðbót, af því það eru bara 120 dagar eftir af kjörtímabilinu. Þá gefst íslenskum kjósendum tækifæri til að kjósa hægri stjórnina frá og nýja stjórn jafnaðarmanna og félagshyggjufólks að völdum í íslensku samfélagi. Þess vegna er svo undarlegt að Framsóknarflokkurinn ætli að láta það verða eitt af sínum síðustu verkum, áður en flokkurinn gengur þau svipugöng sem fram undan eru til íslenskra kjósenda, að svíkja þessar flokkssamþykktir sem eru svo afdráttarlausar um Ríkisútvarpið. Það er mjög dapurlegur endir á tólf ára setu í ríkisstjórn. Auðvitað hefur flokkurinn gert eitt og annað ágætt en að ramma inn lítilþægnina gagnvart Sjálfstæðisflokknum, ramma inn undirgefnina gagnvart Sjálfstæðisflokknum með því að láta það verða yfirskrift þessa síðasta vetrar kjörtímabilsins að svíkja flokkssamþykktir Framsóknarflokksins í málefnum Ríkisútvarpsins.

Flokksþingið 1999 sagði t.d. að allar rásir útvarpsins verði áfram í ríkiseigu og því ekki breytt í hlutafélag. Samkvæmt þessu frumvarpi er aðeins kveðið á um eina útvarpsrás og leiðin opnuð til að selja Rás 2. En árum saman kom ekkert annað út úr landsfundum sjálfstæðismanna, sem menn mundu svona þegar rykið var sest, en sú krafa flokksins að það ætti að selja Rás 2. Einnig sagði á sama flokksþingi að Ríkisútvarpinu yrðu tryggð aukin fjárframlög til að það geti betur gegnt menningar- og lýðræðislegu hlutverki sínu, afnotagjöldin haldi verðgildi sínu til að tryggja rekstrargrundvöll þess. Það hefur náttúrlega ekki gengið eftir með neinum hætti.

Þá sagði í sama, því að þetta flokksþing fjallaði töluvert um Ríkisútvarpið, að tryggð væru fjárframlög til dreifikerfis Ríkisútvarpsins til að það geti sinnt hlutverki sínu og náð til allra heimila landsins. Í því skyni verði skoðað m.a. að tiltekin hækkun afnotagjalda verði fastbundin fjárfestingu og endurnýjun í dreifikerfi Ríkisútvarpsins og það verði áfram í eigu þess eða í sjálfstæðri rekstrareiningu. Ekkert í þessa veru hefur gerst, frú forseti. Vonir einhverra standa til að flutningsskyldan leysi dreifiskyldu RÚV með öllu en lausleg könnun sýnir að kostnaðarsamar uppfyllingar í kerfinu leiða ekki til þess og leiða kannski til hærri kostnaðar fyrir Ríkisútvarpið þegar upp er staðið.

Þá sagði flokksþing framsóknarmanna 2001 að löggjöf um Ríkisútvarpið verði endurskoðuð með það að markmiði að tryggja hlutleysi þess og sjálfstæði og stofnuninni verði áfram gert kleift að rækja mikilvægt hlutverk sitt. Svo geta menn metið hvernig þetta hafi gengið eftir.

En til að fara ekki of langt aftur í tímann af því að við erum að deila um rekstrarformið og afstöðu framsóknarmanna í því, þá er ekki lengra síðan en á flokksþinginu 2003 að þar segir, með leyfi forseta:

„Breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun sem verði laus við viðskiptaleg, stjórnmálaleg eða önnur hagsmunaleg tengsl.“

Þetta segir í landsfundarsamþykkt framsóknarmanna árið 2003.

Þess vegna hljóta fulltrúar Framsóknarflokksins að koma núna og útskýra það fyrir þjóðinni og okkur í þinginu — ég vona að einhver þeirra sé að hlusta — hvernig flokkurinn geti leyft sér að svíkja núna þessa flokksþingssamþykkt og ganga fram hjá henni. Við vitum öll að landsfundir eru æðsta vald í málefnum flokkanna og fram hjá þeim samþykktum er í sjálfu sér ekki gengt í ríkisstjórnum nema með sérstökum sáttmálum á miðstjórnarfundum og flokksstjórnarfundum o.s.frv. Mér vitandi hefur Framsóknarflokkurinn ekki gert það og þess vegna kalla ég eftir skýrum svörum af því að í fyrirliggjandi frumvarpi er eins og kunnugt er RÚV ekki breytt í sjálfseignarstofnun. Frumvarpið minnkar ekki stjórnmálaleg hagsmunatengsl útvarpsins heldur eykur þau með því að hafa útvarpsstjórann sjálfstæðan að nafninu til en undir hæl pólitísks skipaðs útvarpsráðs í reynd. Það er það alvarlega og vonda við þennan stjórnunarstrúktúr sem nýja frumvarpið gerir ráð fyrir. Útvarpsstjóri er í orði kveðnu sjálfstæður og hann er það innan húss. Það þarf að gera breytingar á stjórnunarfyrirkomulagi RÚV þannig að útvarpsstjóri hafi miklu meira svigrúm til að reka sína stofnun.

Það sem er afleitt við þetta er hvernig verið er að setja fjölmiðilinn og stofnunina undir pólitískan hæl meiri hluta hverju sinni með því að kjósa stjórnina á hverju einasta ári og með því að hafa þar ekki fulltrúa starfsmanna sem kæmi þannig í veg fyrir að ríkisstjórnarmeirihluti myndaðist í útvarpinu hverju sinni. Þetta er því nokkuð dapurleg saga og Framsóknarflokkurinn kemur illa út úr þessu því miður. Ég vona að þeir nái að gera grein fyrir þessu á landsfundi sínum núna í mars hvernig þetta gat farið svona mikið úrskeiðis.

Svona rétt í lokin með Framsókn ætlaði ég að nefna að í desember bárust fréttir af því m.a. í þættinum Pólitík á Stöð 2 þar sem voru gestir hv. þm. Össur Skarphéðinsson og stjórnmálamennirnir Sigríður Andersen og Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs Reykjavíkurborgar og framsóknarmaður, að það væri von á uppreisn í Framsóknarflokknum. Þeir ætluðu að koma í veg fyrir að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi og nú skyldi kné fylgja kviði og Sjálfstæðisflokkurinn fara að passa sig.

Daginn eftir var sá sem hér stendur með þessum sama Birni Inga í þættinum Silfri Egils þar sem hann kvað mjög sömu tóna. Von væri á uppreisn í Framsóknarflokknum og líkur á því. Með okkur í þeim þætti var hv. formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, og þótti mikil spenna í loftinu á milli þessara fulltrúa stjórnarflokkanna, en nú ætlaði Framsóknarflokkurinn að standa við landsfundarsamþykktina frá 2003, Ríkisútvarpinu yrði aldrei breytt í hlutafélag, og þeir ætluðu að knýja það fram að því yrði breytt í sjálfseignarstofnun. Til að fylgja þessu eftir var ungliðahreyfingunni att á foraðið og Samband ungra framsóknarmanna ályktaði afdráttarlaust í málinu, að það skyldi ekki verða að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi heldur ætti að gera það að sjálfseignarstofnun. Þetta gladdi mjög nokkra hv. þingmenn, t.d. Guðjón Ólaf Jónsson sem kom þá í ræðustól í þinginu, gífurlega ánægður yfir því að Samfylkingin hefði sömu skoðun og Framsóknarflokkurinn á flokksþingi 2003 og ungliðahreyfingin í desember 2006, að gera ætti RÚV að sjálfseignarstofnun. Á ýmsu væri von, málið í hreinu uppnámi.

En viti menn. Síðan hefur bara ekkert heyrst í Framsóknarflokknum hvað þetta varðar. Ég er ekki í neinum vafa um að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson situr núna á skrifstofu sinni og gerir drög að því að útskýra fyrir þjóðinni og þinginu af hverju Framsóknarflokkurinn ætti núna að hleypa málinu í gegn — eða er kannski von á síðbúinni uppreisn, janúar-uppreisn? Munu framsóknarmenn framkvæma janúarbyltingu þar sem komið verður í veg fyrir að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi eins og flokkurinn boðaði á landsfundinum 2003 og eins og flokkurinn lét í veðri vaka í umræðum í nóvember og desember, að gert yrði?

Ég var, virðulegi forseti, að athuga hvort ég hefði hér í fórum mínum ályktunina frá SUF sem ég prentaði út af suf.is. Hún er þar örugglega enn þá, sú merka ályktun, en hún var mjög afdráttarlaus, Ríkisútvarpið skyldi ekki gert að hlutafélagi og hörmuð var afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu mikilvæga máli.

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna leggst gegn því að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. verði samþykkt og RÚV þannig gert að hlutafélagi.

Samband ungra framsóknarmanna telur að hagsmunum RÚV og almennings sé ekki best borgið með breytingu af þessu tagi og telur vænlegra að skoða kosti þess að gera RÚV að sjálfseignarstofnun. Bendir SUF á að þekktasta almenningsútvarp heims, BBC í Bretlandi, er rekið sem sjálfseignarstofnun og er sem slíkt leiðandi í framleiðslu á bæði menningar- og afþreyingarefni.

Þá telur SUF að málið sé ekki nægjanlega undirbúið og telur það fráleitt“ — Samband ungra framsóknarmanna sem nú á fjóra fulltrúa í þinginu, Birki Jón Jónsson, Dagnýju Jónsdóttur, Sæunni Stefánsdóttur og sjálfan Guðjón Ólaf Jónsson og bakland þessa mæta fólks telur það fráleitt „að frumvarpið hafi verið lagt fram á Alþingi án þess að afstaða hafi verið tekin til stórra spurninga,“ — og taka þar undir málflutning minn og margra annarra samfylkingarmanna — „svo sem aðkomu RÚV að auglýsingamarkaði sem og stöðu RÚV á samkeppnismarkaði almennt.“

Samkeppnismarkaði almennt, frú forseti. Það sem deilan snýst um núna, það sem rak hæstv. menntamálaráðherra á flótta úr þingsölum var akkúrat þetta. Það var upplýst í Fréttablaðinu fyrir skömmu og endanlega á Alþingi í gær að ráðherrann hefði leynt þingið gögnum. Síðan er þetta mál í uppnámi. Það er einfaldlega fráleitt að ætla sér að keyra þetta í gegnum þingið hundrað dögum fyrir kosningar, ef við gefum okkur að þetta verði klárað eftir tvær vikur og að gildistakan verði 1. apríl, fimm, sex vikum fyrir kosningar. Það er algjört grundvallaratriði að gildistökunni verði frestað í tvo til þrjá mánuði fram yfir kosningar þannig að nýrri ríkisstjórn okkar jafnaðarmanna — eða hvernig sem dómurinn fellur hjá kjósendunum í vor — gefist ráðrúm til að athafna sig í málinu. Það er andlýðræðislegt af hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni að ætla að knýja málið í gegnum þingið svo skömmu fyrir kosningar með það á bakinu að hafa leynt þingið mjög alvarlegum og mikilsverðum gögnum eins og staðfest var af mörgum í þinginu í gær, t.d. hv. varaformanni menntamálanefndar, Dagnýju Jónsdóttur.

Áfram til að klára ályktun SUF:

„Stíga þarf mjög varlega til jarðar svo að ekki myndist fákeppni á þeim markaði með tilheyrandi neikvæðum áhrifum fyrir neytendur.“

Þessa ályktun hefði ég getað samið og sent út sjálfur, þetta er alveg afbragðsályktun og ég efast ekkert um að þetta er hin raunverulega stefna Framsóknarflokksins alveg eins og landsfundarsamþykktin frá 2003 er hin eina raunverulega stefna Framsóknarflokksins. Frávikin og svikin sem þingmennirnir ætla að standa að gagnvart sínum eigin landsfundarsamþykktum hljóta að kalla á skýringar af hálfu framsóknarmanna um þeirra eigið framferði. Ég er ekki í neinum vafa um að sá örvaglaði riddari sem hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson svo sannarlega er — hann hélt tugi ræðna á síðasta deginum í þinginu fyrir jólin af því að Framsóknarflokkurinn hafði svo mörg viðhorf uppi til svo margra mála og þurfti svo margt að þakka sér af því að allt það góða sem gjört var, að mati hv. þingmanns, var að sjálfsögðu Framsóknarflokknum að þakka.

Núna, þegar kemur upp mál sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem svik Framsóknarflokksins við sín eigin stefnumið, við landsfundarsamþykktina frá 2003 — svo ekki sé verið að vitna í einhverjar gamlar samþykktir sem tíminn hefur kannski úrelt án þess að landsfundi hafi gefist ráðrúm til að endurnýja — en í landsfundarsamþykktinni frá 2003 segir að Ríkisútvarpinu skuli breytt í sjálfseignarstofnun og svo álykta ungir framsóknarmenn í þá veru að það verði komið í veg fyrir einkavæðingaráráttuna í Sjálfstæðisflokknum og það pólitíska kverkatak sem Sjálfstæðisflokkurinn er að reyna að ná á útvarpinu. Þetta er neyðaróp ungra framsóknarmanna til sinna eigin forustumanna og þingmanna um að stöðva gjörninginn, um að koma í veg fyrir að málið gangi eftir.

Ég vil bæta því við að sá sem deildi og drottnaði í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar, Björn Ingi Hrafnsson, þáverandi aðstoðarmaður og núverandi borgarráðsformaður og borgarfulltrúi, tók mjög kröftuglega undir þetta í tveimur sjónvarpsþáttum, Pólitíkinni á Stöð 2 hjá Svavari Halldórssyni og í Silfri Egils á sunnudeginum þar sem voru viðstaddir hv. formaður menntamálanefndar, sá sem hér stendur auk Birgis Guðmundssonar skólamanns frá Akureyri. Það var ekki annað að skilja en að von væri á mikilli byltingu, mikilli uppreisn og að Sjálfstæðisflokkurinn kæmist ekki upp með þetta.

Síðan hafa liðið bæði jól og áramót og ekkert heyrst í Framsóknarflokknum um þetta mál, akkúrat ekki neitt. Það á að láta Sjálfstæðisflokkinn vaða yfir enn einu sinni þó að það kosti það að flokkurinn sé að svíkja sínar eigin landsfundarsamþykktir, en áfram segir í ályktun SUF, með leyfi forseta:

„SUF leggur áherslu á nauðsyn þess að hér á landi starfi öflugt ríkisútvarp sem nái til allra landsmanna og hafi ákveðnum skyldum að gegna við framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Það að breyta RÚV í hlutafélag“ — og vek ég athygli á þessari setningu, frú forseti, það að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag — „telur SUF aðeins vatn á myllu andstæðinga Ríkisútvarpsins og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess.“

SUF leggur áherslu á nauðsyn þess að hér á landi starfi öflugt ríkisútvarp, sem nái til allra landsmanna og hafi ákveðnum skyldum að gegna við framleiðslu á innlendu dagskrárefni. Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess, þ.e. formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánssonar, þingmannanna hv. Birgis Ármannssonar og Péturs H. Blöndals sem hvíla þarna alveg yst á hægri nöfinni í Sjálfstæðisflokknum og berjast þar um á hæl og hnakka, hafa flutt um þetta merkilegt þingmál, um að það eigi að einkavæða og selja RÚV. Þess vegna er þetta ákall frá ungum framsóknarmönnum þar sem þeir segja og ég ætla að endurtaka lykilsetninguna í ályktuninni frá ungum framsóknarmönnum:

„Það að breyta RÚV í hlutafélag telur SUF hins vegar aðeins vatn á myllu andstæðinga RÚV og þeirra sem vilja einkavæða starfsemi þess.“

Og nú bið ég þingmenn framsóknarmanna að hlusta vel af því að ég er að lesa hér upp úr ályktun SUF frá því í desember:

„SUF hvetur því þingmenn til þess að samþykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp, en þess í stað leggja fyrir menntamálaráðherra að hefja undirbúning að því að breyta RÚV í sjálfseignarstofnun sem hafi að fyrirmynd breska ríkisútvarpið BBC.“

Þetta hefði ég getað skrifað sjálfur. Þetta var alveg prýðileg ályktun frá Sambandi ungra framsóknarmanna (Gripið fram í.) um að standa svo skynsamlega að verki sem hér er kveðið á um.

Ég spurði hv. menntamálanefndarformann að því í gær hvort hann væri enn á þeirri skoðun að það ætti að einkavæða Ríkisútvarpið og hvort hann teldi hlutafélagavæðingu ekki einfalda það að einkavæða og að einkavæða skyldi. Hann eyddi sinni dýrmætu mínútu í andsvörum í gær í að tala um gamlan netpistil eftir hv. þm. Össur Skarphéðinsson af því að það var brostinn svo mikill flótti á íhaldið hér í gær að menntamálaráðherra hvarf úr salnum eftir að það var upplýst að hún hefði leynt þingið gögnum og hv. formanni menntamálanefndar varð svo um að rifjað væri upp fyrir þjóðinni allri að hann hefði viljað einkavæða RÚV að hann svaraði bara út í hött. (Gripið fram í.) Nei, hv. þingmaður hefur ekki haldið langa ræðu hér (Gripið fram í.) um það efnislega að það eigi að einkavæða RÚV. Ég vona að hv. þingmaður dragi nú fram sinn innri mann og ræði það hér á eftir hvað hann vilji sjálfur, af því að við erum líka að ræða framtíð RÚV. Það er ekki verið að breyta RÚV í hlutafélag bara rétt fram yfir kosningar, þingmaðurinn hlýtur að horfa til framtíðar. Hann hefur barist fyrir því (Gripið fram í.) — já, maður framtíðar í Sjálfstæðisflokknum, það vona ég, enda skemmtilegur og prýðilegur þingmaður — en hann hlýtur þá að kynna fyrir þjóðinni og okkur í þinginu hvað hann vilji raunverulega gera. (Gripið fram í.) Já, þingmaðurinn kemst að, ég lofa því, það er nógur tíminn.

Sem sagt, þetta ákall, þetta örvæntingarfulla ákall frá Sambandi ungra framsóknarmanna til sinna eigin þingmanna hefur verið rifjað upp, sem er sérstakur greiði við framsóknarþingmennina sem komu í salinn rétt áðan og ég veit að ætla að tala hér seinna í dag, í kvöld, næstu daga, þann tíma sem tekur. Sérstaklega bíð ég spenntur eftir að heyra í Guðjóni Ólafi Jónssyni sem er mjög herskár og afdráttarlaus maður í öllum málum. Hann hlýtur að kynna okkur viðhorf sín í málinu

Það varð því lítið meira úr flugeldasýningunni hjá þeim að þessu sinni, engar breytingar hafa enn þá verið gerðar á frumvarpinu og hér er ég kominn með ályktunina og aðra að auki, af því að á sama tíma — þetta er af fréttavef Sambands ungra framsóknarmanna frá 3. desember 2006 — þar er kynnt sérstök ályktun frá stjórn Alfreðs, sem er nú nafn við hæfi, sem er félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, og skorar það á forustumenn Framsóknarflokksins að fresta afgreiðslu málsins. Þetta er fallegt nafn og vel viðeigandi þegar horft er til afreka fyrrum borgarfulltrúa framsóknarmanna og stjórnarformanns Orkuveitunnar, Alfreðs Þorsteinssonar.

(Gripið fram í.) Stjórn Alfreðs, félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, skorar á forystumenn Framsóknarflokksins — mjög viðeigandi nafn, (Gripið fram í.) það heitir kannski Björn Ingi í Reykjavík norður, ég veit það ekki. Þetta er prentað út af vef SUF en var sett inn 3. desember 2006 kl. 23:34 skorar á forustumenn Framsóknarflokksins að fresta afgreiðslu frumvarpsins sem við ræðum hérna um óákveðinn tíma eða á meðan málið er rætt betur innan flokksins. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Ríkisútvarpið er í hópi þeirra stofnana, segir hér, og málefni Ríkisútvarpsins sem þarfnast vandaðrar umræðu og minnir stjórn Alfreðs á ályktun miðstjórnar Framsóknarflokksins og málefnastefnuskrá frá 2003, sem ég hef vitnað ítrekað í í dag, þar sem fram komu þau fyrirheit að RÚV verði breytt í sjálfseignarstofnun sem geri þjónustusamning við ríkið.

Þannig held ég að mjög afdráttarlaus vilji sé kominn fram frá hinum almenna flokksmanni í Framsóknarflokknum, annars vegar stóru flokksþingi á mælikvarða framsóknar frá 2003 (Forseti hringir.) og hins vegar samböndum ungra framsóknarmanna og félögum þeirra um allt land, þetta er ákall til þingmannanna um að Ríkisútvarpinu verði ekki breytt í hlutafélag heldur sjálfseignarstofnun og staðið verði við, eins og hér stendur, fyrri fyrirheit um að það verði ekki gefið eftir gagnvart Sjálfstæðisflokki (Forseti hringir.) og útvarpinu …

(Forseti (RG): Það er fyrirhugað að gera matarhlé núna frá klukkan eitt til klukkan hálftvö. Þess vegna vill forseti inna þingmanninn eftir því hvort hann sé u.þ.b. að ljúka ræðu sinni eða hvort hann hyggist gera hlé á ræðunni þar til eftir matarhlé.)

Já, ég ætla að gera hlé, ég á nokkrar mínútur eftir.

(Forseti (RG): Þá leggur forseti til að nú verði gert matarhlé til klukkan 13:30.)