133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:52]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. Ég vil hefja ræðu mína á því að lýsa yfir þeirri von minni að mikill meiri hluti þingmanna beri hag Ríkisútvarpsins fyrir brjósti. Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir þjóð að eiga öflugt almannaútvarp, þjóðarútvarp. Einmitt þannig útvarp er Ríkisútvarpið okkar og þá er ég auðvitað að tala um Ríkisútvarpið, ekki Ríkisútvarpið sf. og ekki Ríkisútvarpið hf. og þaðan af síður Ríkisútvarpið ohf.

Við í stjórnarandstöðunni viljum nefnilega svo gjarnan efla Ríkisútvarpið okkar og bæta það og það sem er afar mikilvægt, losa Ríkisútvarpið við pólitísk áhrif, þ.e. flokkspólitísk áhrif, auka sjálfstæði þess og efla innlenda dagskrárgerð. Þessir þrír þættir held ég að séu svo mikilvægir — og eiginlega var ég að vona að þetta ætti ekki bara við um þingmenn stjórnarandstöðunnar heldur líka einhverja þingmenn stjórnarliðsins.

Stjórnarandstaðan var einmitt með boð um að koma að því verkefni að efla Ríkisútvarpið en því boði var hins vegar hafnað af hæstv. menntamálaráðherra og það er mjög miður. Þetta stóra mál, að efla Ríkisútvarpið hefur þess vegna farið í einhverja afar einkennilega leið sem núna heitir frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. og er alls ekki til þess fallið að efla Ríkisútvarpið okkar heldur því miður einmitt til þess fallið að hluta það í sundur og selja það. Þetta er fyrsta skrefið í einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Það er auðvitað sorgleg staðreynd og dálítið einkennilegt að flokkur eins og Framsóknarflokkurinn ætli að standa að því máli. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom einmitt afar vel og ítarlega inn á það mál og sýndi fram á að það er alls engin eining um það innan Framsóknarflokksins, þ.e. að telja mönnum trú um að ekki sé verið að selja Ríkisútvarpið heldur aðeins að bæta oháeffi fyrir aftan nafnið á því.

Það er líka staðreynd að stór hluti hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins vill einmitt selja Ríkisútvarpið, þeir hafa engan áhuga á þessu oháeffi, líta bara á það sem eitt skref og fyrst þeir náðu ekki meiru fram í þessari umferð þá sé það betra en ekki neitt. Og það er dálítið kaldhæðnislegt, frú forseti, að einmitt formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, er í hópi þeirra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem lagt hefur mikla áherslu á það að skynsamlegast væri að selja Ríkisútvarpið. Nú veit ég ekki hvort hann hefur skipt um skoðun á síðustu dögum en mér skilst að þetta hafi var a.m.k. verið skoðun hans fyrir nokkrum árum. Svo er reyndar um skoðun fleiri núverandi þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem voru einu sinni í Samtökum ungra sjálfstæðismanna, þeir eru nú sennilega orðnir of gamlir til þess að vera í þeim samtökum, annars veit ég ekki alveg hvert aldursmarkið þar er. En SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, hefur þetta einmitt á stefnuskrá sinni, að það beri að selja Ríkisútvarpið.

Einn hv. þingmaður sem yfirleitt talar mjög skelegglega og er ekki að draga neitt af og ekki að skafa utan af hlutunum, talar venjulega skýrt og skorinort í ræðustóli, hann heitir Pétur Blöndal. Hann hefur sagt það í fyrri umræðu hér, ekki bara um þetta frumvarp heldur um frumvarpið þar á undan og frumvarpið þar þar á undan, að hann líti á þetta sem fyrsta skref í því að selja Ríkisútvarpið. Það er þess vegna ekki einu sinni þannig að menn séu eitthvað að leika tveimur skjöldum eða að hér sé einhver úlfur í sauðargæru, nei, nei, sumir þingmenn segja þetta bara berum orðum. En framsóknarmenn virðast ekki heyra, þeir virðast halda fyrir eyru og augu og munninn á sér þegar kemur að þessum málum.

Það er reyndar sagt berum orðum í þessu frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið ohf., þessu nýja Ríkisútvarpi ohf., að það eigi að halda úti a.m.k. einni útvarpsrás og það er eðlilegt að maður hnjóti um þetta orðalag. Af hverju er þetta sett svona inn í frumvarpið? Jú, það er vegna þess að það er verið að sannfæra menn um að það verði alla vega haldið úti einni útvarpsrás en bara einni. Á þá að úthýsa Rás 1 t.d.? Nei, sennilega ekki, ég held að það sé nú ekki það skynsamlegasta eða það sem menn í ráðuneytinu voru að hugsa þegar þeir sömdu þennan frábæra frumvarpstexta. Hins vegar kemur það vel til greina að selja Rás 2 til dæmis. Og maður veltir því fyrir sér hvort hægt sé að selja Rás 2, er hægt að selja svona hryggjarstykki í Ríkisútvarpinu okkar? Hvað er Rás 2, er það ekki bara einhver dagskrá, er það ekki bara einhver útsending, er það ekki tónlist og tal, er það ekki dægurmálaútvarp, er hægt að selja það? Er hægt að selja starfsmennina?

Það er einmitt það sem þetta mál snýst um. Það snýst um þennan raunverulega auð sem liggur í Ríkisútvarpinu og það er starfsfólkið. Eins og hefur komið margoft fram í umræðunni í dag og í gær, á síðasta þingi og fyrri þingum þá er það alls ekkert ljóst hvað verður um starfsmenn Ríkisútvarpsins, það er því miður ekki búið að ganga frá þeim málum og það er auðvitað grafalvarlegt mál. Það er reyndar sagt að hér eigi að hagræða mikið og það megi búast við því að margir starfsmenn hætti, hvort sem þeim verði sagt upp eða þeir kjósi að fara á biðlaun eða geri starfslokasamninga eins og eru afar vinsælir um þessar mundir. Að minnsta kosti er augljóst að með þessum breytingum munu margir hæfir og góðir starfsmenn Ríkisútvarpsins — sem eru Ríkisútvarpið — verða látnir fara. Það á að selja hluti eins og Rás 2, það á að úthýsa verkefnum, það á að hluta í sundur Ríkisútvarpið, það á að taka hjartað úr starfseminni. Það er grafalvarlegt mál, frú forseti, og starfsfólkið er skilið eftir í óvissu.

Það er ekki þannig að ég sé að búa eitthvað til hérna. Við þekkjum nefnilega ágætlega annað fyrirtæki sem er með þessa einkennilegu endingu ohf., það heitir Flugstoðir ohf. og tók starfa nú um áramótin. Og hvernig fór það frábæra fyrirtæki af stað, fyrirtæki sem er í eigu ríkisins, opinbert hlutafélag með einn hlut? Það ætti eiginlega að heita hlutfélag, opinbert hlutfélag en ekki hlutafélag. Flugstoðirnar fóru ekki glæsilega af stað, það fyrirtæki flaug ekki hátt í upphafi, starfsemin var í mikilli óvissu. Starfsmennirnir voru sáróánægðir, vissu ekki hvað yrði um eftirlaunakjör þeirra, vissu ekki hversu lengi þeir mundu halda samningum sínum, hvort kjarasamningarnir yrðu komnir á frjálsan markað eftir nokkra mánuði eða ár.

Sem betur fer, þrátt fyrir lítinn samningavilja samgönguyfirvalda, náðist lending í því máli. En ég er þeirrar skoðunar að það að breyta fyrirkomulaginu þannig að Flugstoðir ohf. varð til hafi verið afar misráðið. Það hefur ekki komið nægilega vel fram hvaða hagræðing er eiginlega falin í þessari oháeffun. Ég held að það sé nefnilega engin hagræðing falin í henni. Ég held að það sé verið að moka undir toppana hjá þessu opinbera fyrirtæki, sem núna geta skammtað sér laun eins og þeim hentar, en óbreyttir starfsmenn, starfsmennirnir á gólfinu sitja eftir. Þannig er það. Það er afar líklegt að það sama verði síðan um Ríkisútvarpið, frú forseti.

Annað hefur líka vakið athygli mína, komandi hér inn á þing í gær með stuttum fyrirvara, það er þessi umræða um slæm vinnubrögð í menntamálaráðuneytinu og það er auðvitað dálítið sorglegt að maður þurfi að standa frammi fyrir því að gögnum sé haldið til baka. Ég veit ekki hvort ég á að segja haldið leyndum en það er sennilega samt réttasta orðið vegna þess að menn segja: Þið báðuð aldrei um gögnin, þið báðuð aldrei um þessi gögn og bréfaskipti frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA-gögnin svokölluðu. Hvernig í ósköpunum eiga menn að biðja um einhver gögn sem þeir vita ekki að eru til? Þetta er í raun og veru svona frekar heimspekileg spurning og áhugavert að velta henni fyrir sér.

Það er auðvitað vandræðalegt að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki sjá að sér og biðjast bara afsökunar á þessu. Það væri miklu drengilegra. Í staðinn eru hér frammíköll sem maður hefur aldrei heyrt af jafnmiklum krafti eins og í gær frá hæstv. menntamálaráðherra. Það segir auðvitað eitthvað um pirringinn í þessu máli og vandræðaganginn að hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þurfti að byrsta sig og hún var reið á svipinn, mjög reið. Ég held að það sé líka dálítið af því að hún veit upp á sig skömmina.

Frú forseti. Í ræðu minni ætla ég að fjalla um nefndarálit minni hlutans. Ég ætla að fjalla um blogg hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar frá því í gær, en Björn hefur oft verið kallaður ofurbloggari og ég mun fjalla aðeins betur um blogg hans. Ég mun fjalla aðeins um þátt útvarpsstjóra í málinu, títtnefnda Gallup-könnun ætla ég að fjalla um, aðeins betur um ESA-gögnin og ummæli hæstaréttarlögmanns sem segir það berum orðum að hann líti á þetta frumvarp sem upphafið að endalokum Ríkisútvarpsins. Ég ætla einnig að fjalla um framhaldsnefndarálit minni hlutans og um þátt og samhengi þjóðarinnar og Ríkisútvarpsins, því að það er jú þjóðin sem á Ríkisútvarpið, enn þá. En ef fram fer sem horfir verður það auðvitað ekki þannig, ekki frekar en að við vitum öll að þjóðin átti Símann og þjóðin átti Landsbankann og listaverkasafn Landsbankans reyndar líka. Þjóðin átti þessar góðu stofnanir og þessi góðu fyrirtæki, sem margir nefndu mjólkurkýr, en eru núna mjólkurkýr fyrir einhverja aðra, fyrir einhverja sem græða á tá og fingri á þessum fyrirtækjum.

Ég nefndi áður nafn hv. þm. Péturs Blöndals. Í umræðu á síðasta þingi um vatnalögin fór hann fram á það að menn mundu segja til um það hversu lengi þeir ætluðu að tala því að hann var að velta því fyrir sér hvernig yrði með andsvör og þess háttar. Ég yrði nú ofsalega kátur ef Pétur Blöndal mundi koma hér og eiga við mig orðastað í andsvörum og þess vegna ætla ég að gera honum þann greiða að nefna það hvað ég telji að ræðan mín verði löng, svona nokkurn veginn. Ég hef auðvitað ekki tímamælt hana alveg en mér finnst frekar líklegt að ég muni ná að koma þeim upplýsingum sem ég ætla að koma frá mér á u.þ.b. klukkutíma eða svo, það gæti teygst upp í einn og hálfan, vonandi ekki mikið meira. Þó er aldrei að vita.

Þegar ég gekk í þingsalinn til að hlýða á ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar var ég eini þingmaðurinn í salnum og þá leit ég á hversu margir þingmenn væru í þinghúsinu og þeir voru níu, sex stjórnarandstöðuþingmenn og þrír úr stjórnarliðinu. Einhverjir eru auðvitað á skrifstofunum sínum, vona ég, hafa gleymt að stimpla sig inn á skrifstofurnar og eitthvað svoleiðis. Það segir okkur að kannski eru u.þ.b. 50 þingmenn fjarverandi, voru merktir fjarverandi og mér þykir það nú dálítið miður að þegar verið er að ræða um svona mikilvægt mál eins og frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. er þá skuli margir fara að sinna öðrum málum. En ég treysti því að sjálfsögðu að þeir kynni sér efni ræðu minnar þó að það verði á annan hátt.

Ég ætla að byrja á því að fara aðeins yfir nefndarálit minni hluta menntamálanefndar frá 2. umr. vegna þess að það er mjög áhugaverð og góð lesning og það var reyndar skemmtilegt að fá tækifæri til þess í gær að setja sig ítarlega inn í þau mál. Þetta nefndarálit er upp á heilar 52 síður og ég mun auðvitað bara stikla á stóru í svona aðalatriðum þess máls og síðan er auðvitað eftir nefndarálit minni hlutans, eftir öll ósköpin sem gengu á um áramótin, á milli jóla og nýárs, títtnefnd ESA-gögn komu þá út úr skápnum o.s.frv.

Í nefndarálitinu frá minni hluta menntamálanefndar er talað um meginatriði málsins, það er dregið fram í sérstökum kafla. Þar er lögð áhersla á að verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum sé það mjög líklegt til þess að deilur um Ríkisútvarpið muni aukast, alls ekki minnka, og það er auðvitað mjög miður. Það er sagt að sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu sé nauðsynlegur muni að öllum líkindum verða enn þá minni en verið hefur. Þá er nú betur heima setið en af stað farið, frú forseti.

Með frumvarpi því sem hér um ræðir er ekki skapaður sá starfsrammi sem Ríkisútvarpinu hæfir til frambúðar og þar með ekki sá starfsfriður sem Ríkisútvarpinu er nauðsynlegur. Líklegt er að samþykkt frumvarpsins leiði til enn ákafari deilna en áður um stöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlavettvangi og jafnvel til málaferla heima og erlendis. Þetta er auðvitað grafalvarlegur hlutur og þetta er ekki bara eitthvað sem nefndarmönnum í minni hlutanum dettur í hug heldur er þetta stutt með fjölda gagna. Fyrir menntamálanefnd komu um 150 gestir, sumir að vísu tvisvar skilst mér og jafnvel þrisvar, og á máli margra gesta var að skilja að þetta gæti einmitt orðið niðurstaðan. Ég ætla að vitna í álit eins lögfræðings á eftir, hæstaréttarlögmanns sem er einmitt á þessari skoðun.

Með því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag væri stigið varhugavert skref sem í sambærilegum tilvikum hefur langoftast leitt til sölu viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis. Og þetta er einmitt mergurinn málsins, þetta er hryggjarstykkið í þessu máli. Eins og ég kom inn á í inngangi mínum er þetta einmitt á stefnuskrá margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem betur ekki fer á stefnuskrá þingmanna Framsóknarflokksins en Framsóknarflokkurinn lætur teyma sig enn eina ferðina út í einhverja óvissu. Ég veit ekki hvort það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er búinn að sannfæra Framsóknarflokkinn eða hvort það eru bara þingmenn Framsóknarflokksins sjálfir sem reyna að sannfæra sig um að það sé nú ekki nein dramatísk breyting að breyta okkar ágæta ríkisútvarpi úr ríkisútvarpi í opinbert hlutafélag og þar með er það komið á hlutafélagamarkað, sem þýðir í raun og veru einkavæðing.

Það er líka nefnt að þeir stjórnunarhættir sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu opni leið til áframhaldandi pólitískra ítaka og inngripa. Það er einmitt það sem menn hafa aðallega verið að tala um að ætti að forðast, og það er alveg hægt. Það þarf ekki að búa til eitthvert svona frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. til að koma í veg fyrir það. Ég hélt reyndar að allir væru sammála um að útvarpsnefnd og bein þátttaka stjórnmálaflokka í rekstri Ríkisútvarpsins sé kannski ekki alveg af því góða. Það er miklu mikilvægara að fulltrúar fólksins í landinu, eigendanna, þjóðarinnar, eigi sæti í stjórn þessarar góðu stofnunar. Það er einmitt miklu mikilvægara og verðugra verkefni að taka sér fyrir hendur að reyna að minnka þau beinu pólitísku áhrif sem eru og hafa verið, mismikil að vísu, innan Ríkisútvarpsins. Stundum hefur Ríkisútvarpið verið kallað bláskjár og ekki að ástæðulausu. Það vita allir af hverju það er.

Það er auðvitað ekki við starfsmenn Ríkisútvarpsins að sakast. Þeir eru langflestir afar hæfir og vandir að virðingu sinni og gæta í langflestum tilfellum hlutleysis. Þið takið eftir að ég segi í langflestum tilfellum, vegna þess að svo er því miður ekki að öllu leyti og ég mun kannski koma aðeins inn á það seinna í ræðu minni, t.d. þátt Gísla Marteins Baldurssonar í því efni.

Eitt sem er líka nefnt hérna sem grunnatriði í nefndarálitinu og það er að nefskatturinn sé ekki líklegur til að vekja mikla lukku. Það hefur einmitt verið fjallað um það ágætlega hér að nefskattur er eitthvað það heimskulegasta sem hægt er að leggja á fólk. Í eðli sínu er hann afar ósanngjarn skattur. Markmið og takmark skatta er nefnilega það að skattkerfið eigi að vera til að jafna lífskjörin. Ef maður leggur flatan skatt á fólk eða fjölskyldur, óháð efnahag og aðstæðum, er augljóst að það bitnar helst á fólki með lægstu tekjurnar eða engar tekjur og meðaltekjur, margfalt meira en á hátekjumanninum sem er með kannski milljón á mánuði og þar yfir. Hann munar ekkert um 15 þús. kr. í nefskatt til Ríkisútvarpsins. En barnafjölskyldu með lágar mánaðartekjur getur heldur betur munað um þessa upphæð.

Í sérstökum kafla í nefndarálitinu er fjallað um vinnubrögðin við að semja þetta frumvarp. Það er auðvitað mjög merkilegt að frumvarpstextarnir hafi verið undirbúnir með leynd hjá sérstökum trúnaðarmönnum flokkanna og upplýsingum haldið markvisst frá almenningi, fjölmiðlum og starfsmönnum Ríkisútvarpsins og það er auðvitað grafalvarlegt mál vegna þess að starfsfólkið hefði átt að vera með í ráðum þegar verið var að finna leiðir til að bæta starfsemina. Er það líklegt, frú forseti, að einhverjir flokksgæðingar Sjálfstæðisflokksins, sem hefur það að hluta til að markmiði sínu að selja Ríkisútvarpið, og flokksgæðingar Framsóknarflokksins, sem labbar alltaf í eftirdragi á eftir Sjálfstæðisflokknum í öllum málum, séu líklegastir til að koma með gáfulegan frumvarpstexta sem eflir Ríkisútvarpið? Nei, frú forseti, þannig er það ekki, það hlýtur hvert barn að sjá. Þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna var auðvitað haldið frá þessu máli eins og hægt var. Það er dálítið sorglegt vegna þess að það hefði verið svo auðvelt að setja saman hóp hæfra einstaklinga úr öllum flokkum, jafnvel með fólki úti í þjóðfélaginu sem hefði áhuga í því. Ég nefni t.d. Hollvinasamtök Ríkisútvarpsins og starfsmenn Ríkisútvarpsins, það hefði líka verið frábært, og það er auðvitað dálítið skrýtið að öllum þessum aðilum hafi verið haldið frá málinu. Er það ekki dálítið skrýtið? Eru það eðlileg vinnubrögð? Auðvitað eru það ekki eðlileg vinnubrögð, frú forseti. Hér segir:

„Í stað þess að efna til samstarfs allra flokka á þingi um endurnýjað ríkisútvarp og reyna að ná sem víðtækastri samstöðu um framtíðarskipan þess hafa forustumenn stjórnarflokkanna sammælst um tillögur sem einkennast annars vegar af kreddu og hins vegar af hrossakaupum án þess að vart verði sameiginlegrar grundvallarstefnu um hlutverk Ríkisútvarpsins og stöðu þess á fjölmiðlavettvangi.“

Þetta er auðvitað kjarni málsins og þetta er auðvitað áfellisdómur yfir stjórnarmeirihlutann, yfir þessa ríkisstjórn og yfir hæstv. menntamálaráðherra. Það er bara þannig. Ég held að maður sé ekkert ósanngjarn þegar maður segir að þannig séu hlutirnir. Það hljóta allir að sjá að málið er vanreifað enda er það augljóst að þegar einhverjir flokksgæðingar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins eru fengnir til að fara í málið þá verður ekkert almennilegt frumvarp úr því. Það er borðleggjandi og augljóst mál en auðvitað dálítið sorglegt vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða, afar mikilvægt.

Fjölmörg álitamál eru enn óafgreidd. Hv. þingmaður og formaður menntamálanefndar, Sigurður Kári Kristjánsson, tók það sérstaklega fram í mikilli tölfræðiræðu hversu vel hafi verið unnið og undirbúið og staðið að þessu máli. Menn hefðu fundað og talað um málið í 72 klukkutíma, í þrjá sólarhringa, og reiknaði þetta út í sekúndum og hvaðeina, fjölmargir gestir hefðu komið fyrir nefndina. Síðan er málið rifið út úr nefndinni án þess að vera fullafgreitt og þá kemur í ljós að enn er verið að bíða eftir mikilvægum gögnum, gögnum sem gætu skipt miklu máli. Og ástæðan fyrir öllum þessum heimsóknum og löngu umræðum er auðvitað sú að frumvarpstextinn er meingallaður, þetta er því miður ónýtt frumvarp.

Það er náttúrlega dálítið erfitt fyrir hæstv. menntamálaráðherra að viðurkenna það að þriðja frumvarpið sem komið er með í þingsal um þetta mál, fyrsta frumvarpið var um Ríkisútvarpið sf., síðan Ríkisútvarpið hf. og á þessu þingi er það Ríkisútvarpið ohf. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ekki fleiri þing til að koma með fleiri vitlaus frumvörp um Ríkisútvarpið. Ég ætla rétt að vona að þetta frumvarp verði ekki að lögum á þessu þingi vegna þess að það yrði grafalvarlegt mál.

Auðvitað væri hægt að komast að niðurstöðu, það væri hægt að semja um málið. Ég veit að í menntamálanefnd situr fólk sem er alveg tilbúið til að semja um málið, ná góðri lendingu í því til þess að við getum raunverulega eflt þjóðarútvarpið okkar, almannaútvarpið sem við viljum eiga. En þá þarf auðvitað að koma einhver smátilslökun úr hinni áttinni, frá Sjálfstæðisflokknum. Ég held að Framsóknarflokkurinn yrði ekki í neinum vandræðum með að sameinast stjórnarandstöðunni um að búa til frumvarp sem mundi í raun og veru efla Ríkisútvarpið. En af því að hann er í stjórnarmeirihlutanum, og svo notuð séu orð varaformanns menntamálanefndar, hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, um tvö lið á Alþingi, meiri hlutann og minni hlutann, og hún spilar í meirihlutaliðinu núna, er þar með ekki hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það mundi sennilega þýða stjórnarslit ef Framsóknarflokkurinn segði skoðun sína eins og hún er í raun og veru. Það er ekki baráttumál Framsóknarflokksins að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og hefur aldrei verið þó að ég kunni auðvitað ekki ályktanir einstakra flokksþinga Framsóknarflokksins utan að, sem betur fer.

Það er mjög alvarlegt að leggja fram mál sem er svona vanreifað, sérstaklega vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Beiðni um að fá álit fjölmiðladeildar Evrópuráðsins var hafnað þegar fjallað var um málið á milli 1. og 2. umr. og það var auðvitað stórfurðulegt. Það kemur fram í nefndarálitinu að þetta sé í þriðja sinn á þremur þingum sem formaður menntamálanefndar hafnar slíkri beiðni þó að vafi leiki á að stjórnskipan RÚV ohf. standist kröfur í tilmælum um sjálfstæði almannaþjónustu á þessu sviði.

Þetta er ekki búið, frú forseti. Þetta voru bara tveir punktar úr vinnubrögðunum. Þriðji punkturinn er sá að menntamálanefnd fékk ekkert tækifæri til að kanna álitamál sem ítrekað hafði komið upp um hvort rekstur Ríkisútvarpsins í hlutafélagsformi standist samkeppnislög, jafnvel stjórnarskrá, þar sem ríkisstyrkur er nýttur til samkeppnisrekstrar, m.a. á auglýsinga- og svokölluðum kostunarmarkaði. Skilgreiningar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins eru afar óljósar. Það er einkennilegt að svona augljósar athugasemdir skuli ekki vera teknar til greina og reyndar þurfi að ganga eftir þeim. Það lýsir ekki góðum vinnubrögðum hjá formanni menntamálanefndar. Hann var annars mærður mjög fyrir góð og ítarleg vinnubrögð og skipulega vinnu og ég efast ekki um að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er flinkur í að stjórna fundum og hefur gert þetta eins vel og hann gat þó að lokin á þessu máli, þegar það var rifið út úr menntamálanefnd síðastliðinn föstudag og meira að segja kallaðir inn varamenn eins og þingmaðurinn Guðjón Ólafur Jónsson, 7. þm. Reykv. n., sem hafði aldrei áður komið á fund menntamálanefndar, skilst mér. Hann var fenginn til að mæta á föstudegi til að hlaupa í skarðið fyrir varaformanninn til þess að hægt væri að afgreiða málið úr nefndinni með hraði. Þar á undan höfðu menn keppst við að lesa torskilinn texta, skilst mér. Ég hef reyndar ekki fengið að sjá öll þessi ESA-gögn og ég veit ekki hvort ég mundi græða mikið á því að lesa mikinn og djúpan og flókinn lögfræðilegan texta á einhverri tækniensku. En það er auðvitað rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að Sigurður Kári Kristjánsson, hv. formaður menntamálanefndar, er auðvitað mikill snillingur að hafa getað gjóað augunum á bunkann og séð að þarna var ekki neitt sem skipti máli. Þetta voru einhver sendibréf á milli ráðuneytisins og Eftirlitsstofnunarinnar sem menn hefðu reyndar alveg getað sleppt að skrifa og ekkert nýtt eða merkilegt stóð þar.

Ýmsar breytingar urðu á frumvarpinu á milli 1. og 2. umr. en ekki mjög miklar á milli 2. umr. og 3. umr. Reyndar eru einu breytingarnar núna að lagt er til af meiri hlutanum að frumvarpið taki ekki gildi 1. febrúar, þ.e. eftir nokkra daga, heldur 1. apríl. Þeir hefðu ekki getað valið skemmtilegri dagsetningu fyrir svona skemmtilegt frumvarp en 1. apríl. Það hæfir kannski þessari frumvarpsómynd, herra forseti.

Ég ætla að fara aðeins yfir breytingarnar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu. Í nefndaráliti minni hlutans segir:

„Það stjórnarfrumvarp um Ríkisútvarpið sem nú er til umfjöllunar á Alþingi er í flestum greinum hið sama og menntamálaráðherra lagði fram á síðasta þingi og hinu næstsíðasta. Frumvarpið nú er að einu atriði undanteknu óbreytt frá sköpulagi frumvarpsins í fyrra, að meðtöldum breytingartillögum meiri hluta menntamálanefndar fyrir 3. umræðu, og vísast því í megindráttum til nefndarálita minni hluta menntamálanefndar á síðasta þingi um málið.

Breytingin felst í því að nú hyggjast stjórnarflokkarnir gera Ríkisútvarpið að „opinberu hlutafélagi“ (ohf.) en á fyrra þingi að hlutafélagi (hf.) og á þinginu þar áður að sameignarfélagi (sf.).“

Það er dálítið skemmtilegt að Sjálfstæðisflokkurinn leggur fram frumvarp um Ríkisútvarpið sf., Ríkisútvarpið sameignarfélag. Það var örugglega í anda sjálfstæðisstefnunnar að gera mikið sameignarfélag úr þessu Ríkisútvarpi okkar. Síðan var farið yfir í hlutafélagaformið af því að þeir áttuðu sig á því að sameignarfélagsformið væri alveg handónýtt og ómögulegt eins og það leggur sig og hentaði auðvitað alls ekki Ríkisútvarpinu en hlutafélag væri alveg frábært, það væri miklu betra. Síðan til að koma eitthvað til móts við — ja, ég veit það ekki, kannski voru það hugmyndir framsóknarmanna um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Það hljómaði ekki allt of vel vegna þess að — hvaða reynslu höfum við af því, herra forseti, þegar fyrirtæki eru gerð að hlutafélagi? Jú, það er augljóslega fyrsta skrefið í því að selja þau. Ég man ekki betur en hv. þm. Halldór Blöndal, þá reyndar hæstv. samgönguráðherra sennilega, hafi verið afar stoltur af því að vera með eina hlutabréfið í Símanum, Landssímanum hf., held ég að hann hafi heitið, afar stoltur af því að vera mikill hluthafi í því hlutafélagi en það stóð ekki lengi. Það muna allir þá dæmalausu og skelfilegu sögu um spillingu á spillingu ofan þegar það fyrirtæki var síðan fellt, hlutað í sundur reyndar. Það er auðvitað sorgarsaga sem maður þyrfti að rifja upp einhvern tímann til að haldast í minningunni og vera víti til varnaðar vegna þess að hér erum við einmitt á svipuðum tímapunkti. En framsóknarmenn hafa sennilega fallist á að það væri skárra líka fyrir andlit ríkisstjórnarinnar út á við að þetta væri kannski ekki eins stórt skref að fara með Ríkisútvarpið úr því að vera þjóðarútvarp í almannaeign yfir í það að vera opinbert hlutafélag. Opinbert hlutafélag hljómar einhvern veginn miklu skár en bara hlutafélag. Það átti að reyna að telja mönnum trú um að þar með væri það áfram algerlega á sviði ríkisstofnana en ekki á hlutafélagamarkaði og mjög erfitt væri að breyta því en auðvitað er það ekki þannig. Við vitum allt um það.

Það er dálítið skemmtilegt með breytingar frá 1. til 2. umr. að meiri hluti menntamálanefndar lagði til að ekki verði auglýsingar á vefsetri Ríkisútvarpsins frekar en verið hefur að undanförnu Þetta var svo sem ekki mikil breyting og skiptir ekki öllu máli en er kannski góð breyting og mjög gott að maður sé laus við það á einum af þessum veffjölmiðlum, að það séu dinglandi einhverjar auglýsingar blikkandi fyrir framan mann, það er auðvitað ánægjulegt. Það verður að segjast eins og er að þar stóð meiri hluti menntamálanefndar sig afar vel og gerði skynsamlegar breytingar.

Einnig voru birt drög að þjónustusamningi sem hæstv. menntamálaráðherra hyggst gera við útvarpsstjóra. Áætluð útgjöld vegna slíks samnings fyrir næstu tíu ár, takið eftir, það er ekki bara fimm ára áætlun eins og í Sovét í gamla daga, heldur tíu ára áætlun. Ég ætla einmitt að fara aðeins betur ofan í þessa tíu ára áætlun Ríkisútvarpsins vegna þess að hún er sérkapítuli út af fyrir sig og dálítið merkileg og skemmtileg.

Ég var að vísu búinn að lofa að ég mundi ekki tala í meira en einn og hálfan tíma en mér sýnist að það geti orðið aðeins lengra vegna þess að ég þarf að fara miklu ítarlegar í þetta mál en mér sýndist, en eins og ég segi, þetta er stórmál. Það er auðvitað ástæða til að fara mjög vel yfir það og skoða alla þætti þess.

Breytingin úr hf. í ohf. skiptir sáralitlu máli fyrir starfsemi Ríkisútvarpsins þar sem áður hafði verið fallist á að upplýsingalög giltu um nýja fyrirtækið. Það er vissulega mjög ánægjulegt að upplýsingalögin eigi að gilda um þetta nýja fyrirtæki vegna þess að gegnsæi í öllum rekstri ætti að vera leiðarljós og það að geta fengið upplýsingar um allt sem viðkemur starfsemi Ríkisútvarpsins þegar það er ríkisútvarp í almannaþágu er auðvitað grundvallaratriði fyrir eigendurna, sem er þjóðin sjálf. Þess vegna er það grundvallaratriði og líka ánægjulegt að meiri hluti menntamálanefndar áttaði sig á því eftir 1. umr. að þetta var dálítið grundvallaratriði.

Síðan er bent á að þessar tillögur eru nánast gagnslausar þar sem ríkisstyrkta hlutafélaginu á samkeppnismarkaði, þar með heildartekjum Ríkisútvarpsins, eru ekki sett takmörk á nokkurn veg. Einungis er kveðið á um að kostunartekjur séu ákveðið hlutfall af auglýsingatekjum. Það er dálítið merkilegt vegna þess að þá fer kostunin náttúrlega eftir því hversu auglýsingatekjurnar eru miklar. Ef auglýsingatekjurnar eru miklar þá má kostunin vera meiri. Það er dálítið einkennilegt að hengja þetta svona saman en ekkert þak sé ofan á. Hversu miklar eiga auglýsingatekjurnar að vera? Þetta er mál sem maður hefði átt að taka fyrir og færð hafa verið rök fyrir því að kannski sé skynsamlegt að taka Ríkisútvarpið að einhverju leyti út af auglýsingamarkaði. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom einmitt inn á það og skýrði frá því hvernig þessu er háttað í Þýskalandi þar sem á sjónvarpsstöðvunum ARD og ZDF, á mesta áhorfstíma sem er frá kl. 6 síðdegis til 10 á kvöldin eitthvað svoleiðis og undantekningarlaust í barnaefninu, eru engar auglýsingar. Mér finnst það mjög skynsamlegt. Ég held að Ríkisútvarpið ætti að taka að upp hjá sjálfu sér að hafa ekki á laugardagsmorgnum og sunnudagsmorgnum glymjandi einhverjar sykurauglýsingar á milli teiknimyndanna. Það finnst mér augljóst mál en auðvitað erfitt eins og það er núna, en ég er viss um að fulltrúar stjórnarandstöðunnar væru tilbúnir til og gætu náð einhverri sameiginlegri niðurstöðu með stjórnarmeirihlutanum um að setja slíkar reglur fyrir Ríkisútvarpið frekar en vera að með þennan lagabálk um hlutfall kostunar af auglýsingatekjum o.s.frv.

Það hefur heilmikið verið rætt um réttindi starfsmanna. Ég ætla ekki að fjalla mikið um þjónustusamningana, það er annar kapítuli sem ég mun sennilega fjalla um í seinni ræðu minni við þessa 3. og síðustu umr. því það er mjög áhugavert efni sem maður ætti að fara vel ofan í. En annað atriði sem skiptir ekki síður miklu máli er réttindi starfsmanna. Ég er enginn sérfræðingur á því sviði en sem betur fer hafa nokkrir hv. þingmenn kynnt sér þau mál afar vel og verið í sambandi við starfsmenn á Ríkisútvarpinu og stéttarfélög þeirra. Í nefndarálitinu segir um réttindi starfsmanna og vitna ég aftur í texta minni hluta menntamálanefndar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í öll skiptin sem mál þetta hefur verið til meðferðar á Alþingi hafa stéttarfélög starfsmanna ásamt heildarsamtökunum BSRB og BHM gert alvarlegar athugasemdir við meðhöndlun réttinda starfsmanna. Þær athugasemdir hafa engu breytt nema hvað meiri hluti nefndarinnar tekur nú góða og gilda yfirlýsingu útvarpsstjóra um að þeir starfsmenn sem nú eiga réttindi í A-deild LSR muni halda þeim rétti. Fulltrúar stéttarfélaganna segja hins vegar að slík yfirlýsing sé marklaus nema þau réttindi verði tilgreind í bráðabirgðaákvæði II.“

Þarna er maður kominn í einhverja nákvæmnisvinnu sem þarf greinilega að fara miklu betur ofan í.

Helstu atriði sem nú heyra til réttinda starfsmanna Ríkisútvarpsins en falla niður við breytingarnar eru eftirfarandi, en þetta eru níu atriði, takið eftir, níu atriði um réttindi starfsmanna sem falla niður, en þau eru: andmælaréttur, áminningarskylda, skriflegur rökstuðningur fyrir uppsögn, auglýsingaskylda um laus störf, aðgangur almennings að upplýsingum um nöfn og starfsheiti umsækjenda, uppsagnarfrestur, þagnarskylda, skylda um að hlíta breytingum á störfum og verksviði auk biðlaunaréttar þeirra sem ráðnir eru fyrir 1. júlí 1996.

Herra forseti. Þetta eru níu atriði. Þetta eru réttindi sem starfsmennirnir missa á einu bretti þann 1. apríl næstkomandi ef þetta skringilega frumvarp verður samþykkt af meiri hlutanum. Það er ekkert smávegis. Það er grafalvarlegt mál.

Hér segir frá því að títtnefndur Páll Magnússon útvarpsstjóri kom á fund nefndarinnar og var m.a. spurður út í réttindamálin og hann staðfesti þann skilning minni hlutans að réttindi samkvæmt núgildandi kjarasamningum falla úr gildi þegar þeir samningar renna út sem verður eftir tvö ár og hann gat ekki upplýst neitt um þá samninga sem tækju við annað en þegar þar að kæmi tækju við svokallaðir frjálsir samningar. Þeir væru einstaklingsbundnir svo hverjum og einum starfsmanni yrði þá frjálst að selja kauphækkanir fyrir réttindi, það er smekklega orðað, að selja kauphækkanir fyrir réttindi. Það þýðir að láta af hendi einhver réttindi sem menn hafa gengið að sem vísum en í staðinn að fá einhverja kauphækkun sem þyrfti þá auðvitað að semja um í hvert skipti.

Hér kemur mjög athyglisverður punktur. Aðspurður taldi útvarpsstjóri líklegt að launabil ykist með slíkum samningum. Það er dálítið merkilegt en augljóst og hefur fengið allt of litla umræðu hér. Einnig í sambandi við hið opinbera hlutafélag Flugstoðir ohf. Ég minntist aðeins á það fyrr í ræðu minni að einn tilgangurinn með frumvarpinu væri sá að topparnir geta hækkað aðeins í launum, ekki bara aðeins heldur jafnvel helling, en hinir óbreyttu starfsmenn þurfa að „selja réttindi sín“ til að fá launahækkanir. Það er dálítið merkilegur hlutur. Ég veit ekki hvernig menn sjá það fyrir sér en það er mjög heiðarlegt af Páli Magnússyni útvarpsstjóra að viðurkenna að verið sé að stórauka launabil með frumvarpinu. Það er auðvitað alveg eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Við sjáum það að við erum á hraðleið, íslenska þjóðfélagið, í átt að amerísku þjóðfélagi þar sem launabilið er himinhátt og svimandi. Það er dálítið sorglegt að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli fagna því og hæstv. forsætisráðherra missir jafnvel ekki svefn yfir slíkum smáatriðum. Það er auðvitað skemmtilegt til þess að hugsa.

Útvarpsstjóri taldi reyndar einnig líklegt að einhverjum hluta áætlaðrar hagræðingar yrði náð með því að fækka starfsmönnum. Líklegt væri að u.þ.b. 30 starfsmenn mundu nýta biðlaunaréttinn strax, þ.e. 30 starfsmenn Ríkisútvarpsins mundu hætta strax. Ég veit ekki hvort þeir eiga að hætta 1. apríl eða hvort þeir eiga að vinna út einhvern uppsagnarfrest, sennilega ekki ef þeir ætla að nýta biðlaunarétt sinn. Það væri gaman að fá að vita hvað það allt mundi kosta. Ljóst er að réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins eru þar með í uppnámi og það er auðvitað dálítið sorglegt að andmælaréttur eða áminningarskylda og skriflegur rökstuðningur, sem tíðkast sem betur fer hjá ríkisfyrirtækjum, verði öllu hent út í hafsauga með því að oháeffa Ríkisútvarpið okkar.

Í sérkafla um tengslin við fjölmiðlafrumvarpið segir í nefndaráliti minni hlutans:

,,Svo bar við á þessu þingi að auk ríkisútvarpsfrumvarpsins lagði menntamálaráðherra fram frumvarp um almenna fjölmiðla (58. mál á þskj. 58). Það frumvarp er í megindráttum byggt á tillögum nefndar sem í sátu fulltrúar allra þingflokka og skilaði skýrslu 7. apríl 2005. Þvert á fyrirheit ráðherra hefur ekki verið reynt í nefndinni að fjalla í samhengi um þessi tvö mál, og það eina sem gert hefur verið í meðferð fjölmiðlafrumvarpsins er að senda það til umsagnar.“

Mér er spurn, herra forseti: Af hverju liggur ekki eins mikið á því máli og þessu? Ég held að það sé mjög mikilvægt og gott mál að fá ramma utan um starfsemi fjölmiðla. Það er afar mikilvægt mál. Það er mjög réttmæt krafa að þessi tvö mál séu rædd í samhengi. Ég held að það væri gott fyrir bæði málin.

Hér er minnt á bókun sem fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins lögðu fram þegar áðurnefnd fjölmiðlanefnd skilaði af sér. Þar sögðu fulltrúarnir að mikilvægt væri að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla sem tæki bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Slíkt væri einungis mögulegt ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið færi fram samhliða vinnunni við hina almennu löggjöf. Það var enn fremur mat fulltrúanna að slík sátt næðist aðeins með því að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum og varðveita það traust sem ríkir á milli stofnunarinnar og eigenda hennar, þ.e. þjóðarinnar.

Þessi fróma ósk fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins varð því miður ekki að veruleika vegna þess að einhverjir í stjórnarflokkunum ákváðu að það væri miklu mikilvægara að oháeffa Ríkisútvarpið í hvelli og hitt gæti beðið seinni tíma. Það væri allt í lagi að láta það dankast eitthvað í kerfinu. Svo er rætt um sáttaboðið vegna þess að það er virkilega þannig að stjórnarandstaðan er alveg tilbúin til að semja um þetta mál, meira en lítið tilbúin til þess. Hér er bent á að í 1. umr. um frumvarpið, strax í haust, var slíkt sáttaboð ítrekað. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Mörður Árnason, fulltrúi Samfylkingarinnar í menntamálanefnd, lýstu því báðir yfir fyrir hönd flokka sinna að ef ráðherra og stjórnarmeirihlutinn væru til viðræðu um annað eignarform en hlutafélagsformið stæði ekki á flokkunum að taka gjörvallt málið til skoðunar á ný með það fyrir augum að reyna til þrautar sættir um framtíð Ríkisútvarpsins. Hvorki menntamálaráðherra, formaður menntamálanefndar né varaformaður hennar úr Framsóknarflokki virtu þetta sáttaboð svars. Það var slegið á útrétta sáttarhönd. Vert er að hafa það í huga, virðulegi forseti, þegar verið er að saka stjórnarandstöðuna um að tefja fyrir málum á þinginu, að það hefði verið hægðarleikur fyrir stjórnarmeirihlutann að taka í þessa sáttarhönd og fara í það mikilvæga verkefni saman að ná sátt um starfsemi Ríkisútvarpsins, breyta því sem breyta þarf og bæta það sem bæta þarf. Það hefði verið sjálfsagt mál og hið besta mál en það varð því miður ekki.

Hins vegar er það ekki svo að minni hlutinn sé í fýlu og hafi dregið sáttarhönd sína til baka, það er enn þá tími til að semja. Niðurstaðan er sú að minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað frá. Það væri skynsamlegast í stöðunni og það væri ekki í fyrsta skipti. Það færi þá eins með það mál og málið um Ríkisútvarpið sf. og málið um Ríkisútvarpið hf. Það yrði bara tekið út af dagskrá. Það væri langskynsamlegast. Það er ekki út af einhverju einu, nei, það er í 12 stafliðum frá a-l. Frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. getur t.d. brotið í bága við stjórnarskrá. Það er alvarlegt og rétt að ganga frá því máli. Við viljum mjög gjarnan losa Ríkisútvarpið undan flokkspólitískum ítökum en þetta frumvarp er engin lausn á því máli. Það er auðvitað dálítið skrýtið.

Bent hefur verið á að ákvæðinu í frumvarpinu um a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá virðist beinlínis vera ætlað til að auðvelda afnám ekki Rásar 1 heldur Rásar 2. Þeirrar útvarpsstöðvar sem sinnt hefur hvað best íslenskri dægurtónlist og á heiður skilinn fyrir að gera íslenska tónlist að þeirri útflutningsvöru sem hún er orðin og þeirri grósku sem er í íslenskri tónlist. Rás 2 á þar mjög mikinn þátt og ber að þakka starfsmönnum Ríkisútvarps, Rásar 2, sérstaklega fyrir það. Þeir hafa staðið sig mjög vel í því að spila ekki bara það vinsælasta heldur líka jaðartónlist. Ég held að tónlistarmenn eins og Mugison, jafnvel SigurRós og Lay Low upp á síðkastið, væru ekki það sem þeir eru í dag ef Rásar 2 nyti ekki við. Ég er ekki að segja að einkareknar útvarpsstöðvar geti ekki sinnt þessu máli en það er staðreynd að þær gera það ekki eins vel. Við höfum tölulegar staðreyndir um það. Þetta er auðvitað afar mikilvægt.

Einn af þessum 12 stafliðum er um nefskattinn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þetta er ekki heppileg leið til fjármögnunar sem byggist á árlegri ákvörðun þingmeirihluta og felur í sér mismunun milli gjaldenda sem er auðvitað grafalvarlegt mál. Svo er liðurinn um málaferlin. Það er stór þáttur út af fyrir sig og ég ætla að fara aðeins yfir hann á eftir. Gríðarlegur fjöldi fylgiskjala fylgir nefndarálitinu, t.d. umsögn Samkeppniseftirlitsins sem gerir miklar athugasemdir við málið og margar fleiri athugasemdir, t.d. frá BSRB og verkalýðsfélögum starfsmanna.

Auðvitað er það ekki svo að allt sé slæmt við þetta mikla frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Þar eru góðir punktar eins og í II. kafla, um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Þar eru að nokkru leyti skilgreindar áherslur og skyldur Ríkisútvarpsins í 13 töluliðum, eins og að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, sem er afar mikilvægt. Ríkisútvarpið hefur auðvitað sinnt þessu vel og gæti sinnt þessu enn þá betur. Annar töluliðurinn hljómar mjög einkennilega, þ.e. að senda eigi út a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá. Það er reyndar dálítið merkilegt að þetta skuli orðað svona. Af hverju var bara ekki sagt að haldið skyldi úti a.m.k. einni sjónvarpsrás og a.m.k. tveimur útvarpsrásum. Hafa menn í menntamálaráðuneytinu eitthvað á móti Rás 2? Hvað er málið? Á að slátra Rás 2 strax? Það er ekki einu sinni reynt að fela það. Hins vegar eru hér góðir hlutir eins og um dagskrána, að efnið eigi að fullnægja eðlilegum kröfum almennings um gæði og fjölbreytni, veita eigi almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta málefni lands og þjóðar sérstaklega. Það hljómar allt mjög vel.

Fimmti liður er flottur, að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og að gæta skuli fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Og 6. liður, að flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri. Þetta eru auðvitað miklar kröfur en sjálfsagt að setja markið hátt og reyna að fara eftir því. Mér finnst mjög ánægjulegt í 6. tölulið þar sem segir að þess skuli sérstaklega gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi sem sjónvarpi. Þetta finnst mér mjög góður punktur. Það hefur einmitt oft vantað, því miður, að í útvarpinu sé nægilega mikið af boðlegu efni fyrir börn, virðulegi forseti.

Sá sem hér stendur bjó í átta ár í Þýskalandi. Þar er ólíku saman að jafna hvað þar var miklu meira fyrirtaksefni í þýska ríkisútvarpinu fyrir börn. Þetta voru nokkurs konar barnatímar og einn þeirra sem hét Sögur fyrir börn á kvöldin var þáttur á hverju kvöldi sem börnin okkar máttu bara ekki missa af. Það get ég sagt því til hróss.

Herra forseti. Ég fagna því sérstaklega að náinn vinur minn, hv. þm. Pétur Blöndal, er kominn í salinn og ætlar vonandi að veita andsvör við ræðu minni. Ég hélt ég mundi kannski ekki tala í mikið meira en einn eða einn og hálfan tíma en mér finnst líklegt, því ég á núna tíu mínútur eftir, að aðeins teygist á því. Ég verð að hryggja Pétur Blöndal … (MÁ: … endurtaka hluta af ræðunni.) Hv. þm. Mörður Árnason leggur til að ég endurtaki hluta af ræðunni fyrir … (Gripið fram í.) Það var einmitt það sem ég ætlaði að segja, ég treysti því að jafnvel þó að hv. þm. Pétur Blöndal hafi ekki verið merktur inn í Alþingishúsið áðan og ekki á skrifstofunni sinni, held ég, hafi það bara verið einhver handvömm að stimpla sig inn á skrifstofuna. Hann hefur örugglega setið á skrifstofunni og horft á sjónvarpið eða verið í tölvunni sinni einhvers staðar heima. Það er líka hægt að fylgjast með umræðum þar. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal lætur ekki góðar ræður fram hjá sér fara.

Það er fleira gott í frumvarpinu af því ég er nú einmitt staddur þar. Þetta dálítið almennt orðað en markið er sett hátt: „Að veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“

Þessu hlutverki gegnir Ríkisútvarpið reyndar mjög vel, það verð ég að segja, það er alveg til fyrirmyndar. Aðeins hefur verið tekið fram í umræðunum í morgun og í gær reyndar líka, að það er fyrirtaksdagskrárgerð á mörgum sviðum hjá Ríkisútvarpinu og Kastljósið hefur verið nefnt þar til sögunnar í ríkissjónvarpinu og Spegillinn á Rás 1. Hann er að vísu mikill þyrnir í augum hægri manna. Segja sumir að vinstri slagsíða sé á þeim þætti, er það frekar einkennilegur málflutningur. En ef maður hlustar á útvarpið með þröngum flokkspólitískum eyrum getur vel verið að hægt sé að lesa eitthvað slíkt út úr hinum ágæta útvarpsþætti Speglinum, og Samfélaginu í nærmynd jafnvel líka, en þó ekki morgunleikfiminni held ég.

Hér er talað um að flytja efni á sviði lista, vísinda, sögu, íþrótta og annars tómstundastarfs. Það er mjög gott. Ég er sérstaklega hrifinn af 9. liðnum, að miða útvarpsefni við fjölbreytni íslensks þjóðlífs, þar á meðal að sinna eðlilegum þörfum minnihlutahópa. Mér finnst ánægjulegt að þetta sé sérstaklega tekið fram í frumvarpinu, að minnihlutahópar séu sérstaklega nefndir. Ég held að allir geti verið sammála um að afar mikilvægt er að útvarp sé ekki bara eitthvað svona „popular“ útvarp fyrir breiðan hóp útvarpshlustenda, heldur einnig fyrir þá sem eru í minni hluta í þjóðfélaginu. Það er afar mikilvægt mál. Ég er viss um að hv. þm. Dagný Jónsdóttir er mér sammála um það, alla vega kinkar hún kolli.

Tíundi liður er dálítið skemmtilegur líka: Að koma upp aðstöðu til dagskrárgerðar útvarps utan höfuðborgarsvæðisins. Sú aðstaða er sem betur fer fyrir hendi víða. Á Egilsstöðum er afar gott útvarp rekið og einnig er innslag í sjónvarp á Akureyri, á Ísafirði og á Suðurlandi. En auðvitað mætti koma því upp víðar, t.d. á Vesturlandi. Vesturlandið situr dálítið á hakanum, er að vísu með einhverja litla starfsstöð en efla mætti það til muna.

Þetta var nú til að vera á jákvæðu nótunum og segja eitthvað virkilega gott um frumvarpið. Maður nennir ekki að tala endalaust um það sem ekki er gott í frumvarpinu en því miður verður að segjast eins og er að stærsti hlutinn af því er ekki boðlegur. En ég verð að taka fram og hrósa hæstv. menntamálaráðherra sérstaklega fyrir að II. kaflinn í frumvarpinu, um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins, er mjög góður. Vissulega eru fleiri hlutir góðir í öðrum köflum.

Það er áhugavert yfirlitið sem er í frumvarpinu um rekstrarform ríkisfjölmiðla annars staðar, á Norðurlöndum, Stóra-Bretlandi, Hollandi og Austurríki. Það er dálítið merkilegt að Dönum líður ágætlega með ríkisútvarp sitt. Það er fjárhagslega sjálfstæð ríkisstofnun, ekki hlutafélag.

Vinir okkar og frændur, Svíar og Finnar, eru hins vegar með eitthvert hlutafélagaform á þessu. En flaggskipið mikla, BBC, og hefur einmitt verið bent á að tilvist og rekstrarform British Broadcasting Corporation byggist á konunglegum sáttmála frá árinu 1926 og hefur haldið þeirri stöðu til dagsins í dag. Þá er sérstaklega minnst á að á löngum og leiðinlegum valdatíma íhaldsmanna í Bretlandi undir stjórn járnfrúarinnar Margrétar Thatcher hvarflaði aldrei að henni, a.m.k. fékk hún það aldrei í gegn í íhaldsflokki sínum, að BBC yrði breytt í hlutafélag. Aldeilis ekki. Rekstrarformið á flaggskipinu er óbreytt.

Í Hollandi eru nokkrar rekstrareiningar sem falla undir stofnunina, Nederlandse Omroep Stichting. Austurríska ríkisútvarpið, ORF, er skipulagt sem stofnun. Telja mætti til fleiri lönd þar sem þetta er svona og gengur ágætlega og enginn kvartar yfir.

Herra forseti. Ég var búinn að lofa því að seinna í ræðu minni mundi ég aðeins minnast á bráðskemmtilegt blogg hæstv. dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar. Ég ætla að vinda mér í það. Það er í beinu framhaldi. Hann skrifar þetta á heimasíðuna í gær. Ég ætla ekki að fara að lesa það allt upp, enda getur hver sem er farið inn á heimasíðu Björns og lesið það þar. En þetta er dálítið skemmtilegur pistill og óvenju fyndinn. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skiljanlegt er að Fréttablaðið og aðrir Baugsmiðlar leggist gegn ríkisútvarpi hér,“ — það er dálítið merkilegt, herra forseti, að Björn Bjarnason skuli enn þá vera við það heygarðshornið að tala um einhverja Baugsmiðla og að Fréttablaðið sé einhver sérstakur Baugsmiðill. Bíðum við, missti hann af því að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins er orðinn ritstjóri þar á bæ? Er hæstv. ráðherra Björn Bjarnason að halda því fram að Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, sé einhver sérstök málpípa Baugs, á Baugsmiðli? Og allir leiðarar hans séu skrifaðir til þess að þóknast Baugsfeðgum?

Öðruvísi mér áður brá. Það er nú dálítið mikil íhaldssemi að halda sig við sömu hlutina enn og aftur og áfram og endalaust. Að Fréttablaðið, Stöð 2 og visir.is séu allt einhverjir Baugsmiðlar og sá svarti blettur verði aldrei af þeim þveginn. Það væri nú dálítið merkilegt.

En hann fullyrðir að Fréttablaðið og aðrir Baugsmiðlar séu „í sama liði og Rupert Murdoch, þeir vilja gera ríkisútvarpið sem tortryggilegast til að veikja stöðu þess, þeim er ljóst að hlutafélagavæðing styrkir innviði þess og gerir það að öflugri keppinaut.“ Þetta finnst mér alger brandari, fullkominn brandari.

Síðan segir ofurbloggarinn, Björn — ég veit nú ekki alveg með ofurbloggaratilnefninguna vegna þess að ég sá að hann er kominn á Moggabloggið og er bara í 40. sæti þar. Það eru því margir ofurbloggararnir ef hann er einn af þeim og ekki meira lesinn en það að hann var með 3.000 heimsóknir í síðustu viku. Þeir sem eru merktir eru með yfir 30.000 heimsóknir. Algengt er að vera með um 10.000 á viku. Það segir kannski eitthvað um ofmat á þeim annars ágætu pistlum hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnasonar.

Hann segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Væri þetta málþóf Marðar Árnasonar og Ögmundar Jónassonar til marks um, að þeir hefðu snúist til hægri, mætti sýna þeim skilning, því að beygjan hjá þeim þyrfti að vera stór og taka sinn tíma, en málþófið er ekki þess eðlis, það byggist á einhverri innbyggðri afturhaldssemi og andstöðu við allar breytingar.“

Þetta er náttúrlega að snúa hlutunum algjörlega á hvolf. Ég held að það hafi einmitt verið ítrekað af þeim tveimur heiðursmönnum, hv. þingmönnum, að það er ekki innbyggð afturhaldssemi eða andstaða við breytingar. Ég held að þeir vilji einmitt breytingar til batnaðar fyrir Ríkisútvarpið okkar. Og alveg tilbúnir til að vinna að þeim, herra forseti.

Mér finnst þetta pínulítið ómaklegt, jafnvel þó það sé skrifað í einhverju bríaríi á bloggið, þá ættu menn að halda aftur af sér og telja upp að tíu áður en þeir skrifa svona lagað.

En niðurlag mánudagsins 15. janúar 2007 hjá Birni Bjarnasyni, er dálítið skemmtilegt. Hann segir nefnilega: „Ég hef í mörg ár verið talsmaður þess, að Ríkisútvarpinu verði breytt í opinbert hlutafélag.“

Mörg ár. Bíðum við. Það var bara verið að leggja það fram í haust að það yrði opinbert hlutafélag. Er hann ekki eitthvað að rugla saman? Vegna þess að einhvern tímann var hann mikill talsmaður þess að það yrði sameignarfélag og þar á eftir venjulegt hlutafélag. En nú fáum við það upplýst á heimasíðunni hans að í mörg ár er hann búinn að vera talsmaður þess að því verði breytt í opinbert hlutafélag. Þetta eru nýjar upplýsingar fyrir mig, herra forseti.

Margt er hægt að segja um þátt útvarpsstjórans Páls Magnússonar í þessu máli. Eitt er umtöluð Gallup-könnun sem aðeins var rædd í morgun, herra forseti, þar sem því var haldið fram að mikill meiri hluti þjóðarinnar vildi að Ríkisútvarpið yrði að opinberu hlutafélagi.

Herra forseti. Hins vegar er athyglisvert og dálítið merkilegt og ber að skoða það sérstaklega hvernig staðið var að þeirri skoðanakönnun. Það var fyrirtækið Gallup sem heitir núna, held ég, Capacent Gallup, sem framkvæmdi könnunina fyrir Ríkisútvarpið. Ég hélt að þeir væru nú vandir að virðingu sinni og vona satt best að segja að þarna hafi verið gerð mistök. Vegna þess að í þeirri könnun var byrjað á að staðhæfa að til stæði að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins og spurt í framhaldinu hvort fólk væri almennt ánægt eða óánægt með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag.

Herra forseti. Er eðlilegt að spyrja svona? Menn gefa sér þarna einhverjar forsendur og biðja síðan um álit einstaklinga. Þetta minnir mig á áramótaskaupið, herra forseti, þegar fólk var að hringja inn í einhverjum könnunum, hægt var að fá lánað fólk til að hringja og segja skoðun sína á hinu og þessu. Á þann hátt er auðvitað ekki hægt að framkvæma alvarlega skoðanakönnun.

Það er í raun merkilegt að aðeins 60% segja: Ég er ánægður með það fyrst búið er að ákveða það, og þetta eigi að gera og kannski bjargar þetta einhverju hjá Ríkisútvarpið o.s.frv. Það er í rauninni ótrúlegt að ekki fleiri skuli hafa sagt: Nú, er búið að því? Á að gera það? Þá er það kannski bara allt í lagi. Ég held að ég sé bara ánægður með það.

Nei, það er auðvitað grafalvarlegt mál að síðan skuli einhverjum niðurstöðum úr slíkum könnunum vera flaggað hér hvað eftir annað og þar með sagt að mikill meiri hluti þjóðarinnar sé sammála Sjálfstæðisflokknum í þessu máli. Það sé alveg frábært að gera þetta að opinberu hlutafélagi. Ég veit ekki hvað mörg prósent þjóðarinnar eru sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að best væri að selja Ríkisútvarpið í hvelli. Hefði átt að vera búið að því fyrir löngu. (Gripið fram í: Það kemur.) Og það komi að því. Þetta sé aðeins fyrsta skrefið í því að selja Ríkisútvarpið okkar. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Pétur Blöndal stendur á því fastar en fótunum að að því komi og það hlakkar í honum. Það hlakkar í hv. þingmanni að nú sé að renna upp sá dagur að þetta óþolandi Ríkisútvarp skuli selt.

Það er sorglegt ef það verður endirinn á þessu máli að ríkisstjórninni takist með svínbeygðan Framsóknarflokkinn í afturdragi, komi þar aftan að kjósendum Framsóknarflokksins sem stóðu í þeirri trú að Ríkisútvarpið yrði áfram ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar en ekki einhverra viðskiptamógúla. Ekki einhverra nýríkra manna sem sjá hagræðingu stærðarinnar í hverju horni og væru líklegir til að sameina þetta allt og hluta það síðan kannski aftur í sundur og selja hluta af því og sameina það aftur og selja það með miklum hagnaði. Það eru mikil verðmæti sem felast í því að versla með pappíra. En við vitum betur. Raunveruleg verðmæti eru falin í starfsfólkinu og því trausti sem fólk og þjóðin ber til Ríkisútvarpsins.

Það er ánægjulegt, herra forseti, að enn þá skuli stór hluti þjóðarinnar líta á fréttastofu útvarps sem áreiðanlegustu fréttastofu í landinu. Það er afar ánægjulegt.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt miklu lengra að sinni þó ég sé ekki nærri því búinn. Ég ætla að geyma nokkra bita þangað til í seinni ræðu minni og hleypa mönnum að sem ætla ef til vill að gera athugasemdir eða koma með spurningar um mál mitt.

Það er einlæg von mín, herra forseti, að eitthvert samkomulag náist um málið þannig að við þurfum ekki að upplifa það að 1. apríl búum við við þá óvissu sem Ríkisútvarpið ohf. mun leiða yfir okkur. Ég hugsa með hryllingi til þess, alveg eins og þegar fyrirtækið Flugstoðir ohf. tók við um áramótin og allt var í upplausn. Allir vissu að öryggið var ekki það sama og það hafði verið. Það var t.d. enginn starfsmaður í flugturninum á Akureyri. Þar voru tugir flugvéla að lenda á dag í misjöfnum veðrum.

Ég vil ekki að við þurfum að upplifa það með Ríkisútvarpið okkar að 30 starfsmenn fari strax á biðlaun og öll réttindi starfsmanna verði í uppnámi (Gripið fram í.) og einhver kjarasamningur gildi. Þegar hann endar taki við frjálsir samningar þar sem hægt er að selja réttindi fyrir kauphækkun, eins og útvarpsstjóri orðaði það.

Þess vegna vona ég að málinu verði vísað frá, tekið af dagskrá og við getum sameinast frekar um að búa til skynsamlegt og gott frumvarp um Ríkisútvarpið sem miði að því að efla það en ekki að rífa það í sundur vegna þess að Ríkisútvarpið þarf ekki á því að halda, herra forseti.