133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:23]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir að beina til mín fögrum orðum og nokkrum spurningum. Þegar ég talaði um óþolandi Ríkisútvarp var ég að tala um sjónarmið margra flokksfélaga hv. þingmanns. Ekki það að þeim finnist sinfóníurnar á Rás 1 sérstaklega óþolandi eða eitthvað slíkt heldur það að þeim finnst óþolandi að það skuli vera til ríkisútvarp en ekki Ríkisútvarpið ohf., eða bara selt, bara leggja Ríkisútvarpið niður. Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur kannski upplýst okkur um það hvort að það séu ekki einmitt raddir innan Sjálfstæðisflokksins sem mundu vilja leggja þetta útvarp niður. Hefur hv. þingmaður t.d. hlustað á orð félaga í Sambandi ungra sjálfstæðismanna? Þeir eru með alls kyns hugmyndir um hvað hægt væri að gera við Ríkisútvarpið.

Í sambandi við ESA þá er því miður allt of stuttur tími í stuttum andsvörum til að fara yfir það. Þetta er auðvitað lögfræðilegt atriði og ég vil t.d. benda á álit hæstaréttarlögmanns, Ástráðs Haraldssonar, sem segir, að vísu í einum Baugsmiðlinum, á forsíðu, að þetta sé í raun upphafið að endi Ríkisútvarpsins, frumvarpið miði allt að því. Varðandi Flugstoðir þá verð ég því miður að koma að því í seinna svari mínu.