133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fer ekkert leynt með það að ég er 1. flutningsmaður að frumvarpi um að einkavæða og selja RÚV. Ég hef það mikla trú á starfsmönnunum að þeir fengju ákveðinn forkaupsrétt. Ég hef mikla trú á starfsmönnum RÚV. Ég hef mikla trú á fyrirtækinu sem slíku. Það sem er aðalhelsi RÚV er eignarhaldið, að ríkið skuli vera þarna inni, að þetta skuli vera stofnun. Það er svo merkilegt með RÚV að hér spinnast ógurlegar umræður, dag eftir dag, þing eftir þing, um RÚV eins og þetta sé eitthvað sérstakt, þetta fyrirtæki út í bæ. Þetta er ekkert sérstakt nema vegna þess að þingmenn og fréttamenn eru í ákveðnu sambandi. Þeir þurfa nefnilega hvor á öðrum að halda. Þess vegna ræðum við svona ofboðslega mikið um RÚV ohf. en ekki um Flugstoðir ohf. eða bankana þegar þeir voru einkavæddir þó að það hafi reyndar verið mikil umræða líka. Hér er alveg sérstaklega mikil umræða og þetta er farið að nálgast það að verða trúarbrögð og trúarbragðaumræða. Því miður kom afskaplega lítið nýtt fram í máli hv. þingmanns og ég á ekki von á því að þetta málþóf sem hér er í gangi gefi neitt mikið af nýjum upplýsingum eða sjónarmiðum enda er búið að ræða það í 70 klukkutíma, þetta mál, á þessu þingi svo ég tali ekki um önnur þing.

Ég hlakka því til að heyra í hv. þingmanni réttlæta það með Flugstoðir ohf. sem hann benti á að mundu verða örlög RÚV ohf. að það voru einmitt hátekjumennirnir hjá því fyrirtæki, flugumferðarstjórarnir, sem reyndar með vöktum og miklu vinnulagi eru með 740 þús. kr. að meðaltali í laun og voru með lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og áminningarréttinn og öll þessi réttindi til viðbótar. Hann er því ekki að verja einhvern lágtekjuhóp. Allt hitt starfsfólkið samþykkti.