133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:42]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var stutt og snaggaraleg ræða hjá varaformanni menntamálanefndar, hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur. En hellingur af spurningum sem vaknaði upp við þennan stutta texta. Hvað hefur hv. þm. Dagný Jónsdóttir til dæmis fyrir sér í því að Ríkisútvarpinu ohf. verði ekki skipt upp? Hlutafélagaformið er einmitt til þess fallið að skipta upp hlutafélögum, selja hluta úr rekstri og það stendur ekkert í þessum frumvarpstexta að það megi ekki. Þvert á móti er einmitt sagt að það eigi aðeins að hafa tvær, þ.e. eina sjónvarpsrás og eina útvarpsrás. Það er gefið, í orðanna hljóðan bendir allt til þess að það eigi að selja Rás 2, Rás 2 eigi að hlutast frá þessu.

Var það ekki líka þannig, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, (Forseti hringir.) að það er slegið á útrétta sáttarhönd stjórnarandstöðunnar í þessu máli?