133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:46]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem upp kemur í huga manns þegar hlustað er á ræðu hv. þingmanns og varaformanns menntamálanefndar en á þeim stutta tíma hef ég einungis tíma til að nefna eitt atriði.

Það stakk mig í ræðu hv. þingmanns þar sem hún hélt því fram að þarna væri verið að draga úr pólitískum áhrifum á dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins. Þarna er verið að reyna að slá ryki í augu fólks. Ég trúi því ekki að hv. þingmaður trúi þeirri fullyrðingu sjálf vegna þess að staðreyndin er sú að þegar frumvarpið er skoðað er um að ræða stjórn sem endurspeglar valdahlutföllin á Alþingi og sem kosin er af Alþingi sem síðan ræður og rekur útvarpsstjórann að vild, sem síðan á allt sitt undir þeirri stjórn, ræður og rekur það fólk sem hefur með dagskrána að gera og sýslar með dagskrána á hverjum einasta degi. Þræðirnir úr pólitíkinni og meiri hluta á þinginu hverju sinni liggja lóðbeint í gegnum allt stjórnkerfi Ríkisútvarpsins.