133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:47]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skil ágætlega áhyggjur hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur og ekki síst í ljósi þess hvernig framkvæmdin hefur verið síðustu ár. Ég er þeirrar skoðunar að afskiptin hafi verið einhver frá hinum pólitískt kjörnu fulltrúum. Hins vegar er það svo að það er útvarpsstjórinn sem ber núna ábyrgð á dagskrárgerðinni og ég hef enga ástæðu til að ætla að sú stjórn sem ræður útvarpsstjóra fari að vera með puttana í dagskrárgerðinni. Ég hef meiri trú á að þeir aðilar sem þar eru ráðnir fari ekki að fara eftir ábendingum þeirra fulltrúa sem eru í stjórn og það var auðvitað eitt af markmiðunum, þ.e. að draga úr þeim pólitísku áhrifum sem hafa verið allt of mikil innan Ríkisútvarpsins. Ég held að mjög margir séu sammála því. Ég ber þá von í brjósti að það verði útvarpsstjórinn sem muni bera ábyrgð á dagskrárgerðinni og muni ekki leyfa hinum pólitískt kjörnu fulltrúum að potast í því.