133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:48]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega virðingarvert að þingmaðurinn sé svona hreinskilin hvað þetta atriði varðar. En auðvitað á það að vera þannig að þegar við erum að breyta lögum um Ríkisútvarpið á svo gagnlegan hátt, eins og verið er að gera núna, á að laga þetta stóra umdeilda atriði á þann hátt að Ríkisútvarpið verði hafið yfir allan vafa hvað pólitísk afskipti varðar. Það væri hægt t.d. með því að breyta skipan stjórnarinnar þannig að þaðan kæmu tveir frá starfsmönnum eða aðrir inn í stjórnina svo hún væri ekki að endurspegla valdahlutföllin á þingi.

Ég verð að segja að verið er að reyna að slá ryki í augu fólks með því að halda því fram að verið sé að draga úr pólitískum áhrifum þegar það er augljóst í gegnum allt frumvarpið að verið er að gefa í hvað pólitísk ítök varðar vegna þess að útvarpsstjórinn er algerlega undir hælnum á þeirri stjórn sem endurspeglar valdahlutföllin á þingi af því að stjórnin getur rekið hann nákvæmlega hvenær sem henni hentar eða mislíkar það sem hann gerir.