133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:52]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki sammála hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um þátt Framsóknarflokksins, að menn séu mjög á móti þessu máli o.s.frv. Ég hef verið við vinnslu þessa máls í allan þennan tíma og hef ekki fengið mörg erindi frá okkar gamalgrónu og góðu félögum.

Eins og ég kom inn á í framsögu minni er það sem við erum að gera algerlega í takt við stefnu Framsóknarflokksins, í takt við þá ályktun sem samþykkt var á síðasta flokksþingi þar sem fjallað var um að fara yfir rekstrarformið og alveg ljóst að við erum þar að horfa til breyttra tíma.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á, álit Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, verður að skoða það í ljósi þess hvaða tengsl hann hefur við ákveðinn stjórnmálaflokk. (Gripið fram í: Ha?) (Gripið fram í: Hvað áttu við með því?) Ég hef ekki verið að kynna mér orð hans nákvæmlega. (Gripið fram í: Furðuleg ummæli.) (Gripið fram í: … Þorsteins Pálssonar.)