133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:53]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru furðuleg ummæli hv. þingmanns og ég átel að hún skuli láta þau orð falla um fólk úti í bæ sem hefur mikið vit á því málefni sem hér er um fjallað, að hún dæmir ummæli einstaklinga á borð við Ástráð Haraldsson hæstaréttarlögmann út frá einhverjum tengslum við ákveðinn stjórnmálaflokk. Ég verð að segja við hv. þingmann að mér hefði fundist rismeira ef hún hefði svarað spurningu minni sem hún kom sér hjá að gera. Hún hefur kannski fengið ráð hjá sessunauti sínum, hv. formanni menntamálanefndar, varðandi svarið.

En ég átti eftir að tala um tvö atriði við hv. þingmann í viðbót. Nefskatturinn á eftir að koma illa niður á barnafjölskyldum. Þegar unglingar eru farnir að greiða þennan nefskatt og unglingar eru tveir eða þrír á heimili á framfæri foreldra sinna, hvar er þá fjölskyldustefna Framsóknarflokksins? Þetta er annað. Og hvað vill hv. þingmaður segja við þá starfsmenn Ríkisútvarpsins sem hafa mótmælt þessu af því að verið er að skerða réttindi þeirra?