133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um þetta hafa komið fram efasemdir hjá Samkeppnisstofnun og fjölmörgum lögfræðingum. Það er staðreynd og það vekur athygli Alþingis og hlýtur að vekja athygli þjóðarinnar að Framsóknarflokkurinn skuli reiðubúinn að skilja Ríkisútvarpið eftir í óvissu hvað framtíðina snertir.

Réttindamálin. Ég vil bara vekja athygli á því að Framsóknarflokkurinn er að hlaupa frá fyrri skuldbindingum um það efni. Nú segir hv. þingmaður, fulltrúi Framsóknarflokksins við umræðuna, að ekkert sé hægt að vita um framtíðina. Við höfum hins vegar fordæmi, sagði hún, í umræðunni. Það er alveg rétt. Við höfum fordæmi frá Matís ohf. nýlega þar sem neitað er svo mikið sem að ræða við stéttarfélögin. Starfsmenn eru teknir, dregnir út í horn einslega til að þröngva upp á þá ráðningarsamningum sem þeir mega ekki sýna. Þetta eru fordæmi sem við höfum fyrir augunum og það er inn í slíka framtíð sem Framsóknarflokkurinn er tilbúinn að senda starfsmenn Ríkisútvarpsins en það eru svik við fólkið og það eru svik við samþykktir og hugsjónir Framsóknarflokksins.