133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:59]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er rétt að fram komu athugasemdir frá Samkeppnisstofnun. Hins vegar sögðu þeir jafnframt á fundi menntamálanefndar að fjárlögin ganga lengra en almenn lög og löggjafinn hefur síðustu orðin og bara það að við ákváðum að vera með ríkisútvarp felur auðvitað í sér ákveðna mismunun og ég er sammála þeirri mismunun. Ég veit að hv. þm. Ögmundur Jónasson, án þess að ég sé að gera honum upp skoðanir, vill hafa öflugt ríkisútvarp eins og ég vil.

Varðandi réttindamálin, ég er ekki að segja að það sé gott mál hvernig að málum er staðið hjá Matís. Hins vegar hefur útvarpsstjóri sagt okkur í hv. menntamálanefnd og á öðrum vettvangi að hann vilji gera vel og hann vilji semja við stéttarfélög. Ég vona innilega að hann muni standa við þau orð (Gripið fram í.) og ég tel að hann sé búinn að segja það margt að það standi. (Gripið fram í.) Eins og ég sagði áðan, réttindin eru tryggð í gegnum þessa formbreytingu og síðan verða auðvitað samningarnir að sjá um afganginn.