133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:01]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta voru áhugaverðar umræður sem fóru fram um ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Ég verð að segja að þetta mál og frumvarpið og ferill þess í þinginu er búið að vera ein sorgarsaga frá upphafi til enda. Hér eru búnar að koma fleiri, fleiri útgáfur af frumvarpi til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið frá hæstv. menntamálaráðherra Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og alltaf ár frá ári, frá frumvarpi til frumvarps, þá bara versna þau. Nú hefur þó Sjálfstæðisflokknum, að því er virðist, tekist að svínbeygja Framsóknarflokkinn til fylgis við það að ljúka þessu frumvarpi um Ríkisútvarpið ohf., eins og það heitir núna, og því er það komið alla leið hingað til 3. umr.

Það sem hefur gerst síðan 2. umr. fór fram fyrir jól eða nánar tiltekið held ég þann 7. desember sl., er heilmargt. Það hefur verið varpað leyndinni af þessum ESA-skjölum og samskiptum menntamálaráðuneytisins við ESA eða Eftirlitsstofnunina EFTA og þar hefur auðvitað margt athyglisvert komið í ljós. Þar hefur komið í ljós að það frumvarp sem á að fara að afgreiða núna með neyðarlögum nærri því á þingi vegna þess að allri almennri dagskrá hefur verið ýtt til hliðar bara til þess að þetta eina mál komist hér í gegn. Þetta mál er þannig statt að síðasta bréf í samskiptum við ESA var dagsett 9. janúar þannig að það mál er ekki útkljáð og auðvitað hljótum við að gera þá kröfu á hið opinbera að það vandi vinnubrögð sín og ljúki samskiptum sínum við ESA og þeim deiluefnum sem þar hafa verið uppi hvað varðar samkeppnisstöðu og annað til þess að þetta mál fái vandaða meðferð. En nei, það ætla ríkisstjórnin og þingmeirihlutinn ekki að gera vegna þess að það er búið að ryðja öllum öðrum dagskrárliðum til til þess að þetta mál komist hér í gegn á leifturhraða.

Það eitt og sér verð ég að segja, virðulegi forseti, finnst mér undarlegt, sérstaklega í ljósi þess að þetta frumvarpið á að taka gildi 1. apríl næstkomandi og við vitum að alþingiskosningar verða þann 12. maí eða einum mánuði og tólf dögum eftir gildistöku þess. Þetta ætla ég að kalla ákveðna gerð af ofbeldi og offorsi vegna þess að það er vitað að þetta er eitt af umdeildustu málum sem hafa farið í gegnum þetta þing á undanförnum árum. Að afgreiða slíkt mál með hálfgerðum neyðarlögum á þingi, neyðarþingsköpum hér á Alþingi og síðan með því að keyra í gegn gildistöku rétt fyrir kosningar, þetta verða að teljast afar, afar vafasöm vinnubrögð — nema þá auðvitað að hæstv. menntamálaráðherra sé búin að sjá það í hendi sér að hún muni ekki halda áfram að sitja í því ráðuneyti sem hún situr í núna og hafi gefið einhver loforð sem hún vill klára að uppfylla áður en hún stígur úr því ráðuneyti. Það er eina skynsamlega skýringin sem hægt er að sjá á þessu offorsi á málinu.

Virðulegi forseti. Við höfum ekki fengið nein svör við því sem spurt var um fyrr í dag en þá spurði hv. þm. Mörður Árnason hæstv. forseta sem þá sat í stólnum, Sólveigu Pétursdóttur, hvernig á því stæði og hver væri tilhögun þingsins út þessa viku þar sem búið er að lýsa yfir hálfgerðu neyðarástandi. Engin svör hafa fengist við því og við hljótum að fara fram á að þessu verði svarað a.m.k. fyrir kvöldmat áður en við höldum inn í kvöldið. Ég vona að hæstv. forseti komi þeirri ósk til skila að spurningu hv. þm. Marðar Árnasonar frá því fyrr í dag verði svarað.

Virðulegi forseti. Ég hef komið inn á það að allt þetta mál og þetta frumvarp um Ríkisútvarpið hefur verið ein sorgarsaga frá upphafi til enda. Það eru engar deilur um að fjölmiðlaumhverfið hefur tekið mjög miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum, sérstaklega síðustu tveimur áratugum, og það eru engar deilur um að í því ljósi sé mikilvægt að skoða stöðu Ríkisútvarpsins og hlutverk þess í því samhengi, þ.e. stöðu Ríkisútvarpsins í breyttu fjölmiðlaumhverfi. Þess vegna er það svo sérkennilegt hvaða vinnubrögðum og aðferðum hefur verið beitt við að koma þessu máli hér inn á borð Alþingis.

Á þessu kjörtímabili hafa verið miklar deilur um fjölmiðla og svokölluð fjölmiðlalög. Eftir deiluna stóru árið 2003 var þess vegna ákveðið að fjölmiðlamálið yrði sett í þverpólitískan farveg. Þar var farið í þverpólitískan leiðangur með þverpólitíska nefnd um fjölmiðla og fjölmiðlaumhverfið á Íslandi en það merkilega var að Ríkisútvarpið var þar tekið út fyrir sviga. Ríkisútvarpið, þessi risi á fjölmiðlamarkaði er ekki með og ekki látinn vera með í umfjöllun um fjölmiðlamarkaðinn og það hlýtur að teljast afar undarlegt. Það er líka ljóst að þegar fjölmiðlanefndin skilaði af sér létu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í nefndinni bóka að þeir væru þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að ná sátt um samræmda heildarsýn yfir íslenska fjölmiðla, sem taki þá bæði til Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla. Því það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að heimar þessara tveggja skarast allverulega og það er svo mikilvægt að fara að skapa sátt um umhverfi þessara aðila, Ríkisútvarpsins og hinna einkareknu fjölmiðla. Í þessari bókun segir einnig að slíkt sé einungis mögulegt, þ.e. að ná sátt um samræmda heildarsýn fyrir íslenska fjölmiðla, ef vinnan við lagasetningu um Ríkisútvarpið fari fram samhliða vinnu við almenna löggjöf um fjölmiðla.

Virðulegi forseti. Skoðun okkar í þessum efnum hefur legið ljós fyrir frá upphafi og er ítrekuð í þessari bókun. Ég er farin að velta fyrir mér hvað vaki fyrir stjórnarmeirihluta þingsins að keyra þetta mikilvæga mál hér í gegn í svo mikilli ósátt, þegar það hefði verið svo einfaldur hlutur að taka þetta mál og setja það í þverpólitískan farveg og a.m.k. freista þess að skapa sátt um Ríkisútvarpið. En nei, niðurstaðan hjá ríkisstjórninni og þingmeirihlutanum er sá að keyra málið í gegn og láta það taka gildi mánuði fyrir kosningar, láta þetta umdeilda frumvarp taka gildi mánuði fyrir kosningar. Ég er ekki viss um að svona gjörningur sé algengur í löndum í kringum okkur.

Það er oft sagt að ekkert sem núverandi ríkisstjórn geri komi manni lengur á óvart og hvað þá hin ýmsu vinnubrögð. Og auðvitað hlýtur sú ríkisstjórn sem hagar sér svona, að keyra jafnmikla breytingu og umdeilda í gegn rétt mánuði fyrir kosningar, að dæmast af verkum sínum. Núna, þegar um 22 ár eru síðan einkaleyfi Ríkisútvarpsins til útvarpssendinga var afnumið, þá held ég að meiri bragur væri á því að reyna að koma þessu máli í þverpólitískan farveg, ná um það sátt og koma því inn í umræðuna þannig að það sé rætt í einhverju samhengi við aðra fjölmiðla og við hina almennu löggjöf um fjölmiðla, því annars sjáum við fram á að um þetta verður deilt fram og til baka, þ.e. samkeppnisstöðuna, það verður deilt um hvar almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins lýkur og hvar annað byrjar, sem verður umdeilt. Þetta vitum við og þetta veit sú ríkisstjórn sem nú situr og þess vegna undra ég mig á því hvers vegna menn keyra málið svona áfram eins og raun ber vitni. Ef við ætlum að byggja upp almennilegt almannaútvarp sem á að standa til framtíðar þá mundu almennileg stjórnvöld, stjórnvöld sem vilja vinna málið af ábyrgð og festu og vilja Ríkisútvarpinu raunverulega vel, auðvitað skapa um þetta mál þverpólitíska samstöðu. Ég tel að það hefði verið hægt að gera í stað þess að hefja þá sorgargöngu sem þessi frumvörp eru, fyrst Ríkisútvarpið sf., síðan hf. og síðan ohf. Þetta er auðvitað allt ein hörmungarsaga, virðulegi forseti.

Á undanförnum árum hafa verið uppi miklar deilur í kringum Ríkisútvarpið, það hafa komið upp mörg deiluefni og mjög stórar pólitískar spurningar og þeim er alls ekki svarað í þessu frumvarpi. Það er ekkert á þessum stóru deiluefnum tekið. Ég get nefnt þar sem dæmi þær breytingar sem er verið að gera á fjármögnun Ríkisútvarpsins, þ.e. að það á að leggja niður hin afar umdeildu afnotagjöld en í staðinn á að taka upp eitthvað sem ég tel að verði enn umdeildara, sem er nefskatturinn. Það er að mínu mati mjög vond leið til þess að fjármagna Ríkisútvarpið og alls ekki til þess fallin að skapa sátt um fjármögnunarleiðina. Mér finnst þetta vera dæmi um hversu illa er vandað til verka við gerð frumvarpsins. Það er einhvern veginn stokkið af einni vondri fjármögnunarleið yfir á aðra vonda eða verri fjármögnunarleið í öllum hamaganginum.

Það kom fram í andsvari mínu við hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að lengi hefur nokkur tortryggni ríkt í garð Ríkisútvarpsins, oft óverðskulduð en stundum verðskulduð. Sú tortryggni sem hefur sprottið af þeim pólitísku ítökum sem verið hafa í útvarpsráði, í gegnum útvarpsráð inn í útvarpið. Útvarpsráð hefur, gerir í dag og hefur gert í gegnum tíðina, endurspeglað meiri hlutann, þ.e. valdahlutföll á Alþingi hverju sinni. Það hefur verið gagnrýnt en með þessu frumvarpi á frekar að bæta við afskiptin í þessum efnum. Ég mun fara betur yfir það í ræðu minni á eftir en eins og ég sagði m.a. í andsvari áðan mun pólitískum ítökum gefið framhaldslíf. Það er verið að skerpa á þeim ef eitthvað er.

Virðulegi forseti. Mér þætti vænt um, þar sem enginn stjórnarliði er í salnum, að það yrði tekið niður og því komið áleiðis en ég hef áður spurt þessa. Við erum nú í 3. umr. um málið og mér hefur hvorki við 1. umr. né 2. umr. um málið tekist að fá svör. Hvorki hæstv. menntamálaráðherra eða nokkur á hennar vegum hefur svarað spurningunni: Hvers vegna mega ekki koma í stjórn Ríkisútvarpsins, t.d. tveir fulltrúar starfsmanna? Hvers vegna leggja menn svo mikla áherslu á að stjórnin haldi áfram að endurspegla valdahlutföll á Alþingi? Þessari spurningu hefur aldrei verið svarað. Það hlýtur að vera djúpstæð skýring á þessu sem við verðum að fá að heyra áður en greidd verða atkvæði um málið. Ég óska eftir að hæstv. forseti komi þessari spurningu áleiðis og að henni verði svarað áður en umræðunni lýkur.

Auðvitað eru fleiri atriði sem eru stór og umdeild í þessu máli. Það standa t.d. mjög miklar deilur um rekstrarformið. Það er sérstakt að búa til hlutafélag sem fær tekjur af nefskatti og er að mestu rekið fyrir opinbert fé. Maður spyr sig um tilganginn með því. Þetta er afar umdeild leið. Tilgangurinn hefur ekki orðið ljós í þeim stuttu ræðum sem stjórnarliðar hafa séð ástæðu til að halda um málið. Enn hafa ekki fengist nægjanlegar skýringar á þeim atriðum.

Það kemur dálítið athyglisvert fram í nefndaráliti minni hlutans, af því við erum að tala um þau deiluefni sem þetta frumvarp mun ýta undir, deiluefni sem uppi eru nú þegar um Ríkisútvarpið í núverandi mynd. Þau fá framhaldslíf í þessu nýja frumvarpi og síðan koma upp ný deiluefni. Í nefndaráliti minni hlutans er kafli sem ber yfirskriftina Staða Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisrétti og Evrópurétti. Þar er fjallað um umsögn frá Samkeppniseftirlitinu og heimsókn eftirlitsins til nefndarinnar þar sem ýmislegt mjög áhugavert kemur fram. Ég ætla ekki að fara yfir það allt en það má sjá í þingskjölum.

Í nefndarálitinu kemur fram að þáttur Samkeppniseftirlitsins í málinu lýsir vel þeirri óvissu sem ríkir nú um stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart innlendum samkeppnisrétti og gagnvart Evrópurétti. Minni hluti menntamálanefndar greinir frá því að við umfjöllun um málið í vetur hafi stjórnarandstæðingarnir í menntamálanefnd lagt áherslu á að fá til fundar óháða sérfræðinga á þessu sviði, þ.e. í samkeppnisrétti og í Evrópurétti. Það hafi hins vegar gengið mjög illa. Ástæður þessa segja þeir koma ágætlega fram í svari eins þeirra sem beðinn var að koma fyrir nefndina til að skýra stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart innlendum samkeppnisrétti og Evrópurétti. Einn þeirra, Stefán Geir Þórisson lögfræðingur, svarar beiðni nefndarinnar á þá leið, með leyfi forseta:

„Spurningarnar sem varpað er fram snúast um grundvallaratriði á einhverjum flóknustu og vandmeðförnustu sviðum réttarins, þ.e. samkeppnisrétti og Evrópurétti. Til að geta svarað spurningum af því tagi sem varpað er fram í erindi þínu [þ.e. nefndarritara] af einhverju viti þarf jafnvel sérfræðingur á þessum réttarsviðum að leggjast í verulega rannsóknarvinnu. Þar sem ég hef yfirdrifið að gera í starfi mínu sem lögmaður sé ég ekki fram á að geta innt þá vinnu sem þarf af hendi í sjálfboðavinnu, en ég geri, af fyrri reynslu, ekki ráð fyrir að þingið muni greiða fyrir vinnu við undirbúning fyrir slíkan fund hjá nefndinni.“

Þetta skýrir og lýsir vel þeirri erfiðu stöðu sem þingnefndir lenda í vegna þess að auðvitað er ekki hægt að fara fram á að lagt sé í mikla og djúpa rannsóknarvinnu í sjálfboðavinnu. Þetta mál lýsir því ágætlega að nefndin hefði þurft meiri tíma og meiri mannafla til að gera sjálfstæðar athuganir á þessum erfiðu sviðum, en það er einmitt á sviði Evrópuréttar og vegna samkeppnislaga sem deilurnar við ESA hafa staðið. Um það fjalla þau leyniskjöl sem voru opnuð fyrir einungis örfáum dögum.

Í ágætu nefndaráliti minni hlutans kom einnig fram að á það vanti að ESA hafi gengið úr skugga um formsatriði í nýjasta RÚV frumvarpinu og í fylgigögnum þess, þ.e. hvort það fullnægi Evrópukröfum. Það kemur líka fram að með frumvarpinu sé tekin verulega áhætta á málaferlum á grunni Evrópureglna. Þetta þykir mér afar áhugavert. Nefndin virðist a.m.k. ekki hafa getað gengið úr skugga um að það væri hafið yfir allan vafa að lagasetningin stæðist varðandi Evrópurétti. Lagasetning af því tagi virkar býsna bráðræðisleg. Eins og ég hef sagt áður eru t.d. sett fram dæmi um það í nefndarálitinu hvaða atriði eru líkleg til að verða athuguð fyrir dómstólum. Hér er t.d. spurt, með leyfi forseta:

„1. Hvernig sinnir Ríkisútvarpið almannaþjónustuhlutverki sínu? Starfar það samkvæmt of víðri skilgreiningu á almannaþjónustu þannig að starfsemi þess þrengi að möguleikum annarra á ljósvakavettvangi?

2. Hver er þátttaka Ríkisútvarpsins á markaði auglýsinga og kostunar? Er um að ræða grimmilega samkeppni við keppinautana — og byggist hún á sölu auglýsinga og kostunar í tengslum við dagskrárefni sem fellur illa að almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins?

3. Hvert er svigrúm Ríkisútvarpsins til athafna og viðskipta sem lítt eða ekki tengjast almannaútvarpshlutverki þess? Stofnar það til útsendinga á samkeppnisrásum til að afla auglýsingatekna? Vinnur það gegn öðrum ljósvakastöðvum umfram það sem eðlilegt getur talist við rekstur almannaútvarps, ef til vill gegn einhverri tiltekinni stöð?

4. Hvert er rekstrarform Ríkisútvarpsins? Hefur það að formi til sérstöðu sem hæfir hlutverki þess sem almannaútvarps eða er því valið rekstrarform sem einkum miðast við hefðbundinn samkeppnisrekstur á markaði? Er hætta á að Ríkisútvarpið hf. eða ohf. notfæri sér ávinning hlutafélagsformsins án þess að sæta þeim samkeppnisreglum sem keppinautar í öðrum hlutafélögum verða að gangast undir?“

Mér finnast þetta mjög áhugaverðar spurningar og eiginlega með hreinum ólíkindum að menn skuli ekki hafa farið betur yfir þessi atriði í nefndinni eða gefið færi að skoða þau betur. Vegna þess að auðvitað viljum við ekki auka ófriðinn um útvarpið, það viljum við alls ekki. Ég er búin að nefna helstu deilumál sem hafa staðið um Ríkisútvarpið eins og það er núna. Með samþykkt frumvarpsins bætum við enn einu deilumáli við. Menn hafa nefnt að í kjölfar samþykktar þessa lagafrumvarps geti farið af stað hrina málssókna.

Ég ítreka að betur hefði átt að vanda til þessa máls. Skynsamlegra hefði verið að setja það í þverpólitískan farveg ásamt hinni almennu fjölmiðlalöggjöf þar sem fjölmiðlamarkaðurinn er skoðaður í heild sinni og heildarsýn fengin á fjölmiðlamarkaðinn, þar sem Ríkisútvarpið yrði með. Ríkisútvarpið er ekki undanskilið hinum heildstæða fjölmiðlamarkaði þótt vissulega hafi Ríkisútvarpið sérstöðu. Við viljum að Ríkisútvarpið hafi sérstöðu en einmitt þess vegna skiptir máli að staða Ríkisútvarpsins sé skoðuð í heildrænu samhengi við almenna fjölmiðalöggjöf. Þannig mundu hagsmunir manna ekki stangast á heldur ná að vinna saman eins og kostur er. Við höfum þegar ákveðið að hér eigi að vera öflugt almannaútvarp, öflugt Ríkisútvarp.

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum lengi talað fyrir því að breyta lögum um Ríkisútvarpið, skerpa stöðu þess og breyta ýmsum þáttum í lagaumhverfi þess. Við höfum talað fyrir því. Ég get nefnt sem dæmi að hv. þm. Mörður Árnason og fleiri hafa lagt fram á Alþingi þingsályktunartillögu í þá veru. Sú tillaga túlkar mjög vel hugmyndir okkar en afstaða okkar hefur verið skýr um alllanga hríð. Hún var einnig kynnt sérstaklega og dregin saman á blaðamannafundi í byrjun desember, fyrstu viku desember. Við erum auðvitað sammála um að breyta eigi lögunum um Ríkisútvarpið. Á lögunum þarf að gera ýmsar breytingar. Um það hefur verið nokkur sátt lengi. En umhverfi fjölmiðlunar hefur breyst verulega frá því fyrir 22 árum þegar við afnámum einkaleyfi RÚV til útsendinga.

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að ég vildi koma betur inn á nokkur atriði sem ég hef verið ósátt við afar lengi. Ég hef í ræðum mínum nefnt þau æðioft og spurt en ekki fengið nein svör. Ég hlýt að geta farið fram á, virðulegi forseti, við lokaumræðu um málið að menntamálaráðherra eða þeir sem tala fyrir þessu frumvarpi í þinginu svari spurningum mínum. Þeir hljóta að þurfa að svara spurningum þingmanna um þetta frumvarp þótt auðvitað sé það í anda annarra vinnubragða þessarar ríkisstjórnar og þingmeirihluta að keyra mál sín í gegn án þess að eiga nokkrar samræður við stjórnarandstöðuna um þau. En ég hlýt a.m.k. að gera tilraun að kalla eftir því að spurningum mínum verði svarað.

Virðulegi forseti. Ég nefndi í upphafi máls míns að ég ætlaði að koma betur inn á að með frumvarpinu yrði pólitískum ítökum í málefnum Ríkisútvarpsins gefið framhaldslíf. Ég hef lengi verið ósátt við þá stöðu og við vitum að stjórnskipulag stofnunarinnar hefur verið umdeilt, þ.e. að yfir því gíni útvarpsráð sem endurspeglar valdahlutföllin á Alþingi. Þetta hefur skapað tortryggni í garð Ríkisútvarpsins og margir hafa deilt á þetta. Í þessu frumvarpi er því miður ekki gefið eftir í þessum efnum. Í stað þess að nota tækifærið og laga þennan skavanka á lögunum um Ríkisútvarpið á að auka vandann. Þótt útvarpsráð sé afnumið í þeirri mynd sem það hefur verið er sett yfir stofnunina svokölluð rekstrarstjórn. En staðreyndin er sú að þessi stjórn mun ráða og reka útvarpsstjóra, útvarpsstjóra sem hefur allt með ráðninga- og dagskrármál Ríkisútvarpsins að gera.

Þegar útvarpsstjóri er settur í þá stöðu að pólitísk stjórn geti rekið hann hvenær sem er þá er hætta á að yfir útvarpsstjóra hangi uppsagnarbréfið fari hann ekki að vilja þessa hóps. En þar með erum við komin í nokkurn vanda og, virðulegi forseti, alls ekki á réttri braut. Þetta hlýtur að vera vont fyrir metnaðargjarna útvarpsstjóra framtíðarinnar og mér finnst þetta afar varhugavert. Ef við ætlum að eyða tortryggninni í garð Ríkisútvarpsins og gefa metnaðargjörnum útvarpsstjórum starfsfrið frá stjórn sem er að meiri hluta skipuð ríkisstjórnarflokkunum hverju sinni, þ.e. ætlum að gefa útvarpsstjóra starfsfrið og tækifæri til að setja mark sitt á stofnunina, þá getur hann ekki unnið undir þeim kringumstæðum að séu störf hans ekki þóknanleg ríkisstjórn hverju sinni geti stjórnin einfaldlega rekið hann. Með þessum hætti, virðulegi forseti, er kominn beinn þráður frá ríkisstjórnarborðinu og niður eftir allri stjórnskipan Ríkisútvarpsins. Þar með er hætta á að útvarpsstjórar framtíðarinnar reyni, án þess að gera það meðvitað, að þóknast stjórninni.

Ég hefði talið heppilegra að fara aðrar leiðir. Eins og komið hefur fram ítrekað, bæði í umsögnum um þetta mál og líka í ræðum, þá er hægt að fara aðrar leiðir. Ein þeirra leiða er t.d. sú að við stjórnina, sem samkvæmt frumvarpinu á að vera fimm manna og meiri hlutinn skipaður ríkisstjórnarflokkunum hverju sinni, bætist við tveir, t.d. frá starfsmönnum. Þetta finnst mér áhugaverð leið. Þar með hættum við beinum pólitískum ítökum ríkisstjórna hverju sinni og þá þarf að ná samstöðu innan stjórnarinnar um allar meiri háttar ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Það er ekki bara stjórnarandstaðan sem hefur áhyggjur af pólitískum ítökum. Fleiri hafa lagt til breytingar á þessu fyrirkomulagi. Ég get t.d. nefnt umsögn Alþýðusambands Íslands en þar kemur fram að ASÍ telur mikilvægt að standa vörð um sjálfstæði Ríkisútvarpsins og telur að það megi gera með því að taka upp svipað fyrirkomulag og þekkist víða, t.d. að starfsmönnum og sjálfstæðum aðilum utan stofnunarinnar verði auk þings og ráðherra gert að skipa fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins. Þetta leggur ASÍ beinlínis til. Það er mjög í anda þess sem við höfum sagt.

Í umsögn stjórnar Blaðamannafélagsins er einnig komið inn á þetta. Stjórnin leggur í umsögn sinni til að fleiri aðilar en Alþingi fái að skipa fulltrúa í stjórn hlutafélagsins, t.d. starfsmenn Ríkisútvarpsins og nefnir að slíkt eigi sér fordæmi í nágrannalöndum okkar, t.d. sé útvarpsráð NRK skipað níu mönnum og þar af þremur fulltrúum starfsmanna.

Í umsögn stjórnar Blaðamannafélagsins segir, með leyfi forseta:

„Þannig má stuðla að því að önnur sjónarmið en flokkspólitísk ráði för hjá stjórn hlutafélagsins, t.d. við ráðningu útvarpsstjóra.“

Hér eru fleiri umsagnir en þær tvær sem ég nefni og koma inn á akkúrat þetta. Stjórn Blaðamannafélagsins segir að þetta yrði til þess að önnur sjónarmið en flokkspólitísk ráði för við ráðningu á útvarpsstjóra. Auðvitað sjá fleiri aðilar úti í samfélaginu en bara stjórnarandstaðan hvílík hætta er hér á ferðinni. Ríkisútvarpið verður að vera hafið yfir allan vafa um að flokkspólitísk sjónarmið ráði för ef það á að skapa sátt um það til framtíðar. Þessu hefur ekki verið svarað og ég fer fram á að þeirri spurningu minni verði svarað áður en umræðunni lýkur.

Í umsögn stjórnar Blaðamannafélagsins segir jafnframt að samkvæmt frumvarpinu ráði útvarpsstjóri aðra starfsmenn Ríkisútvarpsins ohf. og að lagt sé til í frumvarpinu að nánar verði kveðið á um starfssvið útvarpsstjóra í samþykktum félagsins. Þá er útvarpsstjóri samkvæmt frumvarpinu æðsti yfirmaður allrar dagskrárgerðar Ríkisútvarpsins. Stjórn Blaðamannafélags Íslands segir að hún telji rétt að skilgreina betur starfssvið útvarpsstjóra í lögunum eða þá að lögin kveði á um að settar verði sérstakar reglur sem tryggi sjálfstæði ritstjórna gagnvart útvarpsstjóra.

Virðulegi forseti. Þetta er merkileg umsögn og ég tek undir þessar tillögur og athugasemdir. Mér þykir það billegt ef stjórnarmeirihlutinn ætlar að afgreiða umsagnir án þess að svara þessum spurningum, afgreiða þær með þögninni einni saman. Það er auðvitað ekki boðlegt gagnvart öllum þeim fjölda sem hefur sent inn umsagnir um þetta mál og hafa gagnrýnt þetta sama.

Fleiri hafa gagnrýnt þetta, t.d. get ég nefnt gagnrýni Hollvinasamtakanna. Mér finnst sérkennilegt ef þingmeirihlutinn og hæstv. menntamálaráðherra ætla að afgreiða umsagnir með þögninni einni saman. Hvernig á að skýra það fyrir fólkinu sem lagði á sig að skrifa umsagnir og koma með mikilvægar ábendingar um frumvarpið inn til menntamálanefndar? Það er a.m.k. lágmark að þessu fólki sé svarað. Hvers vegna var ekki tekið tillit til þeirra athugasemda, ekki þá síst athugasemda þar sem ekki bara einn eða tveir, heldur a.m.k. þrír eða fleiri komu með sömu athugasemdir og ábendingar? Meiri hluti menntamálanefndar hefur ekki séð ástæðu til þess að taka tillit til þessa. Hvers vegna ekki? Því verður að svara.

Í umsögn frá Hollvinasamtökunum er lögð áhersla á að gengið verði lengra í að losa stjórn Ríkisútvarpsins ohf. undan hinu flokkspólitíska valdi og meirihlutavaldi Alþingis hverju sinni. Það verði best gert með því að fara í gagnstæða átt við þá stefnu sem mörkuð er í frumvarpinu og hafa æðstu stjórn stofnunarinnar breiðari en þar er gert ráð fyrir. Þetta er allt í sama anda. Við í Samfylkingunni höfum lagt til álíka breytingar og tillögur í þessa veru þannig að losa megi um pólitísk ítök.

Virðulegi forseti. Ég vona að stjórnarþingmenn eigi eftir að svara þessum spurningum þegar á líður. Þótt þeir láti ekki sjá sig í salnum vona ég að þeir séu þá a.m.k. með kveikt á sjónvörpunum og taki niður spurningar mínar. Það er til lítils fyrir aðila að senda inn umsagnir, ábendingar og athugasemdir, hvað þá fyrir okkur þingmenn að standa hér og bera fram sömu spurningarnar æ ofan í æ og fá ekki nein svör. Ég hefði talið að hæstv. menntamálaráðherra og meiri hluti þingsins hefði farið það vel í gegnum málið að það ætti að vera hægt að kasta fram svörum við þessum stóru spurningum án þess að hafa mikið fyrir því. Það skyldi maður a.m.k. ætla.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna fleiri atriði áður en ég lýk umfjöllun minni um hin pólitísku ítök. Stjórn Blaðamannafélagsins kemur í umsögn sinni inn á sjálfstæði ritstjórna og mikilvægi þess að færa ákvæði um það inn í lög, að settar séu reglur um sjálfstæði ritstjórna. Mér finnst rétt að koma inn á að þingmaður Samfylkingarinnar, þ.e. Bryndís Hlöðversdóttir sem var þingmaður fyrir okkur á þessu kjörtímabili, lagði ásamt fleirum fram þingsályktunartillögu sem fjallaði um þetta, þ.e. að skerpa á sjálfstæði ritstjórna. Samfylkingin hefur unnið mikla vinnu í þessum málum sem hefði átt fullt erindi inn í þverpólitíska nefnd. Fulltrúar okkar hefðu orðið til mikils gagns í þverpólitískri vinnu við að reyna að ná samstöðu um stöðu Ríkisútvarpsins til framtíðar.

Virðulegi forseti. Næst vil ég víkja máli mínu að fjármögnuninni. Sú leið sem menn ætla að fara er afar umdeild. Ég veit að afnotagjöldin eru gríðarlega umdeild leið til þess að fjármagna Ríkisútvarpið en hvernig í veröldinni hæstv. menntamálaráðherra og þeim sem fyrir þessu frumvarpi tala datt í hug að nefskattur yrði lausnin til framtíðar fyrir Ríkisútvarpið ohf., fyrir hlutafélagið Ríkisútvarpið, að nefskattur mundi leysa afnotagjöldin af hólmi og skapa um fjármögnun Ríkisútvarpsins einhverja sátt, það að nokkrum í veröldinni skyldi detta það í hug er verðugt rannsóknarefni. Ég er eins og margir aðrir sannfærð um að nefskatturinn á eftir að verða umdeildari leið en afnotagjöldin þegar fram líða stundir. Nefskatturinn er vond leið til að fjármagna Ríkisútvarpið og arfavond hugmynd. Hún hreinlega mismunar borgurum landsins. Þessi leið getur leitt til mikils álags á stórar fjölskyldur þar sem ungmenni yfir 16 ára eru í heimahúsum. Álögur geta aukist mjög á slíka hópa.

Mér líkar afar illa við þá pólitík sem í frumvarpinu felst, þ.e. þegar ákveðið er, eins og segir í greinargerð með frumvarpinu, að fara leið sem íþyngir stórum fjölskyldum. Mér finnst það umdeilanlegt. Ég er á móti slíkri pólitík en þetta er kannski sú fjölskyldupólitík sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað í ræðu og riti á hátíðisdögum. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að almennt mætti miða við að haga skattlagningunni þannig að hvert þriggja manna heimili yrði nokkurn veginn jafnsett eftir sem áður, sem mundi þýða að gjaldið lækkaði fyrir fámennari heimili, t.d. fyrir hjón, en hækkaði hjá heimilum þar sem einstaklingar 16 ára og eldri væru fjórir eða fleiri. Séu á heimili foreldrar og tvö börn, 16 ára og eldri, er hætt við að gjaldið hækki.

Virðulegi forseti. Sumir 16 ára verða undanþegnir þessu þar sem einhver tekjumörk eru sett en tekjumörkin eru það lág að skatturinn mun verða mjög íþyngjandi fyrir margar fjölskyldur. Hér segir beinlínis að það sé meðvituð ákvörðun að hafa þetta svona í greinargerð með frumvarpinu. Undir þetta kvittar Framsóknarflokkurinn sem hefur barið sér á brjóst og sagst ætla að huga að fjölskyldunum í landinu. Við skilgreinum börn til 18 ára aldurs. Frumvarpið gerir ráð fyrir nefskatti við 16 ára aldur. Mér finnst Framsóknarflokkurinn þurfa að svara betur fyrir það en hv. þm. Dagný Jónsdóttir gerði í ræðu sinni áðan. Málið snýst ekki bara um að vera ósammála um leiðir heldur einnig að Framsóknarflokkurinn segir í einu orði að hann ætli að létta álögum af fjölskyldunum í landinu en vikuna á eftir stendur flokkurinn að því að keyra í gegn frumvarp sem, eins og segir í greinargerðinni, kemur til með að íþyngja stærri heimilum, þar sem börn eldri en 16 ára eru tvö eða fleiri. Við vitum að þetta á við um fjölda heimila í landinu. Þetta er ekki sú fjölskyldupólitík sem við í Samfylkingunni viljum reka, að koma með þessum hætti aftan að stærri fjölskyldum.

Virðulegi forseti. Nokkrir hafa gagnrýnt þá fjármögnunarleið að taka upp nefskatt. ASÍ hefur gagnrýnt þessa fjármögnunarleið og lýst yfir efasemdum með fyrirhugaða breytingu. Ég get líka nefnt Hollvinasamtökin sem lýsa í umsögn sinni miklum efasemdum með nefskattinn. Áhugavert er að jafnvel þeir sem sætta sig illa eða alls ekki við afnotagjöldin líkar nefskatturinn ekkert fremur. Helsti galli nefskatts er að hann leggst augljóslega þyngst á þá sem hafa lágar tekjur. Þeir geta þurft að greiða hátt hlutfall af tekjum sínum þegar allir greiða sömu krónutölu.

Bent er á að skattleysismörkin í frumvarpinu eru með þeim annmarka að eingöngu er miðað við almennar tekjur, launatekjur en ekki fjármagnstekjur. Inn á þetta kemur ríkisskattstjóri í umsögn sinni um frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. Þar vísar hann í umsögn frá 15. mars 2006. Hún var allítarleg og er ótrúlega góð og holl lesning fyrir þá sem vilja kynna sér nefskatt. Ég vil hvetja alla þá sem hafa tækifæri til að lesa þessa umsögn, umsögn um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. sem var á dagskrá á síðasta þingi. Þar eru gerðar verulegar athugasemdir við nefskattinn. Ég ætla að fara aðeins yfir þá umsögn vegna þess að í henni kemur margt fróðlegt fram.

Þar segir m.a. að helsti ókostur nefskatts sé að hann taki ekki tillit til greiðslugetu og sé íþyngjandi fyrir tekjulága. Svo kemur merkilegur kafli sem ég ætla að lesa beint upp úr umsögninni. Í umsögn ríkisskattstjóra frá 15. mars árið 2006, sem enn er í fullu gildi samkvæmt nýlegri umsögn ríkisskattstjóra, segir með leyfi forseta:

,,Fyrr á öldum voru nefskattar algengir en eru að mestu horfnir í dag. Tvö þekkt dæma úr skattasögunni eru annars vegar skattur sem Ríkharður II. Englandskonungur lagði á 1380 til að fjármagna stríðið við Frakkland. Skattur þessi leiddi til bændauppreisnarinnar 1381. Hins vegar er tilraun á síðari tímum til að leggja á verulegan nefskatt þegar stjórn Margrétar Thatcher í Englandi lét lögleiða nefskatt í stað nokkurs konar fasteignagjalda til að fjármagna starfsemi sveitarfélaga.

Skattinum var komið á 1989–1990. Skattur þessi mætti mikilli andstöðu, milljónir manna neituðu að borga hann og náðu mótmælin hámarki sínu með óeirðum á Trafalgar Square í lok mars 1990. Andstaða innan Íhaldsflokksins leiddi m.a. til þess að Margrét Thatcher sagði af sér um haustið. Arftakar hennar lækkuðu skattinn og afnámu hann frá og með 1994.“

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér merkileg upprifjun hjá ríkisskattstjóra á því hvernig farið hefur fyrir þeim sem lagt hafa á nefskatt. Ég veit ekki hvort ríkisskattstjóri sé sannspár en miðað við þessi dæmi gæti þetta þýtt að núverandi ríkisstjórn sitji ekki lengi eftir að hafa samþykkt nefskatt, ef marka má söguna. Hvort skatturinn leiði til uppreisnar eða óeirða á eftir að koma í ljós en ég á von á því að mótmælin eigi eftir að verða hávær þegar íslenskir borgarar fá nefskattinum í fyrsta sinn.

Umsögnin er áhugaverð. Þar kemur einnig fram að einn helsti galli við nefskatt sé tengslaleysi hans við gjaldþol manna. Í þessu tilfelli sé brugðist við því með því að undanþiggja hina tekjulægstu gjaldinu. Frítekjumörkum fyrir fast krónugjald fylgja nefnilega ákveðin vandamál vegna þeirra sem eru hvor sínum megin næst mörkunum. Það getur vakið upp spurningar um jafnræði. Þá eru skattfrelsismörkin samkvæmt umsögninni með þeim annmarka í frumvarpinu að eingöngu er miðað við almennar tekjur, þ.e. launatekjur og þess háttar, en ekki fjármagnstekjur. Fram kemur að allstór hópur manna hefur miklar tekjur af eignum en lágar launatekjur og yrði samkvæmt þessu undanþeginn gjaldinu.

Í umsögn frá ríkisskattstjóra kemur sem sagt fram að allstór hópur yrði undanþeginn gjaldinu, þ.e. hópur sem hefur miklar tekjur af eignum sínum. Þarna erum við komin inn á það sem ég sagði í upphafi máls míns um þetta atriði, að með frumvarpinu er borgurum landsins mismunað. Hinn almenni launamaður á enga möguleika aðra en að greiða skatta og skyldur en núverandi ríkisstjórn virðist alltaf hlífa sama hópnum við skattlagningu og létta af honum álögum. Það er hópurinn sem hæstar hefur tekjurnar og þeir sem möguleika eiga á því að lifa af tekjum af eignum, sem eru ekki með venjulegar launatekjur eins og aðrir. Virðulegi forseti. Þetta er ekki alveg í lagi og mun leiða til þess að nefskatturinn á eftir að verða verulega umdeildur. Hann leggst þungt á stórar fjölskyldur og stór hópur mikilla eignamanna verður undanþeginn honum.

Í umsögninni kemur líka fram að frá skattalegu sjónarmiði hafi nefskattur á einstaklinga fáa kosti en afar marga galla. Þar segir að samkvæmt frumvarpinu beri að leggja sama skatt á lögaðila en fyrir þeirri tillögu séu ekki færð nein sérstök rök í greinargerðinni. Fram kemur að skattar á fyrirtæki, sem ekki eru tengdir hagnaði þeirra, hafi verið á undanhaldi en hér sé snúið af þeirri braut. Það sem mér þykir merkilegt í þessu efni er að varðandi lögaðila þá bendir ríkisskattstjóri á að gjaldskyldir yrðu samkvæmt frumvarpinu um 26 þúsund lögaðilar. Ríkisskattstjóri tekur fram að af þeim hafi um helmingur greitt tekjuskatt eða önnur gjöld til ríkissjóðs. Nýir skattgreiðendur úr röðum lögaðilanna yrðu því 13 þús. Þá sé vert að hafa í huga að ætla megi að verulegur hluti hinna nýju skattgreiðenda yrðu félög sem ekki eru starfandi og hafa engar tekjur til að greiða gjaldið af.

Mér fannst mikilvægt að þetta komi fram. Mér þykir því ekki hafa verið svarað nægilega fullnægjandi hvers vegna menn eru svo harðir á að nefskattur sé rétta leiðin. Eina sem manni dettur í hug er að sú leið hafi dottið af himnum ofan, eins og svo margt annað í frumvarpinu, við að leysa umdeild mál hvað varðar Ríkisútvarpið. Þarna hafa menn fallið í gryfju, með hæstv. menntamálaráðherra í broddi fylkingar, að flýta sér og henda sér á niðurstöðu sem á eftir að verða til meiri vandræða en formið sem nú er á fjármögnuninni.

Virðulegi forseti. Umsögnin frá ríkisskattstjóra er merkileg og er hægt að lesa hana sér til skemmtunar og líka til glöggvunar. Hún er afar áhugaverð fyrir margra hluta sakir, ítarleg og greinargóð. Það sem mér finnst merkilegast í henni er að þar er bent á að þessi leið mismuni borgurum landsins og taki ekkert tillit til greiðslugetu, með henni sleppi þeir sem hafa háar fjármagnstekjur en lágar launatekjur algjörlega við að greiða gjaldið, eins og oft vill verða í samfélagi okkar.

Virðulegi forseti. Fleiri hafa gagnrýnt þessa fjármögnunarleið. Neytendasamtökin hafa fjallað ítarlega um hvernig rétt sé að standa að fjármögnun Ríkisútvarpsins. Það kemur fram í umsögn þeirra að upphæð nefskattsins sem kynnt er í frumvarpinu sé mjög há og komi illa við mörg heimili þar sem stálpaðir unglingar eða ungt fólk býr enn í heimahúsum.

Neytendasamtökin minna á að skylduáskrift að Ríkisútvarpinu með afnotagjöldum hefur reynst óvinsæl hjá mörgum. En þeir segja líka að hætt sé við því að jafnhár nefskattur og frumvarpið gerir ráð fyrir verði ekki síður óvinsæll. Hér mæla Neytendasamtökin með því að skoða hvort ekki eigi að flétta saman mismunandi fjármögnunarleiðum.

Virðulegi forseti. Hér er enn eitt dæmi um óánægju með þá leið sem valin er í þessu frumvarpi. Afnotagjöldin hafa verið umdeild hingað til og hefur verið bent á það ítrekað, í umsögnum og í ræðu og riti, að nefskattsleiðin sé ekki til þess fallin að skapa sátt um fjármögnun Ríkisútvarpsins. Þvert á móti. Ég skil ekki hvers vegna menn halda þessu jafneinstrengingslega til streitu og raun ber vitni. Því hefur ekki verið svarað í þessum stól hvað gerir nefskattsleiðina jafnáhugaverða og þessi ríkisstjórn telur hana vera og hvernig menn réttlæta að sumir þurfi að borga til Ríkisútvarpsins en aðrir ekki.

Eins og fram kom í umsögn ríkisskattstjóra verður allverulegur hópur undanþeginn þessu gjaldi, miðað við skerðingarmörk og þær tekjur sem miðað verður við. Það kemur fram í umsögn ríkisskattstjóra að það verði allverulegur hópur. Hvaða rök vega svo þungt að réttlætanlegt sé að mismuna borgurum landsins með þessum hætti? Um það hef ég spurt við 1. umr., við 2. umr. og nú spyr ég aftur við 3. umr. Ég hef ekki enn fengið svör. Ég fer fram á, líkt og með spurningu mína um stjórn Ríkisútvarpsins og skipun hennar, að fá svör við henni áður en umræðum um málið lýkur.

Virðulegi forseti. Ég fer að ljúka máli mínu. Í lokin vil ég nefna að mér finnst með hreinum ólíkindum hvaða rekstrarform menn hafa valið fyrir Ríkisútvarpið. Mér finnst þetta sérkennilegt. Þetta hlutafélagaform fyrir Ríkisútvarpið er orðið líkt og trúaratriði. Ég held að menn hefðu þurft að huga að markmiðum, ætluðu þeir sér að finna viðunandi rekstrarform fyrir Ríkisútvarpið til að leysa þau deilumál sem uppi eru í tengslum við það. Öll vinnan virðist þess í stað miða að því einu að koma Ríkisútvarpinu í hlutafélagaform. Það vekur mér undrun en af öllum vinnubrögðunum er augljóst að það er aðalmarkmiðið. Því hefur lítið sem ekkert verið sinnt að leysa þau deilumál sem uppi hafa verið.

Virðulegi forseti. Leiðin sem hér er gert ráð fyrir er ekki til að ná sátt um Ríkisútvarpið til framtíðar litið. Ég harma það mjög vegna þess að ég held að við, öll fyrir utan þrjá þingmenn sem hafa komið út úr skápnum hvað það varðar að segjast vilja selja Ríkisútvarpið, við hin 60 viljum að Ríkisútvarpið sé í þjóðareign og við rekum öflugt almannaútvarp sem hafi mikilvægu menningarlegu hlutverki, lýðræðislegu hlutverki og öryggishlutverki að gegna.

Þrír þingmenn bera þá von í brjósti að RÚV verði selt. Hv. þm. Pétur H. Blöndal, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson vilja selja útvarpið. Aðrir segjast a.m.k. vera sammála um mikilvægi RÚV. Mér er það algerlega óskiljanlegt að farið sé með málið í slíkan farveg. Ég tel að það sé fullkomlega óþarft. Mér finnst ekki hafa verið nægjanlega rökstutt hvers vegna eigi að oháeffa Ríkisútvarpið. Hvers vegna getur Ríkisútvarpið ekki verið sjálfseignarstofnun? Sjálfseignarstofnun er þekkt fyrirkomulag sem reynst hefur vel við rekstur hjá opinberum aðilum, t.d. á háskólastigi. Að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun gæfi því svigrúmið sem það þarf í þeirri stöðu sem það býr við í dag. Það skapar líka ákveðna fjarlægð frá pólitíkinni og eigendum þess að hafa sjálfseignarstofnunarfyrirkomulag. Það gæfi RÚV sjálfstæði. Eins og menn þekkja er útvarpið ekki rekið í hagnaðarskyni og allur ágóði færi aftur inn í sjálfseignarstofnunina. Ég hefði talið sjálfseignarstofnun mun heppilegra form.

Mér finnst ekki hafa verið nægilega rökstutt hvers vegna eigi að oháeffa Ríkisútvarpið. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt harðlega úr öllum áttum, bæði frá hægri og frá vinstri. Frá vinstri hefur það verið gagnrýnt út frá því að við viljum ekki að Ríkisútvarpið verði selt heldur viljum við reka öflugt almannaútvarp. Frá hægri hefur það verið gagnrýnt af frjálshyggjumönnum vegna þess að það sé ekki viðeigandi að búa til hlutafélag úr stofnun sem er að mestu rekin fyrir almannafé, það skekki stöðuna á samkeppnismarkaði. Í sjálfu sér er hægt að taka undir hvort tveggja, virðulegi forseti. Það er ljóst, eins og heyra má af þessu og við vitum sem höfum fylgst með þessari umræðu, að þetta er harkalega gagnrýnt úr mismunandi áttum.

Hvað er hæstv. ríkisstjórn að búa til með því að samþykkja frumvarp um Ríkisútvarpið ohf.? Jú, það er að búa til fyrirbæri sem verður umdeildara en RÚV hefur nokkru sinni verið. Þetta er ekki bara eitthvert fyrirtæki úti í bæ. Þetta er Ríkisútvarpið sem á að vera öflugur almannamiðill. Málið hefur verið gagnrýnt mjög harðlega úr ýmsum áttum. Ég ætla ekki að fara nánar yfir það enda hefur það verið gert ágætlega í öðrum ræðum hér og við fyrri umræður.

Það er gaman að lesa t.d. leiðara fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteins Pálssonar, um þessi mál. Í mars í fyrra, þegar rætt var um Ríkisútvarpið hf. og það frumvarp, gagnrýndi hann það mjög harðlega undir yfirskriftinni: Rauðkuhugmyndafræði, það var 31. mars 2006. Hann færði fyrir því ágæt rök hvers vegna óeðlilegt væri að hlutafélagavæða fyrirbæri sem væri að mestu leyti rekið fyrir almannafé. Maður er eitt stórt spurningarmerki yfir því. Ég get tekið undir þá spurningu Þorsteins Pálssonar og annarra um hvers vegna áherslan er lögð á að hlutafélagavæða fyrirbæri sem á að reka fyrir almannafé áfram. Það er algerlega óskiljanlegt, virðulegi forseti. Ég tel að það hefði verið miklu skynsamlegra að gera RÚV að sjálfseignarstofnun ef menn sjá ástæðu til að breyta rekstrarfyrirkomulaginu yfir höfuð.

Þó nokkrir umsagnaraðilar hafa einnig fjallað um þennan þátt málsins. ASÍ kemur inn á þetta í umsögn sinni. ASÍ lýsir andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á rekstrarforminu. ASÍ segir að það hafi verið og sé enn þá þeirrar skoðunar að víðtækt hlutverk Ríkisútvarpsins sé í almannaþágu, bæði í óháðri fréttamiðlun og einnig sé menningarlegt hlutverk þess þannig að afar mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði örugglega áfram í almannaeigu.

Í umsögnum BSRB og BHM er líka komið inn á þetta. Þeim þykir með ólíkindum að beita þeirri aðferð sem beitt er gagnvart starfsmönnum þegar stofnun ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður, í landinu séu lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem ætlað sé að gilda við þessar aðstæður. Það er óþolandi að við þessi skilyrði séu sett sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir.

Undir þetta er auðvitað hægt að taka. Í umsögn BSRB og BHM segir að ef það sé mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta þá eigi auðvitað að gera það með því að breyta lögunum almennt þannig að slík staða komi ekki upp aftur og aftur.

Virðulegi forseti. Ég hef áður sagt að þarna held ég að við séum komin að kjarna málsins. Hver önnur er ástæða þess að menn skeyta ekki um mikilvæga þætti þessa frumvarps sem þyrfti að breyta innan Ríkisútvarpsins? Menn keyra blint á að það verði að samþykkja þetta frumvarp fyrir 1. apríl næstkomandi og verði að samþykkja þetta frumvarp út af oháeffinu, út af breytingunni á rekstrarfyrirkomulagi. Þar er kjarni málsins og aðalatriðið í miklu offorsi í þessu máli. Þarna er komið að kjarna málsins.

Sumir stjórnendur Ríkisútvarpsins vilja losna undan lögum um ríkisstarfsmenn, almennum lögum. Það er engin önnur ástæða í sjónmáli. Þessu verður auðvitað að svara og þarf að skoða þessi mál, ef þau íþyngja mikilvægum stofnunum í samfélaginu svona rosalega. Það á að taka heiðarlega og opna umræðu um það í stað þess að fara bakdyramegin að málinu með jafnafdrifaríkum hætti og að hlutafélagavæða mikilvægar stofnanir í samfélaginu, eingöngu til að losa þær undan lögum um opinbera starfsmenn. Menn eiga að koma hreint fram. Við hljótum að gera þá kröfu í stað þess að sýknt og heilagt skuli farið jafnlúalega bakdyramegin að málum.

Virðulegi forseti. Margt mjög áhugavert kom fram í umsögnum sem bárust menntamálanefnd og vert að skoða margar þeirra. Í einni þeirra sem ég rak augun í er afar áhugaverður punktur. Það er umsögn Skjásins, frá Magnúsi Ragnarssyni, framkvæmdastjóra. En þar er rætt um þennan samning um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem hafa verið gerð drög að og fylgir í greinargerð frumvarpsins um Ríkisútvarpið ohf. Þar segir að samningnum sé líklega ætlað að skilgreina nánar starfsvettvang Ríkisútvarpsins. Því miður er um afskaplega almennt plagg að ræða. Í umsögn Skjásins segir að besta dæmið um þetta sé ákvæðið um nýsköpun í dagskrárgerð þar sem sett séu fram háleit markmið um að Ríkisútvarpið skuli styrkja og efla íslenska kvikmyndagerð með kaupum á dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum að lágmarki upp á 150 millj. kr. árið 2008.

Í umsögn Magnúsar Ragnarssonar kemur fram að Skjár einn hafi varið meira en þessari upphæð til kaupa á innlendu dagskrárefni frá sjálfstæðum framleiðendum á síðustu 12 mánuðum og það án allra ríkisstyrkja. Þetta, virðulegi forseti, finnst mér áhugavert og tel ekki þurfa að hafa fleiri orð um þjónustusamninginn en að leggja þessa staðreynd fram. Í raun er bent á að þjónustusamningurinn sé tiltölulega metnaðarlítill í miðað við sjónvarpsstöð með slíka stöðu á markaði sem Ríkisútvarpið hefur. Mér fannst þetta áhugaverður punktur að þarna sé verið að setja helst til metnaðarlitlar áætlanir á blað í þjónustusamning fyrir Ríkisútvarpið.

Alls konar svona þætti, virðulegi forseti, hefðum við þurft að fara miklu betur í gegnum. Innan þingmeirihlutans var frá upphafi tekin sú stefna keyra málið í gegn þrátt fyrir að t.d. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi haldið því fram að hér hafi 150 manns komið fyrir nefndina og málið hafi verið rætt fram og til baka. Staðreyndin er sú að ekki var tekið tillit til nokkurs þeirra aðila sem komu fyrir nefndina? Eða hvar er þær breytingar að sjá sem sýna að tekið hafi verið tillit til athugasemda þeirra?

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson getur boðið fjölda fólks til nefndar og boðið fólki og félagasamtökum að senda inn umsagnir bara til að sýnast. En við vitum að þessi ríkisstjórn og þessi þingmeirihluti hefur ekkert gert með þá vinnu sem fólk hefur lagt á sig fyrir nefndina. Það hljómar vel: 150 manns á 39 fundum. En hvað kom út úr því? Þingmeirihlutinn breytti engu, hlustaði ekki á neinn og keyrir málið í gegn. Það er niðurstaðan. Mér þykir það hjóm eitt þegar formaður menntamálanefndar fer með svona tölur fyrir þingheim. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Virðulegi forseti. Enn og aftur vil ég ítreka spurningar sem ég hef lagt fram. Í fyrsta lagi: Hvers vegna var ákveðið og hvað olli því að menn ákváðu að láta stjórn Ríkisútvarpsins endurspegla þingmeirihluta og valdahlutföll á Alþingi? Hvað mælir gegn því að t.d. starfsmenn eða aðrir utanaðkomandi aðilar fái t.d. tvo stjórnarmenn? Þetta finnst mér mikilvægt. Ég held að mér hafi láðst að nefna að ég er hlynnt þeirri hugmynd að t.d. útvarpsstjóri fái sömu stöðu og þjóðleikhússtjóri, þ.e. fái starfsfrið í fimm ár, sé skipaður til 5 ára og eigi ekki á hættu að fá uppsagnarbréf ef hann gerir eitthvað sem ríkisstjórninni mislíkar, eins og hætta verður á núna.

Mér finnst það áhugaverð hugmynd og hefði viljað heyra skoðun hæstv. ráðherra eða þeirra sem fara fyrir málinu í þinginu á því. Þá ítreka ég spurningu mína um nefskattinn. Hvaða þungu rök eru á bak við að taka upp fyrirkomulag sem bersýnilega mismunar borgurunum? Ég þarf ekki að fara yfir það allt saman aftur.

Í lokin, virðulegi forseti, vil ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að þetta mál allt hefði getað farið í þverpólitískan farveg. Það hefði að minnsta kosti átt að reyna það. Þegar kemur að Ríkisútvarpinu er það mikið í húfi. En í staðinn munum við sitja uppi með fyrirbærið sem þetta frumvarp á að búa til, óskapnað sem engin sátt á eftir að ríkja um.

Við í Samfylkingunni höfum barist fyrir sátt um málið með hv. þm. Mörð Árnason í broddi fylkingar. Við höfum viljað sátt og öll okkar vinna hefur snúið að því að skapa sátt um Ríkisútvarpið sem almannaútvarp til framtíðar. Viljinn hefur verið til staðar af okkar hálfu. Frá okkur hafa komið sáttaboð sem hafa verið hunsuð af stjórnarflokkunum Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Það er ekki að undra að menn efist um eða hafi áhyggjur af vegferðinni sem þeir flokkar eru á með málið og spyrji sig um ástæður þess að málið sé keyrt með slíkum hætti í gegn.

Málið kveikir stórar spurningar og mér þykir miður að ekki einn einasti stjórnarliði hafi setið t.d. undir ræðu minni, nema auðvitað sá sem situr á forsetastól. En hann getur ekki gripið inn í og rætt við mig um þetta. Ég harma það. Ég tel að með samræðum um þetta hefðum við getað náð miklu betri árangri en þetta frumvarp getur skilað.

Ég er sannfærð um að málið er bara rétt að byrja þegar þessi lög taka gildi. Í því eru svo umdeild atriði að þegar þau, t.d. nefskatturinn og fleira, skella á fólki eigi allmargir eftir að rísa upp á afturlappirnar og mótmæla þessu.

En virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Eins og ég sagði höfum við í allri okkar vinnu boðið fram krafta okkar við að ná þverpólitískri samstöðu í því skyni að nútímavæða Ríkisútvarpið. Við erum sammála um að breyta þurfi lögunum en það á ekki að gera með þessum óskapnaði sem liggur fyrir þinginu og menn eru að keyra hér í gegn.