133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:22]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Herra forseti. Þá erum við komin hér enn og aftur til að ræða um frumvarp til breytinga á Ríkisútvarpinu. Það er rétt eins og hér hefur skýrt komið fram í dag að þetta er orðin löng umræða ef menn taka til allar þrjár umræðurnar sem hafa farið fram og undir ýmsum formerkjum, ýmist sf., hf. eða ohf. Ég held að það sé rétt að ég lýsi því strax yfir, herra forseti, að ég get alls ekki samþykkt frumvarpið eins og það lítur út núna og það er af tveimur ástæðum. Annars vegar er sú sem margoft hefur komið fram í ræðum og margoft hefur verið reynt að þræta fyrir, að frumvarpið RÚV ohf. er undanfari sölu á Ríkisútvarpinu og hins vegar að verði frumvarpið RÚV ohf. samþykkt óbreytt þá mun það þýða skerðingu á kjörum og réttindum starfsfólks Ríkisútvarpsins.

Það hefur að vísu verið margreynt að draga þær fullyrðingar í efa að kjör starfsfólks Ríkisútvarpsins muni skerðast en þeir sem til þekkja hafa m.a. sent greinargerðir til menntamálanefndar þar sem þeir fara mjög nákvæmlega yfir þau atriði sem um ræðir og þar á meðal lögfræðingar stórra launþegasamtaka eins og BHM og BSRB. Það hefur líka komið fram í umræðunni að starfsmenn hafa lent í vandræðum í þeim ríkisstofnunum sem hefur verið breytt í hlutafélög og má þar t.d. nefna Póst og síma. Og þá kannski sérstaklega það sem er akkúrat að gerast þessa dagana og það er Matís ohf. Þar var nokkrum stofnunum skellt saman í hlutafélag og það verður að segjast eins og er að þar logar allt í illdeilum á milli stjórnenda fyrirtækisins eða hlutafélagsins og starfsfólksins.

Það er rétt sem hér hefur komið fram, m.a. í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að forsvarsmenn Matís hafa færst undan, skulum við segja, samskiptum við stéttarfélögin og reyna þess í stað að semja við hvern starfsmann fyrir sig úti í horni eins og það er orðað. Þessi reynsla sem er í gangi núna og sá er hér stendur hefur nasaþef af segir okkur líka annað, að þessi hlutafélagavæðing er byrjunin á því að reyna að brjóta niður stéttarfélög. Það sem mér finnst kannski svona með mestum ólíkindum varðandi þetta mál er hin gífurlega þrautseigja flutningsmanna, fyrst og fremst menntamálaráðherra í fararbroddi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Það er þrautseigja Sjálfstæðisflokksins til að reyna að brjóta stéttarfélög á bak aftur. Það er alþekkt sérstaklega á meðal frjálshyggjumanna að þeim er mjög í nöp við stéttarfélög almennt og reyna að slá ryki í augu fólks og segja að það sé mun betra fyrir einstaklinginn, launþegann að geta samið beint við stjórnendur. En við værum ekki með öll þessi stéttarfélög í dag ef reynslan hefði ekki að kennt okkur annað. Það er sorglegt til þess að vita, herra forseti, að þegar samtök launþega hafa á áratugum samið fyrir starfsmenn sína, félagsmenn sína og skapað þeim ákveðin réttindi og stöðu, bætt kjör þeirra frá ári til árs, þá skuli núna leynt og ljóst verið að hefja niðurbrot á stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Þetta er draumur sem hefur blundað lengi hjá mörgum og þá sérstaklega þeim er tengjast Sjálfstæðisflokknum og ég er þess fullviss að þetta frumvarp og Matís ohf. sem er orðið að lögum í dag er greinilega upphaf að slíku. Hvers vegna hins vegar menn vilja gera það geri ég mér ekki almennilega grein fyrir nema þá að þar stýri, eins og yfirleitt alltaf þegar menn komast að Sjálfstæðisflokknum, gróðahyggjan. Menn telja að það sé hentugra fyrir fyrirtækin að geta samið beint við starfsfólk og í því felst m.a. launaleynd og það er orðið nokkuð ljóst að það er ekki gert með hag starfsmannsins í huga.

Í þessari ræðu ætla ég, herra forseti, að fara yfir nokkur atriði sem ég er búinn að bíða spenntur eftir frá því á síðasta ári að komast að með. Það eru m.a. og kannski fyrst og fremst réttindi starfsmanna. Mér finnst það í raun ekki hafa fengið nægilega góðan hljómgrunn hér inni t.d. þegar dæmi koma um að menn hafi þurft að fara með mál sín til dómstóla eins og t.d. hjá Strætó, eftir að opinberu fyrirtæki var breytt. Mig langar síðan að ræða aðeins um innkomu eða réttara sagt aðkomu núverandi útvarpsstjóra, ég hlýt að segja núverandi því miðað við mörg þau orð sem hann hefur látið falla þá stendur hann væntanlega og fellur með því hvort þessi lög verða samþykkt og ég er þess alveg fullviss að þetta frumvarp mun aldrei verða að lögum óbreytt.

Mig langar líka til að fjalla, herra forseti, um nefndarfundina. Þeir hafa verið títtnefndir hér og þá yfirleitt sem rök fyrir mikilli vinnu, bæði menntamálaráðherra og formaður menntamálanefndar hafa statt og stöðugt klifað á því hversu margir gestir hafa komið fyrir nefndina og hversu margra umsagna hefur verið leitað. Á því er sá galli, herra forseti, að ekki er að sjá á frumvarpinu að eftir þeim athugasemdum og ábendingum hafi verið farið.

Ég held að rétt sé líka að fara aðeins yfir sögu Framsóknarflokksins í málinu þar sem hann hefur greinilega snarsnúist eins og komið hefur nokkuð ljóst fram í umræðunni í dag.

Mig langar líka aðeins síðar í ræðunni að koma inn á það sem hefur verið nefnt í dag, þ.e. samkomulag á milli þingflokkanna væntanlega sem á að hafa verið gert á fundi í desember, en þá vildi þannig til að sá er hér stendur var utan flokka og ekki hafður með í því sem menn kalla samkomulag. Mig langar að fara yfir jafnvel einkavæðingarhlutann því að allir sem vilja, vita og lesa út úr frumvarpinu, svo ekki sé talað um þau frumvörp sem sjálfstæðisþingmenn hafa áður lagt fram, að frumvarpið er fyrsta skrefið í að einkavæða Ríkisútvarpið, selja það þá væntanlega ákveðnum aðilum og yrði ég ekki hissa þó að sumir væru þegar búnir að ákveða hverjum eigi að selja það. Ég er ekki viss um að það hafi verið Kári sjálfur, en hver veit?

Ég ætla, herra forseti, að byrja á að fara yfir réttindamálin, hvernig frumvarpið kemur að starfsmönnum og rétt er að benda á það strax í upphafi að starfsmenn hafa gert ýmsar athugasemdir og hafa m.a. kvartað yfir mikilli óvissu sem er um mál þeirra, en engu af þessu hefur því miður verið sinnt, sama hvað hver segir. Hjá BSRB og BHM hafa menn farið mjög vel yfir frumvarpið að sjálfsögðu, sem og forvera þess, Ríkisútvarpið hf. og Ríkisútvarpið sf. Að mati þeirra samtaka er alveg greinilegt að nokkur atriði munu þýða skerðingu á kjörum og jafnvel á kaupi starfsfólks Ríkisútvarpsins í framtíðinni.

Ég ætla að leyfa mér að lesa upp, herra forseti, ég held að það sé einfaldast, athugasemdir um stofnun hlutafélags um Ríkisútvarpið. Þetta er umsögn BSRB og BHM, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að Ríkisútvarpið (RÚV) verði gert að sjálfstæðu hlutafélagi í eigu íslenska ríkisins. BSRB og BHM þykir með ólíkindum sú aðferð sem beitt er gagnvart starfsmönnum þegar stofnunum ríkisins er breytt í hlutafélög eða þær lagðar niður.“ — Hér er átt við m.a. það sem ég nefndi áðan um Matís ohf.“

Áfram segir:

„Í landinu eru lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 sem ætlað er að gilda við aðstæður sem þessar. Það er auðvitað óþolandi að það sé gert aftur og aftur, við þessi skilyrði, að setja sérstök lög sem taka almennu lögin um ríkisstarfsmenn úr sambandi þegar á þau reynir. Ef það er mat þingmanna að réttindi ríkisstarfsmanna séu þannig að þeim þurfi að breyta á auðvitað að gera það með því að breyta almennu lögunum þannig að þessi „ómögulega” staða komi ekki upp aftur og aftur. Þá þurfa ríkisstarfsmenn heldur ekki að vera með væntingar um starfsöryggi sem ekki stenst þegar á reynir. Óréttlætið birtist líka í því að þetta gerist oft en ekki alltaf. Svo virðist vera að þegar breytingarnar snerta litlar stofnanir með fáa starfsmenn þá séu almennu lögin látin gilda en þegar sambærilegar breytingar ná til stærri stofnana eru almennu lögin tekin úr sambandi. Þetta er afleit lagaframkvæmd sem ber merki um hentistefnu og óhreinskilni.“

Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Ég held að þetta sé, í þessum inngangi, athugasemdum frá BHM og BSRB, í raun og veru kjarni málsins. Þarna er m.a. verið að vara þingheim við hvað þetta frumvarp varðar, en það er náttúrlega þannig eða virðist alla vega vera orðin sú lenska hér í dag að í raun og veru skiptir engu máli hvað þingheimi finnst. Skoðanir, athugasemdir og ábendingar frá stjórnarandstöðu eru náttúrlega einskis virtar en það sem er kannski verra er að þingmenn í stjórnarmeirihlutanum virðast nánast ekkert um málið hafa að segja. Þó svo að hér komi athugasemdir, mjög alvarlegar athugasemdir frá hagsmunasamtökum, er einfaldlega tilkynnt, eins og kom fram í morgun, að þingmönnum sem sitja í þingnefndum fyrir hönd stjórnarmeirihlutans er nánast tilkynnt að þeir eigi að láta frumvarpið vera. Það er held ég einn mesti gallinn á störfum Alþingis í dag, herra forseti. Svona er þetta, menn hafa kannski ekki alveg viðurkennt það hér í dag, en ég held að menn hafi farið mjög nálægt því og það hefur gerst þegar sá er hér stendur hefur verið í nefnd og velt upp ákvæði. Ef ég man rétt var það varðandi starfsmannaleigur með ábendingu um hvað betur mætti fara, að þá sagði formaður félagsmálanefndar, einfaldlega: Ég þarf að ræða þetta við ráðherra.

Ég held einmitt að þetta sé málið svolítið í hnotskurn. Ég var það nýr að ég tók kannski ekki mikið eftir þessu en hef síðan þá velt þessu mikið fyrir mér. Þetta er einmitt málið. Eins og glöggt hefur komið fram er það ráðherra eða hreinlega einhver ákveðinn starfsmaður í ráðuneyti — þetta hefur Eygló Harðardóttir, þingmannsefni Framsóknarflokksins, bent á og er þá í rauninni að átelja harkalega, herra forseti, Framsóknarflokkinn væntanlega fyrir vinnubrögð þar sem hún gaf í skyn í sjónvarpsþætti og hefur gert það líka í skrifum að í raun komi frumvörp tilbúin frá starfsmanni ráðuneytis til Alþingis. Hún sagði á þá leið að greinilegt væri að þingmönnum eða nefndinni væri ekki ætlað að hrófla neitt við frumvörpum.

Þetta eru alvarlegar ásakanir sem koma frá einum frambjóðanda Framsóknarflokksins og það er svolítið sérstakt að þarna skuli hún ákveða — væntanlega til að vekja á sér athygli — að upplýsa almenning um slík vinnubrögð á þinginu, vitandi það að hún er í raun að skamma stjórnarflokkana og þar af leiðandi sinn eigin flokk. Það má vel vera að vinnubrögðin eigi eftir að breytast komi Eygló Harðardóttur, núverandi varaþingmaður, meira á þing, ég skal ekki segja um það, en þarna er hún að uppljóstra leyndarmálum um hvernig Framsóknarflokkurinn vinnur frumvörp, hver vinnur frumvörpin og hvernig nefndarmönnum er í raun skipað að hafa helst ekki skoðun á frumvörpum. Þau eigi bara að renna í gegn, þau séu fullkomin, þau séu tilbúin og það sé ekki hins almenna þingmanns að skipta sér af, það er greinilega einhver einn sem ræður.

Þessi kafli kom í framhaldi af því, herra forseti, að ég velti upp þeirri staðreynd sem mér finnst persónulega mjög sorgleg, að nefndarmenn skuli ekki geta haft áhrif á frumvörp. Ég kalla það ekki að hafa áhrif þegar menn með einhverri sýndarmennsku, væntanlega einhverri sýndarmennsku, skulum við segja, bæta inn einhverjum smávægilegum leiðréttingum nánast til að geta sagt: Við gerðum breytingar á frumvarpinu.

Úr því að ég fór svona langt yfir í Framsóknarflokkinn eru náttúrlega til dæmi þess að framsóknarmenn hafi samþykkt að selja Ríkisútvarpið alls ekki. Ég veit ekki til þess, og mun koma að því síðar í ræðu minni, að það sé neins staðar efni í samþykktum frá þeim að hlutafélagavæða það. Einnig má minnast á, herra forseti, að það hefur gerst nokkrum sinnum að þegar fjölmiðlamenn koma nefndarmönnum, t.d. í menntamálanefnd, svolítið á óvart með spurningum þá hafa sérstaklega ungar og upprennandi stórstjörnur hjá Framsóknarflokknum — ég tek fram að ungliðarnir þar eru afskaplega frambærilegir — átt það til að missa út úr sér sína einlægu skoðun á frumvarpi, lent síðan í vandræðum daginn eftir, greinilega verið tuskaðar til, og síðan kemur enn á ný útþynnt og allt önnur skoðun.

Ég ætla að halda áfram að vitna í athugasemdir, umsögn um frumvarpið sem kom frá BHM og BSRB og sé enn ástæðu til að lesa orðrétt upp, með leyfi forseta:

„Samtökin spyrja því, hver sé tilgangurinn með því að stofna hlutafélag um Ríkisútvarpið. Er það gert til þess eins að breyta réttarstöðu starfsmanna Ríkisútvarpsins og að RÚV hf þurfi ekki að fylgja þeim lágmarkskröfum gagnvart starfsmönnum sínum sem gerðar eru til opinberra stofnana innan stjórnsýslunnar? Bent hefur verið á að þessi breyting minni um margt á kennitöluskipti í atvinnurekstri, þar sem vinnuveitendur eru að reyna að komast hjá því að standa við samninga sína við starfsmenn. Hlutafélagsformið á að mati samtakanna fyrst og fremst við þegar um er að ræða samkeppnisstarfsemi með arðsemissjónarmið að leiðarljósi en markmiðið með rekstri RÚV hefur verið og á að vera að veita þjónustu, sinna menningarskyldum og öryggishlutverki en ekki skapa eigendum sínum arð.“

Síðan kemur athugasemd varðandi breytingu á réttarstöðu starfsmanna. Enn og aftur, herra forseti, og það er af fullri hreinskilni sagt, felst svo mikill kjarni málsins í þessari umsögn að ég ætla að leyfa mér að halda áfram að vitna orðrétt í næsta atriði sem er réttindi samkvæmt kjarasamningi og ráðningarsamningi.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin RÚV verður lögð niður og fer þá um réttindi og skyldur starfsmanna hennar eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Kemur þetta fram í II. kafla ákvæðis til bráðabirgða í frumvarpinu.“

Þá spyrja samtökin:

„Hvað þýðir þetta nákvæmlega varðandi réttarstöðu starfsmanna RÚV þegar stofnunin verður lögð niður og hlutafélagið tekur við rekstrinum? Ekki verður betur séð en að baki frumvarpinu búi sú hugsun að breytt skuli réttarstöðu þeirra ríkisstarfsmanna, sem starfa hjá RÚV, án þess þó að annar aðili en ríkið taki við starfseminni. Áfram á RÚV hf. að lúta stjórn ríkisvaldsins og það ber áfram ótakmarkaða ábyrgð á starfseminni. Með öðrum orðum er verið að setja lög um að starfsmenn RÚV hf. verði áfram starfsmenn ríkisins án þess þó að um kjör þeirra, réttindi og skyldur, gildi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Þetta er svolítið sérstakt, herra forseti, en þetta er einmitt kjarni málsins og það sem ég benti á í upphafi, að annar megintilgangurinn með því að setja þessi lög um RÚV ohf. er að ná niður réttindum og kjörum opinberra starfsmanna. Það er að sjálfsögðu ósköp eðlilegt að menn vilji ekki viðurkenna það beint upp í opið geðið á náunganum vitandi að ef þetta yrði samþykkt, sem ég er fullviss um að verður aldrei, mundu menn gleyma hinum ýmsu röksemdum síðar, og fljótlega, því miður. Þetta er svolítið sérstakt og það sem ég var að segja, að setja eigi lög um starfsmennina að þeir verði áfram starfsmenn ríkisins án þess að gildandi lög virki um þá, kann að hljóma ankannalega, en það er ekki mér að kenna.

Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður gerði samantekt fyrir starfsmannasamtök RÚV í tilefni af þessu frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið ohf. Hún velti einmitt sama atriði fyrir sér og ég vitnaði til í umsögn BHM en hún segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Við niðurlagningu stofnunarinnar breytist lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir hætta að vera opinberir starfsmenn og verða eftir það starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geta ekki gilt um starfsmennina eftir breytinguna.“

Þrátt fyrir það fullyrða þeir sem mæla fyrir þessu frumvarpi, bæði menntamálaráðherra, formaður menntamálanefndar og varaformaður menntamálanefndar, að kjör starfsmanna séu tryggð. Hvernig í ósköpunum má það vera þegar frumvarpið fellir niður lög um réttindi og skyldur starfsmanna? Ég bar upp fyrirspurn í gær til formanns menntamálanefndar um akkúrat þetta atriði, um réttindi og kjör starfsmanna RÚV. Ég vildi fá þetta nokkuð á hreint áður en ég hæfi þessa ræðu og spurði því formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, um það hvort hann teldi ekki að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins skertust ef þetta frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. yrði að lögum. Hann svaraði því mjög skýrt, orðrétt, með leyfi forseta:

„Til þess að svara spurningunni vil ég segja að ég tel að réttindi starfsmanna séu ekki skert með frumvarpinu.“

Hvernig getur það verið þegar frumvarpið fellir sjálfkrafa niður lög um réttindi og skyldur starfsmanna? Og til að flækja málið aðeins meira, herra forseti, er ég með dóm þar sem starfsmanni hjá Strætó var sagt upp án þess að farið væri að lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, þ.e. hann var ekki áminntur, ekki var notað svokallað áminningarferli heldur var honum sagt upp. Það er skemmst frá því að segja, herra forseti, að starfsmaðurinn vann málið fyrir héraðsdómi þar sem dómurinn taldi að það hefði átt að fara eftir áminningarferlinu samkvæmt stjórnsýslulögum. Þetta er svolítið sérstakt, lögin skarast greinilega á hvað þetta varðar verði þetta frumvarp nokkurn tíma samþykkt. Það er alveg ljóst og ástæða til að hafa varann á sér. Það er ástæða fyrir þeim varnaðarorðum sem menn hafa haft hér uppi varðandi réttindi og kjör opinberra starfsmanna. Ég tel nokkuð öruggt að þeim sé stórlega stefnt í voða, það er alveg skýrt að þau eru skert þrátt fyrir að menn haldi öðru fram, og ég reikna með að hv. formaður menntamálanefndar viti einfaldlega ekki betur, og ef svo er hefur hann greinilega ekki kynnt sér m.a. þá umsögn sem ég hef verið að vitna í frá BHM og BSRB.

Forsvarsmenn þessara samtaka minntust líka á biðlaunaréttinn, minnst er á hann í bráðabirgðaákvæði II en ekki er skýrt hvað þetta þýði fyrir starfsmanninn, og að í athugasemdum frumvarpsins um bráðabirgðaákvæðið segi að meginreglan sé sú að réttur til biðlauna flytjist ekki til hlutafélags. Þar er líka talað um undanþágu.

Ég hef líka minnst á að reikna megi með kærum, fleiri kærum en ég minntist á áðan, verði frumvarpið samþykkt, því að með þessari löggjöf er í raun og veru verið að koma í veg fyrir að ríkisstarfsmenn fái notið þeirra réttinda sem þeir hafa áunnið sér í sínu starfi. Ljóst er að það er algerlega andstætt eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar. Það eru því margar ástæður, herra forseti, til að hafa allan vara á sér varðandi starfsmannamál verði frumvarp þetta að lögum óbreytt.

Í greinargerðinni er líka minnst á lífeyrisrétt starfsmanna, annars vegar í B-deild og hins vegar í A-deild. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir og ég held að rétt sé í því sambandi, herra forseti, að hugsa einungis nokkra daga aftur til áramótanna, ekki til áramótaskaupsins heldur til Flugstoða ohf. þar sem mikil átök voru í gangi vegna þess að stór hópur flugumferðarstjóra var ekki tilbúinn að ráða sig hjá Flugstoðum ohf. upp á það eitt að fá bara munnlegt vilyrði fyrir því að þeir héldu öllum sínum kjörum. Lífeyrisréttindi stóðu þar úr af borðinu að mati starfsmanna en þessu ágæta félagi, Félagi flugumferðarstjóra, tókst að ná fram skriflegum samningum eða sáttargjörð um lífeyrisréttindi og er það vel. Ég hef grun um að svipaðar deilur eigi eftir að rísa upp verði þetta frumvarp að lögum.

Í greinargerðinni segir enn fremur um lífeyrisréttindi starfsmanna í B-deild samkvæmt frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu segir að starfsmaður Ríkisútvarpsins sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna skv. 24. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti í hálft starf eða meira getur ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi.

Við rekstrarformsbreytinguna verður skerðing á réttindum starfsmanna sem greiða í B-deild LSR í dag. Iðgjöld hans miðast við þau laun sem hann hafði þegar staða hans var lögð niður og breytast iðgjaldagreiðslurnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. Með öðrum orðum það verður eins konar frysting á laununum. Hefur hækkun launa starfsmanna hjá RÚV hf. því engin áhrif á hvaða eftirlaun starfsmaðurinn fær þegar hann lætur af störfum vegna aldurs.

Hér er komið enn eitt atriðið varðandi réttindi og kjör starfsmanna, þ.e. nokkurs konar frysting á launum þegar litið er til hækkunar á lífeyrisgreiðslum. BSRB og BHM benda á það ójafnræði sem ákvæðið til bráðabirgða hefur og að jafnræðisreglunnar sé alls ekki gætt.

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Fjölmörg dæmi eru um fyrrverandi starfsmenn ríkisins sem eru í dag í starfi samhliða töku lífeyris. Til dæmis á það við um starfsmenn Póstsins og Símans sem er mjög stór hópur starfsmanna. Þá er mjög stór hópur ríkisstarfsmanna sem eru í B-deild LSR og njóta lífeyris síns samhliða því að starfa á vinnumarkaðinum í tímavinnu eða lágu starfshlutfalli.“

Síðan segir hér varðandi lífeyrisréttindi starfsmanna í A-deild, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu er ekki einu orði minnst á réttindi starfsmanna sem greiða í A-deild LSR. Aðeins er fjallað um lífeyrisgreiðslur skv. 24. gr. laga nr. 1/1997 en sú grein á eingöngu við um B-deild LSR. Í fyrra frumvarpinu um RÚV sf. var eftirfarandi ákvæði:

„Í 6. mgr. ákvæðisins er gert ráð fyrir því að þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem við gildistöku laganna eru í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins haldi þeim réttindum.“

Spurt er hver sé réttarstaða starfsmanna sem greiða til A-deildar LSR í dag og nýrra starfsmanna samkvæmt frumvarpi RÚV hf. og samtökin spyrja einnig:

„Mun verða tryggt að starfsmenn geti áfram verið í LSR? Möguleikar starfsmanns sem greiðir í A-deild LSR til áframhaldandi aðildar að LSR er háð nokkrum skilyrðum.“

Menn hafa líka deilt um þetta og það er einfaldlega þannig, eins og ég benti á áðan og hefur komið fram, m.a. í deilum hjá Flugstoðum ohf., að það veldur starfsmönnum hjá RÚV að sjálfsögðu áhyggjum ef lífeyrismálin eru ekki alveg á hreinu og það er því miður þannig í þessu frumvarpi. En eins og ég nefndi í upphafi er ástæðan fyrir því sú að með frumvarpinu er m.a. verið að ná niður kjörum og réttindum opinberra starfsmanna.

Loks koma samtökin inn á athugasemdir varðandi gjaldskyldu o.s.frv. Hinn 25. apríl kom síðan önnur umsögn frá BHM og BSRB þar sem gerð er tillaga um bráðabirgðaákvæði sem mundi hafa mjög jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir frumvarpið en því miður hefur menntamálanefnd ekki séð ástæðu til að taka upp þær tillögur. Og enn og aftur sannast það sem ég minntist á í upphafi að þrátt fyrir að þeir sem styðja frumvarpið, þeir sem tala sérstaklega fyrir því, hafi margoft hælt sér af því og endurtekið hversu margir gestir komu fyrir nefndir og hversu margar umsagnir hafi komið, þá skiptir það ekki máli því það er sjaldnast hlustað á það eða tekið mark á því. En þar sem þetta skjal skiptir miklu máli þá ætla ég leyfa mér að lesa það hér orðrétt en þar segir, með leyfi forseta:

„Tillögur menntamálaráðherra um rekstrarformsbreytingu RÚV yfir í opinbert hlutafélag hefur í för með sér grundvallarbreytingar á réttindum starfsmanna og ýmis réttindi munu jafnframt glatast verði frumvarpið samþykkt. Samtökin hafa lagt höfuðáherslu á það í umsögn frá 16. febrúar 2006“ — sem ég var að vitna í áðan — „að réttindi starfsmanna verði tryggð í frumvarpinu. Að mati samtakanna er eina leiðin til að tryggja óbreytt réttindi starfsmanna að frumvarpið verði ekki að lögum og þess vegna gera samtökin það að sinni megintillögu að horfið verði frá lögfestingu þess.“

Þetta hefur margoft komið fram í umræðunni. En áfram segir, með leyfi forseta:

,,Fari hins vegar svo að menntamálanefnd afgreiði frumvarpið frá sér til 3. umræðu“ — sem hún hefur því miður gert — ,,telja samtökin mjög brýna nauðsyn bera til þess að á því verði gerðar breytingar til að tryggja með skýrum hætti réttarstöðu starfsmanna við gildistöku laganna. Eins og frumvarpið liggur nú fyrir skapast mikil réttaróvissa um réttarstöðu starfsmanna RÚV við gildistöku laganna.“

Það er einmitt þetta sem ég hef verið að benda á. Þarna skapast mikil réttaróvissa. Það skapast mikil óvissa hjá starfsfólki RÚV um sína framtíð, um sín kjör, um sín réttindi, um sínar skyldur og jafnvel skapast réttaróvissa um þeirra réttarstöðu. Það er í raun verið að kalla eftir kærum með því að ætla sér að samþykkja frumvarpið. Það er viðbúið að það eiga eftir að koma kærur frá starfsfólki þar sem það mun væntanlega koma í ljós að þeim er ekki ætlað að halda öllum sínum réttindum þó svo að þau séu lögskipuð. En ríkisstjórnin er að sjálfsögðu vön því að fá á sig dóma.

Jafnframt koma fram í bréfinu frá BHM og BSRB eftirfarandi breytingartillögur samtakanna við frumvarpið. Ég ætla að leyfa mér að lesa þær upp, virðulegi forseti:

,,RÚV ohf. tekur við gildistöku laganna yfir skyldur vinnuveitanda gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins að öllu leyti og þannig halda þeir óbreyttum réttindum samkvæmt lögum, kjarasamningum og ráðningarsamningum. Starfskjör, réttindi og ávinnsla réttinda halda áfram hjá hlutafélaginu eins og um samfellda ráðningu hjá sama vinnuveitanda sé að ræða.“

Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum má þessi grein ekki vera í frumvarpinu og væntanlegum lögum? Áfram segir, herra forseti:

,,Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem njóta biðlaunaréttar samkvæmt 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða, sbr. 34. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, missa ekki rétt til biðlauna við gildistöku laga þessara þó svo að þeir afþakki boð um um starf hjá RÚV ohf. Eftir gildistöku laga þessara skal starfsmönnum sem rétt eiga til biðlauna veittur umþóttunartími í 3 mánuði til að taka afstöðu til þess hvort þeir taki boði um starf hjá RÚV ohf. eða neyti biðlaunaréttar síns, og miðast biðlaunaréttur þeirra þá við lok þriggja mánaða tímabilsins ef viðkomandi kýs að halda ekki áfram störfum.

Starfsmenn Ríkisútvarpsins sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eiga rétt til áframhaldandi aðildar að þeim sjóði sem og allir starfsmenn sem ráðnir verða til RÚV ohf. Starfsmenn RÚV ohf. eiga rétt á því að vera félagsmenn í þeim stéttarfélögum sem lögum samkvæmt eiga rétt á því að gera kjarasamning við RÚV ohf. enda hafi hlutaðeigandi stéttarfélag gert kjarasamning fyrir þá við Ríkisútvarpið eða fjármálaráðherra fyrir þess hönd.“

Svo mörg voru þau orð. Þessar tillögur gætu haft mikil áhrif á frumvarpið og gengið langt í að tryggja starfsmönnum RÚV sín réttindi og kjör. En af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur menntamálanefnd ekki séð ástæðu til þess að taka við þessum ábendingum og gera þær að sínum. Þar af leiðandi hlýtur það að vera rétt, eins og ég nefndi í upphafi, sem haldið hefur verið fram að tilgangurinn með frumvarpinu sé að skerða kjör opinberra starfsmanna, sé að skerða kjör starfsfólks Ríkisútvarpsins. Ég held að svo hljóti að vera. Hér liggja tillögurnar alveg klárt fyrir og væri kannski rétt, ef 3. umr. siglir í þrot, að menn settust betur yfir tillögurnar um bráðabirgðaákvæði sem eru til þess fallnar að skýra lögin. Ef hv. formaður menntamálanefndar getur fullyrt hér í ræðustól að frumvarpið eins og það lítur út núna muni ekki skerða kjör og réttindi opinberra starfsmanna hlýtur hann að geta tekið tillögurnar beint upp. Ég sé ekki að neitt ætti að vera því til fyrirstöðu.

Ég hef minnst aðeins á Matís ohf. og tekið það sem dæmi þar sem þar eru uppi samningsörðugleikar á milli stjórnenda Matís ohf. annars vegar og stéttarfélaga starfsfólksins hins vegar. Staðan í því máli er einfaldlega sú að stjórn Matís hefur ekki áhuga á að gera neina samninga með stéttarfélögin sem millilið. Af hverju er minnst á það? Jú, þetta eru varnaðarorð um það hvert stefnir. Ég get ekki séð að nokkurs staðar hafi komið skýrt fram hver muni fara með samningsumboð fyrir hönd starfsmanna RÚV verði frumvarpið að lögum. Það hefði mátt segja sér það sem ég hef verið að ræða um í dag, að þetta yrði reyndin hjá Matís og verður þá væntanlega reyndin hjá RÚV ohf. af því að það kemur fram í greinargerð með frumvarpi um Matís ohf. hversu mjög menn eru ósáttir við að þurfa að semja við stéttarfélögin. Það kemur fram í frumvarpi til laga um stofnun Matvælarannsókna á 132. löggjafarþingi. Við skulum hafa þetta nákvæmt. Í athugasemdum við lagafrumvarpið, nánar tiltekið í lið 7.1 um hlutafélagaformið þar sem er verið að tala um sveigjanleika, starfsumhverfi o.s.frv., segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Stjórnendur hjá A-hluta ríkisaðila eru háðir meiri takmörkunum í rekstri en stjórnendur fyrirtækja með annað rekstrarform. Helstu ástæðurnar eru þær að ríkið ber ótakmarkaða ábyrgð á rekstri sem það stendur fyrir. Stjórnendur ríkisstofnana ráðstafa tekjum sem aflað er með skattheimtu og ríkið hefur ákveðnar skyldur í þágu samfélagsins sem skilgreindar eru í lögum. Ríkisaðilar geta því ekki tekið að sér hvaða verkefni sem er og einkaaðilar geta eingöngu í takmörkuðum mæli farið inn á verksvið ríkisins og keppt við það. Sem dæmi má nefna að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gilda aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt.“

Þarna er einmitt kjarni málsins. Þetta kemur að vísu ekki fram í frumvarpinu um RÚV ohf. Menn hafa haft vit á að hafa ekki þann texta þar inni. En þessi texti er alveg skýr þar sem sagt er, með leyfi forseta:

,,Sem dæmi má nefna að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gilda aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt.“

Það er að segja, réttindi, skyldur og kjarasamningar opinberra starfsmanna standa ríkisfyrirtækjum fyrir þrifum. Það er það sem verið er að segja hér. Þetta er einmitt það sem er ósagt látið í umræðunni um Ríkisútvarpið ohf. af hendi þeirra sem leggja fram og vilja samþykkja frumvarpið. Þetta stendur í stjórnarflokkunum, það eru þeir samningar sem starfsmenn RÚV hafa í dag og þeirra stéttarfélög hafa unnið fyrir af hörku og þrautseigju í áratugi. Þetta svíður ákveðnum þingmönnum mjög svo. Þessi setning sem er í greinargerð með frumvarpi um Matís ohf. segir öllum sem á vilja hlýða og skilja að þetta er önnur af aðalástæðunum fyrir því að þetta frumvarp er lagt fram. Margar ástæður hafa verið nefndar sem ég á eftir að fara nákvæmar yfir í máli menntamálaráðherra. En hér kemur það alveg skýrt fram af hverju menn fara út í ohf.-væðingu því að mörgum, gróft sagt, finnst lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, kjör þeirra, standa ríkisstofnunum fyrir þrifum. Ef svo er þá eiga menn að segja það hreint út og, eins og ég kom inn á í upphafi er ég fór yfir umsögn frá hagsmunasamtökum, ganga hreint til verks varðandi breytingar á réttum lögum en ekki lauma þessu inn bakdyramegin, reyna að höggva í réttindi og skyldur opinberra starfsmanna með því að hlutafélagavæða ríkisstofnun.

Ég ætla að leyfa mér að lesa þetta upp aftur. Þetta er í athugasemdum með frumvarpi til laga um Matís ohf.

,,Ríkisaðilar geta því ekki tekið að sér hvaða verkefni sem er og einkaaðilar geta eingöngu í takmörkuðum mæli farið inn á verksvið ríkisins og keppt við það. Sem dæmi má nefna að samkvæmt lögum um starfsmenn ríkisins gilda aðrar reglur um ráðningu, uppsagnir, launamál og ýmis réttindi ríkisstarfsmanna en í atvinnulífinu almennt.“

Þetta er mergur málsins. Þarna er, eins og fram hefur komið, meðal annars verið að tala um svokallað áminningarferli sem felst einfaldlega í því að ekki er hægt að segja opinberum starfsmanni upp með geðþóttaákvörðun. Það þarf að áminna hann ef yfirmanni finnst hann ekki hafa staðið sig í starfi. Það þarf að áminna hann tvisvar og ef ekki hefur þá ræst úr er hægt að segja starfsmanninum upp. Þetta er ekki bara spurning um að áminna formlega heldur er þetta líka spurning um að gefa starfsmönnum andmælarétt.

Ég held að í þessu tilfelli sé rétt að minna líka á þau átök sem hafa verið í starfsmannamálum hjá Alcoa í Straumsvík. Þar var nýlega þremur starfsmönnum sagt upp á hinum almenna vinnumarkaði. Starfsmönnum sem höfðu unnið þar í áratugi var sagt upp einn tveir og þrír án skýringa. Það sem verra er er að það er enginn andmælaréttur. Það er þetta form sem menn eru meðal annars að sækja í með því að breyta RÚV í RÚV ohf. Þrátt fyrir að búið sé að skreyta bæði frumvarpið og umræðuna og hengja aftan í svokallaðan þjónustusamning sem ég á eftir að fara betur yfir þá er enn ljóst í mínum huga, og mun ég færa fyrir því rök í þessari ræðu í dag, að tilgangurinn með frumvarpinu er annars vegar sá sem ég hef verið að ræða núna, þ.e. að skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna og hins vegar að undirbúa sölu á RÚV.

Önnur hagsmunasamtök hafa gert athugasemdir við frumvarpið fyrir hönd starfsfólks. Jafnframt, eins og ég minntist á áðan, tók Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður saman atriði sem henni fannst rétt að starfsfólk Ríkisútvarpsins hefði í huga ef til þess kæmi að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. yrði að lögum. Ég benti á það áðan, og mér leiðist í sjálfu sér ekki að endurtaka það, að hjá Láru kemur fram að verði stofnunin lögð niður við að fara yfir í ohf. breytist að sjálfsögðu lagalegt umhverfi starfsmanna RÚV. Þeir eru þá ekki lengur opinberir starfsmenn heldur starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Þar af leiðandi gilda lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ekki lengur um starfsmennina. Menn hafa verið svolítið missaga um frumvarpið, menn hafa fullyrt að þetta gilti allt saman, það kæmi fram í ákvæði til bráðabirgða, og reynt þannig að slá á ótta og áhyggjur manna. En hér bendir lögfræðingur á að það geti engan veginn staðist. Þar af leiðandi verða væntanlega deilur, eins og ég hef minnst á.

Það sem Lára bendir á í greinargerðinni eru atriði um biðlaunaréttindi og lífeyrisréttindi, það sama og aðrir hafa bent á. Jafnvel eru efasemdir varðandi fæðingarorlof og uppsagnarréttindi sem ég minntist á áðan. Jafnframt um veikindaréttindi, orlofsréttindi og aðild að stéttarfélögum sem er að hluta til kjarni málsins, þ.e. hverjir koma til með að semja fyrir hönd starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf. Starfsmenn hafa lýst því yfir að þeir vilji hafa áfram sömu samningsaðila fyrir sína hönd. Ef ég man rétt hefur einhvers staðar verið gefið í skyn munnlega að það muni vera. En getur það gengið?

Um fæðingarorlofið, sem ég minnist ekki að hafi komið til umræðu og er að sjálfsögðu ein af ástæðunum fyrir því að mörgum þingmanninum og starfsmönnum Ríkisútvarpsins óar við þeim breytingum, segir í samantekt Láru V. Júlíusdóttur um fæðingarorlof, með leyfi forseta:

,,Rétt er að vekja athygli á mismunandi rétti opinberra starfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði til fæðingarorlofs. Um fæðingarorlof fer samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000. Þar er öllum foreldrum tryggður réttur til fæðingarorlofs. Samkvæmt lögunum á ekki að vera munur á rétti þeirra sem eru opinberir starfsmenn og þeirra sem eru í starfi á almennum vinnumarkaði. Í framkvæmd er reyndin þó önnur. Starfsmenn á almennum vinnumarkaði sem eru í fæðingarorlofi fá ekki orlofslaun greidd á þeim tíma. Þegar þeir síðan fara í orlof eftir að hafa verið í fæðingarorlofi hluta orlofsársins fá þeir einungis orlof greitt í hlutfalli við þann tíma sem þeir voru í starfi. Þeir eiga rétt á samningsbundnu fríi en orlofslaunin eru skert sem þessu nemur. Opinberir starfsmenn fá hins vegar óskert orlofslaun þótt þeir hafi varið hluta af orlofsárinu í fæðingarorlofi. Hér er eðlilegt að fram komi krafa frá starfsmönnum að sama regla komi til með að gilda áfram eftir að ohf. hefur yfirtekið RÚV.“

Hér er enn eitt dæmið, frú forseti, um breytingu sem verður á kjörum starfsfólks Ríkisútvarpsins verði frumvarpið að lögum. Að sjálfsögðu eru starfsmenn uggandi um sinn hag. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ekki hefur verið komið á hreint. Það hlýtur að vera viljandi gert að koma þessu ekki á hreint miðað við hversu oft bent hefur verið á þennan galla í frumvarpinu. Kannski er það ekki galli ef það er ætlunin, eins og ég held fram, að ríkisvaldið vilji skerða kjör starfsmanna RÚV með því að losa þá undan því að vera opinberir starfsmenn. Þá er þetta væntanlega viljandi gert.

Ætli sé ekki rétt að taka smá hvíld á starfsmannamálum. Ég hef farið nokkuð rækilega yfir helstu efni og varað menn við, m.a. eru dæmi um að menn hafi þurft að fara með réttindamál sín fyrir dóm eftir að þeir hafa verið að breyta opinberum fyrirtækjum. Ég er nokkuð viss um að það muni gerast líka hér ef frumvarpið verður að lögum sem ég trúi að vísu að aldrei verði.

Það hefur verið svolítið sérstakt að fylgjast með því síðustu árin hvernig frumvarpið, eða hvað á að kalla það, hefur breyst. Það hefur verið mikil þrákelkni, sérstaklega hjá menntamálaráðherra og Sjálfstæðisflokki, að koma í gegn breytingum á RÚV. Margir hafa að vísu talað fyrir því að nauðsynlegt sé að gera ákveðnar breytingar en það er einungis fámennur hópur sem talar fyrir því að gera þær breytingar sem frumvarpið felur í sér. Hún er svolítið sérstök, þessi mikla ákefð við að reyna að breyta, því að í raun er búið að gefast upp a.m.k. tvisvar sinnum við að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Búið er að reyna að koma í gegn frumvarpi um Ríkisútvarpið sf. Það tókst ekki. Búið er að reyna að koma í gegn Ríkisútvarpi hf. Það tókst ekki eða var hætt við og nú eru menn búnir að bæta við frumvarpið einum staf, o. Hvers vegna svo mikið kapp hefur hlaupið í menn við að koma þessum breytingum í gegn með einum eða öðrum hætti átta ég mig ekki alveg á nema það sé út af þessu tvennu sem ég hef nefnt nokkrum sinnum og þreytist ekki á að tiltaka, að annars vegar sé verið að skerða vísvitandi kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins og höggva þannig í raðir stéttarfélaga opinbera starfsmanna og hins vegar að verið sé að undirbúa sölu Ríkisútvarpsins.

Því hefur verið haldið fram m.a. í umræðunni í dag að meiri hluti þjóðarinnar vilji slíkar breytingar. Ég er ekki viss um að meiri hluti þjóðarinnar viti nákvæmlega hvað þær breytingar þýði. Það skiptir líka máli hvernig menn hafa leitað að þeirri niðurstöðu. Ég efast um að meiri hluti þjóðarinnar sé samþykkur því að einn ákveðinn hópur starfsmanna sé tekinn svona fyrir og réttindin skert, að kjörin séu skert. Ég hef ekki trú á að vilji meiri hluta þjóðarinnar sé til fyrir því. Það sem meiri hlutinn vill kannski er að þessum umræðum öllum ljúki. Það er ekki það sama. Þess vegna er það m.a. hlutverk okkar að reyna að upplýsa almenning hvaða ókosti það mundi hafa í för með sér að samþykkja frumvarp eins og þetta. Það er gert af dýpstu einlægni.

Eitt af því sem mig langar til að taka sérstaklega fyrir, herra forseti, er fylgiskjal II með frumvarpinu. Það var ekki með fyrri frumvörpunum. Þegar eitthvað nýtt kemur er alveg augljóst, a.m.k. í mínum huga, að þarna er eins konar skrautfjöður. Það er verið að reyna að skreyta frumvarpið. Ég er að tala um drög að samningi um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að hrinda þeim samningi eða svipuðum samningi í framkvæmd án þess að fyrst komi til samþykkt frumvarps til laga um Ríkisútvarpið ohf.? Það er ekkert sem krefst þess að frumvarp um Ríkisútvarpið ohf. sé á undan. Af hverju í ósköpunum — það eru allir sammála um að reyna eigi að nútímavæða Ríkisútvarpið, ég held að enginn hafi talað gegn því — er ekki búið að gera svipaðan hliðstæðan samning? Af hverju þarf allt í einu að hengja hann þarna í? Tilgangurinn með því getur ekki verið annar en sá að í rauninni er verið að hóta. Þarna kemur samningur sem er byrjað á að kynna opinberlega í fjölmiðlum af menntamálaráðherra og útvarpsstjóra. Samningsdrög eru kynnt um aukna innlenda dagskrárgerð, aukið fjármagn og eitthvað fallegt sem allir vilja en algjört skilyrði er að fyrst verði lagafrumvarpið samþykkt. Þetta er að mínu viti, herra forseti, hótun beint til þeirra þingmanna sem mögulega kunna að vera á móti lagafrumvarpinu. Ég held að meiri hlutinn sé enn þá á móti því.

Þetta er ákveðin hótun. Verið er að búa til spennu og ríkisstjórnin er þekkt fyrir það. Við þekkjum það í samskiptum ríkisstjórnarinnar t.d. við samtök öryrkja og aldraðra. Þarna er verið að búa til spennu milli þingmanna og þeirra aðila er koma t.d. að innlendri dagskrárgerð, kvikmyndagerðarmanna o.s.frv. Verið er að búa til þá spennu að ef þingmenn minni hlutans samþykkja ekki Ríkisútvarpið ohf. þá komi þessi samningur ekki til. Þá komi ekki aukið fjármagn til innlendrar dagskrárgerðar. Að sjálfsögðu er þetta hótun. Mér finnst að þetta eigi ekki að þekkjast í sölum Alþingis í dag að menn skuli, eftir að hafa gefist upp tvisvar með að koma frumvarpi í gegn, tengja við óbeina hótun skulum við segja til að reyna að koma upp togstreitu milli ákveðinna hagsmunasamtaka og þeirra þingmanna sem mögulega vilja ekki samþykkja frumvarpið óbreytt.

Þetta er mikill samningur og mér skilst að hann mundi fela í sér miklar og góðar breytingar. Ég held að enginn efist um það, en af hverju í ósköpunum er ekki hægt að gera þennan samning við RÚV? Ekki hafa komið nein rök fyrir því að ekki skuli vera hægt að gera samninginn án þess að samþykkja lagafrumvarpið. Það er alveg skýrt að þegar menn hnýta svona fylgiskjal aftan í í tilraun þrjú er þetta eins og að bæta við mótor á kappakstursbíl eða setja nýja innspýtingu, betra eldsneyti eða eitthvað slíkt. Myndir hafa birst í fjölmiðlum af útvarpsstjóra og menntamálaráðherra þar sem þau koma fagnandi og tilbúin með drög, en bíðum við, það hefur í rauninni verið sagt: Nú þurfið þið, í þeim hagsmunasamtökum sem málið við kemur, að berja á ykkar þingmönnum.

Ef ég man rétt, herra forseti, þá var þessi samningur ekki kynntur þingmönnum fyrst. Hann hefur væntanlega verið kynntur fyrir fjölmiðlum 28. september. Ég ætla ekki að fullyrða að hann hafi ekki verið kynntur þingmönnum fyrr. (MÁ: Aldrei kynntur þinginu.) En nú fæ ég hér mjög merkilega athugasemd úr sal um að þessi drög voru í raun og veru ekki kynnt þingmönnum fyrr. Þetta kemur fram í málgagninu, Morgunblaðinu, þann 29. september 2006 í stórri grein með fallegri mynd af hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóra alls landsins þar sem hann er að hvísla henni í eyra. Það er kannski svolítið táknrænt að hann skuli gera það einmitt hér á þessari mynd.

Hér er slegið upp: RÚV gert að stórauka framboð á íslensku efni. Hér er talað um einhverjar milljónir og milljónir og hundruð milljóna. Hér er að sjálfsögðu talað við forseta Bandalags íslenskra listamanna sem fagnar þessu og fleiri o.s.frv.

En af hverju í ósköpunum eru vinnubrögðin svona? Af hverju er þessu hnýtt hérna aftan í annars vegar og hins vegar af hverju er þetta ekki kynnt þingmönnum? Af hverju er þetta kynnt fjölmiðlum fyrst? Ég kann ekki að skýra það og það er ekki mitt hlutverk.

En ég held að það hljóti að snúast um að reyna að vekja upp fögnuð, að vekja upp væntingar hjá þeim aðilum sem mundu koma að þeim atriðum er þessi samningur inniheldur og skapa þannig ákveðna stemmningu í þjóðfélaginu áður en þingmenn fá að sjá þetta.

Það er merkilegt að þetta skuli gert korteri fyrir upphaf þings. Þetta er gert í lok september 2006 þannig að það þarf enginn að segja mér annað, herra forseti, en að þetta sé allt með vilja gert, allar þessar tímasetningar o.s.frv.

Þarna eru lögð fram drög að þjónustusamningi til að vekja vonir þeirra sem að málunum koma og hafa lengi beðið eftir breytingum á RÚV. En það er ekkert sem segir mér að ekki hafi verið hægt að gera slíkar breytingar og þá með þessum þjónustusamningi án þess að bíða eftir að frumvarpið yrði samþykkt. Það er algjört aukaatriði.

Það kannski segir líka sitt um vinnubrögðin að ári áður kynnti menntamálaráðherra frumvarpið um RÚV fyrst í fjölmiðlum áður en það var kynnt þingmönnum þannig að vinnubrögðin eru í sjálfu sér ekkert ný.

Eins og ég hef sagt þá hljóma þessi drög afskaplega vel. En það er ekkert sem segir mér að þau geti ekki tekið gildi, að ekki sé hægt að setja þau í framkvæmd án þess að hnýta þau svona aftan í frumvarpið og þar af leiðandi óbeint að hóta þingmönnum til hlýðni í þeirri trú að kjósendur vilji þennan samning og það strax.

Því hefur að sjálfsögðu verið mótmælt að þessi samningur sé einhver hótun. Umræður um það hafa að sjálfsögðu farið fram hér á hinu háa Alþingi og ekki að undra. Í umræðunum um Ríkisútvarpið ohf. í október í fyrra kvörtuðu þingmenn yfir því að verið væri að hnýta drög að þjónustusamningi við frumvarpið, eins og sjá má í fylgiskjali II, að þetta væri hótun. Ráðherrann brást að sjálfsögðu illa við því.

Ráðherrann hefur að sjálfsögðu líka brugðist illa við þeim ummælum þingmanna um að til standi að selja Ríkisútvarpið í framhaldi af hinum mögulegu ohf. breytingum.

Ég fór að velta því fyrir mér, herra forseti, hver væru í raun markmiðin með því að gera þessar breytingar, að færa RÚV eins og það er í dag yfir í hlutafélag eða opinbert hlutafélag og ég gríp hér niður í ræðu hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, frá 17. október sl., þar sem hún segir m.a., með leyfi forseta:

„Breytingarnar á Ríkisútvarpinu eru gerðar með ákveðin markmið í hug. Hver eru þau markmið? Þau eru að það sinni almannaþjónustu, öryggishlutverki … og menningarhlutverkið skiptir einnig miklu máli. Ef Ríkisútvarpið sinnir þessu ekki þá er enginn tilgangur með ríkisútvarpi, þá fyrst er enginn tilgangur með ríkisútvarpi.“

Ég velti því fyrir mér, herra forseti. Er Ríkisútvarpið ekki að sinna þessum þáttum í dag, almannaþjónustu, öryggishlutverki, menningarhlutverki? Ég hefði haldið og ég held að það hljóti flestallir að vera sammála um að Ríkisútvarpið er að sinna þessum markmiðum í dag. En af hverju fullyrðir þá hæstv. menntamálaráðherra, sem því miður er ekki hér í salnum til að hlýða á þessi orð mín, (Gripið fram í.) þetta er allt í lagi. Ég er ekki hættur.

Hvers vegna tekur hæstv. menntamálaráðherra svona til orða, 17. október 2006 varðandi breytingar á Ríkisútvarpinu og ég ætla að fá að endurtaka þetta hér.

Breytingarnar á Ríkisútvarpinu eru gerðar með ákveðin markmið í huga. Hver eru þau markmið? Þau eru að það sinni almannaþjónustu, öryggishlutverki og menningarhlutverkið skiptir einnig miklu máli.

Ég spyr enn og aftur, herra forseti: Er Ríkisútvarpið ekki akkúrat að sinna þessum þáttum í dag? Eða hefur mönnum algerlega mistekist? Er þetta hörð gagnrýni á að stjórnendum Ríkisútvarpsins hafi algerlega mistekist og geti ekki sinnt þessum ákveðnu þáttum nema ohf. sé komið.

Jafnframt segir hæstv. menntamálaráðherra í sömu ræðu frá 17. október, með leyfi forseta:

„Hlutafélagavæðing hefur tilgang. Tilgangurinn er alveg skýr að mínu mati í þessu máli. Það er að styrkja Ríkisútvarpið í því hlutverki sínu að uppfylla þær kröfur sem við gerum til þess.“

Enn og aftur spyr ég, herra forseti: Af hverju er það ekki hægt eins og Ríkisútvarpið er rekið í dag? Ég hef hlustað vel á umræðurnar í dag og síðustu mánuði en mér finnst ekki hafa komið skýrt fram af hverju Ríkisútvarpið getur ekki uppfyllt þær kröfur sem við gerum til þess í dag án þess að breyta því í hlutafélag.

Jafnframt segir hæstv. menntamálaráðherra áfram í ræðu sinni frá 17. október, með leyfi forseta:

„Ég er sannfærð um að þetta sé leiðin til að gera það. Ég vil sjá aukna innlenda dagskrárgerð. Ég vil sjá aukið íslenskt efni. Ég vil sjá aukna textun“ o.s.frv.

Af hverju í ósköpunum, herra forseti, af hverju í ósköpunum hefur þá hæstv. menntamálaráðherra, sem hefur haft til þess nokkur ár, ekki hrint þessu öllu nú þegar af stað? Hvað hefur staðið í vegi?

Jafnframt segir hér áfram, með leyfi forseta:

„Ég er því sannfærð um að með öllum þeim breytingum erum við að færa Ríkisútvarpið til nútímans um leið og við gerum auknar kröfur til þess varðandi menningarhlutverk.“

Enn og aftur spyr ég: Af hverju er það ekki hægt miðað við núverandi aðstæður? Þegar maður les yfir svona greinargerðir, nefndarálit með frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. og fer yfir ræður þeirra sem hafa talað fyrir því, og þá er ég fyrst og fremst að tala um hæstv. menntamálaráðherra, þá næ ég a.m.k. ekki enn þá að sjá skýr rök með því að það sé svona bráðnauðsynlegt að breyta rekstrarforminu yfir í ohf. Og þess vegna held ég að ástæðurnar séu fyrst og fremst þær tvær sem ég nefndi í upphafi.

Og áfram í ræðunni frá 17. október segir hæstv. menntamálaráðherra, með leyfi forseta:

„Ég er jafnframt sannfærð um að ef frekari töf verður á afgreiðslu þessa frumvarps þá jafngildir það líka töf og seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar. … Hér er tækifæri og ég er sannfærð um að þetta er rétta leiðin til að efla og styrkja innlenda dagskrárgerð. Þetta er leiðin og þess vegna erum við að ræða þetta og þess vegna er ég að stuðla að því að það verði breyting á Ríkisútvarpinu til framtíðar, til að stuðla að menningarlegri fjölbreytni.“

Hér sagði ráðherrann og ég las orðrétt upp: Ég er jafnframt sannfærð um að ef frekari töf verður á afgreiðslu þessa frumvarps þá jafngildir það líka töf og seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar.

Er þetta hótun? Já, herra forseti. Þetta er alveg skýr hótun. Ef þingmenn hundskast ekki til að hætta að ræða um þetta frumvarp og koma með sínar athugasemdir og samþykkja það bara möglunarlaust, þá er það þingmönnunum að kenna að tafir verða á eflingu innlendrar dagskrárgerðar. Það er ekkert varðandi Ríkisútvarpið eins og það er í dag sem gefur tilefni til þess. Að sjálfsögðu er þetta hótun.

Allt varðandi þennan samning eða drög að þessum þjónustusamningi tengist á einn og annan hátt hótun, herra forseti. Það er mjög slæmt þegar ráðherrar taka sig til og skreyta frumvörp sín, frumvörp sem þegar hefur verið reynt í tvígang að koma í gegn en ekki tekist, með samningi eins og þessum þjónustusamningi og þeirri fullyrðingu að ekki sé hægt að taka upp þennan þjónustusamning eða þau verkefni sem kveðið er á um með honum nema með því að samþykkja frumvarpið. Tefjist afgreiðsla frumvarpsins þýðir það töf eða seinkun á eflingu innlendrar dagskrárgerðar.

Að sjálfsögðu er þetta hótun því þarna hafa margir hrokkið við og spurt okkur þingmenn: Af hverju samþykkið þið þetta ekki bara einn, tveir og þrír? Það er ykkur að kenna að það er ekki efling á innlendri dagskrárgerð. Það er einmitt þetta sem hæstv. ráðherra vill ná fram með því að tengja þetta saman.

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð ítarlega ofan í starfsmannamál og varað menn við hvað kunni að gerast verði þetta frumvarp að lögum. Það voru hér miklar deilur í gær varðandi athugasemdir frá ESA og gögn sem hafa borist á milli menntamálaráðuneytis og þeirrar stofnunar.

Eitt af því sem ég minntist sérstaklega á áðan er þetta óvissuástand sem frumvarpið skapar. Það skapar óvissuástand kannski sérstaklega hjá starfsfólki Ríkisútvarpsins. Það er í raun viljandi sköpuð óvissa um dagskrárgerð o.s.frv. en það er alveg skýrt að frumvarpið skapar mikla óvissu um réttarstöðu starfsmanna. Þá dettur manni helst í hug að það sé til þess gert að þreyta menn, starfsfólk Ríkisútvarpsins, til að þrýsta á menn að samþykkja þetta því að að sjálfsögðu líður engum vel í óvissu en það má samt ekki verða til þess að menn séu þreyttir til að samþykkja eitthvað sem þeir eru ekki sáttir við.

Eitt af því sem hefur verið bent á ef þessi breyting nær í gegn varðandi starfsmannamál, að nokkuð ljóst er að þá verður reynt að semja beint við einstaka starfsmenn. Reynt verður að forðast samninga í gegnum stéttarfélög rétt eins og er að gerast þessar vikurnar hjá Matís ohf. Þetta mun að sjálfsögðu kalla á launaleynd en viðurkennt hefur verið að launaleynd leiði til aukins kynjabundins launamismunar. Eitt af því sem frumvarpið getur haft í för með sér varðandi skert kjör starfsmanna eða breytingu á kjörum starfsmanna er aukinn kynjabundinn launamismunur.

Til orðaskipta kom í morgun þar sem einn ágætur þingmaður lýsti því svo þegar bréf kom til þingmanna um að ekkert yrði á dagskrá í þessari viku annað en frumvarpið um RÚV ohf., að hv. þm. Merði Árnasyni varð að orði að líkja þessari tilkynningu við herlög. Ég ætla að leyfa mér að taka undir það að hluta til því það er mjög einkennilegt að þingmenn skuli fá slíka tilkynningu í tölvupósti frá starfsmanni þingsins um að starfsáætlunin sem er í gildi og hæstv. forseti hefur lagt hart að sér að sé í heiðri höfð og hefur henni verið fylgt mun betur eftir af núverandi forseta en virðist vera síðustu árin, skuli ekki gilda. Það er svolítið einkennilegt að fá svona tilkynningu, klippt og skorið, um að ekki skuli vera neinir fyrirspurnatímar og nefndarfundir skuli vera á óreglulegum tímum og til þeirra boðað. Það sem er kannski enn verra í þessu, herra forseti, er að sá er hér stendur hefur óskað eftir að vera áheyrnarfulltrúi í tveimur nefndum en það virðist ganga erfiðlega að koma því í gegnum kerfið, að samþykkja það eða hafna því. Ég hef því ekki fengið neinar boðanir um eina eða neina nefndarfundi. Hvort það kemur þessum herlögum eitthvað við skal ósagt látið en mér finnst einkennilegt að þegar maður sækir um að vera áheyrnarfulltrúi í nefndum, herra forseti, þann 28. desember sl. skuli það ekki vera afgreitt, án þess að ég ætli að fjargviðrast mikið meira út í það í bili.

Ég ræddi áðan um hótun varðandi þjónustusamninginn. Hvernig virkar sú hótun? Hún virkar þannig að verið er að æsa þá er málið skiptir, innlenda dagskrárgerð Ríkisútvarpsins, upp gegn þeim þingmönnum sem mögulega munu ekki vilja samþykkja frumvarpið Ríkisútvarpið ohf. Og það var eins og við manninn mælt þegar þetta var tilkynnt 28. september 2006 opinberlega á fjölmiðlafundi þar sem fyrir svörum sátu hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóri, að samningurinn eða drög að þjónustusamningi voru tilkynnt án þess að hafa verið tilkynnt fyrir þingheimi. Í kjölfarið segja menn að sjálfsögðu álit sitt., m.a. birtist ályktun í fjölmiðlum þriðjudaginn 17. október 2006 þar sem Framleiðendafélagið SÍK fagnar nýjum þjónustusamningi milli RÚV og menntamálaráðuneytisins þar sem m.a. er kveðið á um verulega aukningu á hlut íslensks dagskrárefnis í sjónvarpinu næstu fimm árin. Að sjálfsögðu er þetta fólk hæstánægt en ekki er víst að það hafi vitað það þegar þessi ályktun var gerð, að þjónustusamningurinn er dulbúin hótun á þingmenn allra flokka að samþykkja frumvarpið.

Ég minntist jafnframt á önnur vinnubrögð. Harkalega var deilt á Alþingi í desember 2005 þegar RÚV-frumvarpið kom fram. Þá var það kynnt fyrst í fjölmiðlum en síðan fyrir þingheimi. Þeir sem kynntu það í fjölmiðlum voru, eins og mætti giska á núna, hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóri. Þetta er svolítið sérstakt, herra forseti, að þeir tveir aðilar skulu saman mæta á fjölmiðlafund og kynna nýtt frumvarp um RÚV. Þetta er svolítið sérstakt. Þarna er enn og aftur verið að setja pressu á þingmenn. Búið er að kynna þetta fyrir þjóðinni, búið að kynna alla kosti, enginn hefur rætt neitt um gallana, finnst þeim sem kynna það. Þetta eru mjög slæm vinnubrögð, herra forseti. Ég ætla þó ekki að segja að frumvarpinu hafi verið haldið leyndu frá þingheimi. Það er víst nóg búið að ræða um leynd í dag. En þetta eru ekki jákvæð vinnubrögð og segir manni kannski fyrst og fremst að hæstv. menntamálaráðherra telur það í sjálfu sér algert aukaatriði að vera að kynna málið fyrir þingmönnum og fara með frumvarpið í umræður, hvað þá fyrir menntamálanefnd. Þetta fær mann til að álykta sem svo að þingheimur sé talinn algert aukaatriði í þessu, það eigi ekki að þurfa að ræða þetta og eins og ég minntist á í upphafi, að ráðherra telji hreinlega að frumvarpið sé fullmótað. Rennir það stoðum undir þær yfirlýsingar sem varaþingmaður Framsóknarflokksins, Eygló Harðardóttir, kom með í fjölmiðlum, annars vegar skriflegar og hins vegar í viðtali í Silfri Egils síðasta sunnudag, ef ég man rétt, þar sem Eygló kvartaði hástöfum yfir því að upplifun hennar á Alþingi væri þannig að frumvörpin kæmu tilbúin frá starfsmanni ráðuneytis og skipti í sjálfu sér engu máli álit eða vinna nefndarmanna, þeim væri ekki ætlað að krukka neitt í frumvarpið, ef ég man rétt eftir Eygló haft.

Sú skoðun varaþingmanns annars stjórnarflokkanna rennir stoðum undir þann grun sem ég hef nefnt um vinnubrögðin, að hæstv. menntamálaráðherra telur í raun óþarft að leggja frumvarpið fyrir þingheim og menntamálanefnd. Þetta sé tilbúið, svona eigi þetta að vera. En þannig er Alþingi alls ekki ætlað að starfa og það er að sjálfsögðu hlutverk forseta Alþingis að sjá til þess að starfsemin sé ekki með þeim hætti. Ég sé enga ástæðu til að efast um orð Eyglóar og upplifunar hennar og alls ekki eftir að maður hefur farið yfir og upplifað vinnubrögð varðandi þetta ákveðna frumvarp, að þingheimi er alls ekki ætlað að skipta sér af því. Hann á að samþykkja það eins og það er. Hins vegar get ég rétt eins og margur annar stjórnarandstöðuþingmaður ekki annað en hælt hv. formanni menntamálanefndar fyrir þrautseigjuna við að vinna í frumvarpinu og lipurðina við að draga það til baka þegar menn hafa komið með ábendingar og taka það til nefndar en enn og aftur efast ég um að mikið sé hlustað á þá 150 gesti sem talið er að hafi komið fyrir nefndina.

Herra forseti. Þá erum við komin að þeim lið í ræðunni sem hefur komið fyrir hjá öðrum þingmönnum og mikið verið haldið til streitu, a.m.k. síðustu þrjú árin og það er hin ástæðan fyrir framlagningu frumvarpsins, þ.e. vilji stjórnvalda eða Sjálfstæðisflokksins til að einkavæða Ríkisútvarpið. Því hefur margoft verið borið í mót að það sé tilgangurinn en að vel athuguðu máli get ég ekki séð neitt annað og minni ég enn og aftur á það sem kom fram í greinargerð frumvarpsins um Matís. Það hefur verið svolítið merkilegt að upplifa það þegar þingmenn hafa lagt fram mál sín síðustu missirin — það er að vísu lenska á Alþingi, því miður, að reyna að koma í veg fyrir að mál sem koma beint frá þingmönnum, sama hvort þau eru frá stjórnarandstöðuþingmanni eða stjórnarþingmanni, þá virðist vera reynt af meiri hlutanum að koma í veg fyrir að þau mál nái í gegn. Eitt af þeim málum hefur vakið sérstaka athygli okkar, þ.e. hugmynd nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða Ríkisútvarpið eða selja það. Þó að það frumvarp sé orðið nokkurra ára gamalt, tveggja, þriggja ára eru þær hugmyndir alls ekki gleymdar. Í apríl í fyrra gerði einn af flutningsmönnum frumvarpsins grein fyrir atkvæði sínu um RÚV-frumvarpið, hv. þm. Pétur H. Blöndal, þar sem hann kvaðst greiða atkvæði með frumvarpinu þar sem það væri skref í þá átt að einkavæða Ríkisútvarpið. Þeir fáu sem þora að tjá sig um það hafa sem sagt haft þessa skoðun. Ég hef enga trú á að þeir kumpánar í Sjálfstæðisflokknum sem lögðu fram tillögu um að einkavæða Ríkisútvarpið séu neitt farnir af þeirri skoðun. Ég hef grun um að það sé enn ætlunin og að sjálfsögðu benda menn á, eins og ég hef verið að gera, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt nýtt frumvarp fram. Hvort þeir vilja neita króganum eða ekki skiptir ekki máli. Ef ég man rétt velti hv. varaþingmaður Framsóknarflokksins, Björn Ingi Hrafnsson, upp þeirri spurningu, til hvers væri verið að hlutafélagavæða ef ekki ætti að selja. Hann hefur náttúrlega ekki minnst á það síðan einhverra hluta vegna.

Varaformaður menntamálanefndar, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, hefur haldið fast í það að bannað sé að selja Ríkisútvarpið og það komi skýrt fram í lagafrumvarpinu. Þeirri grein var greinilega komið fyrir eftir að miklar deilur voru á milli stjórnarflokkanna um frumvarpið um Ríkisútvarpið. Það virtist róa a.m.k. einhverja framsóknarmenn þegar því ákvæði var komið inn í en ekki alla. Haft var eftir hv. þingmanni og formanni þingflokks Framsóknarflokksins, Hjálmari Árnasyni, í fjölmiðlum að nokkuð góður einhugur ríkti innan þingflokksins um frumvarpið. Tók hann sérstaklega fram að það skipti miklu máli að í frumvarpinu væri kveðið skýrt á um að Ríkisútvarpið væri ekki til sölu. Þetta virtist vera það haldreipi, herra forseti, á sínum tíma — ég ætla ekki að nota öll stóru orðin sem hafa verið notuð í dag þegar menn hafa verið að tala um að Framsóknarflokkurinn hafi kokgleypt þetta frumvarp Sjálfstæðisflokksins, hvaða hrossakaup þar voru í gangi ætla ég ekki að velta mér upp úr núna.

Það er greinilegt að sú viðbót við lagafrumvarpið, að bannað væri að selja Ríkisútvarpið ohf., var það haldreipi sem Framsóknarflokkurinn þurfti. Það er bannað selja Ríkisútvarpið ohf. Já, en það er öruggt að menn hafa nú þegar séð einhverjar leiðir til að selja Ríkisútvarpið. Það þarf enginn að segja mér annað. Ég veit ekki hvort það er flóknara en svo að menn breyti einfaldlega Ríkisútvarpinu ohf. í Ríkisútvarpið hf. og þar með sé greinin ekki lengur gild. En mér segir svo hugur að þessi grein skipti í raun engu máli og sé fyrst og fremst pólitískt haldreipi fyrir Framsóknarflokkinn til að geta talið kjósendum trú um að þeir hafi ekki opnað leið fyrir það að Ríkisútvarpið verði selt.

Einn maður í Framsóknarflokknum er með stóra og mikla samvisku, lætur ekki skipa sér fyrir og fer ekki algjörlega eftir því sem flokksklíkan skipar. Á sínum tíma, þegar hv. þm. Hjálmar Árnason var með yfirlýsingar varðandi söluna í desember 2005, gerði einn þingmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, fyrirvara um samþykkt frumvarpsins. Hann vildi eftir sem áður vera viss um að Ríkisútvarpið yrði ekki einkavætt. Þannig er það nú í kviðdómnum, herra forseti, að allir þurfa að vera sammála, vera vissir.

Hér hefur einnig verið rætt um samþykktir á flokksþingum Framsóknarflokksins varðandi Ríkisútvarpið, varðandi sölu eða hlutafélagavæðingu o.s.frv. Menn hafa farið frjálslega með það í dag. Hið merkilegasta í því, herra forseti, er að þetta er mjög viðkvæmt mál fyrir Framsóknarflokkinn. Það vefst ekki fyrir mér að það að þeir skyldu láta knébeygja sig og þykist a.m.k. enn þá standa með þessu frumvarpi. Á síðasta flokksþingi, árið 2005, ályktaði Framsóknarflokkurinn að mikilvægt væri að Ríkisútvarpið yrði áfram í þjóðareign. Kristinn H. Gunnarsson skrifaði um málið grein í Morgunblaðið 11. nóvember 2005. Þar fjallar hann um þessa ályktun.

Hér segir þingmaður Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Loks var ályktað á þessi ári á flokksþingi Framsóknarflokksins að „mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu“. Samþykktirnar eru í eðlilegu samhengi og mynda skýra stefnu flokksins. Síðari samþykktirnar styrkja þá fyrstu, sem hafnar hlutafélagavæðingu RÚV.“

Síðar segir þingmaður Framsóknarflokksins:

„Hlutafélagaformið er fyrst og fremst sölufyrirkomulag, það býr til seljanlega hluti.“

Þetta er akkúrat kjarni málsins, herra forseti. Framsóknarmenn hafa verið á flótta, hafa hreyft aðeins við fyrri samþykktum á flokksþingum en það kemur skýrt fram í grein eftir einn þingmann flokksins að Framsóknarflokkurinn hefur algjörlega hafnað hlutafélagavæðingu og á þeirri forsendu að hlutafélagaformið er fyrst og fremst sölufyrirkomulag. Því er ætlað að búa til seljanlega eign.

Þessi orð stangast á. Ég missti því miður af þeim möguleika, herra forseti, fyrr í dag í andsvör við þingmann Framsóknarflokksins, hv. varaformann menntamálanefndar, varðandi þessar flokksþingssamþykktir. En málum er því miður þannig háttað hér í dag og í gær að stjórnarþingmenn hafa ekki haft mikinn áhuga eða vilja eða kannski ekki heimild til að taka virkan þátt í þessari umræðu. Því gefast fá tækifæri til að eiga við þá orðastað. Það komur skýrt fram 11. nóvember 2005, í grein eftir hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem enn er þingmaður Framsóknarflokksins, enn þá alla vega, að Framsóknarflokkurinn hafi algjörlega hafnað hlutafélagavæðingu. Því hefur Framsókn í raun ekki heimild, a.m.k. ekki frá landsþingi, til þess að samþykkja frumvarpið.

Það hafa margir ritað og rætt um þetta frumvarp. Eitt af því sem nefnt var í dag í umræðunum voru vangaveltur þingmanns um hvort núverandi útvarpsstjóri væri byrjaður að vinna eftir ákvæðum þessa frumvarps. Það væri nokkuð athyglisvert. Menn munu að sjálfsögðu velta því fyrir sér hvort þetta sé skot út í loftið eða ekki. En því er þannig háttað að þegar maður les í gegnum það sem hefur verið ritað um þetta frumvarp þá kemur ýmislegt merkilegt í ljós, m.a. að í desember 2005 var núverandi útvarpsstjóri byrjaður að vinna eftir frumvarpinu, eftir þeim lögum sem gilt hefðu að frumvarpinu samþykktu. Það rennir stoðum undir þær fullyrðingar að menntamálaráðherra hafi ætlað að keyra málið í gegnum þingið og hvorki talið umræður í þingsal né vinnu menntamálanefndar nokkru máli skipta.

Hvað fór á milli útvarpsstjóra og hæstv. menntamálaráðherra við ráðningu þess fyrrnefnda skal ég ósagt látið. En því er þannig háttað að í viðtali í Viðskiptablaðinu 16. desember 2005, sem blaðamaðurinn Ólafur Teitur Guðnason tók við útvarpsstjóra Pál Magnússon, er m.a. haft eftir útvarpsstjóra, og ég les hér orðrétt, herra forseti, úr þessu viðtali í Viðskiptablaðinu:

„Páll segir að ný lög auki möguleika stofnunarinnar til þess að keppa um starfsfólk. „Ég hafði reyndar ekki þolinmæði til að bíða eftir lagabreytingunni til að bregðast við vegna Kastljóssins.““

Síðar segir hann:

„Ég hefði þurft að byrja á því að auglýsa stöður.“

Þetta kemur skýrt fram, herra forseti, í Viðskiptablaðinu föstudaginn 16. desember 2005. Útvarpsstjóri, Páll Magnússon, viðurkennir að hann hafi ekki haft þolinmæði til að bíða eftir að frumvarpið yrði samþykkt og gert að lögum. Nú er liðið meira en ár frá því að hann viðurkenndi í opinberum fjölmiðli að hann væri byrjaður að vinna eftir frumvarpinu.

Í dag var minnst á, væntanlega var það hv. þm. Ögmundur Jónasson sem talaði um það, að mögulega væri útvarpsstjóri byrjaður að vinna eftir frumvarpinu, m.a. varðandi ráðningarsamninga við starfsmenn, króa þá úti í horni og reyna að gera samninga maður á mann, útiloka stéttarfélögin og búa til launaleynd sem væntanlega leiðir af sér mismun í launum milli kynja. Þær áhyggjur hv. þm. Ögmundar Jónassonar virðast á rökum reistar og útvarpsstjóri þegar byrjaður að vinna eftir frumvarpinu. Það hlýtur að teljast ámælisvert og segja þingheimi að afstaða þingheims skiptir ekki nokkru máli. Hér er hann að tala um ráðningar starfsfólks. Hann lagði það að vísu síðar fyrir útvarpsráðið, nokkrum vikum eftir að atburðirnir áttu sér stað, og hlaut náð fyrir augum þeirra. Þetta er merkilegt. Hérna er það skýrt og skjalfest að útvarpsstjóri er löngu byrjaður að vinna, enda hefur hann í sjálfu sér marglýst því yfir að hann bíði óþolinmóður eftir því að frumvarpið verði samþykkt. Þau orð hans renna enn og aftur stoðum undir að það er ekki talið skipta nokkru máli hvaða álit hinn almenni þingmaður, hvorki í stjórnarandstöðu né í stjórnarmeirihluta, hefur á frumvarpinu. Frumvarpið kom fullskapað og haustið 2005 var útvarpsstjóri byrjaður að vinna eftir því.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé með vilja og vitund hæstv. menntamálaráðherra, að útvarpsstjóri sé löngu byrjaður að vinna eftir ósamþykktu frumvarpi og telji algjört aukaatriði að auglýsa stöður.

Ég hef rætt mikið um starfsmannamál. Það hefur margoft komið fram að starfsmenn hafa óskað eftir upplýsingum um hvernig þeirra málum verði háttað. Því hefur ranglega verið haldið fram í dag að starfsmenn séu algjörlega samþykkir frumvarpinu. Starfsmenn eru í mikilli réttaróvissu og hafa að sjálfsögðu lýst því margoft yfir. Ég sé ekki ástæðu til þess að draga það í efa.

En eitt af því nýjasta sem hefur komið upp í málinu á síðustu dögum eru vangaveltur lögfræðings, Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, eins og hann orðaði það, að Ríkisútvarpið ohf. verði vopnlaust gagnvart kærum.

Ég hef ekki séð þessar athugasemdir hans þaggaðar niður enn þá. Þær eru að vísu nýtilkomnar, þær birtust í fjölmiðlum í gær. En það virðist vera nokkurn veginn alveg sama hvaða ábendingar menn koma með, það er ekki mikill vilji, herra forseti, til að taka mark á öðru en því sem stendur í frumvarpinu.

Það hafa margoft komið fram fyrirspurnir, bæði í dag og í gær og áður við umræðuna, spurningar frá þingmönnum um eitt og annað er viðkemur frumvarpinu en litlu verið svarað. Eins og sjá má núna hefur ráðherrann og stjórnarþingmenn, hvað þá aðrir ráðherrar, ekki mikinn áhuga á að sitja hér og eiga orðastað við þingmenn.

Sumir hafa gengið svo langt, herra forseti, að tala um að þetta sé í raun og veru hlutafélagavæðing gegn starfsfólki. Ég held ég hafi nú komist nokkuð nálægt þannig orðalagi fyrr í ræðu minni og finnst það ekki vera langt frá sannindunum, því með frumvarpinu er í raun og veru verið að skerða áunnin samningsbundin réttindi starfsmanna. Samningsbundin réttindi eru í raun og veru hluti af launakjörum starfsmanna þannig að það er verið að skerða launakjör starfsmanna.

Ég hef minnst á að það hafa m.a. fallið dómsmál þar sem starfsmenn hafa talið að eftir breytingar á opinberu fyrirtæki í hlutafélag, þá er ég að tala um strætó, þar hafði t.d. verið sveigt fram hjá áminningarskyldunni. Það hefur sem sagt fallið dómur í þessa átt sem er örugglega ekki sá fyrsti í þá veru og örugglega ekki sá síðasti ef frumvarpið verður að lögum. En það er þá a.m.k. ekki hægt að segja annað, herra forseti, en það hafi verið varað vel við því.

Ég fæ ekki betur séð eftir að hafa skoðað þetta mál til hlítar og velt upp mörgum steinum, en að tilgangurinn með frumvarpinu sé annars vegar að skerða kjör og réttindi opinberra starfsmanna og hins vegar að undirbúa sölu. Það er svolítið sérstakt að hlusta á og fara yfir þær ræður þar sem er verið að reyna að fá fólk til að efast um að frumvarpið sé í raun og veru upphafið á því að selja Ríkisútvarpið.

Ég vitnaði áðan, herra forseti, í ræðu hæstv. menntamálaráðherra, frá 17. október árið 2006, þar sem ég var að fara yfir þá hótun sem mér finnst felast í því að hnýta fylgiskjali II aftan í frumvarpið en það eru drög að þjónustusamningi. En í þeirri ræðu segir hæstv. menntamálaráðherra m.a., með leyfi forseta:

„Ég ætla að fara yfir nokkur atriði sem hæst hefur borið í umræðunni, m.a. þá lensku stjórnarandstöðunnar að telja frumvarpið vera undanfara sölu. Það er sama hve oft því er mótmælt úr þessum ræðustól, hversu oft það er fullyrt af flutningsmanni frumvarpsins og helstu talsmönnum stjórnarflokkanna. Það er ekki hlustað þegar kemur að þessu atriði, frekar farið í að sá fræjum tortryggni og efast um það sem sagt er. Ég spyr: Í stefnu hvaða stjórnmálaflokks er gert ráð fyrir að selja Ríkisútvarpið? Það kemur hvergi fram. Ekki í stefnu Sjálfstæðisflokksins og ekki í stefnu Framsóknarflokksins.“

Það er nú vel, herra forseti, hversu vel hæstv. menntamálaráðherra er að sér í stefnu Framsóknarflokksins. En ef þingheimur á að geta treyst því að það sé ekki ætlunin að selja Ríkisútvarpið með þessu frumvarpi á þeim forsendum að það sé hvergi í stefnu Framsóknarflokksins að selja það, af hverju ættum við að treysta því? Það er ekki heldur í stefnu Framsóknarflokksins að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. En nú er það einmitt eitt af því sem stefnt er að hér í þingi, nema að málið snúi þannig eins og margur hefur gefið í skyn síðustu daga að Framsókn sé hreinlega að vona að einhverjir aðrir bjargi þeim frá þeim harmleik að þetta frumvarp, Ríkisútvarpið ohf., fari alla leið.

Þó svo að hæstv. menntamálaráðherra taki það skýrt fram að það sé ekki í stefnu flokkanna að selja útvarpið, þá sé ég enga ástæðu til þess að taka það sem rök fyrir því og það ætti að róa þá sem hafa áhyggjur af því að frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. sé einungis undanfari að sölu RÚV, því það er heldur hvergi getið um að það þurfi endilega að hlutafélagavæða það.

Samt eru menn komnir út í það að ef framsóknarmenn geta farið út að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið án þess að það sé í stefnu þeirra, þá hljóti þeir að geta farið út í að einkavæða Ríkisútvarpið án þess að það komi fram í stefnu þeirra.

Í áðurnefndri ræðu heldur hæstv. menntamálaráðherra áfram og talar um það sem algera fásinnu að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér að selja Ríkisútvarpið. Það er svolítið sérstakt að ráðherra skuli taka svo sterkt til orða þegar einungis eru tvö eða þrjú ár síðan þingmenn flokksins lögðu fram frumvarp um einkavæðingu Ríkisútvarpsins og, eins og ég vitnaði í áðan, þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins tekið það fram við atkvæðagreiðslu með áframhaldandi umræðu á þessu frumvarpi að þeir geri það í þeirri einlægu trú að þetta frumvarp sé undanfari sölu.

Það er því engin furða þótt margoft sé verið að minna hæstv. menntamálaráðherra á þær áhyggjur þingmanna stjórnarandstöðunnar að til standi að selja Ríkisútvarpið og að þetta sé undanfari að því sökum þeirra dæma sem ég hef nefnt þar sem menn hafa lýst því yfir að það sé það sem þeir vilji gera og hafa sérstaklega lagt fram frumvörp í því sambandi.

Ég hefði talið það, herra forseti, ef menn hefðu tekið upp þær tillögur sem samtökin BHM og BSRB lögðu fram til viðbótar við bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, þá hefðu menn a.m.k. getað róað okkur sem hafa áhyggjur af því að frumvarpið sé í raun og veru sett til höfuðs réttindum og kjörum opinberra starfsmanna.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér finnst það mjög slæmt að hv. formaður menntamálanefndar skuli hafa farið með rangt mál í gær varðandi réttindi og kjör starfsmanna, að hann viti ekki betur. Maður hefði haldið að eftir alla þessa 150 gesti og 67 fundi eða hvað það var, að ef menn hefðu hlustað á það sem allir þessir gestir höfðu fram að færa, þessir hagsmunaaðilar, þá ætti hv. formanni menntamálanefndar að vera ljóst að þetta frumvarp mun skerða kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Eins og ég kom að fyrr í dag þá bar ég þá fyrirspurn fram í andsvari í gær hvort formaðurinn teldi að réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins skerðist ekki ef þetta frumvarp yrði að lögum, og hann taldi það alveg skýrt að svo væri ekki.

Það er því miður misskilningur og ef formaður menntamálanefndar hefur misskilið frumvarpið hvað varðar réttindi og kjör opinberra starfsmanna, þá skerðingu sem þeir verða fyrir með frumvarpinu samþykktu óbreyttu, þá væri kannski næg ástæða til þess að taka hlé og taka frumvarpið enn og aftur til endurskoðunar.

Jafnframt spurði ég hæstv. formann menntamálanefndar í gær um framtíðarstarfsmenn, þ.e. þá starfsmenn sem ekki starfa í dag við Ríkisútvarpið, þar sem ég spurði einfaldlega á þá leið hvort réttindi og kjör nýráðinna starfsmanna mundu skerðast. Svar formannsins var á þá leið að þeir starfsmenn sem mundu ráða sig í framtíðinni mundu gera það á sínum forsendum.

Þetta er kannski einmitt enn og aftur kjarni málsins, herra forseti, að það sem meiri hlutinn vill gera með þessu frumvarpi er að reyna að sleppa sem þægilegast frá því að ganga ekki alveg milli bols og höfuðs núverandi starfsmanna. En það er ekkert gefið upp hvað verður um starfsmenn framtíðarinnar hjá RÚV.

Eins og hefur komið fram, og þá m.a. vegna greinargerðar með frumvarpi Matís, þá hafa réttindi og kjör opinberra starfsmanna hreinlega pirrað margan stjórnmálamanninn. Það er hægt að lesa það varðandi réttarstöðu nýráðinna starfsmanna eða framtíðarstarfsmanna að það sé hreinlega ætlun manna að ráða þá á allt öðrum kjörum og væntanlega rýrari kjörum. Það rennir enn og aftur stoðum undir það sem ég hef verið að segja um tilgang þessa frumvarps.

Það hafa margir aðilar, herra forseti, komið með athugasemdir, eða réttara sagt umsagnir. Því miður hefur ekki verið tekið mikið mark á þeim. En menn hafa tekist á um réttindamálin og eru ekki alveg sammála um hverju útvarpsstjóri hafi lofað varðandi réttindi starfsmanna, tryggð eða ekki tryggð, né heldur hvort ástæða sé til að treysta því að fá það einungis í orði.

Ég held að það hafi sýnt sig í þeim deilum er voru núna um áramótin, herra forseti, milli Flugstoða ohf. og Félags íslenskra flugumferðarstjóra, að það stéttarfélag tók þá ákvörðun að láta ekki orðin ein duga. Var þar sérstaklega verið að ræða um lífeyrisréttindi, sem eins og ég hef farið yfir í dag munu væntanlega skerðast ef þetta frumvarp verður að lögum. Að sjálfsögðu óttast starfsmenn um kjör sín og að sjálfsögðu vilja þeir ekki láta bara einhver orð duga. Það þyrfti í rauninni að semja algerlega um þessa hluti. Hvað meinar núverandi útvarpsstjóri? Á að taka orð hans gild eða næsta útvarpsstjóra, sem gæti þess vegna orðið innan tíðar því að ekki stendur til að ráða útvarpsstjórann til 5 ára?

En því miður þrátt fyrir þessar aðvaranir, þá virðast menn ekki hafa miklar áhyggjur. En það hefur alls staðar komið fram að menn vilja að sjálfsögðu að kaup og kjör og réttindi starfsmanna séu tryggð.

(Forseti (BÁ): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann telji sig eiga langt eftir af ræðu sinni?) Já, ég tel mig eiga langt eftir.

(Forseti (BÁ): Þá biður forseti hv. þingmann að gera hlé á ræðu sinni meðan tekið verður matarhlé til kl. 8.)