133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:06]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Herra forseti. Óvissan sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson minnist hér á og ég minntist á, tengist þeim töfum sem eru að pirra útvarpsstjóra varðandi setningu nýrra laga sem hann segir valda óvissu um Ríkisútvarpið. Ég var að draga inn í það að ég hefði frekar viljað að hann hefði jafnframt áhyggjur af þeirri óvissu sem starfsmenn eru í.

Fyrir mér er þetta í sjálfu sér engin óvissa. Þetta er alveg skýrt. Ég fór vel og vandlega yfir það í dag að verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum muni það skerða hvort tveggja, réttindi og kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins.

Varðandi spurninguna um stéttarfélög þá hefur lögfræðingurinn Lára V. Júlíusdóttir bent á þann möguleika að ákveðin stéttarfélög muni leysast upp verði þetta frumvarp að lögum. Hún er hvorki meira né minna en að tala um Félag fréttamanna og Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins, af því að þau geti hreinlega ekki unnið verði frumvarpið að lögum. Þetta er alveg skýrt.

Ég hélt því fram annars vegar að það sé engin óvissa um að lögin muni skerða kjör og réttindi opinberra starfsmanna og hins vegar að þau muni stuðla að því að stéttarfélögum fækki, ákveðin stéttarfélög muni verða lögð niður. Það er að sjálfsögðu eitt af langtímamarkmiðunum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett sér og í þessu frumvarpi er í raun og veru loksins að koma upp á yfirborðið andstaða Sjálfstæðisflokksins við stéttarfélög almennt. (Forseti hringir.)