133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:08]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður hefur a.m.k. í mínum huga eytt óvissunni um sína eigin óvissu í þessum efnum. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er ekki hægt að ganga að því gruflandi að þetta frumvarp leiðir til skerðinga á réttindum og kjörum starfsmanna.

Það gerist hins vegar ekki oft, herra forseti, að ég gangi undir högg til þess að skýla Sjálfstæðisflokknum. Það ætla ég að gera núna. Hv. þm. Valdimar Friðriksson sagði að hérna væri að opinberast tilgangur og markmið Sjálfstæðisflokksins, sem stefndi að því að fækka stéttarfélögum. Gott og vel. Ég ætla í sjálfu sér ekki að deila við hv. þingmann um það. En hvers vegna hlífir hann Framsóknarflokknum í þessu efni? Telur ekki hv. þingmaður að Framsóknarflokkurinn sé alveg jafnbersyndugur um þetta og Sjálfstæðisflokkurinn? Er með nokkru móti hægt að segja að það sé Sjálfstæðisflokknum einum að kenna að það á samkvæmt þessu frumvarpi að fækka stéttarfélögum? Það er ósvinna og ég er því mótfallinn. Við skulum ekki gleyma garminum honum Katli. Við skulum ekki gleyma Framsóknarflokknum sem lætur teyma sig út í þetta fen vitandi það, herra forseti, að hann er að brjóta samþykktir sinna eigin flokksþinga. Hann er að ganga gegn grasrót síns flokks.

Er þá ekki sanngjarnt, herra forseti, svo ég varpi þeirri spurningu gegnum forsetadæmið til hv. þingmanns sem flutti hérna skörulega ræðu áðan, að hann lýsir því yfir að Framsóknarflokknum sé ekki síður um að kenna en Sjálfstæðisflokknum í þessu?

Raunar er það svo að Framsóknarflokkurinn siglir auðvitað undir fölsku flaggi. Hann heldur því að fólki að hann sé sérstakur félagshyggjuflokkur. Þess vegna er það miklu verra að hann skuli taka þátt í þessari (Forseti hringir.) ósvinnu á þennan hátt. Er ekki hv. þingmaður mér hjartanlega (Forseti hringir.) sammála um það eins og flest annað þó að (Forseti hringir.) vík kunni að vera á milli vina um stundarsakir?