133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:10]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að báðir flokkarnir í ríkisstjórn bera ábyrgð á frumvarpinu í heild sinni og öllum þeim slæmu afleiðingum sem af því hljótast.

Hvers vegna talaði ég ekki hátt og snjallt um Framsóknarflokkinn varðandi þessa neikvæðu hluti? Ég talaði að vísu um að þetta væri langtímamarkmið sem ég teldi að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sett sér fyrir löngu síðan, eins og fleiri hægri flokkar almennt gera. Að sjálfsögðu er Framsóknarflokkurinn líka sekur en sá flokkur er þekktur fyrir að eiga það til að skipta um skoðun. Hvers vegna var ég að hlífa honum? Ætli það hafi ekki bara komið beint frá hjartarótum í þeirri veiku von að þeir framsóknarmenn sem hér hlýða á mál mitt leiti skjóls í þessum orðum mínum og sinnist við … (Gripið fram í: Þingmaðurinn er sem sagt ekki að ganga í Framsóknarflokkinn, og það er kannski þess vegna sem hann veitir honum skjól.) Nú held ég að sé kominn of mikill kvöldgalsi, herra forseti.