133. löggjafarþing — 52. fundur,  16. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér bíða menn eftir að komast að í umræðu um þetta mikilvæga en mjög svo umdeilda mál sem hefur fengið rækilega umfjöllun á Alþingi. Hv. formanni menntamálanefndar, Sigurði Kára Kristjánssyni, hefur orðið tíðrætt um alla þá gesti sem borið hefur að garði í menntamálanefnd, öll álitin sem nefndin hefur fengið og telur þetta vitni um mjög vönduð vinnubrögð. Reyndar skal ég segja hv. formanni menntamálanefndar það til hróss að hann hefur viljað ástunda vönduð vinnubrögð við meðferð þessa máls, hann má eiga það. Hitt er svo annað mál að fjöldi gesta og fjöldi funda segir okkur ekkert um málið nema þá helst hve umdeilt það hefur verið. Ég hef tekið eftir því að þau mál sem hafa komið mjög illa undirbúin inn í þingið hafa einmitt þurft á slíkri meðferð að halda.

Hugurinn reikar aftur til ársins 1996 þegar inn í þingsali komu þrjú mjög umdeild þingmál sem lutu að vinnurétti og lífeyrismálum. Þá átti það sérstaklega við um frumvarp um vinnulöggjöfina, þar munu hafa verið haldnir fleiri undirbúningsfundir og síðan nefndarfundir á Alþingi en dæmi eru um í öðrum málum, enda var frumvarpið afar illa undirbúið og umdeilt jafnvel þegar það var gert að lögum. Það segir okkur ekki neitt um ágæti málsins að marga gesti skuli hafa borið að garði. Það væri forvitnilegt að fá einhverja statistík um viðhorf þessara gesta og afstöðu til þessa umdeilda máls en mér segir svo hugur um að flestir hafi þeir verið andvígir hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins.

Við höfum rætt þetta mál margsinnis á Alþingi, ég held að þetta sé þriðja frumvarpið sem kemur fyrir þingið (Gripið fram í.) og er orðið sem stagbætt tötraflík. Við ræddum málið allítarlega í nóvember og í desember og þá var af hálfu stjórnarmeirihlutans fallist á að skjóta málinu á frest, þ.e. 3. umr., og taka til óspilltra málanna að nýju í janúarmánuði. Í millitíðinni hefur hins vegar ýmislegt breyst sem ég tel að geti orðið til þess að stjórnarmeirihlutinn endurmeti afstöðu sína til málsins.

Hvað hefur breyst? Jú, í fyrsta lagi kom í ljós að þingið hafði verið leynt upplýsingum um samskipti sem stjórnvöld höfðu átt við Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, allt árið 2006 og reyndar alveg fram á þennan dag. Það var Fréttablaðið sem upplýsti um þessi bréfaskipti og það var fyrst eftir að fréttir birtust í því blaði um þessi samskipti sem þingnefndin sem fjallaði um málið, menntamálanefnd Alþingis, fór þess á leit að fá umrædda pappíra í sínar hendur. Það var ekki fyrr en í síðustu viku að það gerðist. Þá kom í ljós að síðustu svörin sem fóru frá ríkisstjórninni til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, voru dagsett 9. janúar, þremur dögum áður en málið var endanlega tekið út úr nefnd.

Þegar þessi bréfaskipti voru gaumgæfð kom í ljós að bréfið frá 9. janúar var svar við erindi sem ríkisstjórninni hafði borist 24. nóvember sl. Það er umhugsunar virði að stjórnarmeirihlutinn var reiðubúinn að afgreiða málið sem landslög í desembermánuði áður en minnsta tilraun hafði verið gerð til að svara þessum fyrirspurnum frá EFTA. Menn hafa haldið því fram, og þar á meðal hæstv. menntamálaráðherra, að hér sé ekki um að ræða nein veigamikil efnisatriði, ekkert sem skipti máli í reynd við meðferð þessa máls. Ég er ekki sammála því.

Fyrst og fremst er spurt um þrjú meginefnisatriði af hálfu EFTA, í fyrsta lagi á hvaða grundvelli almannaþjónustuþættir Ríkisútvarpsins séu skilgreindir þegar nefskatturinn er ákveðinn og í öðru lagi hvernig þetta hlutverk Ríkisútvarpsins sem lýtur að almannaþjónustu er skilgreint og verður skilgreint þegar fram líða stundir og hlutverk Ríkisútvarpsins og verksvið kemur til með að breytast, hvaða ferlar verða þá notaðir til þess að meta almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins.

Í þriðja lagi er um það að ræða að EFTA vill fá að vita með hvaða hætti staðið verður að endurskoðun á þessari stofnun, Ríkisútvarpinu ohf. Það var upplýst að það yrði Ríkisendurskoðun sem annaðist það hlutverk. Nýstárlegt þótti þeim það hjá EFTA en gerðu ekki frekari athugasemdir. Okkur var sagt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hefðu haldið til Brussel til að skýra málstað ríkisstjórnarinnar og sjónarmið hennar í málinu í byrjun janúarmánaðar og staðhæft var við okkur að fulltrúar EFTA hefðu sannfærst um að allt væri eins og það ætti að vera og þess væri að vænta að skriflegt erindi bærist frá Brussel þar sem sú staðfesting kæmi fram. Það erindi hefur hins vegar ekki borist og það er ekki óeðlilegt að stjórnarandstaðan hér á þingi og reyndar þingið allt krefjist þess að málinu verði frestað þangað til þessi staðfesting kemur frá EFTA.

Nú er ég ekki einn af aðdáendum EFTA og hins nýja rannsóknarréttar markaðarins sem EFTA er orðið. Það er umhugsunarefni í sjálfu sér að það skuli vera dómstóll í Brussel sem ákvarðar hvað Íslendingar geti gert og hvað þeir megi gera, hvaða lýðræðislegar ákvarðanir þeim er heimilt að taka varðandi almannaþjónustu (Gripið fram í.) og varðandi almenna löggjöf á Íslandi. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson segir: Þú vildir bíða eftir þeim. Já, ég tek nefnilega alvarlega samninga sem við undirgöngumst og það er þess vegna sem ég var andvígur EES-samkomulaginu á sínum tíma. Ég óttaðist afleiðingarnar. En aðrir eru svo léttúðarfullir þegar kemur að skuldbindingum sem við undirgöngumst á alþjóðavísu að þeir gera það með ljúfu geði en þegar það síðan ekki hentar hagsmunum þeirra vilja þeir hlaupast undan merkjum. (ÖS: … Evrópusambandinu.) Ég minnist þess t.d. að þegar ráðgert var að smíða varðskip á Akureyri og ESA gerði athugasemdir við að þessi smíði eða samsetning á skipinu yrði ekki boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu vildi meiri hlutinn hér á Alþingi finna einhver málamyndarök til að hlaupast frá þessum skuldbindingum. Ég man að eitt af því sem menn fundu til var að hér væri um að ræða herskip og að í herskipum væru hernaðarleyndarmál og á þeirri forsendu ættum við að geta stýrt þessu verki inn í íslenskar skipasmíðastöðvar.

Ég var því fylgjandi að smíða skipið á Íslandi, að sjálfsögðu, en þetta var einmitt ástæðan fyrir því að ég ásamt ýmsum öðrum á sínum tíma hafði efasemdir um EES-samninginn. Þetta er útúrdúr en ég nefni það að við höfum undirgengist þessar reglur og að sjálfsögðu eigum við að taka alvarlega hvaða afleiðingar það kunni að hafa fyrir þá stofnun sem við erum hér að ákveða framtíðina fyrir. Það er einmitt það sem ýmsir lögfræðingar hafa verið að vara okkur við. Þeir hafa sagt að þeir aðilar sem rýna í samkeppnislöggjöfina og Evrópurétt vari okkur við því að við séum að senda Ríkisútvarpið inn á mikla óvissubraut. Við eigum að sjálfsögðu að taka varnaðarorð þeirra alvarlega. Ábyrgir fjölmiðlamenn sem hafa rýnt í þessi mál, ég nefni meðal annarra ritstjóra Fréttablaðsins, Þorstein Pálsson, og ýmsir lögfræðingar vara okkur við því að við séum að senda Ríkisútvarpið inn á mikla óvissubraut hvað þetta snertir, samkeppnisþáttinn og Evrópuréttinn.

Hæstv. forseti. Þetta er eitt af því sem breyttist frá því að við ræddum Ríkisútvarpið í haust, í nóvember og desember, þar til við tókum upp þráðinn að nýju nú í janúar. (Gripið fram í.)

Það er ýmislegt annað sem hefur breyst (ÖS: Afstaða … til ESB.) og ég vil nefna þá óvissu sem verið er að setja starfsmenn Ríkisútvarpsins í. Útvarpsstjóri, Páll Magnússon, hefur sagt á fundum með starfsmönnum Ríkisútvarpsins og staðhæft einnig skriflega að réttindi starfsmanna haldist óskert verði frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf. að lögum. Hann undanskilur þá biðlaunaréttinn, að þar sé að finna sólarlagsákvæði. Þetta er rangt, það hefur komið fram í umræðunni og það hefur komið fram á fundum í menntamálanefnd á undanförnum vikum og undanförnum dögum — suma þessara fundi sat ég sjálfur — að þessi mál eru í fullkominni óvissu. Ég mun fara nánar í þau mál hér síðar.

Það er rétt að kjarasamningsbundin réttindi og ráðningarkjörin munu haldast út samningstímann sem í þessu tilviki er til ársins 2008. Þegar þeim samningum sleppir, þegar sá samningstími er úti, er allt í óvissu um þessi kjör. Ég tók eftir því að hv. formaður menntamálanefndar sagði hér í ræðustól, (ÖS: Hann er flúinn úr salnum.) hvort sem það var í dag eða í gær, að ekki mætti taka fram fyrir hendurnar á einstaklingunum. Þar var hann að svara fyrirspurn frá mér um það hvort félagslegir samningar yrðu virtir. Það er einmitt það sem er að gerast hjá einkavæddum og hlutafélagavæddum ríkisfyrirtækjum nú um stundir, bara þessa dagana, og ég nefni Matís ohf. sérstaklega. Þar var settur yfir stjórn hins nýja fyrirtækis fyrsti formaður Félags frjálshyggjumanna, Friðrik Friðriksson, maður sem gefur lítið fyrir verkalýðsfélög. Hann gaf það út á fundi með starfsmönnum Matíss ohf. að þar á bæ vildu menn sem allra minnst samskipti hafa við verkalýðsfélögin. Enda hefur það fylgt í kjölfarið að starfsmenn hafa verið leiddir undir vegg, teknir út úr einn og einn og gert að sæta afarkostum, annaðhvort skrifa undir ráðningarsamninga sem ekki er heimilt að sýna öðrum ella hafa verra af.

Þetta eru staðreyndirnar og ég minni á þetta vegna þess að þeir ráðherrar sem fara með þessi mál hétu þinginu því og hafa heitið stéttarfélögum því að virða félagslegan samningsrétt og virða réttindi starfsmanna. En þetta eru efndirnar. Það er þess vegna sem við núna setjum alvarleg spurningarmerki við það hvað kemur til með að gerast gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Þess vegna gef ég ekkert fyrir yfirlýsingar útvarpsstjóra, Páls Magnússonar, um að öll réttindi haldi, nema við fáum vilyrði fyrir því og sett verði í lög eða a.m.k. í skýringartexta með frumvarpinu að félagslegur réttur fólksins til að semja á grundvelli stéttarfélaga sinna verði virtur. Við viljum fá það inn í lagatextann eða í skýringartexta með þessu frumvarpi, það er alger lágmarkskrafa. Ég vek athygli á því að þegar stéttarfélögin vildu fá bráðabirgðaákvæði sett inn í frumvarpið til að tryggja réttindi starfsfólksins var því hafnað. Þess vegna gef ég lítið fyrir yfirlýsingar forsvarsmanna Ríkisútvarpsins og pólitískra fulltrúa hér á þingi sem staðhæfa að réttindi verði virt en neita síðan að gefa nokkur svör þegar þeir eru inntir nánar eftir þessu. Þegar t.d. er spurt hvað muni henda með nýráðningar, hvort fólki verði heimilaður þá aðgangur að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem lögum og reglum samkvæmt er heimilt að gera eigi starfsmennirnir aðild að BSRB eða BHM, fáum við engin svör, einfaldlega vegna þess að menn eru ekki reiðubúnir að gefa yfirlýsingar um það að starfsfólkið fái aðgang að þessum samtökum.

Þetta, hæstv. forseti, er nýkomið til sögunnar. Við vissum alltaf um þessa óvissu sem réttindamálin væru í en núna vitum við að það er eitt sagt á einum stað og annað á öðrum. Það er staðhæft við starfsmenn að réttindi þeirra verði virt og verði tryggð en þegar farið er í saumana á málunum og nánar spurt út í þau eru svörin, bæði frá forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins og einnig frá pólitískum fulltrúum hér á Alþingi, þau að um það sé ekkert hægt að segja þegar kjarasamningum sleppir á árinu 2008. Þetta eru staðreyndir málsins.

Ég legg áherslu á að okkur ber að hlusta á varnaðarorð lögfræðinga, þeirra sem eru sérhæfðir sérstaklega í Evrópurétti og samkeppnislögum, að sjálfsögðu eigum við að hlusta á hvað þessir aðilar eru að segja. Þeir segja við okkur: Með því að færa Ríkisútvarpið úr almannaþjónustuhlutverkinu, undan stjórnsýslulögum og þeim lögum almennt sem gilda um opinbera starfsemi inn í einkaréttarform erum við að svipta Ríkisútvarpið vörnum sínum gagnvart þeim sem sækja að þeim á samkeppnismarkaði. Þá segja þessir aðilar: Framtíð Ríkisútvarpsins verður þá ráðin fyrir dómstólum, það eru dómstólarnir sem koma til með að dæma, löggjafinn hefur svipt Ríkisútvarpið vörnum sínum. Stjórnarmeirihlutinn hér á Alþingi tekur þátt í að mola undirstöðurnar undan Ríkisútvarpinu. Það er dapurlegt til þess að hugsa að Framsóknarflokkurinn, samvinnuflokkurinn gamli, skuli vera að bregðast Ríkisútvarpinu og sínum eigin hugsjónum með þessum hætti.

Við höfum alltaf vitað hvert hugur íhaldsins stefnir, það vitum við. Við höfum séð ungliðahreyfingarnar álykta, SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, og ýmsa talsmenn Sjálfstæðisflokksins, en við áttum þá von, ég átti þá von í brjósti, ég hef alla tíð nært þá von í brjósti að Framsóknarflokkurinn mundi a.m.k. á tvennum vígstöðvum standa vaktina, gagnvart Íbúðalánasjóði, sem íhaldið sækir að og hefur gert árum saman, og einnig gagnvart Ríkisútvarpinu. Þess vegna er það þyngra en tárum taki að Framsóknarflokkurinn skuli taka þátt í þessari aðför að Ríkisútvarpinu og starfsmönnum þess einnig.

Það sem ég óttast að muni gerast með þessari breytingu á lögum um Ríkisútvarpið er að sú sátt sem ríkt hefur um þessa stofnun allar götur frá því að hún var sett á laggirnar árið 1930 verði rofin, að hún rofni með þessu frumvarpi. Við vitum að á undanförnum árum, kannski áratugum, frá því að nýfrjálshyggjan, peningafrjálshyggjan, fór á kreik í lok áttunda áratugar síðasta aldar, hafa tekið sig upp ýmsir harðdrægir hægri menn og reynt að safna liði um þá hugsun að menn hættu að greiða til Ríkisútvarpsins. Þessi hugsun fékk byr undir báða vængi og ekkert undarlegt í raun. Á miðjum níunda áratugnum, 1986 held ég að það hafi verið, þegar einkaréttur Ríkisútvarpsins var afnuminn og aðrar stöðvar komu til sögunnar sögðu þessir aðilar og fengu nokkurn hljómgrunn, einkum á hægri væng stjórnmálanna, að það væri óeðlilegt að skylda fólk til að greiða til eins fjölmiðils, ekki síst þegar aðrir væru í boði. Aðrir — og þetta á við um meginþorra Íslendinga — litu hins vegar á Ríkisútvarpið sem mikilvæga og nauðsynlega kjölfestu í menningu okkar og sem upplýsingamiðil og öryggistæki fyrir þjóðina alla.

Þannig hefur það verið fram á þennan dag en menn gera að sjálfsögðu kröfur til stofnunar og til starfsemi sem er fjármögnuð með lögþvinguðum skatti, jafnvel þótt sá skattur sé iðgjald af ríkisútvarpi. Það eru peningar sem fara upp úr vasanum hjá okkur hverju og einu og inn í þessa starfsemi. Ég fyrir mitt leyti hef aldrei séð eftir þeim peningum, jafnvel þótt ég hafi ekki alltaf verið sáttur við Ríkisútvarpið mitt en það er ekkert óeðlilegt og á við um okkur öll. Við eigum þó alltaf þá von í brjósti að það megi bæta og þar höfum við rétt til þess að hafa skoðun og reyna að koma henni á framfæri og reyna að hafa áhrif, nokkuð sem við höfum síður þegar miðlar í einkaeign eiga í hlut.

Við gerum kröfur til Ríkisútvarpsins og samfélagið hefur smíðað lagaumgjörð um þá starfsemi sem er fjármögnuð með lögþvinguðum sköttum. Það hafa verið samin stjórnsýslulög og upplýsingalög, starfsmenn búa við tiltekin skilyrði sem þeir hafa samið um í áranna og áratuganna rás. Það er þetta sem á að taka frá Ríkisútvarpinu, það á að taka það undan þessum lögum, og menn hlusta á þá menn sem segja að þessi lög séu til óþurftar, þau flækist fyrir. Hvaða lög eru það? Það eru lögin sem eiga að tryggja jafnræði, sem eiga að tryggja að vel sé farið með peningana, sem eiga að tryggja að stofnunin lúti ekki geðþóttastjórn. Það eru þau lög sem með þessu frumvarpi er verið að taka undan grunni Ríkisútvarpsins, um það snýst þessi deila.

Þegar búið verður að gera Ríkisútvarpið að einveldisstofnun, færa hana frá almenningi í reynd, gera hana að stofnun sem lýtur meirihlutavaldi stjórnar meiri hlutans hverju sinni og síðan einvaldi sem þessi stjórn ræður og hefur yfirráð yfir öllum mannaráðningum, öllum þeim sem starfa hjá Ríkisútvarpinu, hvort sem er á fréttastofunum, í dagskrárgerðinni, hvar sem er í þessari stofnun, allt fært undir vald eins manns og öll dagskrárgerðin að sama skapi færð undir valdið hjá einum manni og að auki er búið að taka stofnunina undan stjórnsýslulögum, undan þeim lagaramma sem á að gilda um opinbera starfsemi, spyr ég: Trúa menn því virkilega að það verði alhliða sátt um það í samfélaginu að greiða áfram hinn lögþvingaða skatt? Ég hef um það miklar efasemdir. Þess vegna segi ég: Hvers vegna í ósköpunum er verið að tefla framtíð Ríkisútvarpsins í þessa tvísýnu?

Margir ágætir menn sem trúa á einkaréttarformið innan veggja Ríkisútvarpsins — þeir hafa fyrirfundist þar og sett slíkar hugmyndir fram í fullri einlægni — hafa gleymt því, hefur mér þótt, að menn geta ekki bæði sleppt og haldið, menn geta það ekki. Menn geta ekki bæði fengið ávinninginn af fjármagninu frá almenningi og líka verið lausir allra mála og stjórnað að eigin geðþótta. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Þess vegna segi ég: Menn eru að rjúfa þá sátt sem ríkt hefur um Ríkisútvarpið með þessu frumvarpi ef það verður að lögum.

Mig langar til, hæstv. forseti, að lesa örgrein, hún er ekki löng, sem er skrifuð af þremur fyrrverandi menntamálaráðherrum Íslands. Þeir eru Ingvar Gíslason, sem var menntamálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn, Ragnar Arnalds, sem var menntamálaráðherra fyrir Alþýðubandalagið, og Sverrir Hermannsson, sem var menntamálaráðherra á sínum tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Í reynd eigum við ekkert að líta á flokksstimpla þessara manna, þeir voru menntamálaráðherrar Íslands, þeir voru menntamálaráðherrar Íslendinga og skrifuðu í sameiningu bréf til alþingismanna sem birtist í Morgunblaðinu 1. júní árið 2006, síðasta vor. Ég vil að þetta bréf verði að finna í þingtíðindum þar sem fjallað er um þetta frumvarp.

Fyrirsögn á grein þeirra þremenninga, fyrrverandi menntamálaráðherra Íslands, er þessi: Eiga viðskiptafyrirtæki að kaupslaga með hlutabréf í menningarstofnunum? Bréf til alþingismanna.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa þessa stuttu grein:

„Íslendingar teljast með helstu velmegunarþjóðum heimsins og halda því til jafns við stórþjóðir um efnisleg gæði.

En auður þjóðar felst ekki einungis í mælanlegum markaðsverðmætum. Varla greinir menn á um að ríkidæmi þjóðar er ekki síður metið á mælikvarða andlegra verðmæta, skapandi listmenningar og auðugs þjóðlífs, þar á meðal þroskaðrar þjóðtungu og bókmennta.

Íslensk þjóð er fámenn, búsett á eylandi á ystu nöfum Norður-Atlantshafsins, fjarri meginlandi Evrópu. Á Íslandi hefur samt þróast þjóðmenning, sem vissulega er mótuð af samevrópskum menningaráhrifum og lífsviðhorfum, en er eigi að síður sér á parti, mörkuð sérkennum, sem ráðast af legu landsins, náttúrufari þess og búsetuskilyrðum í harðbýlu landi.

Öll viljum við að Íslendingar haldi sínu í samskiptum við aðrar þjóðir. Það gerum við best með ræktarsemi við þjóðlega menningu okkar, enda er menningarrækt smáþjóðum höfuðnauðsyn. Þann vilja geta Íslendingar ekki síst sýnt í verki með því að styrkja menningarstofnanir þjóðarinnar, mennta- og menningarsetrin, skólana og söfnin, sem löngum hefur verið litið á sem samfélagseign, m.a. Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðleikhúsið og Ríkisútvarpið. Við, sem stöndum að þessu bréfi, teljum að samfélagseignir á menningarsviði séu ekki söluvara.

Á Alþingi er nú til umræðu stjórnarfrumvarp til breytinga á gildandi útvarpslögum. Þar er m.a. lagt til að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi. Nái sú tillaga fram að ganga væri stigið varhugavert spor, enda ljóst að hlutafélagsformið er sniðið að fésýsluþörfum og hentar ekki menningarstofnun í almannaeigu. Þótt til kæmi sú varúðarregla að banna sölu slíks hlutafélags með lögum, er hægurinn hjá, þótt síðar yrði, að nema sölubannsákvæðið úr gildi. Þá opnast leið til þess að bjóða hlutabréf stofnunarinnar til sölu. Fésýslumenn, þar á meðal alþjóðleg fégróðafyrirtæki, færu þá að kaupslaga með eina mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar, en í raun er engin leið að meta verðgildi hennar í peningum, því að menningarverðmæti eru í eðli sínu ómetanleg. Það á ekki síst við um eignasamsetningu Ríkisútvarpsins.

Við undirritaðir ítrekum það, sem fyrr hefur komið fram, að við teljum að best fari á því að Ríkisútvarpið haldi stöðu sinni sem sjálfstæð þjóðareign og mælum gegn því að breyta rekstrarformi þess í hlutafélag. Sérstaklega leyfum við okkur að beina því til alþingismanna að þeir greini muninn sem er á þjóðmenningarstofnun og viðskiptafyrirtæki.

Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, Ragnar Arnalds, fyrrverandi menntamálaráðherra, Sverrir Hermannsson, fyrrverandi menntamálaráðherra.“

Hæstv. forseti. Ég vildi lesa þetta bréf til að fá það fest í þingtíðindi í umræðu um þetta mikilvæga mál.

Ég er hér að fjalla um hættuna á því að sú þjóðarsátt sem ríkt hefur um Ríkisútvarpið bresti, að hún verði rofin með þessu frumvarpi. Reyndar hefur því verið haldið fram af hæstv. menntamálaráðherra og útvarpsstjóranum í makalausri grein sem sá síðarnefndi ritaði í Morgunblaðið í gær að meiri hluti þjóðarinnar sé því fylgjandi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi en einmitt því gerði útvarpsstjóri, Páll Magnússon, skóna í Morgunblaðsgrein sinni í gær. Staðreyndin er hins vegar sú að hér er byggt á afar vafasömum grunni.

Ég hef gert athugasemdir og gerði það á sínum tíma þegar þessi könnun var framkvæmd af Gallup á vegum Ríkisútvarpsins og forsvarsmanna þess á vegum útvarpsstjórans, Páls Magnússonar, sem kom reyndar í Ríkisútvarpinu og var haft eftir honum í frétt sem birtist 20. september, með leyfi forseta, því að þar segir:

„Páll Magnússon útvarpsstjóri er afar ánægður með niðurstöðuna úr viðhorfskönnun um RÚV. Hann vonast til að niðurstaðan virki hvetjandi á stjórnmálamennina þegar þeir taka ákvörðun um framtíð Ríkisútvarpsins.“

Og til hvaða framtíðar er hér verið að vísa? Það er verið að vísa til þeirrar framtíðar sem við erum að ræða nú, hvort gera eigi Ríkisútvarpið að hlutafélagi.

Hér segir síðar í þessari frétt, með leyfi forseta:

„Í könnuninni“ — hér er vísað til umræddrar Gallup-könnunar sem útvarpið pantaði — „kemur fram að ríflega 60% aðspurðra eru ánægð með að RÚV verði breytt í hlutafélag í ríkiseigu. Páll segist vona að viðhorfskönnunin verði hvatning til þeirra stjórnmálamanna sem vinna að því að breyta rekstrarformi stofnunarinnar.“

Bíðum nú við, hvað skyldi hafa verið spurt um í þessari umræddu könnun? Skyldi hafa verið spurt um það hvort fólk væri þess fýsandi að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag? Svo var ekki. Byrjað var á að staðhæfa að til stæði að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins og spurt í framhaldinu hvort fólk væri almennt ánægt eða óánægt með þetta nýja „rekstrarfyrirkomulag“. Með þeirri spurningu var gefið í skyn að þetta rekstrarfyrirkomulag væri þegar orðið staðreynd og í ljósi fyrri spurninga í könnuninni þar sem spurt var um það hvort fólk væri almennt ánægt með framgöngu Ríkisútvarpsins kom niðurstaðan ekki á óvart. Fólk var ánægt með það fyrirkomulag sem var við lýði. Niðurstaðan var síðan kynnt þannig að yfir 60% væru ánægð með að RÚV yrði breytt í hlutafélag í ríkiseigu og um 40% væru andvíg. Þess var ekki getið að tæp 28% höfðu ekki skoðun á málinu og voru því einungis 46% ánægð með þetta nýja rekstrarfyrirkomulag.

Það eru afskaplega vafasöm vinnubrögð sem hér voru höfð við þessa könnun og við kynningu á henni í Ríkisútvarpinu og af hálfu útvarpsstjóra sem hefur komið fram ásamt hæstv. menntamálaráðherra í áróðri fyrir einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Ég hef gagnrýnt þetta, ég gerði það hér fyrr í dag og fékk bréf frá útvarpsstjóra nú síðdegis þar sem hann mótmælir og gagnrýnir þær ásakanir sem hafa verið uppi. Ég mun að sjálfsögðu svara útvarpsstjóra og ætlast til þess að hann fari líkt að og hann gerði með sitt eigið svar og sendi það til starfsmanna Ríkisútvarpsins þegar það liggur fyrir.

Nú velta menn því fyrir sér hvað komi til með að gerast innan Ríkisútvarpsins eftir að því verður breytt í hlutafélag ef yfirleitt af því verður. Þá ítreka ég það sem ég sagði áðan og hef margoft hamrað á og aðrir ræðumenn á þingi úr stjórnarandstöðunni hafa einnig hamrað á, að það er verið að draga úr lýðræði innan Ríkisútvarpsins. Ég ætla bara að nefna eitt atriði. Ég á eftir að koma að álitsgerðum starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins og heildarsamtaka sem þau eiga aðild að en ég vek athygli á því að á sínum tíma var um það samið að starfsmenn Ríkisútvarpsins fengju aðild að stjórn stofnunarinnar, það var í framkvæmdanefnd. Þetta var byggt á kjarasamningum sem undirritaðir voru milli BSRB og ríkisstjórnarinnar 8. september árið 1980. Tveimur árum síðar var sett reglugerð um þetta efni, reglur um starfsmannaráð í ríkisstofnunum. Ríkisútvarpið kaus í samningum við sína starfsmenn, í samningum við starfsmannafélög Ríkisútvarpsins og starfsmannafélag sjónvarpsins að í framkvæmdastjórn stofnunarinnar fengju þessir aðilar tvo fulltrúa.

Þetta voru kjarasamningar, samningar sem gerðir voru milli starfsmanna. Ég vona að hæstv. menntamálaráðherra hlýði á mál mitt, það voru gerðir kjarasamningar, það voru gerðir samningar árið 1982 um aðkomu starfsmanna Ríkisútvarpsins að stjórnun stofnunarinnar. Engin tilraun hefur verið gerð til að ræða við fulltrúa starfsmanna um þessa samninga. Þeim er einfaldlega einhliða rift og ekkert um það rætt meira.

Hvers konar framkoma er þetta? Og við hverju er að búast fyrir starfsmenn þessarar stofnunar þegar svona er komið fram við þá? Ég bara spyr. Og nú er það að gerast að stjórnarmeirihlutinn og hæstv. menntamálaráðherra reyna að telja þjóðinni trú um að hér sé stigið skref inn í framtíðina, eitthvert framtíðarskref, þegar verið er að toga okkur aftur inn í gráa forneskju þar sem troðið er á stéttarfélögunum og réttindi starfsfólksins og stéttarfélaga að engu höfð. Ég er að taka það sem dæmi að samningar sem voru gerðir um aðkomu að lýðræðislegri stjórnun eru að engu hafðir. Það er ekki svo mikið sem rætt við starfsfólkið eða stéttarfélögin um þessa samninga sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn eru að rifta, einhliða, án þess að ræða við nokkurn mann.

Það sem síðan gerist er að menn færa vald í trúnni á píramídastjórnun í fyrirtækjum í hendur á einum manni sem á að geta ráðið og rekið alla hina og öll dagskrárgerðin færð undir vald eins manns. Hvers konar vinnubrögð eru þetta og við hverju er að búast hjá stofnun sem býr við stjórnarhætti af þessu tagi? Ég veit að þetta tíðkast hjá einkafyrirtækjum, ég veit það. Þegar fréttastjóri á Stöð 2 var rekinn, og það var reyndar af sama sjónvarpsstjóranum og er nú útvarpsstjóri á Ríkisútvarpinu, var það gert skýringalaust. Það voru engar skýringar gefnar og þar var ekkert Alþingi sem gat komið að málum til þess að koma kvörtunum á framfæri, einfaldlega vegna þess að við vorum að tala þar um fyrirtæki sem er í einkaeigu, sem er einkafyrirtæki. Það er inn á þessa braut, inn í þetta umhverfi sem menn eru að reyna að draga Ríkisútvarpið.

Finnst mönnum þetta horfa til framfara? Að sjálfsögðu ekki. Ríkisútvarpið byggir á ríkum hefðum um margbreytileika, um virðingu fyrir mismunandi sjónarmiðum og mörgu fólki, um að menn vinni saman, um sameiginlegt átak. Við erum að fara út úr þeirri hefð, það er verið að draga stofnunina út úr þeirri hefð og, hæstv. forseti, mér þykir það vera mjög í afturhaldsátt.

Annað sem fram kom í hinni makalausu grein útvarpsstjóra í Morgunblaðinu í gær er að hann gerir því skóna að starfsmenn Ríkisútvarpsins styðji frumvarp hæstv. menntamálaráðherra. Hann vísar í bréf sem starfsmannasamtökin, sem eru eins konar regnhlífarsamtök og hafa ekkert að gera með samninga um kaup og kjör, sendu til alþingismanna fyrir einhverjum mánuðum þar sem hvatt var til skipulagsbreytinga og lagabreytinga um Ríkisútvarpið. Um það er víðtæk samstaða. Það hefur lengi verið innan Ríkisútvarpsins og hér í sölum Alþingis samstaða um að gera þurfi breytingar á lagaumhverfi Ríkisútvarpsins. Það er víðtæk samstaða um það.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram frumvarp þar að lútandi. Samfylkingin hefur gert grein fyrir sínum hugmyndum um skipulagsbreytingar. Aðrar hugmyndir hafa einnig komið frá Frjálslynda flokknum. Ég er sannfærður um að ef menn raunverulega vildu væri hægt að finna sameiginlegan grundvöll þar sem allir aðilar gætu orðið ásáttir um framtíðarskipan í Ríkisútvarpinu. Ég er sannfærður um það en menn þurfa að gefa sér tíma til þess. Menn þurfa að gefa sér tíma til þess á sama hátt og Bretar gefa sér tíma til að fjalla um stöðu síns ríkisútvarps, það gera þeir með reglulegum hætti og hafa gert allar götur frá 1926 þegar sú merka stofnun var sett á laggirnar. Með reglulegu millibili, sennilega á 10 ára fresti eða þar um bil, er sett niður nefnd sem skoðar stofnunina í ljósi samtímans hverju sinni, hverju þurfi að breyta, en hins vegar er samstaða um sjálfan grundvöll stofnunarinnar. Hvers vegna vinnum við ekki að breyttu fyrirkomulagi og breyttu lagaumhverfi fyrir Ríkisútvarpið á þann hátt sem Bretar gera að þessu leyti?

Hæstv. forseti. Klukkan er nú komin að miðnætti. Ég á talsvert í land með að ljúka ræðu minni sem ég get þó fullvissað hæstv. forseta um að verður ekki ýkja löng þegar horft er til ræðuhalda um þetta mál almennt. Ég tel mig eiga eftir um — ja, ég ætla ekkert að gefa upp neinn mínútufjölda en ég lýsi því hér yfir að ég tel allmikið eftir en gæti lokið því á skaplegum tíma á morgun ef fallist er á að gera hlé á þinghaldinu núna.

(Forseti (JónK): Forseti hafði hugsað sér að gera hlé á þinghaldinu um miðnætti þannig að hann frestar nú þessum fundi.)