133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, að venjur og hefðir þingsins skuli virtar að vettugi. Allt er látið víkja fyrir krossferð ríkisstjórnarinnar gegn Ríkisútvarpinu og starfsmönnum þess. Ríkisútvarpið skal einkavætt hvað sem það kostar og þess vegna er öllu sópað til hliðar.

Við gerðum að sönnu samkomulag fyrir jólin og samkomulagið sneri að einu, að 3. umr. um Ríkisútvarpið yrði látin bíða þar til í janúar. Við féllumst einnig á að þingið yrði kallað saman einum degi fyrr en til hafði staðið. Okkur var síðan gert kunnugt að ríkisstjórnin hygðist hraða afgreiðslu þessa máls. Okkur var gert það kunnugt og við vissum að hverju við gengum í þeim efnum. (Utanrrh.: Það er nú meiri hraðinn.) Að venju hefur utanríkisráðherra og fulltrúi Framsóknarflokksins þetta mál í flimtingum. Mér finnst þetta mál ekki til að gera grín að og ég tek undir það sem fram hefur komið hjá öðrum þingmönnum, þar á meðal formanni þingflokks Samfylkingarinnar, að það er mjög óeðlilegt að hér skuli ekki fara fram utandagskrárumræða um Byrgið. Það er mjög óeðlilegt að ríkisstjórnin skjóti sér þar með undan ábyrgð í því alvarlega máli. Það er eðlilegt að það sé tekið upp þegar í stað á þinginu og ef til stendur að halda fund um það efni, nokkuð sem var vitað í upphafi vikunnar, spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum var sá fundur ekki haldinn fyrr? Ég tek undir þá kröfu og vek athygli á því að af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs liggja einnig fyrir þinginu óskir og kröfur um að fram fari utandagskrárumræða um efni sem brýnt er að fjalla um. Ég nefni þjóðlendumálin, ég nefni (Forseti hringir.) spilavandann og þar er sannarlega verið að brjóta landslög.