133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:43]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða um störf þingsins og tek heils hugar undir með fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem hér hafa staðið upp í dag. Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórn þingsins, herra forseti, virðist vera í höndum eins stjórnmálaflokks á þinginu. Störf þingsins eru í herkví Sjálfstæðisflokksins. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem stjórnar þinghaldi hér og getur ráðskast með það hvenær fyrirspurnir eru, hvenær mál eru tekin á dagskrá. Það er grafalvarlegt mál.

Hér eru haldnir kvöldfundir, kvöldfundir sem ná til miðnættis kvöld eftir kvöld. Það er byrjað óvenjusnemma og við vitum ekkert hvernig á að halda þinghaldi áfram. Nefndarfundir eru líka í upplausn, þeir eru í skötulíki. Menn mæta á nefndarfundi snemma á morgnana og síðan eru boðaðir nefndarfundir jafnvel í hádeginu, hálftímanefndarfundur í félagsmálanefnd o.s.frv. Það liggja mörg brýn mál fyrir þessu þingi. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom einmitt inn á eitt áðan, spilafíkn. Ég bendi enn fremur á mál eins og Vatnajökulsþjóðgarð. Það er mál sem ég mundi frekar vilja leiða til lykta í þinginu og ég hélt að um það mál ætti að geta náðst þokkalegt samkomulag. Þess í stað fær Sjálfstæðisflokkurinn að vaða hérna uppi í einkavæðingarkrossferð sinni sem að þessu sinni bitnar á Ríkisútvarpinu okkar og það er grafalvarlegt mál, herra forseti.