133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

svör við fyrirspurnum, þingstörfin fram undan o.fl.

[10:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það sem ég tel alvarlegt hér er það að forseti er með því að beita valdi sínu til að skipuleggja dagskrá þingsins eins og raun ber vitni þessa viku að hafa af þingmönnum þann rétt sem þeir eiga mjög sterkan samkvæmt lögum og stjórnarskrá, t.d. að krefja ráðherra um upplýsingar í fyrirspurnatímum og að taka mál upp utan dagskrár í allt að hálfa klukkustund á hverjum degi.

Við stjórnarandstæðingar getum að sjálfsögðu ekki gert neinar athugasemdir við það, enda lá það fyrir fyrir jól, að Ríkisútvarpið yrði fyrsta dagskrármál af hálfu ríkisstjórnarinnar og það klárað áður en önnur slík mál yrðu tekin fyrir. Það er alveg rétt, við höfum ekki mótmælt því. En það var aldrei rætt um það að hefðbundnum störfum Alþingis að öðru leyti yrði rutt til hliðar, þ.e. að hér yrðu ekki nefndarfundir, að hér yrðu ekki leyfðar fyrirspurnir eins og á að vera í dag, á miðvikudegi, og að hér gæfust engin færi á að taka upp brýn mál utan dagskrár. Hið alvarlega sem er að gerast er að menn beita forsetavaldi sínu til þess að ákveða dagskrá Alþingis þannig að þessi réttur þingmanna verður óvirkur, og það er mjög alvarlegt mál. Hann er mjög ríkur samkvæmt lögum, stjórnarskrá og þinghefðum okkar. Þess vegna verð ég að segja alveg eins og er að ég tel það út af fyrir sig ekki mikil rök þó að það sé fullgilt að margt annað væri þarft og brýnt að ræða hér, en að því gengum við vísu að málefni Ríkisútvarpsins yrðu fyrsta dagskrármálið sem hér yrði tekið fyrir. En hitt er óverjandi að mínu mati að þingmenn skuli með engum ráðum geta tekið upp mál, fengið svarað fyrirspurnum eða neinu öðru vegna þess að forseti fer þannig með dagskrárvald sitt.

Það minnir mig á að það verður að breyta þingsköpunum þannig að forsætisnefnd Alþingis sé dagskrárgjafinn en ekki bara forseti einn (Forseti hringir.) því að það gengur greinilega ekki að hafa það vald í höndum forseta sjálfstæðismanna.