133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[10:59]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að gera þá játningu að ég er mikill aðdáandi þess forseta sem nú situr í forsetastól og hef oft glaðst yfir því hversu mikla festu hann hefur sýnt í störfum sínum við að stjórna fundum á hinu háa Alþingi. Sú gagnrýni sem komið hefur fram frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar á fundarstjórn hans í þessari umræðu hefur ekki farið fram hjá mér. Það hefur verið kvartað yfir því af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar að mörg brýn mál fáist ekki rædd á Alþingi og það séu útistandandi margar fyrirspurnir frá þingmönnum sem ráðherrar hafi ekki svarað. Þetta er náttúrlega allt tilkomið vegna þess að þegar við fórum í hlé í desember gerðu menn með sér samkomulag um að koma til þings hinn 15. janúar til þess að ljúka umræðu um frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. og menn hafa verið að ræða það mál og kannski fyrst og fremst þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Ég las það á vefmiðli á mánudagskvöld, vefmiðlinum visir.is, að málþóf væri hafið á Alþingi. Það var ekki mín skoðun heldur þess sem ritaði fréttina og glöggt er gests augað. Hér hefur verið sett á grímulaust málþóf, herra forseti, af hálfu þingmanna stjórnarandstöðunnar og það eru þeir sjálfir, þingmenn stjórnarandstöðunnar, sem hafa komið í veg fyrir að þau brýnu mál sem þeir eru að kalla eftir að verði rædd hafi komist á dagskrá. Það eru þeir sjálfir sem hafa komið í veg fyrir það að hægt sé að svara fyrirspurnum á hinu háa Alþingi.

Það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið í þessu máli. (Gripið fram í.) Það þýðir ekki að koma hér upp og veifa annarri hendinni og óska eftir því að hin og þessi mál séu rædd en setja síðan með hinni á grímulaust málþóf. Ég sé að ýmsir hv. þingmenn eru farnir að ókyrrast í salnum og farnir að neita því að það sé í gangi málþóf á hinu háa Alþingi. Ég bendi á að hv. þm. Valdimar L. Friðriksson ræddi hér um málefni Ríkisútvarpsins að ég held í sex klukkutíma í gær. Kalla menn það ekki málþóf?

Ég vildi beina því til hæstv. forseta, (Gripið fram í.) hér eru engar hótanir í gangi, að hér er í gangi málþóf og það er auðvitað hægt að leysa þennan brýna vanda, herra forseti, (Forseti hringir.) með því að beina því til þingmanna stjórnarandstöðunnar (Forseti hringir.) að þeir ljúki nú umræðu um ríkisútvarpsmálið (Forseti hringir.) þannig að við getum gengið til atkvæða um það og lokið þeirri umræðu.

(Forseti (BÁ): Forseti beinir því til þingmanna að virða þann skamma ræðutíma sem gefinn er í umræðum um fundarstjórn forseta, sem eru þrjár mínútur.)