133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:11]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur orðið til umræðu það samkomulag sem var gert fyrir áramótin um lok umræðu þá og hvernig við ætluðum að taka á umræðunni eftir áramótin. Hv. þm. Ögmundur Jónasson tók það fram að ósátt væri um túlkun á því samkomulagi en tók jafnframt fram að honum hefði verið kunnugt um þann ásetning ríkisstjórnarinnar að ljúka þessu máli. Þá vil ég jafnframt taka fram að okkur var fullkunnugt líka um þann ásetning stjórnarandstöðunnar að fara í mjög löngu og ítarlegu máli yfir sjónarmið sín gagnvart þessu ágæta máli, frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. Við höfðum þess vegna ekki gert ráð fyrir öðru en að gefa þyrfti þingmönnum nægilegt svigrúm í störfum þingsins til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þess vegna held ég að það sé núna sem við eigum að drífa okkur í að halda áfram umræðunni þannig að öll þessi ágætu sjónarmið komist hér á framfæri og við fáum tíma til að viðra þau. Við höfum auðvitað orðið vitni að því að menn hafa þurft að gera það í býsna löngu máli og þess vegna höfum við gert ráð fyrir því að þessi umræða gæti staðið í nokkra daga. Enginn þarf svo sem að undrast yfir því.

Hæstv. forseti. Ég tel að þessum fundarhöldum í þinginu sé vel stjórnað og við eigum að nýta tíma okkar til þinghalds í að ræða þetta merka frumvarp sem við vonandi ljúkum samt á endanum þó að sumir hafi mjög mikinn ásetning um að koma því út af borðinu.