133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Í dag er miðvikudagur og lífið gengur sinn gang — eða hvað? Nei, það gerir það nefnilega ekki, í dag átti að vera fyrirspurnatími og samkvæmt 49. gr. þingskapa ber ráðherrum að svara fyrirspurnum, þ.e. ekki á að líða lengri tími en átta dagar að jafnaði þangað til þeim er svarað. Það vill þannig til að margir þingmenn eiga fyrirspurnir sem er ósvarað, jafnvel frá fyrra ári. Ég á t.d. fyrirspurn sem ég lagði fram til sjávarútvegsráðherra — ég man ekki lengur, ætli það hafi ekki verið einhvern tíma í október sem ég lagði hana fram, kannski í byrjun nóvember, það er a.m.k. það langt síðan. Henni hefur ekki enn verið svarað. Hæstv. forseti sem stjórnar hér störfum þingsins hlýtur að þurfa að horfa til þingskapanna þegar ákveðið er hvernig málum er háttað í þinginu. Ég kannast ekki við að neitt samkomulag hafi verið gert um að sleppa fyrirspurnum, það var aldrei kynnt fyrir mér og ég veit ekki til að það hafi verið kynnt fyrir neinum að ekki ætti að fara eftir þingsköpum á þessu ári, 2007, það hefði bara verið tekið upp á því að víkja þeim til hliðar og hafa einhvern annan hátt á algjörlega af því að menn vildu endilega halda áfram að tala um þetta ríkisútvarpsmál. Ég held að það sé hægt að finna nógan tíma til að tala um það. Þetta ár er nýbyrjað og mér finnst brýnna að menn fari eftir þeim reglum sem hér eru, gefi öðrum málum tækifæri og fari a.m.k. eftir þeim þingsköpum sem hafa verið samþykkt og reyni að sjá til þess að ráðherrar fái tækifæri til að svara þeim fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fyrir þá.

Ég geri sem sagt athugasemdir við þetta vegna þess að ég sé ekki betur en að hæstv. forseti þingsins hafi tekið þá ákvörðun einn og sjálfur að víkja þingsköpunum til hliðar og víkja þar með t.d. þeim fyrirspurnatíma sem átti að vera hér í dag til hliðar, og það þrátt fyrir að fjöldi ráðherra fái þá ekki tækifæri til að sinna skyldustörfum sínum hér og þingmenn fái ekki svör við þeim spurningum sem lagðar eru fram og þau mál á dagskrá sem þar eru.

Mér finnst þetta alvörumál. Ég segi það bara alveg eins og er. Það er ekki alveg sama heldur hvenær fyrirspurnum er svarað. Það er ekki „af því bara“ sem þetta stendur í þingsköpunum. Þingmenn fá auðvitað (Forseti hringir.) mál á dagskrá með fyrirspurnum sínum.